2010
Að vera andlega undirbúin
febrúar 2010


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, febrúar 2010

Að vera andlega undirbúin

Ráðgjöf frá spámanni okkar

Grundvöllur trúar

„Ef undirstaða trúar okkar nær ekki nógu djúpt og við eigum ekki traustan vitnisburð um sannleikann, getur okkur reynst erfitt að standast harða storma og ískalda vinda andstæðingsins, sem óhjákvæmilega mæta okkur öllum.

Jarðlífið er reynslutími, tími til að sanna sig verðug þess að snúa aftur til návistar föðurins á himnum. Til að hægt sé að reyna okkur, verðum við að mæta áskorunum og erfiðleikum. Það getur brotið okkur, og yfirborð sálar okkar getur sprungið og molnað—ef undirstaða trúar okkar, vitnisburður okkar um sannleikann, liggur ekki nógu djúpt innra með okkur.“1

Lærið lexíur fortíðarinnar

„Hér eru fáeinar spurningar til ígrundunar er við leitum þess besta í okkur sjálfum: Er ég það sem ég vil vera? Er ég nær frelsara mínum í dag en ég var í gær? Verð ég nær honum á morgun? Hef ég hugrekki til að bæta mig? …

Árin hafa komið og liðið og þörfin á vitnisburði um fagnaðarerindið er enn brýnust. Við megum ekki vanmeta kennslu fortíðar er við höldum til framtíðar.“2

Þín eigin Líahóna

„Patríarkablessun þín er þín og eingöngu þín. Vera má að hún sé stutt eða löng, einföld eða djúpstæð. Lengd og tungumál er ekki það sem patríarkablessun snýst um. Það er andinn sem færir hina sönnu merkingu. Blessun þína á ekki að brjóta fallega saman og leggja til hliðar. Það á ekki að ramma hana inn eða gefa hana út. Fremur á að lesa hana. Það á að sýna henni væntumþykju. Það á að fara eftir henni. Patríarkablessun þín mun hjálpa þér í gegnum erfiðustu stundirnar. Hún mun leiðbeina þér í gegnum hættur lífsins. … Patríarkablessun þín er þín eigin Líahóna sem markar leið þína og leiðbeinir þér. …

Vera má að þolinmæði sé krafist er við fylgjumst með, bíðum eftir og vinnum að því að lofaðar blessanir uppfyllist.“3

Komið til hans

„Hafið í huga að þið heyjið ekki baráttuna einsömul. … Gangið ætíð í áttina að ljósinu er þið gangið lífsins veg og þá munu skuggar lífsins falla fyrir aftan ykkur. …

Er ég [hef] leitað eftir innblæstri í ritningunum þá [hefur] ákveðið orð staðið upp úr hvað eftir annað. Orðið [er] ‘komið.’ Drottinn sagði: ‘Komið til mín.’ Hann sagði: ‘Lærið af mér.’ Hann sagði einnig: ‘Komið, og fylgið mér.’ Mér líkar vel við þetta orð, komið. Bón mín er að við munum koma til Drottins.“4

Heimildir

  1. “How Firm a Foundation,” Liahona, nóvember 2006, 62.

  2. “Becoming Our Best Selves,” Liahona, apr. 2006, 3, 5.

  3. “Your Patriarchal Blessing: A Liahona of Light,” Ensign, nóv. 1986, 66.

  4. 16 stiku kvöldvaka, Brigham Young University, 16. nóv. 1986.

Að kenna þennan boðskap

Í Teaching, No Greater Call segir: „Þjálfaður kennari hugsar ekki, … ,Hvað mun ég kenna í dag?’ heldur ‘Hvernig get ég hjálpað nemendum mínum að komast að því sem þeir þurfa að vita?‘“ ([1999], 61). Hægt er að hjálpa einstaklingum að læra frá þessum boðskap með því að fá þeim pappír og blýant og veita þeim tíma til að lesa orð Monsons forseta og skrifa síðan niður sannleika sem þau komust að varðandi andlegan undirbúning. Yngri börn gætu teiknað myndir af því sem þau hafa lært. Íhugið að biðja þau að deila því sem þau hafa skrifað eða teiknað.

Prenta