2013
„Komið til mín‘
maí 2013


Boðskapur heimsóknarkennara, maí 2013

„Komið til mín“

Með orðum sínum og fordæmi, hefur Kristur sýnt okkur hvernig við komumst nær honum.

Ég er þakklátur að vera með ykkur á þessari ráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Þetta er hans kirkja. Við tökum á okkur nafn hans þegar við komum inn í ríki hans. Hann er Guð, skaparinn, og fullkominn. Við erum dauðleg háð dauða og synd. Samt, í kærleik hans til okkar, býður hann okkur að vera nærri sér. Þetta eru orð hans: „Nálgist mig og ég mun nálgast yður. Leitið mín af kostgæfni og þér munuð finna mig. Biðjið og yður mun gefast, knýið á og fyrir yður mun upplokið verða“1

Á þessari páskahátíð erum við minnt á hvers vegna við elskum hann og á loforð hans til trúfastra lærisveina hans um að verða ástkærir vinir hans. Frelsarinn gaf það loforð og sagði okkur hvernig hann kemur til okkar, í þjónustu okkar við hann. Eitt dæmið um þetta er opinberunin til Oliver Cowdery, þegar hann þjónaði Drottni ásamt Joseph Smith við þýðingu Mormónsbókar. „Sjá, þú ert Oliver, og ég hef talað til þín vegna þess sem þú þráir. Varðveit þess vegna orð þessi í hjarta þínu. Ver trúr og kostgæfinn við að halda boðorð Guðs og ég mun umlykja þig elskuríkum örmum mínum.“2

Ég upplifði þá gleði að koma nær frelsaranum, og að hann kæmi nær mér, einfaldlega með því að hlíta boðorðum hans.

Þið hafið öðlast slíka reynslu. Það gæti hafa gerst þegar þið völduð að mæta á sakramentissamkomu. Það gerðist með mig á hvíldardegi þegar ég var mjög ungur. Á þeim tíma meðtókum við sakramentið á samkomu síðdegis. Minningin um dag nokkurn fyrir meira en 65 árum, þegar ég hélt það boðorð að koma saman ásamt fjölskyldu minni með hinum heilögu, færir mig enn í dag nær frelsaranum.

Það var dimmt og kalt úti. Ég minnist þess að hafa fundið birtu og hlýju í kapellunni með foreldrum mínum þetta kvöld. Við meðtókum sakramentið, þjónustað af Aronsprestdæmishöfunum, og lofuðum okkar eilífa föður, að minnast ætíð sonar hans og halda boðorð hans.

Við lok samkomunnar sungum við sálminn „Dvel hjá mér, Guð,“ þar sem segir: „Dvel hjá mér herra, bráðum kemur nótt.“3

Ég fann kærleika frelsarans og nærveru hans þetta kvöld. Og ég fann huggun heilags anda.

Mig langaði að vekja aftur með mér tilfinninguna um kærleika frelsarans og nærveru hans sem ég upplifði á þeirri sakramentissamkomu í æsku minni. Svo að ég hélt annað boðorð. Ég kannaði ritningarnar. Ég vissi að í þeim gæti ég að nýju upplifað með heilögum anda hvernig tveimur lærisveinum hins upprisna frelsara hafði liðið þegar hann hafði þáð boð þeirra um að koma inn á heimili þeirra og dvelja með þeim.

Ég las um þriðja daginn eftir krossfestingu hans og greftrun. Trúfastar konur og aðrir fundu að steininum hafði verið velt frá gröfinni og að líkami hans var þar ekki. Þær höfðu komið af kærleika til hans til að smyrja líkama hans.

Tveir englar stóðu þar og spurðu hvers vegna þær væru hræddar, og sögðu:

„Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra?

Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu.

Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi.“4

Í Markúsarguðspjalli er líka að finna leiðsögn frá öðrum englinum: „En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: ‚Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður.‘ “5

Postularnir og lærisveinarnir höfðu komið saman í Jerúsalem. Eins og við hefðum orðið, voru þeir óttaslegnir þegar þeir töluðu saman um hvað dauðinn og frásagnir um að hann hefði risið upp merktu fyrir þá.

Tveir af lærisveinunum gengu þá um kvöldið frá Jerúsalem á veginum til Emmaus. Hinn upprisni Kristur birtist á veginum og gekk með þeim. Drottinn var kominn til þeirra.

Bók Lúkasar leyfir okkur að ganga með þeim:

„Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim.

En augu þeirra voru svo haldin, að þeir þekktu hann ekki.

Og hann sagði við þá: „Hvað er það, sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?“

Og annar þeirra, Kleofas að nafni, sagði við hann: „Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem, sem veist ekki, hvað þar hefur gjörst þessa dagana.“6

Þeir sögðu honum frá hve daprir þeir væru yfir að Jesús hefði dáið þegar þeir hefðu treyst því að hann mundi verða lausnari Ísraels.

Það hlýtur að hafa verið ástúð í málrómi hins upprisna Drottins þegar hann mælti til þessara tveggja sorgmæddu og syrgjandi lærisveina:

„Þá sagði hann við þá: „Ó, þér heimskir og tregir í hjarta til þess að trúa öllu því, sem spámennirnir hafa talað!

Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga síðan inn í dýrð sína?“

Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum.“7

Þá kemur að því í frásögninni sem vermt hefur hjarta mitt frá því að ég var lítill drengur:

„Þeir nálguðust nú þorpið, sem þeir ætluðu til, en hann lét sem hann vildi halda lengra.

Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: „Vertu hjá oss, því að kvölda tekur og degi hallar. Og hann fór inn til að vera hjá þeim.“8

Frelsarinn þáði þetta kvöld boðið um að fara inn í hús lærisveina sinna nálægt þorpinu Emmaus.

Hann settist að snæðingi með þeim. Hann tók brauð í hendur sér og blessaði það. Síðan braut hann brauðið í mola. Augu þeirra lukust upp svo að þeir þekktu hann. Síðan hvarf hann þeim sjónum. Lúkas skráði fyrir okkur tilfinningar þessara blessuðu lærisveina: „Og þeir sögðu hvor við annan: „Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?“9

Lærisveinarnir tveir fóru samstundis aftur til Jerúsalem til að segja postulunum ellefu frá upplifun sinni. Á þeirri stundu birtist frelsarinn aftur.

Hann fór yfir spádómana um hlutverk sitt við að friðþægja fyrir syndir barna föður síns og að rjúfa bönd dauðans.

„Og hann sagði við þá „Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi,

Og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem.

Þér eruð vottar þessa.“10

Orð frelsarans eru eins sönn fyrir okkur eins og þau voru fyrir lærisveina hans þá. Við erum vottar þessa. Og hið dýrðlega skylduverk sem við tókumst á hendur þegar við skírðumst inn í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu var gert okkur ljóst með orðum spámannsins Alma, öldum áður við Mormónsvötn:

„Og svo bar við, að hann sagði við þá: ,Þar sem þið þráið að komast í hjörð Guðs og kallast hans lýður og eruð fús til að bera hvers annars byrðar svo að þær verði léttar–

Já, og eruð fús að syrgja með syrgjendum, já, og hugga þá, sem huggunar þarfnast, og standa sem vitni Guðs, alltaf, í öllu og allsstaðar, hvar sem þið kunnið að vera, já, allt til dauða, svo að Guð megi endurleysa ykkur og þið megið teljast með þeim, sem í fyrstu upprisunni verða, svo að þið megið öðlast eilíft líf–

Og nú segi ég ykkur, sé þetta hjartans þrá ykkar, hvað hafið þið þá á móti því að láta skírast í nafni Drottins til að vitna fyrir honum, að þið hafið gjört sáttmála við hann um að þjóna honum og halda boðorð hans, svo að hann megi úthella anda sínum enn ríkulegar yfir ykkur?

Og þegar fólkið hafði heyrt þessi orð, klappaði það saman höndum af gleði og hrópaði: Það er þetta, sem við þráum.“11

Við erum undir sáttmála, bæði um að hjálpa þeim sem eru í neyð og að vera vitni um frelsarann svo lengi sem við lifum.

Við verðum aðeins fær um að gera það undanbragðalaust er við finnum kærleika til frelsarans og ást hans til okkar. Þegar við erum trúföst þeim loforðum okkar við hann, munum við skynja ást okkar til hans. Hún mun aukast, því við munum skynja mátt hans og nærveru í þjónustunni við hann.

Thomas S. Monson forseti hefur oft minnt okkur á loforð Drottins til trúfastra lærisveina sinna: „Og hjá hverjum þeim, sem veitir yður viðtöku, mun ég einnig vera, því að ég mun fara fyrir yður. Ég mun verða yður til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi minn mun vera í hjörtum yðar og englar mínir umhverfis yður, yður til stuðnings.“12

Það er líka á annan hátt sem við höfum fundið aukna nærveru hans. Þegar við í hollustu veitum honum þjónustu, færist hann nær þeim sem við elskum í fjölskyldu okkar. Í hvert sinn sem ég hef verið kallaður í þjónustu Drottins til að flytja eða yfirgefa fjölskyldu mína, hef ég að lokum séð að Drottinn var að blessa eiginkonu mína og börn. Hann undirbjó elskuríka þjóna sína og veitti tækifæri til að fjölskylda mín kæmist nær honum.

Þið hafið fundið þessa sömu blessun í lífi ykkar. Mörg ykkar eigið ástvini sem hafa ráfað af veginum til eilífs lífs. Þið veltið fyrir ykkur hvað meira þið getið gert til að ná þeim til baka. Þið getið treyst á Drottin að hann mun færast nær þeim þegar þið þjónið honum í trú.

Þið munið eftir loforði Drottins til Joseph Smith og Sidney Rigdon þegar þeir voru fjarri fjölskyldum sínum í erindagjörðun hans: „[Vinir mínir,] Sidney og Joseph: Fjölskyldum yðar líður vel. Þær eru í mínum höndum og ég mun fara með þær eins og ég tel best, því að allt vald er mér gefið.“13

Líkt og Alma og Mósía konungur, hafa sumir trúfastir foreldrar þjónað Drottni lengi og vel, sem hafa átt börn sem hafa villst af leið þrátt fyrir fórnir foreldra þeirra fyrir Drottin. Þeir hafa gert allt sem þeir gátu, án sýnilegs árangurs, jafnvel með hjálp frá kærleiksríkum og trúföstum vinum.

Alma og hinir heilögu á þeim tíma báðust fyrir vegna sonar hans og sona Mósía konungs. Engill kom. Bænir ykkar og bænir þeirra sem beita trú sinni munu leiða þjóna Drottins til að hjálpa fjölskyldumeðlimum ykkar. Þeir munu hjálpa þeim að velja leiðina heim til Guðs, jafnvel þegar þeir eru undir árás Satans og fylgdarliðs hans, hvers tilgangur er að eyðileggja fjölskyldur í þessu lífi og í eilífðinni.

Þið munið orðin sem engillinn talaði til Alma yngri og sona Mósía í uppreisn þeirra. „Og engillinn sagði enn fremur: Sjá, Drottinn hefur heyrt bænir fólks síns og einnig bænir þjóns síns, Alma, sem er faðir þinn því að hann hefur beðið í sterkri trú fyrir þér, að þú mættir öðlast vitneskju um sannleikann. Þess vegna og í þeim tilgangi hef ég komið til að sannfæra þig um kraft og vald Guðs, svo að þjónar hans verði bænheyrðir í samræmi við trú þeirra.“14

Ég get ekki lofað ykkur, sem biðjið og þjónið Drottni, að þið munuð njóta allra blessana sem þið óskið ykkur til handa og fjölskyldu ykkar. En ég get lofað ykkur því að frelsarinn mun færast nær ykkur og blessa ykkur og fjölskyldu ykkar með því sem er best. Þið munuð hafa huggun kærleika hans og finna það svar að hann færist nær þegar þið teygið arma ykkar fram veitandi öðrum þjónustu. Þegar þið búið um sár hinna bágstöddu og bjóðið fram hreinsun friðþægingar hans til þeirra sem syrgja í synd, mun kraftur Drottins styðja ykkur. Armar hans eru útréttir með ykkar örmum við að veita aðstoð og blessa börn okkar himneska föður, þar á meðal þau í fjölskyldu ykkar.

Dýrðleg heimkoma er undirbúin fyrir okkur. Við munum þá sjá uppfyllingu loforðs Drottins sem við höfum elskað. Það er hann sem býður okkur velkomin inn í eilíft líf með sér og okkar himneska föður. Jesús Kristur hefur lýst því þannig:

„Leitist við að tryggja og efla mína Síon. Haldið boðorð mín í öllu.

Og ef þú heldur boðorð mín og stendur stöðugur allt til enda, skalt þú öðlast eilíft líf, en sú gjöf er mest allra gjafa Guðs.“15

„Því að þeir sem lifa munu erfa jörðina, og þeir sem deyja skulu hvílast frá öllu erfiði sínu og verk þeirra munu fylgja þeim. Og þeir munu hljóta kórónu í híbýlum föður míns, sem ég hef fyrirbúið þeim.“16

Ég vitna um að við getum með andanum fylgt þessu boði himnesks föður: „Þetta er minn elskaði sonur. Hlýð þú á hann!“17

Með orðum sínum og fordæmi, hefur Kristur sýnt okkur hvernig við komumst nær honum. Hvert einasta barn himnesks föður sem hefur valið að fara inn um hlið skírnar inn í kirkju hans mun fá tækifæri til að fá kennslu í fagnaðarerindi hans og að heyra frá kölluðum þjónum hans boð hans: „Komið til mín.“18

Allir sáttmálsþjónar hans innan ríkis hans á jörðu, og í andaheiminum, munu hljóta leiðsögn hans með andanum þegar þeir blessa og þjóna öðrum fyrir hann. Finnið þess vegna kærleika hans, og gleðjist yfir því að komast nær honum.

Ég er vitni um upprisu Drottins eins örugglega og ef ég hefði verið með lærisveinunum tveimur í húsinu við Emmaus veginn. Ég veit að hann lifir eins örugglega eins og Joseph Smith vissi það þegar hann sá föðurinn og soninn í skæru ljósi morgunsins í trjálundinum í Palmyra.

Þetta er hin sanna kirkja Jesú Krists. Aðeins í þeim prestdæmislyklum sem Thomas S. Monson forseti hefur er krafturinn fyrir okkur til að vera innsigluð sem fjölskyldur til eilífðar með okkar himneska föður og Drottni Jesú Kristi. Við munum á degi dómsins standa augliti til auglitis frammi fyrir frelsaranum. Það verður þeim gleðistund sem í þessu lífi hafa komist nær honum í þjónustu við hann. Það veitir fögnuð að heyra orðin: „Gott, þú góði og trúi þjónn.“19 Ég vitna um það sem vitni hins upprisna frelsara okkar og lausnara, í nafni Jesú Krist, amen.