Öðlast vitnisburð ljóss og sannleika
Persónulegur vitnisburður ykkar um ljós og sannleika mun ekki einungis blessa ykkur og afkomendur ykkar hér á jörðu heldur mun hann einnig fylgja ykkur um alla eilífð.
Sem flugmaður flaug ég margsinnis yfir álfur og höf í niðamyrkri. Þegar ég horfði á nætur himininn úr flugstjórnarklefanum, sérstaklega vetrarbrautina, fór ég oft að hugleiða víðáttur og dýpt sköpunar Guðs – það sem ritningarnar segja vera „ótal heima.“1
Það er skemmra en öld síðan flestir stjörnufræðingar töldu að okkar vetrarbraut væri sú eina í alheiminum.2 Þeir töldu að handan vetrarbrautar okkar væri gríðarlegt tóm, óendanlegt tómarúm – autt, kalt og gjörsneytt af stjörnum, ljósi og lífi.
Er sjónaukar urðu betri – þar á meðal sjónaukar sem hægt var að senda upp í geim – tóku stjörnufræðingar að ná tökum á hinum undursamlega, nánast óskiljanlega sannleika: Alheimurinn er miklu stærri en nokkur hafði trúað, að himnarnir eru fylltir af óteljandi vetrarbrautum, óhugsanlega langt í burtu frá okkur og sérhver inniheldur hundruði milljóna stjarna.3
Skilningur okkar á alheiminum breyttist að eilífu á tiltölulega stuttum tíma.
Í dag getum við séð sumar þessara fjarlægu vetrarbrauta.4
Við vitum að þær eru raunverulegar.
Þær hafa verið til staðar í mjög langan tíma.
Við trúðum ekki að þetta væri hægt hér áður fyrr þegar mannkynið bjó ekki yfir svona kraftmiklum tækjum sem geta safnað himnesku ljósi og fært þessar vetrarbrautir í augnsýn.
Óendanleiki alheimsins breyttist ekki skyndilega heldur geta okkar til að sjá og skilja þennan sannleik breyttist gífurlega. Og með þessu aukna ljósi fékk mannkynið að kynnast dýrlegri sýn sem við höfðum aldrei áður ímyndað okkur.
Það er erfitt fyrir okkur að trúa því sem við sjáum ekki.
Ímyndum okkur að þið gætuð ferðast aftur í tímann og átt samtal við fólk sem lifði fyrir þúsund árum eða jafnvel einungis hundrað árum. Ímyndið ykkur hvernig það væri að lýsa fyrir þeim tækni nútímans sem þið og ég tökum sem sjálfsögðum hlut. Til dæmis, hvað myndi þetta fólk halda um okkur ef við segðum þeim frá risaþotum, örbylgjuofnum, handhægum tækjum sem innihalda gríðarstór rafræn bókasöfn og myndbönd af barnabörnum okkar sem er hægt að deila með milljónum manna um heim allan á sekúndubroti.
Sumir myndu trúa okkur. Flestir myndu gera gys að okkur, mótmæla eða jafnvel reyna að þagga niður í okkur eða skaða okkur. Sumir myndu reyna að nota rökfræði, skynsemi og staðreyndir eins og þeir þekkja þær til að sýna að við værum afvegaleidd, heimskuleg eða jafnvel hættuleg. Við yrðum ef til vill fordæmd fyrir að afvegleiða aðra.
Auðvitað væri þetta fólk að fara algjörlega með rangt mál. Þau gætu þó viljað vel og verið einlæg. Og þau gætu verið fullviss um skoðun sína. Þau gætu hins vegar ekki séð greinilega vegna þess að þau hefðu ekki hlotið aukið ljós sannleikans.
Loforð um ljós
Það virðist loða við mannkynið að ganga út frá því að hafa á réttu að standa jafnvel þegar við höfum rangt fyrir okkur. Sé svo, hvaða von höfum við þá? Eru það örlög okkar að reka stefnulaust á hafi ósamhljóma upplýsinga, föst á fleka sem við höfum tjaslað saman af eigin hlutdrægni.
Er mögulegt að finna sannleika?
Markmið boðskapar míns er að lýsa yfir þeim gleðiríku tíðindum að sjálfur Guð – Drottinn alsherjar sem þekkir allan sannleika – hefur veitt börnum sínum loforð um að þau geti sjálf þekkt sannleikann.
Vinsamlega íhugið umfang þessa loforðs:
Hinn ævarandi og almáttugi Guð, skapari þessa víðáttumikla alheims, muni tala til þeirra sem koma til hans með einlægt hjarta og einbeittan huga.
Hann mun tala til þeirra í draumum, sýnum, hugsunum og tilfinningum.
Hann mun tala á þann hátt sem fer ekki framhjá neinum og er hafið yfir mannlega upplifun. Hann mun veita þeim himneska leiðbeiningu og svör fyrir persónulegt líf þeirra.
Auðvitað eru til þeir sem gera gys og segja slíkt ekki vera mögulegt, að ef það væri til Guð, þá myndi hann hafa annað betra að gera en að svara bæn hjá einstaklingi.
Ég segi ykkur hinsvegar: Guði er ekki sama um ykkur. Hann mun hlusta og hann mun svara persónulegum spurningum ykkar. Svörin við bænum ykkar munu berast að hans hætti og á hans tíma og því þurfið þið að læra að hlusta á rödd hans. Guð vill að þið snúið aftur til hans og frelsarinn er leiðin.5 Guð vill að þið lærið um son hans, Jesú Krist, og upplifið þann djúpa frið og gleði sem hlýst af því að fylgja hinni himnesku leið lærisveinsins.
Kæru vinir, hér er frekar einföld prófraun, með ábyrgð frá Guði, sem er að finna í aldagamalli ritningu, aðgengilegt sérhverjum manni, konu og barni sem tilbúið er að láta á reyna:
Fyrst, verðið þið að nema orð Guðs. Það þýðir að lesa ritningarnar og nema orð fornra og nútíma spámanna varðandi hið endurreista fagnaðarerindi Jesú – ekki með efasemdir eða gagnrýni fyrir augum heldur einlægri þrá að uppgötva sannleikann. Íhugið það sem þið munið skynja og búið huga ykkar undir að meðtaka sannleikann.6 „Jafnvel þótt ekki sé nema löngun til að trúa, látið þá undan þessari löngun … til að gefa hluta orða [Guðs] rúm.“7
Í öðru lagi, verðið þið að íhuga, hugleiða og sannlega trúa,8 og vera þakklát fyrir hversu miskunnsamur Drottinn hefur verið börnum sínum frá dögum Adams og fram á okkar dag með því að útvega spámenn, sjáendur og opinberara til að leiða kirkju hans og hjálpa okkur að finna leiðina aftur til sín.
Í þriðja lagi, verðið þið að biðja himneskan föður, í nafni sonar hans, Jesú Krists, að opinbera ykkur sannleikann um Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Spyrjið í hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á Krist.9
Það er einnig fjórða skrefið sem okkur er veitt af frelsaranum: „Sá sem vill gjöra vilja [Guðs], mun komast að raun um, hvort kenningin er frá Guði eða ég tala af sjálfum mér.“10 Með öðrum orðum, þegar þið eruð að sannreyna reglur fagnaðarerindisins, þá verðið þið fyrst að lifa samkvæmt þeim. Látið reyna á kenningar fagnaðarerindisins og kirkjunnar í lífi ykkar. Gerið það af einbeittum huga og viðvarandi trú á Guð.
Ef þið gerið þetta þá munið þið uppskera loforð Guðs – sem er bundinn eigin orði11 – að hann muni opinbera ykkur sannleikann með krafti heilags anda. Hann mun veita ykkur skærara ljós sem mun veita ykkur getu til að horfa í gegnum myrkrið og sjá óhugsandi dýrlegar sýnir óskiljanlegar mannlegri sjón.
Sumir kunna að segja að þessi skref séu of erfið eða þeir hafi reynt án árangurs. Ég legg til að þessi persónulegi vitnisburður um fagnaðarerindið og kirkjuna sé það mikilvægasta sem þið getið áunnið ykkur í þessu lífi. Hann mun ekki einungis blessa og leiðbeina ykkur í þessu lífi heldur mun einnig hafa bein áhrif á líf ykkar í eilífðinni.
Það sem andans er verður aðeins skilið fyrir áhrif andans.
Vísindamenn áttu fullt í fangi með að skilja breidd alheimsins þar til tól og tæki urðu nægilega þróuð til að fanga skærara ljós svo þeir gætu skilið heildstæðari sannleika.
Páll postuli kenndi samhliða reglu um andlega þekkingu. „Maðurinn án anda veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er,“ skrifaði hann til Korintubúa, „því að honum er það heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andlega.“12
Með öðrum orðum, ef þið viljið koma auga á andlegan sannleika þá verður þið að nota réttu verkfærin. Ekki er hægt að öðlast skilning á andlegum sannleika með verkfærum sem skynja hann ekki.
Frelsarinn hefur sagt okkur á þessum dögum: „Það, sem er frá Guði, er ljós. Og sá, sem veitir ljósinu viðtöku og er staðfastur í Guði, öðlast meira ljós. Og það ljós verður skærara og skærara þar til hinn fullkomna dag.“13
Því meira sem við höllum hjörtum okkar og hugum að Guði, því meira af himnesku ljósi fellur á sál okkar. Í sérhvert sinn sem við fúslega og einlæglega leitum að þessu ljósi, erum við í raun að tjá Guði fúsleika okkar að taka á móti skærara ljósi. Smám saman mun það sem áður virtist þokukennt, myrkt og fjarlægt verða skýrt, bjart og okkur kunnuglegt.
Að sama skapi þá mun okkar eigið ljós taka að dimma ef við fjarlægjum okkur frá ljósi fagnaðarerindisins – ekki á einum degi eða viku heldur smám saman með tímanum – þar til við horfum til baka og skiljum ekki alveg hvers vegna við trúðum nokkru sinni að fagnaðarerindið væri sannleikur. Okkar fyrrverandi þekking gæti meira að segja virst okkur vera kjánaleg því það sem eitt sinn var svo skýrt er orðið þokukennt, óskýrt og fjarlægt.
Þess vegna var Páll svo staðfastur í að boðskapur fagnaðarerindisins væri heimska þeim er glatast en þeim „sem hólpnir [verða], er það kraftur Guðs.“14
Það er ekki til Litmus próf.
Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er staður fyrir fólk með alls kyns vitnisburði. Vitnisburður sumra meðlima kirkjunnar er sterkur og ljós hans brennur bjart innra með þeim. Aðrir eru enn að reyna að finna eigin vitnisburð. Kirkjan er heimili þar sem allir geta komið saman burtséð frá dýpt eða hæðar vitnisburðar okkar. Ég veit ekki til þess að nokkurs staðar á samkomuhúsum okkar sé skilti á hurðinni sem segir: „Vitnisburður ykkar þarf að vera svona hár til að þið getið fengið inngöngu.“
Kirkjan er ekki bara fyrir fullkomið fólk heldur alla til að „[koma] til Krists, fullkomnist í honum.“15 Kirkjan er fyrir fólk eins og mig og þig. Kirkjan er staður þar sem fólki er boðið velkomið og það hlýtur næringu, ekki sundurgreiningu eða gagnrýni. Hún er staður þar sem við hvetjum, upplyftum og styðjum hvort annað er við fylgjum eftir einstaklings leit okkar að himneskum sannleika.
Við erum, þegar öllu er á botninn hvolft, pílagrímar í leit að ljósi Guðs er við ferðumst veg lærisveinsins. Við fordæmum ekki aðra vegna magns þess ljóss sem þeir hafa eða hafa ekki, heldur nærum við og hvetjum allt ljós þar til það verður greinilegt, bjart og satt.
Loforð til allra
Við skulum viðurkenna að oftast tekur það meira en mínútu, klukkustund eða dag að öðlast vitnisburð. Það er ekki einstakur atburður. Ferlið við að safna andlegu ljósi er leit sem tekur lífstíð.
Vitnisburður ykkar um lifandi son Guðs og endurreistu kirkju hans, Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, kemur ef til vill ekki eins hratt og við myndum óska en ég get lofað ykkur eftirfarandi: Ef þið gerið ykkar hlut, þá mun hann koma.
Hann verður dýrlegur.
Ég gef ykkur mitt persónulega vitni um að andlegur sannleikur mun fylla hjörtu ykkar og færa anda ykkar ljós. Hann mun opinbera ykkur hreina vitsmuni með dásamlegri gleði og himneskum frið. Ég hef upplifað þetta sjálfur með krafti heilags anda.
Eins og hin forna ritning lofar, hin ólýsanlega nálægð anda Guðs mun fá ykkur til að syngja söng hinnar endurleysandi elsku,16 lyfta augum ykkar til himna og hækka rödd ykkar í lofgjörð til hins hæsta Guðs, hælis ykkar, vonar ykkar, verndara ykkar, föður ykkar. Frelsarinn lofaði að ef þið leitið hans, þá munið þið finna hann.17
Ég ber vitni um að það er sannleikur. Ef þið leitið að sannleika Guðs þá mun það sem virðist í dag vera dauft, úr fókus og fjarlægt smám saman verða opinberað, skýrt og verða nærri hjarta ykkar vegna ljóss náðar Guðs. Dýrlegar andlegar sýnir, óhugsandi mannlegu auga mun verða opinberað ykkur.
Það er vitnisburður minn að andlega ljósið er sérhverju barni Guðs innan seilingar. Það mun upplýsa huga ykkar, færa hjarta ykkar lækningu og dögum ykkar gleði. Kæru vinir, ekki fresta tækifærinu til að leita að og styrkja ykkar eigin vitnisburð um himneskt starf Guðs, jafnvel verki ljóss og sannleika.
Persónulegur vitnisburður ykkar um ljósi og sannleika mun ekki einungis blessa ykkur og afkomendur ykkar hér á jörðu heldur einnig fylgja ykkur um alla eilífð meðal ótal heima. Um það ber ég vitni og veiti ykkur blessun mína í nafni Jesú Krists, amen.
© 2014 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/14. Þýðing samþykkt: 6/14. Þýðing á Visiting Teaching Message, November 2014. Icelandic. 10871 190