2010
Blessanir musterisins
október 2010


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, október 2010

Blessanir musterisins

Musterið gefur okkur tilgang með lífinu. Það veitir sál okkar frið — ekki frið að hætti manna, heldur frið sem sonur Guðs gaf fyrirheit um með þessum orðum: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður.“

Í musterinu finnum við nálægð við Drottin.

Ég held að ég upplifi mig hvergi hér í heimi nær Drottni en í einu af hans helgu musterum. Ég umorða ljóð nokkurt:

Hve fjarri er himinninn?

Ekki svo fjarri.

Í musterum Guðs,

einmitt þar sem við erum.

Drottinn sagði:

„Safnið yður ekki fjársjóðum á jörðu, þar sem mölur og ryð eyðir og þjófar brjótast inn og stela.

Safnið yður heldur fjársjóðum á himni, þar sem hvorki eyðir mölur né ryð og þjófar brjótast ekki inn og stela.

Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera.“1

Ég segi við þegna Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu: Musterið er helgasti staður jarðar. Það er hús Drottins og rétt eins og áritunin segir utan á musterinu, þá er musterið „helgað Drottni.“

Musterið lyftir og upphefur okkur.

Hin dýrmæta áætlun Guðs er kennd í musterinu. Þar eru gerðir eilífir sáttmálar. Musterið lyftir og upphefur okkur, er sem ljósviti, sjáanlegur öllum, og vísar okkur á himneska dýrð. Það er hús Guðs. Allt sem gert er innan veggja musterisins er upplyftandi og göfgandi.

Musterið er fyrir fjölskyldur, einn dýrmætasti fjársjóðurinn sem við höfum í jarðlífinu. Drottinn hefur verið afar afdráttarlaus í máli til okkar feðra, og kveðið á um að skylda okkar sé að elska eiginkonu okkar, af öllu hjarta, og sjá henni og börnum okkar farborða. Hann hefur sagt að mikilvægasta verkið sem við foreldrar getum unnið, verði gert á heimili okkar og að heimili okkar geti verið himnesk, einkum ef hjónaband okkar er innsiglað í húsi Guðs.

Hinn látni öldungur Matthew Cowley, sem var meðlimur í sveit postulanna tólf, sagði eitt sinn frá því þegar hann sem afi fór hönd í hönd með unga barnadóttur sína í afmælisferð — ekki í dýragarðinn eða kvikmyndahús, heldur á lóð musterisins. Með leyfi umsjónarmanns lóðarinnar, gengu þau tvö að hinum stóru dyrum musterisins. Hann bað hana að setja hönd sína á massífan vegginn og síðan á gríðarstóra hurðina. Hann sagði síðan ljúflega við hana: „Minnstu þess að í dag hefur þú snert musterið. Dag einn muntu fara inn í það.“ Gjöf hans til litlu hnátunnar var ekki sælgæti eða ís, heldur mun þýðingarmeiri og varanlegri — þakklæti fyrir hús Drottins. Hún hafði snert musterið og musterið hafði snert við henni.

Musterið veitir sál okkar frið.

Þegar við snertum og elskum musterið, mun líf okkar endurspegla trú okkar. Þegar við förum í hið helga hús, og minnumst sáttmálanna sem við gerðum þar, munum við standast hverja raun og freistingu. Musterið gefur okkur tilgang með lífinu. Það veitir sál okkar frið — ekki frið að hætti manna, heldur frið sem sonur Guðs gaf fyrirheit um með þessum orðum: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“ 2

Sterk trú er meðal Síðari daga heilagra. Drottinn gefur okkur kost á að sjá, ef við höldum boðorð hans, ef við fylgjum veginum sem Jesús frá Nasaret markaði, ef við elskum Drottin af öllu hjarta okkar, huga, mætti og styrk og náunga okkar eins og sjálf okkur.3

Ég hef trú á orðskviðinum: „Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“4

Þannig hefur það ávallt verið; og mun ætíð verða. Ef við gerum skyldu okkar og treystum Drottni, munum við fylla musteri hans, og ekki aðeins framkvæma helgiathafnir fyrir okkur sjálf, heldur einnig njóta þeirra forréttinda að framkvæma þær fyrir aðra. Við munum krjúpa við hið helga altari sem staðgenglar í innsiglunum sem sameina eiginmenn og eiginkonur og börn um alla eilífð. Verðugir piltar og stúlkur, allt niður í 12 ára aldur, geta verið staðgenglar fyrir þá sem látist hafa án blessana skírnar. Það væri þrá himnesks föður fyrir mig og ykkur.

Kraftaverk sem gerðist

Fyrir mörgum árum var auðmjúkur og trúfastur patríarki, bróðir Percy K. Fetzer, beðinn að veita kirkjumeðlim handan járntjaldsins patríarkablessun.

Bróðir Fetzer fór til Póllands á þessum myrku tímum. Landamærin voru lokuð og engum var leyft að fara þar yfir. Bróðir Fetzer átti fund með þýskum heilögum sem höfðu lokast inni þegar landamærunum var breytt eftir Síðari heimsstyrjöldina og landsvæðið sem þau dvöldu á varð hluti af Póllandi.

Leiðtogi okkar meðal allra þessara þýsku heilagra var bróðir Eric P. Konietz, sem þar átti heima, ásamt eiginkonu og börnum. Bróðir Fetzer veitti bróður og systur Konietz og eldri börnum þeirra patríarkablessanir.

Þegar bróðir Fetzer sneri aftur til Bandaríkjanna hringdi hann í mig og spurði hvort hann mætti heimsækja mig. Þegar hann hafði fengið sér sæti í skrifstofunni minn, tók hann að tárfella. Hann sagði: „Bróðir Monson, þegar ég lagði hendur á höfuð meðlima Konietz-fjölskyldunnar, gaf ég fyrirheit sem getur ekki uppfyllst. Ég lofaði bróður og systur Konietz að þeim yrði gert kleift að snúa að nýju til heimabyggðar sinnar í Þýskalandi, að þeim yrði ekki haldið í ánauð vegna geðþótta ákvarðana sigurþjóða, og að þau yrðu innsigluð sem fjölskylda í húsi Drottins. Ég hét því að sonur þeirra mundi fara í trúboð og dóttur þeirra að hún mundi gifta sig í helgu musteri Guðs. Ég og þú vitum að vegna þess að landamærin eru lokið, mun þeim ekki hlotnast að sjá þessar blessanir verða að veruleika. Hvað hef ég gert?“

Ég sagði: „Bróðir Fetzer, ég þekki þig nógu vel til að vita að þú hefur aðeins gert það sem himneskur faðir hefði viljað að þú gerðir.“ Við krupum tveir saman við skrifborðið mitt og úthelltum hjarta okkar til himnesks föður, og sögðum að trúfastri fjölskyldu hefði verið gefið loforð um musteri Guðs og aðrar blessanir sem ekki stæðu þeim til boða nú. Aðeins hann gæti komið til leiðar kraftaverkinu sem á þurfti að halda.

Kraftaverkið gerðist. Samningur var gerður milli leiðtoga pólsku ríkisstjórnarinnar og leiðtoga þýska sambandslýðveldisins, sem kvað á um að þýskir þegnar sem lokast hefðu inni á því svæði gætu flutt til Vestur-Þýskalands. Bróðir og systir Konietz og börn þeirra fluttu til Vestur-Þýskalands, og bróðir Konietz varð biskup í deildinni þar sem þau bjuggu.

Öll Konietz-fjölskyldan fór í hið heilaga musteri í Sviss. Og hver var svo forseti musterisins sem bauð þau velkomin opnum örmum klæddur í hvítt? Enginn annar er Percy Fetzer — patríarkinn sem veitti þeim fyrirheitið. Þarna, sem forseti Bernar musterisins í Sviss, bauð hann þau velkomin í hús Drottins, til uppfyllingar þess fyrirheits, og innsiglaði eiginmanninn og eiginkonuna og börnin foreldrum sínum.

Dóttirin unga gifti sig svo í húsi Drottins þegar fram liðu stundir. Sonurinn ungi hlaut köllunina og lauk trúboði sínu.

„Við sjáumst í musterinu!“

Hjá sumum okkar er ferð í musterið aðeins nokkrar húsaraðir. Hjá öðrum er hafsjór á milli og margir kílómetrar að fara áður en við komumst í hið helga musteri Guðs.

Fyrir nokkrum árum, áður en byggingu musterisins í Suður-Afríku lauk, sótti ég umdæmisráðstefnu á þeim stað sem var Salisbury, Ródesía, og ræddi við umdæmisforsetann, Reginald J. Nield. Hann og eiginkona hans og yndislegar dætur þeirra hittu mig er ég gekk inn í kapelluna. Þau greindu mér frá því að þau hefðu sparað við sig og búið sig undir að geta farið til musteris Drottins. En musterið var svo langt í burtu.

Þegar samkomunni lauk spurðu hinar dásamlegu fjórar dætur hans um musterið: „Hvernig er musterið? Við höfum bara séð það á mynd. Hvernig mun okkur líða þegar við förum í musterið? Hvað verður okkur minnistæðast?“ Í um eina klukkustund gafst mér færi á að ræða við fjórar stúlkur um hús Drottins. Þegar ég hélt af stað til flugvallarins veifuðu þær mér og sú yngsta sagði: „Við sjáumst í musterinu!“

Einu ári síðar naut ég þess að heilsa upp á Nield-fjölskylduna í Salt Lake-musterinu. Í friðsömu innsiglunarherbergi naut ég þeirra forréttinda að sameina bróður og systur Nield um tíma og eilífð. Dyrunum var síðan lokið upp og hinar fallegu dætur, sem hver var óaðfinnanlega íklædd hvítu, komu inn í herbergið. Þær föðmuðu móður sína og síðan föður sinn. Tár voru í augum og þakklæti í hjarta. Við vorum himni nærri. Vissulega gat hvert þeirra sagt: „Nú erum við fjölskylda að eilífu.“

Slíkar undursamlegar blessanir bíða þeirra sem fara í musterið. Megi sérhvert okkar lifa verðuglega, með hreinar hendur og flekklaust hjarta, svo musterið hafi áhrif á líf okkar og fjölskyldu.

Hve fjarri er himinninn? Ég ber vitni um að í hinum heilögu musterum er hann alls ekki fjarri — því á þessum helgu stöðum mætast himinn og jörð og himneskur faðir veitir börnum sínum æðstu blessanir sínar.