2014
Besti tíminn til að gróðursetja tré
janúar 2014


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, janúar 2014

Besti tíminn til að gróðursetja tré

Ljósmynd
Dieter F. Uchtdorf forseti

Í Róm til forna var Janus guð upphafsins. Hann var oft sýndur með tvö andlit—annað sem horfir til fortíðar og hitt sem horfir til framtíðar. Á sumum tungumálum er mánuðurinn janúar nefndur eftir honum, því upphaf árs var tími uppgjörs og endurskipulags.

Árþúsundum síðar hafa mörg menningarlönd heimsins haldið þeim sið að strengja heit fyrir nýja árið. Auðvitað er auðvelt að strengja heit—að halda þau er svo allt annar handleggur.

Maður nokkur sem hafði skráð langan lista áramótsheita var nokkuð ánægður með árangur sinn. Hann hugsaði með sér: „Fram að þessu hef ég haldið mig við breytt mataræði, ekki misst stjórn á skapinu, haldið fjárhagsáætlunina og ekkert kvartað yfir hundi nágrannans. Í dag er 2. janúar, vekjarinn er þagnaður og því tími til að fara á fætur. Það verður kraftaverk ef ég held þetta út í dag.“

Byrja að nýju

Það felst einhver undursamleg von í nýju upphafi. Ég geri ráð fyrir að við höfum öll einhvern tíma óskað þess að geta byrjað að nýju með hreinan skjöld.

Mér finnst gaman að fá nýja tölvu með hreinni uppsetningu. Um tíma virkar hún vel. Eftir því sem dagar og vikur líða og fleiri forrit eru niðurhöluð (sum af ásetningi og önnur ekki) tekur tölvan brátt að hökta og hægja á sér og verður ekki jafn hröð og áreiðanleg eins og í upphafi. Stundum hættir hún algjörlega að virka. Að ræsa hana getur jafnvel orðið höfuðverkur, því harði diskurinn hefur fyllst af alls kyns rusli og óþarfa forritum. Sá tími getur komið að eina lausnin er að endurforsníða tölvuna og byrja að nýju.

Á svipaðan hátt geta mennirnir fyllst kvíða, ótta og efasemdum og mikilli sektarkennd. Mistökin sem okkur hefur orðið á (sum af ásetningi og önnur ekki) geta legið svo þungt á sálinni að okkur getur reynst erfitt að virka eðlilega.

Hvað syndina varðar, er til dásamlegt forsnið sem nefnist iðrun, sem gerir okkur kleift að hreinsa harða diskinn í okkur sjálfum af óreiðu sem íþyngir hjarta okkar. Fagnaðarerindið sýnir okkur, með hinni dásamlegu og samúðarfullu friðþægingu Jesú Krists, hvernig hreinsa á sálina af óhreinindum syndar og verða hrein, endurnýjuð og jafn saklaus og barn.

Stundum hægir ýmislegt annað á okkur og dregur af okkur, veldur ófrjóum hugsunum og verkum, sem gera okkur erfitt fyrir með að hefjast handa.

Kalla það besta fram í okkur

Markmiðasetning er verðugt viðfangsefni. Við vitum að himneskur faðir hefur sett sér markmið, því hann hefur sagt okkur að verk hans og dýrð sé að að „gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika“ (HDP Móse 1:39).

Okkar persónulegu markmið geta kallað það besta fram í okkur. Eitt af því sem þó dregur úr viðleitni okkar til að bæta okkur og gera betur er tilhneiging okkar til að fresta hlutunum. Stundum drögum við á langinn að hefjast handa og bíðum rétta augnabliksins—nýársdags, vorsins, þegar við verðum kölluð sem biskup eða Líknarfélagsforseti eða börnin byrji í skóla eða við förum á eftirlaun.

Við þurfum ekki sérstakt boð til að byrja á því að vinna að réttlátum markmiðum okkar. Við þurfum ekki að bíða eftir leyfi fyrir því að verða sú manneskja sem okkur er ætlað að verða. Við þurfum ekki að bíða eftir boði til að þjóna í kirkjunni.

Stundum sóum við mörgum árum í að bíða þess að verða útvalin (sjá K&S 121:34–36). Það er rangur ásetningur. Þið eruð þegar útvalin!

Stundum, í lífi mínu, hafa áhyggjuefni og sorgir varnað mér nætursvefns. Sama hversu svart sem myrkrið er á næturnar, læt ég ætíð huggast við þessa hugsun: Að morgni mun sólin rísa.

Hverjum nýjum degi fylgir ný sólarupprás—ekki aðeins jörðinni til hagsældar, heldur líka okkur. Hverjum nýjum degi fylgir líka nýtt upphaf—tækifæri til að byrja aftur.

En ef okkur mistekst?

Stundum heldur óttinn aftur af okkur. Við gætum óttast árangursleysi, að við næðum árangri, að verða okkur til skammar, að velgengnin kunni að breyta okkur eða þeim sem við elskum.

Þess vegna drögum við á langinn. Gætum jafnvel gefist upp.

Annað sem við þurfum að hafa í huga í markmiðasetningu er þetta: Okkur mun örugglega mistakast—að minnsta kosti til að byrja með. Fremur en að missa kjarkinn, ætti þessi vitneskja að auka okkur þrótt, því hún léttir af okkur byrði fullkomnunaráráttu. Frá upphafi verður okkur ljóst að okkur mun einhvern tíma mistakast á einn eða annan hátt. Að vita það fyrirfram kemur í veg fyrir flestar óvæntar uppákomur og kjarkleysið sem hlýst af mistökum.

Þegar við vinnum að markmiðum okkar með þetta í huga, þurfa mistökin ekki að hefta okkur. Hafið í huga að jafnvel þótt okkur mistakist að ná okkar þráða lokatakmarki þegar í stað, höfum við þroskast á veginum sem að því liggur.

Það skiptir máli—hefur mikla þýðingu.

Þótt okkur kynni að mistakast að ná lokatakmarkinu, mun áframhaldandi ferð okkar gera okkur að betri manneskju en við áður vorum.

Best er að byrja að nýju nú þegar

Gamalt máltæki segir: „Besti tíminn til að gróðursetja tré er fyrir 20 árum. Annar besti tíminn er nú þegar.“

Það er eitthvað dásamlegt og uppörvandi við orðin nú þegar. Það er eitthvað þróttvekjandi við þá staðreynd að ef við ákveðum að gera eitthvað nú þegar, getum við þegar í stað tekið framförum.

Nú þegar er besti tíminn til að hefjast handa við að verða sú manneskja sem við þráum að verða—ekki aðeins eftir 20 ár, heldur um alla eilífð.

Hvernig kenna á boðskapinn

Uchtdorf forseti útskýrir að þegar okkur mistekst að ná markmiðum okkar, ætti það að „auka okkur þrótt. … Þótt okkur kynni að mistakast að ná lokatakmarkinu, mun áframhaldandi ferð okkar gera okkur að betri manneskju en við áður vorum.“ Biðjið fjölskylduna að miðla reynslu þar sem þau hafa lært meira af verkefninu en niðurstöðunni, til að mynda að útskrifast úr skóla eða að hljóta viðurkenningu.

Prenta