2015
Vitnisburður og trúarumbreyting
febrúar 2015


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, febrúar 2015

Vitnisburður og trúarumbreyting

Henry B. Eyring forseti

Það er tvennt ólíkt að hljóta vitnisburð um sannleika og að upplifa sanna trúarumbreytingu. Til að mynda þá bar hinn mikli postuli, Pétur, frelsaranum vitni um að hann vissi að Jesús væri sonur Guðs.

„[Jesús] spyr: En þér, hvern segið þér mig vera?

Símon Pétur svarar: Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.

„Þá segir Jesús við hann: Sæll ert þú, Símon Jónasson! Hold og blóð hefur ekki opinberað þér þetta, heldur faðir minn á himnum“ (Matt 16:15–17).

Síðar, í samskiptum sínum við Pétur, veitti Drottinn honum og okkur leiðsögn um að snúast sannlega til trúar og auka við þá trú alla okkar ævi. Jesús orðaði það svo: „Styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við“ (Lúk 22:32).

Jesús kenndi Pétri að mikil breyting þyrfti að eiga sér stað, umfram að eiga vitnisburð, til að geta hugsað, liðið og breytt eins og sannlega viðsnúinn lærisveinn Jesú Krists. Það er sú mikla breyting sem við öll keppum að. Þegar við svo höfum fundið fyrir þessari breytingu, þarf hún að viðhaldast allt til loka okkar jarðnesku prófraunar (sjá Al 5:13–14).

Við vitum af eigin reynslu og með því að læra af öðrum, að ekki nægir að hljóta nokkrar sterkar andlegar upplifanir. Pétur neitaði að þekkja frelsarann, jafnvel eftir að hann hafði hlotið vitni andans um að Jesús væri Kristur. Vitnin þrjú að Mormónsbók hlutu sterkan vitnisburð um að Mormónsbók væri orð Guðs en samt létu þeir bregðast að styðja Joseph Smith sem spámann kirkju Drottins.

Við þurfum að upplifa þá hjartans breytingu, sem lýst er í Bók Alma: „Og allir boðuðu þeir fólkinu það sama — að þeir hefðu umbreyst í hjarta og vildu ekkert illt gjöra framar“ (Alma 19:33; sjá einnig Mósía 5:2).

Drottinn kenndi, að þegar við höfum sannlega snúist til trúar á fagnaðarerindi hans, muni hjarta okkar snúa frá eigingjörnum hugðarefnum og að þjónustu, að hvetja aðra, er þeir keppa að eilífu lífi. Við getum beðist fyrir og starfað í trú, til að upplifa þá trúarumbreytingu, og verða ný sköpun fyrir tilverknað friðþægingar Jesú Krists.

Við getum byrjað á því að biðja um trú til að iðrast af eigingirni og þá gjöf að elska aðra meira en sjálfan sig. Við getum beðið um kraft til að láta af drambi og öfund.

Bænin verður líka lykilatriði í að hljóta þá gjöf að hafa unun af orði Guðs og að hljóta ást Krists (sjá Moró 7:47–48). Þetta tvennt fer saman. Þegar við lesum og ígrundum orð Guðs og biðjum vegna þess, mun það fara að verða okkur unun. Drottinn mun hafa þannig áhrif á hjarta okkar. Þegar við upplifum þá elsku, munum við fara að elska Drottin stöðugt meira. Þannig munum við fara að elska aðra, eins og nauðsyn er, til að efla þá sem Guð setur á veg okkar.

Við getum til að mynda beðið þess að við fáum borið kennsl á þá sem Drottinn vill að taki á móti kennslu trúboðanna. Fastatrúboðar geta beðið í trú um að geta vitað með andanum hvað best er að kenna og vitna um. Þeir geta beðið þess í trú að Drottinn láti þá finna fyrir elsku hans til allra sem verða á vegi þeirra. Trúboðarnir munu ekki leiða alla sem þeir hitta ofan í skírnarvatnið og að gjöf heilags anda. Þeir geta samt verið í samfélagi við heilagan anda. Með eigin þjónustu og hjálp heilags anda, munu trúboðar smám saman upplifa breytingu í hjarta sínu.

Sú breyting endurnýjast stöðugt, er þeir og við keppum að því alla ævi að starfa í trú, til að styrkja aðra með fagnaðarerindi Jesú Krists. Trúarumbreyting er ekki einn einstæður atburður eða nokkuð sem aðeins varir eina árstíð, heldur áframhaldandi ferli. Lífið getur orðið stöðugt bjartara þar til hinn fullkomna dag, er við lítum frelsarann og sjáum að við erum honum lík. Drottinn lýsti ferðinni þannig: „Það, sem er frá Guði, er ljós. Og sá, sem veitir ljósinu viðtöku og er staðfastur í Guði, öðlast meira ljós. Og það ljós verður skærara og skærara þar til hinn fullkomna dag“ (K&S 50:24).

Ég lofa ykkur því að þetta er okkur öllum mögulegt.

Hvernig kenna á boðskapinn

Öldungur David A. Bednar, í Tólfpostulasveitinni, notaði „dæmisögu um súrsaðar gúrkur,“ til að kenna að slík trúarumbreyting sé áframhaldandi ferli, fremur en einn viðburður: „Orð á orð ofan og setning á setning ofan, smám saman og næstum ómerkjanlega, munu hugsanir okkar, orð og verk samræmast vilja Guðs“ („Ye Must Be Born Again,“ Liahona, maí 2007, 19). Íhugið að segja þeim sem þið kennið frá dæmisögunni um súrsuðu gúrkurnar. Hvað getum við gert til að sækja ætíð fram í hinu hæga ferli umbreytingar, sem bæði Eyring forseti og öldungur Bednar ræddu um?