2016
„Lærið af mér‘
mars 2016


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, mars 2016

„Lærið af mér“

Í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu erum við öll bæði kennarar og nemendur. Þetta ljúfa boð Drottins er öllum ætlað: „Lærið af mér … og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“1

Ég býð öllum Síðari daga heilögum að ígrunda eigin viðleitni til að kenna og læra og líta til frelsarans sem fyrirmynd í því verki. Við vitum að þessi „lærifaðir kominn frá Guði“2 var meira en aðeins kennari. Hann, sem kenndi okkur að elska Drottin Guð af öllu hjarta, allri sálu, öllum mætti huga og styrk og náungann eins og sjálf okkur, er meistara kennari og fyrirmynd hins fullkomna lífs.

Það var hann sem bauð: „Kom … og fylg mér.“3 „Ég hef sýnt yður fordæmi.“4

Nema þér snúið við

Jesús kenndi þennan einfalda en djúpa sannleika sem skráður er í Matteus: Eftir að Jesús og lærisveinar hans komu niður af fjalli ummyndunar, komu þeir við í Galíleu og fóru síðan til Kapernaum. Þar komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu:

„Hver er mestur í himnaríki?

Hann kallaði til sín lítið barn, setti það meðal þeirra

og sagði: Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.“5

Í kirkjunni er ekki markmiðið með trúarkennslu að fylla huga barna Guðs af upplýsingum, á heimilinu, í námsbekknum eða á trúboðsakrinum. Það er ekki að sýna hve fróðir foreldrar, kennarar eða trúboðar eru. Það er heldur ekki eingöngu til að auka þekkingu á frelsaranum og kirkju hans.

Megin markmið slíkrar kennslu er að hjálpa sonum og dætrum himnesks föður að snúa aftur til dvalar hjá honum og njóta eilífs lífs í návist hans. Í þeim tilgangi þarf trúarkennsla að hvetja þau til að sækja áfram, dag hvern, á vegi lærisveinsins og helgra sáttmála. Markmiðið er að innblása einstaklinga til að hugsa um og upplifa reglur fagnaðarerindisins og síðan gera eitthvað til að lifa eftir þeim. Viðfangsefnið er að þróa trú á Drottin Jesú Krist og stuðla að trúarumbreytingu með fagnaðarerindi hans.

Sú kennsla sem blessar, eflir trú og endurleysir, er lík kennslu frelsarans. Kennarar sem líkja eftir fordæmi frelsarans elska og þjóna þeim sem þeir kenna. Þeir innblása hlustendur sína með eilífri kennslu um guðlegan sannleika. Líf þeirra er verðug fyrirmynd.

Elska og þjóna

Öll þjónusta frelsarans einkenndist af elsku til náungans. Elska hans og þjónusta voru vissulega oft lexían hans. Á sama hátt eru þeir kennarar sem mér eru minnisstæðastir, þeir sem þekktu, elskuðu og létu sér annt um nemendur sína. Þeir leituðu hins týnda sauðar. Þeir kenndu þær lífsins lexíur sem ég fæ aldrei gleymt.

Einn slíkur kennari var Lucy Gertsch. Hún þekkti alla sína nemendur. Hún hringdi ævinlega í þá sem misstu úr sunnudag eða komu bara ekki. Við vissum að henni var annt um okkur. Ekkert okkar hefur gleymt henni eða lexíunum sem hún kenndi.

Mörgum árum síðar, þegar dró að ævilokum Lucy, heimsótti ég hana. Við rifjuðum upp þá löngu liðnu tíma þegar hún var kennari okkar. Við ræddum um alla nemendur bekkjarins og hvar hver þeirra væri nú staddur. Kærleikur hennar og umhyggja náði yfir heila mannsævi.

Ég ann þessu boði Drottins í Kenningu og sáttmálum:

„Ég gef yður boð um að fræða hvert annað um kenningu ríkisins.

„Kennið af kostgæfni og náð mín verður með yður.“6

Lucy Gertsch kenndi af kostgæfni, því hún elskaði þrotlaust.

Bjóðið von og sannleika

Pétur postuli sagði: „Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er.“7

Dásamlegasta vonin sem kennari fær boðið er sú von sem felst í sannleika fagnaðarerindis Jesú Krists.

„Og í hverju skal von yðar fólgin?“ spurði Mormón. „Sjá, ég segi yður, að þér skuluð eiga von fyrir friðþægingu Krists og kraft upprisu hans, að vera reistir til eilífs lífs, og það vegna trúar yðar á hann.“8

Kennarar, hefjið upp raust ykkar og vitnið um hið sanna eðli Guðdómsins. Lýsið ykkur sem vitni um Mormónsbók. Flytjið hinn dýrðlega og fagra sannleika sem má finna í sáluhjálparáætluninni. Notið viðurkennd námsefni kirkjunnar, einkum ritningarnar, til að kenna sannleika hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists, í skírleika og einfaldleika. Hafið þetta boð frelsarans í huga: „Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig.“9

Hjálpið börnum Guðs að skilja hvað er ósvikið og mikilvægt í þessu lífi. Hjálpið þeim að þróa með sér þann styrk sem þarf til að velja þann veg sem verndar þau á leið þeirra til eilífs lífs.

Kennið sannleika og heilagur andi mun vera með í kennslu ykkar.

„Lærið af mér“

Þar sem Jesús Kristur var fullkomlega hlýðinn og undirgefinn föður sínum, þá „þroskaðist [hann] að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum.”10 Höfum við nægilega áræðni til að gera slíkt hið sama? Á sama hátt og Jesús „hlaut … náð á náð ofan,“11 þá þurfum við stöðugt að leita ljóss og þekkingar frá Guði, í viðleitni okkar til að læra fagnaðarerindið.

Að hlusta er nauðsynlegur þáttur þess að læra. Við búum okkur undir kennslu með því að leita innblásturs og staðfestingar heilags anda. Við ígrundum og biðjum, tileinkum okkur trúarkennslu og leitum vilja föðurins fyrir okkur.12

Jesús „ kenndi … margt í dæmisögum,“13 sem krefst þess að við þurfum að hafa eyra til að heyra, auga til að sjá og hjarta til að skilja. Þegar við lifum verðuglega, reynist okkur auðveldar að heyra hina lágværu rödd heilags anda, sem mun „kenna [okkur] allt og minna [okkur] á allt.“14

Þegar við bregðumst við þessu ljúfa boði Drottins, „komið og lærið af mér,“ verðum við hluttakendur í hans guðlega mætti. Við skulum því sækja fram í anda hlýðni og líkja eftir fyrirmynd okkar, með því að kenna líkt og hann hefði kennt og læra líkt og hann hefði lært.

Ábendingar um kennslu þessa boðskapar

Monson forseti býður öllum Síðari daga heilögum að „ígrunda eigin viðleitni til að kenna og læra og líta til frelsarans sem fyrirmynd í því verki.“ Þið getið hugleitt að rannsaka ritningarnar með þeim sem þið heimsækið, til að fá innsýn í þær aðferðir sem Jesús Kristur notaði til að kenna og læra. Þið gætuð byrjað á einhverjum þeim ritningarversum sem Monson forseti vísaði í, til dæmis Matt 11:29, Jóh 5:30 og Mark 4:2. Þið getið rætt það sem þið hafið lært um Krist og hvernig það getur gert ykkur kleift að „[verða] hluttakendur í hans guðlega mætti.“