Boðskapur heimsóknarkennara, október 2012
Heiðra sáttmála okkar
Lærið efnið í bænarhug og ræðið það við systurnar sem þið heimsækið, eins og við á. Nýtið spurningarnar ykkur til hjálpar við að styrkja systurnar og gera Líknarfélagið að virkum þætti í lífi ykkar.
Heimsóknarkennslan er tjáning á lærisveinshlutverki okkar og leið til að heiðra sáttmála okkar, er við þjónum og styrkjum hver aðra. Sáttmáli er heilagt og varanlegt loforð milli Guðs og barna hans. „Þegar okkur verður ljóst að við erum sáttmálslýður, vitum við hverjar við erum og hvers Guð væntir af okkur,“ sagði öldungur Russell M. Nelson í Tólfpostulasveitinni. „Lögmál hans er ritað í hjörtu okkar. Hann er okkar Guð og við erum hans lýður.“1
Við getum sem heimsóknarkennarar styrkt þær systur sem við heimsækjum í viðleitni þeirra til að halda helga sáttmála sína. Með því að gera svo, hjálpum við þeim að búa sig undir blessanir eilífs lífs. „Sérhver systir í þessari kirkju sem hefur gert sáttmála við Drottin, hefur guðlegan möttul til að hjálpa til við björgun sálna, til að hjálpa til við að leiða konur þessa heims, til að efla heimili Síonar og til að byggja upp ríki Guðs.“2 sagði öldungur M. Russell Ballard í Tólfpostulasveitinni.
Þegar við gerum og höldum helga sáttmála verðum við verkfæri í höndum Guðs. Við munum geta útskýrt trú okkar og eflt trú hver annarrar á himneskan föður og Jesú Krist.
Úr ritningunum
1 Ne 14:14; Mósía 5:5–7; 18:8–13; Kenning og sáttmálar 42:78; 84:106
Úr sögu okkar
Musterið er „hús til þakkargjörðar fyrir alla hina heilögu,“ opinberaði Drottinn spámanninum Joseph Smith árið 1833. Það er „hús … til leiðbeiningar öllum, sem kallaðir eru til helgra þjónustustarfa í öllum hinum mörgu köllunum þeirra og embættum. Svo að þeir geti fullkomnast hvað varðar skilning á helgri þjónustu sinni, fræðisetningum, grundvallarreglum og kenningum í öllu er lýtur að ríki Guðs á jörðu, en yður hafa verið afhentir lyklar þess ríkis“ (K&S 97:13–14).
Á fyrri hluta fimmta áratugar nítjándu aldar hjálpuðu Líknarfélagssysturnar í Nauvoo, Illinois, hver annarri að búa sig undir helgiathafnir musterisins. Í helgiathöfnum æðra prestdæmisins, sem hinir Síðari daga heilögu tóku á móti í Nauvoo-musterinu, „[opinberaðist kraftur guðleikans]“ (K&S 84:20). „Þegar hinir heilögu héldu sáttmála sína veittist þeim styrkur af þessum krafti í erfiðleikum þeirra á komandi dögum og árum.“3
Í kirkjunni í dag þjóna trúfastar konur og karlar hvarvetna um heim í musterinu og finna stöðugt styrk af þeim blessunum sem aðeins er hægt að hljóta fyrir sáttmála musterisins.
© 2012 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/11. Þýðing samþykkt: 6/11. Þýðing á Visiting Teaching Message, October 2012. Icelandic. 10370 190