2013
Velferðarstarf
ágúst 2013


Boðskapur heimsóknarkennara, ágúst 2013

Velferðarstarf

Lærið efnið í bænarhug og ræðið það við systurnar sem þið heimsækið, eins og við á. Nýtið spurningarnar ykkur til hjálpar við að styrkja systurnar og gera Líknarfélagið að virkum þætti í lífi ykkar. Frekari upplýsingar má finna á reliefsociety.lds.org.

Trú, fjölskylda, líkn

Tilgangur kirkjuvelferðar er að hjálpa meðlimum að verða sjálfbjarga, huga að hinum fátæku og þurfandi og veita þjónustu. Velferðarstarf er þungamiðja Líknarfélagsins. Henry B. Eyring forseti, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, kenndi:

„[Drottinn] hefur frá upphafi tímans séð lærisveinum sínum fyrir leiðum til að hjálpa öðrum. Hann hefur boðið börnum sínum að helga tíma sinn, eigur og sig sjálf, því að sameinast honum í þjónustu við aðra. …

Hann hefur boðið og gefið fyrirmæli um að við tökum þátt í því verki hans að liðsinna nauðstöddum. Við gerum sáttmála um að gera svo í skírnarvatninu og hinu helga musteri Guðs. Við endurnýjum sáttmálann á sunnudögum með því að meðtaka sakramentið.“1

Staðarleiðtogar aðstoða við andlega og stundlega velferð, undir leiðsögn biskups eða greinarforseta. Tækifæri til þjónustu hefjast oft hjá heimsóknarkennurum sem leita innblásturs um að vita hvernig bregðast eigi við þörfum hverrar systur sem þær heimsækja.

Úr ritningunum

Lúk 10:25–37; Jakbr 1:27; Mósía 4:26; 18:8–11; Kenning og sáttmálar 104:18

Úr sögu okkar

9. júní árið 1844 bauð spámaðurinn Joseph Smith systrunum í Líknarfélaginu að „líkna fátækum“ og „bjarga sálum.“2 Sá tilgangur er enn kjarni líknarfélagsins og er settur fram með kjörorðum okkar: „Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi“ (1 Kor 13:8).

Fimmti aðalforseti Líknarfélagsins, Emmeline B. Wells og ráðgjafar hennar, komu fram með þessi kjörorð árið 1913, sem áminningu um grundvallarreglur okkar: „Við lýsum yfir að tilgangur okkar er að … [halda] okkur fast við hinar innblásnu kenningar spámannsins Josephs Smith, þar sem hann opinberaði þá áætlun að konur yrðu gæddar krafti prestdæmisins og skipulagðar í samtök, í þeim tilgangi að þjónusta hina sjúku og þurfandi, líkna hinum öldruðu, aðvara hina grunlausu og liðsinna hinum munaðarlausu.“3

Á okkar tíma er Líknarfélagið starfandi um heim allan, og systur þjóna náunga sínum með kærleika, hinni hreinu ást Krists (sjá Moró 7:46–47).

Heimildir

  1. Henry B. Eyring, „Opportunities to Do Good,“ Líahóna og Ensign, maí 2011, 22.

  2. Joseph Smith, í Daughters in My Kingdom: The History and Work of Relief Society (2011), 63.

  3. Daughters in My Kingdom, 63.

Hvað get ég gert?

  1. Hvernig bý ég mig undir að ala önn fyrir sjálfri mér og fjölskyldu minni, andlega og stundlega?

  2. Hvernig get ég fylgt fordæmi frelsarans með því að uppfylla þarfir systranna sem ég vaki yfir?

Prenta