Boðskapur heimsóknarkennara, nóvember 2015
Í samfélagi heilags anda
Við getum notið þeirrar blessunar að hafa andann með okkur, ef við erum verðug hans, ekki aðeins þá og nú, heldur alltaf.
Kæru systkin, ég er þakklátur fyrir að vera meðal ykkar á þessum hvíldardegi á aðalráðstefnu kirkju Drottins. Ég hef fundið, líkt og þið, andann, heilagan anda, bera vitni um sannleika þeirra orða sem hér hafa verið töluð og sungin.
Í dag ætla ég að auka þrá ykkar og þrótt til að virkja þá gjöf sem þið hlutuð eftir skírn ykkar. Við staðfestingu okkar voru þessi orð sögð: „Meðtak hinn heilaga anda.“1 Frá þeirri stundu breytist líf okkar varanlega.
Við getum notið þeirrar blessunar að hafa andann með okkur, ef við lifum verðuglega, ekki aðeins öðru hverju, líkt og við þessa dásamlegu upplifun, heldur alltaf. Þið vitið af orðum sakramentisbænarinnar hvernig það loforð er uppfyllt: Ó Guð, eilífi faðir. Í nafni sonar þíns, Jesú Krists, biðjum vér þig að blessa og helga þetta brauð fyrir sálir allra, er þess neyta; að þau neyti þess til minningar um líkama sonar þíns og vitni fyrir þér, ó Guð, eilífi faðir, að þau séu fús til að taka á sig nafn sonar þíns og hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans, sem hann hefur gefið þeim.“
Síðan er það hið dýrðlega loforð: „Svo að andi hans sé ætíð með þeim“ (K&S 20:77; skáletrað hér).
Að hafa anda hans ætíð með okkur, er að njóta leiðsagnar og handleiðslu heilags anda í okkar daglega lífi. Andinn getur til að mynda aðvarað og hvatt okkur til að standast freistingar hins illa.
Ef ekki væri fyrir aðra ástæðu en þessa einu, þá gerir þetta okkur kleift að skilja hvers vegna þjónar Drottins reyna að auka þrá okkar til að tilbiðja Guð á sakramentissamkomum. Ef við meðtökum sakramentið í trú, mun heilagur andi geta verndað okkur og þau sem við elskum, gegn freistingum, sem koma oftar og í auknum mæli.
Samfélagið við heilagan anda gerir hið góða meira aðlaðandi og freistingar síður spennandi. Þessi ástæða, út af fyrir sig, ætti að nægja til að gera okkur staðráðnari í því að verða verðug þess að andinn sé ætíð með okkur.
Rétt eins og andinn styrkir okkur gegn hinu illa, þá gerir hann okkur líka kleift að greina á milli sannleika og lygi. Sá sannleikur sem mestu skiptir er staðfestur með opinberun frá Guði. Okkar mannlega rökfærsla og líkamleg skilningarvit duga skammt. Við lifum á tíma þar sem jafnvel hinir skörpustu eiga erfitt með að greina á milli sannleika og snjallra blekkinga.
Drottinn kenndi Tómasi, postula sínum, sem vildi áþreifanlega sönnun fyrir upprisu frelsarans, með því að snerta sár hans, að opinberun væri traustari sönnun: „Jesús segir við hann: Þú trúir, af því þú hefur séð mig. Sælir eru þeir, sem hafa ekki séð og trúa þó“ (Jóh 20:29).
Sá sannleikur sem markar leiðina heim til Guðs, er staðfestur af heilögum anda. Við getum ekki farið í lundinn til að sjá föðurinn og soninn tala við hinn unga Joseph Smith. Engin efnislega sönnun eða mannleg rökfærsla megnar að staðfesta að Elía hafi komið, eins og lofað var, til að afhenda þá prestdæmislykla sem Thomas S. Monson, hinn lifandi spámaður hefur og notar nú.
Staðfesting á sannleika berst þeim syni eða dóttur Guðs, sem hefur gert tilkall til þess réttar síns að taka á móti heilögum anda. Þar sem blekkingar og lygar geta verið hvarvetna umhverfis, þá þörfnumst við áhrifa anda sannleikans látlaust, til að komast hjá stundum efasemda.
George Q. Cannon, sem þá var meðlimur í Tólfpostulasveitinni, hvatti okkur til að leggja kapp á að hafa andann ætíð með okkur. Hann lofaði, og það geri ég líka, að ef við gerum það, þá „mun okkur aldrei skorta þekkingu“ á sannleikanum, „aldrei verða í myrkri efasemda,“ og „trú okkar verður sterk og gleði okkar … full.“2
Við þörfnumst þessarar stöðugu hjálpar frá samfélagi heilags anda, líka af annarri ástæðu. Dauða ástvinar kann að bera óvænt að. Það er staðfesting frá heilögum anda um raunveruleika himnesks föður og upprisins sonar hans, sem veitir okkur von og huggun við dauða ástvinar. Sá vitnisburður þarf að vera lifandi þegar dauðinn ber að dyrum.
Við þörfnumst því stöðugs samfélags heilags anda af mörgum ástæðum. Við þráum það, en vitum af reynslu að ekki er auðvelt að viðhalda því. Við hugsum öll, segjum eða gerum eitthvað í daglegu lífi sem getur misboðið andanum. Drottinn kenndi að heilagur andi yrði okkur stöðugur förunautur þegar hjarta okkar væri fullt af kærleika og dyggðir [prýddu] hugsanir okkar linnulaust“ (sjá K&S 121:45).
Ég hvet þau ykkar sem eigið erfitt með að lifa eftir hinum háa staðli, sem gjöf samfélags við andann krefst, eins og hér segir: Þið hafið upplifað stundir þar sem þið hafið fundið fyrir áhrifum heilags anda. Það kann að hafa gerst í dag.
Þið getið varðveitt þær stundir líkt og sáðkorn trúar, líkt og Alma sagði frá (sjá Alma 32:28). Gróðursetjið hvert þeirra. Það getið þið gert með því að bregðast við hugboðum ykkar. Mikilvægasti innblásturinn fyrir ykkur verður sá að vita það sem Guð vill að þið gerið. Ef það er að borga tíund eða heimsækja syrgjandi vin, þá ættuð þið að gera það. Hvað sem það er, gerið það þá. Þegar þið hafið sýnt að þið séuð fús að hlýða, mun andinn veita ykkur fleiri hugboð um það sem Guð óskar af ykkur.
Þegar þið hlýðið, munu hugboð andans verða tíðari og samfélagið verður stöðugt nánara. Geta ykkar til að velja rétt, mun aukast.
Þið getið greint á milli þess hvort slík hugboð um að bregðast við, séu frá andanum eða stafi af ykkar eigin þrám. Þegar hugboðin eru í samhljóm við það sem frelsarinn og hans lifandi spámenn hafa sagt, getið þið valið að hlýða af öryggi. Drottinn mun þá senda anda sinn til að liðsinna ykkur.
Ef þið t.d. hljótið andlegt hugboð um að heiðra hvíldardaginn, einkum þegar það er erfitt, mun Guð senda anda sinn til að hjálpa.
Sú hjálp barst föður mínum fyrir mörgum árum, þegar hann var í vinnuferð í Ástralíu. Hann var einsamall á sunnudegi og vildi meðtaka sakramentið. Hann fann engar upplýsingar um samkomuhús Síðari daga heilagra. Hann lagði því af stað gangandi. Hann baðst fyrir við öll gatnamót um að vita hvert stefna ætti. Eftir að hann hafði gengið og farið um hin ýmsu stræti í um klukkustund, hinkraði hann við til að biðjast fyrir aftur. Hann fékk hugboð um að ganga inn eftir ákveðinni götu. Brátt heyrði hann söng berast frá íbúð á jarðhæð í nærliggjandi byggingu. Hann leit inn um gluggann og sá að nokkrir sátu nálægt borði með hvítum dúk og sakramentisbökkum.
Ekki er víst að þetta hrífi ykkur mikið, en þetta var dásamleg upplifun fyrir hann. Honum varð ljóst að loforðið í sakramentisbæninni hafði uppfyllst: „Að hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans, sem hann hefur gefið þeim, svo að andi hans sé ætíð með þeim“ (K&S 20:77).
Þetta var aðeins eitt dæmi um það er hann baðst fyrir og fór að boði andans um vilja Guðs fyrir hann. Hann gerði þetta í ára raðir, líkt og ég og þið munum gera. Hann ræddi aldrei um eigið andríki. Hann hélt bara áfram að gera eitthvað smávægilegt fyrir Drottin, sem hann var hvattur til að gera.
Alltaf þegar einhver hópur Síðari daga heilagra bað hann að tala til fólksins, þá gerði hann það. Það skipti engu hvort það var 10 eða 50 manns, eða hversu þreyttur hann var. Hann bar vitni um föðurinn, soninn og heilagan anda og spámennina, alltaf þegar hann var hvattur til þess af andanum.
Hans æðsta köllun í kirkjunni var í háráði Bonneville-stikunnar, þar sem hann hreinsaði illgresi á stikubújörð og kenndi námsbekk sunnudagaskólans. Yfir árin naut hann samfélags heilags anda, hvenær sem hann þurfti á því að halda.
Ég stóð við hlið föður míns í sjúkrahússtofu. Móðir mín, eiginkona hans til 41 árs, lá í rúminu. Við höfðum vakað lengi yfir henni. Við horfðum á sársaukadrættina hverfa smám saman af andliti hennar. Það slakknaði á fingrum hennar, sem verið höfðu saman krepptir. Hendur hennar féllu hreyfingarlausar niður við líkamann.
Sársauki áratuga krabbaameins var á enda. Ég sá að værð færðist yfir andlit hennar. Hún dró andann nokkrum sinnum hratt, tók andköf og varð síðan grafkyrr. Við stóðum þarna og biðum þess að hún drægi aftur andann.
Loks sagði faðir minn: „Lítil stúlka hefur farið heim.“
Hann úthellti engum tárum. Það var sökum þess að heilagur andi hafði fyrir löngu veitt honum skýra sýn um það hver hún var, hvaðan hún kom, hvað hún hafði orðið og hvert hún var að fara. Andinn hafði margsinnis borið honum vitni um kærleiksríkan himneskan föður, frelsara sem hafði rofið helsi dauðans og raunveruleika musterisinnsiglunar hans og hennar og barnanna.
Andinn hafði fyrir löngu fullvissað hann um að gæska hennar og trú hefðu gert hana hæfa til að snúa aftur með heiðri til himnesks föður, þar sem við henni yrði tekið opnum örmum sem dásamlegu barni fyrirheitsins.
Þetta var meira en von hvað föður minn varðaði. Heilagur andi hafi gert þetta að raunveruleika fyrir honum.
Sumir gætu sagt að orð hans og ímynd um himneska heimkomu, væru aðeins ljúfar hugrenningar byggðar á óskýrri dómgreind eiginmanns við missi sinn. Hann þekkti hins vegar eilífan sannleika á þann eina hátt sem hægt er að þekkja hann.
Hann var vísindamaður, sem leitaði sannleika hins efnislega heims öll sín fullorðinsár. Hann var nægilega fær vísindamaður til að njóta virðingar meðal starfsstéttar sinnar víða um heim. Margt af því sem honum tókst að koma til leiðar í efnafræði, gerðist eftir að hann hafði séð fyrir sér sameindir á hreyfingu og síðan sannreynt þessa sýn á rannsóknarstofu.
Hann hafði þó annan háttinn á við að uppgötva þann sannleika sem skipti hann og okkur öll meira máli. Við getum aðeins séð fólk og viðburði eins og Guð sér það, með heilögum anda.
Sú gjöf var fyrir hendi á sjúkrahúsinu eftir lát eiginkonu hans. Við tókum saman eigur móður minnar til að fara með þær heim. Faðir minn þakkaði öllum hjúkrunarkonum og læknum sem við mættum á leið okkar út í bíl. Ég minnist þess að hafa fundist, í nokkurri gremju, að við ættum vera einir í sorg okkar.
Mér er nú ljóst að hann sá hlutina aðeins á þann hátt sem heilagur andi hefði getað sýnt honum. Hann sá þetta fólk sem engla senda af Guði til að vaka yfir ástinni sinni. Þau gætu hafa litið á sig sem heilbrigðisstarfsfólk, en faðir minn færði þeim þakkir fyrir hönd frelsara okkar.
Áhrif heilags anda voru áfram með honum þegar við komum á heimili foreldra minna. Við ræddum saman í nokkrar mínútur í stofunni. Faðir minn afsakaði sig og fór inn í svefnherbergi sitt, sem var þar nærri.
Að nokkrum mínútum liðnum, kom hann aftur inni í stofuna. Á andliti hans var ánægjulegt bros. Hann gekk að okkur og sagði hljóðlega: „Ég hafði áhyggjur af því að Mildred kæmi einsömul í andaheiminn. Ég hélt að hún yrði ráðvillt þar í mannþrönginni.“
Hann sagði síðan glaðlega: „Ég var rétt í þessu að biðjast fyrir. Ég veit að Mildred er í góðum höndum. Móðir mín var þar til að taka á móti henni.“
Ég minnist þess að hafa brosað við þessi orð hans og séð hina stuttleggjuðu ömmu mína flýta sér í gegnum mannþröngina, til að vera viss um að hún gæti tekið á móti tengdadóttur sinni við komu hennar.
Ein ástæða þess að faðir minn bað um og hlaut þessa hughreystingu, var sökum þess að hann hafði ætíð frá barnæsku beðist fyrir í trú. Hann var vanur að svör bærust honum til huggunar og handleiðslu. Auk þess að hafa tileinkað sér bænavenju, þá þekkti hann ritningarnar og orð lifandi spámanna. Hann var því kunnugur hljóðri rödd andans, sem þið gætuð hafa skynjað í dag.
Samfélagið við heilagan anda hafði gert meira en að hugga og leiða hann. Það breytti honum, fyrir tilverknað friðþægingar Jesú Krists Þegar við meðtökum það loforð að hafa andann ætíð með okkur, megnar frelsarinn að hreinsa okkur, sem nauðsynlegt er fyrir eilíft líf, sem er æðst allra gjafa Guðs (sjá K&S 14:7).
Þið munið þessi orð frelsarans: „En þetta er boðorðið: Iðrist, öll endimörk jarðar og komið til mín og látið skírast í mínu nafni, svo að þér megið helgast fyrir móttöku heilags anda og þér fáið staðið flekklaus frammi fyrir mér á efsta degi“ (3 Ne 27:20).
Þessi boðorð eru sett með loforði frá Drottni:
„Og sannlega, sannlega segi ég þér nú, set traust þitt á þann anda, sem leiðir til góðra verka – já, til að breyta rétt, til að ganga í auðmýkt, til að dæma réttlátlega, og þetta er andi minn.
Sannlega, sannlega segi ég þér, ég mun veita þér af anda mínum, sem mun upplýsa huga þinn, sem mun fylla sál þína gleði“ (K&S 11:12–13).
Ég gef ykkur vitnisburð minn um að Guð faðirinn lifir, að hinn upprisni Jesús Kristur leiðir þessa kirkju, að Thomas S. Monson forseti hefur alla lykla prestdæmisins og að heilagur andi leiðir og styður Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og auðmjúka meðlimi hennar með opinberun.
Ég ber ennfremur vitni um að þessir dásamlegu menn, sem í dag hafa talað til okkar sem vitni Drottins Jesú Krists, sem meðlimir Tólfpostulasveitarinnar, eru kallaðir af Guði. Ég veit að Monson forseti hlaut handleiðslu andans við að kalla þá. Þegar þið hlustuðuð á þá og vitnisburð þeirra, þá staðfesti heilagur andi það sem ég nú segi við ykkur. Þeir eru kallaðir af Guði. Ég styð og elska þá og veit að Drottinn elskar þá og mun styðja þá í þjónustu þeirra. Ég geri svo í nafni Drottins Jesú Krists, amen.
© 2015 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/15. Þýðing samþykkt: 6/15. Þýðing á Visiting Teaching Message, November 2015. Icelandic. 12591 190