Boðskapur heimsóknarkennara, maí 2016
Hann mun leggja þig á herðar sér og bera þig heim
Á sama hátt og góði hirðirinn finnur sinn týnda sauð, þá mun hann finna ykkur, ef þið aðeins komið til frelsarans af fúsu hjarta.
Ein af mínum áleitnu æskuminningum hefst á fjarlægu loftvarnar-sírenuvæli sem vekur mig upp af svefni. Stuttu eftir það heyrist annað hljóð, fjarlægt skrölt og flugvélaskrúfusuð, sem smám saman verður háværara, þar til það fyllir allt loftið. Við börnin grípum töskurnar okkar og hlaupum upp hlíðina að sprengjuskýlinu, vel þjálfuð af móður okkar. Í flýti okkar í niðarmyrkrinu sjáum við græna og hvíta blossa falla af himni, sem merkja skotmörkin fyrir sprengjuvörpurnar. Hversu undarlegt sem það nú hljómar, þá kalla allir þessi blys jólatré.
Ég er vitni að heimsstyrjöld fjögurra ára gamall.
Dresden
Borgin Dresden var ekki fjarri bústað fjölskyldu minnar. Þeir sem þar bjuggu upplifðu væntanlega margfalt meira en fyrir mín augu bar. Gríðarleg eldhöf, af völdum mörg þúsund tonna sprengiefnis, feyktust í gegnum Dresden, eyðilögðu yfir 90 prósent borgarinnar, og skildu lítið annað eftir en rústir og ösku í kjölfari sínu.
Á afar skömmum tíma hafði borgin, sem eitt sinn var kölluð „Skartskrínið“ horfið sjónum manna. Erich Kästner, þýskur rithöfundur, skrifaði um eyðilegginguna: „Á þúsund árum var fegurð hennar byggð, á einni nóttu var henni algjörlega eytt.“1 Á æskuárum mínum fékk ég ekki ímyndað mér hvernig mögulegt var að endurreisa það sem eyðilagt hafði verið í því stríði sem átti uppruna hjá mínu eigin fólki. Heimurinn umhverfis virtist hvorki eiga sér von, né framtíð.
Á síðasta ári gafst mér kostur á að sjá Dresden aftur. Sjötíu árum eftir stríðið er borgin enn að ný kölluð „Skartskrínið.“ Úr rústum var borgin endurbyggð og jafnvel endurbætt.
Í heimsókn minni þangað sá ég hina fallegu lútersku Frúarkirkju, Frauenkirche. Hún var upphaflega byggð á sautjándu öld og var ein af skrautfjöðrum Dresdens, en eftir stríðið var hún rústir einar. Í mörg ár var ekkert við henni hreyft, allt þar til ákveðið var að endurbyggja Frúarkirkjuna.
Steinar úr rústum kirkjunnar höfðu verið varðveittir og skráðir og ef hægt var, voru margir þeirra notaðir við endurbygginguna. Í dag má sjá þessa steina sem ör á útveggjum kirkjunnar, því þeir eru dekkri af völdum eldanna. Þessi „ör“ minna okkur ekki aðeins á sögu þessarar byggingar, heldur eru þau minnisvarði um von – stórbrotið tákn um getu mannsins til að endurbyggja úr öskustónni.
Þegar ég hugleiði sögu Dresden og dáist að hugvitsemi og staðfestu þeirra sem endurbyggðu það sem algjörlega hafði verið lagt í rúst, fann ég ljúf áhrif heilags anda. Mér varð vissulega hugsað til þess, að fyrst menn gætu tekið ónýta borg, sem aðeins væri rústir og brak og byggt úr henni stórbrotið mannvirki, sem rís móti himni, hversu miklu hæfari væri þá okkar almáttugi faðir til að endurreisa þau börn sín sem eiga í baráttu eða hafa fallið eða villst?
Það skiptir engu hversu miklar rústir líf okkar virðist vera. Það skiptir engu hversu miklar syndir okkar eru, hversu beisk við erum, einmana, yfirgefin eða harmþrungin. Þá má jafnvel endurreisa sem eiga sér enga von, eru örvæntingarfullir, eru rúnir trausti og ráðvendni eða hafa snúið frá Guði. Að undanskildum hinum fáu glötunarsonum, þá er engin svo skaddaður að ekki sé hægt að bæta hann að fullu.
Gleðitíðindi fagnaðarerindisins eru þessi: Sökum hinnar eilífu sæluáætlunar okkar kærleiksríka himneska föður, og fyrir tilverknað hinnar altæku friðþægingar Jesú Krists, er ekki aðeins mögulegt að endurleysa okkur frá föllnu ástandi til hreinleika, heldur getum við líka náð lengra en dauðlegir menn fá ímyndað sér og orðið erfingjar eilífs lífs og tekið á móti óviðjafnanlegri dýrð Guðs.
Dæmisagan um týnda sauðinn
Á þjónustutíð frelsarans höfðu trúarleiðtogar þess tíma vanþóknun á því að Jesús umgekkst þá sem þeir höfðu auðkennt sem „syndara.“
Þeim fannst kannski með þessu að hann legði blessun sína yfir syndugt líferni og léti það óátalið. Þeim fannst kannski að best væri að hjálpa hinum synduga að iðrast með því að hæðast að þeim, fordæma þá og forsmá.
Þegar frelsarinn áttaði sig á hugsunarhætti faríseanna og fræðimannanna, sagði hann þessa dæmisögu:
„Nú á einhver yðar hundrað sauði og týnir einum þeirra. Skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í óbyggðinni og fer eftir þeim, sem týndur er, þar til hann finnur hann?
Og glaður leggur hann sauðinn á herðar sér, er hann finnur hann.“2
Í aldanna rás hefur þessi dæmisaga yfirleitt verið túlkuð sem ákall um að við leggjum á okkur að finna hina týndu og færa þá aftur í hjörðina. Þótt sú merking sé vissulega góð og rétt, þá velti ég fyrir mér hvort hér búi meira undir.
Er mögulegt að tilgangur Jesú hafi fyrst og fremst verið sá að kenna um verk hins góða hirðis?
Er mögulegt að hann hafi verið að vitna um elsku Guðs til hans villuráfandi barna?
Er mögulegt að boðskapur frelsarans hafi hér verið sá að Guð sé fyllilega meðvitaður um hina týndu – að hann muni finna þá, ná til þeirra og koma þeim til bjargar?
Hvað þarf þá hinn týndi sauður að gera til að eiga slíka guðlega hjálp vísa?
Þarf sauðurinn að kunna að nota flókinn sextant, til að geta reiknað út staðsetningarhnit sín? Þarf hann að kunna að nota GPS, til að vita hvar hann er? Þarf hann að kunna að búa til forrit til að geta kallað á hjálp? Þarf sauðurinn meðmæli frá bakhjarli áður en góði hirðirinn getur komið honum til hjálpar?
Nei, vissulega ekki! Sauðurinn verðskuldar guðlega björgun einfaldlega vegna þess að góði hirðirinn elskar hann.
Mér finnst dæmisagan um týnda sauðinn vera sú ritningarlega frásögn sem vekur hvað mestar vonir.
Frelsari okkar, góði hirðirinn, þekkir og elskar okkur. Hann þekkir og elskar ykkur.
Hann veit hvenær við erum týnd og hvar við erum. Hann skynjar sorg ykkar, og ákall hjartans, ótta ykkar, tár ykkar.
Það skiptir engu hvernig þið týndust – hvort sem það er sökum miður góðra ákvarðana eða aðstæðna sem þið hafið ekki stjórn á.
Það skiptir máli að þið eruð barn hans. Hann elskar ykkur. Hann elskar börn sín.
Hann mun finna ykkur, því hann elskar ykkur. Hann mun með gleði leggja okkur á herðar sér. Þegar hann svo kemur ykkur heim, mun hann segja við einn og alla: „Samgleðjist mér, því að ég hef fundið sauðinn minn, sem týndur var.“3
Hvað verðum við að gera?
Þið gætuð þó hugsað: Hvað hangir á spýtunni? Vissulega hlýt ég að þurfa að gera meira en bara að bíða eftir björguninni.
Þótt okkar kærleiksríki faðir þrái að öll börn hans komi til hans, mun hann engan þvinga til himins.4 Guð mun ekki bjarga okkur þvert á vilja okkar.
Hvað verðum við þá að gera?
Boðið hans er einfalt:
„Snúið yður … til mín.“5
„Komið til mín.“6
„Nálgist mig og ég mun nálgast yður.“7
Þannig sýnum við honum að við viljum láta bjarga okkur.
Það krefst örlítillar trúar. Örvæntið þó ekki. Ef þið getið ekki sýnt trú einmitt núna, byrjið þá að vona.
Ef þið getið ekki sagt að Guð sé til, getið þið vonað að svo sé. Þið getið þráð að trúa.8 Það nægir til að byrja með.
Fylgið síðan þeirri von eftir og ákallið himneskan föður. Guð mun veita ykkur elsku sína og björgunar- og umbreytingarverk hans mun hefjast.
Með tímanum munuð þið sjá hönd hans í lífi ykkar. Þið munuð skynja elsku hans. Þrá ykkar til að vera í ljósi hans og fylgja honum mun verða sterkar í hverju trúarskrefi sem þið takið.
Við köllum þessi trúarskref „hlýðni.“
Á okkar tíma er þetta ekki vinsælt hugtak. Hlýðni er þó hugleikið hugtak í fagnaðarerindi Jesú Krists, því við vitum að „fyrir friðþægingu Krists geti allir menn orðið hólpnir með hlýðni við lögmál og helgiathafnir fagnaðarerindisins.“9
Þegar trú okkar styrkist, þá verður trúfesti okkar líka að aukast. Hér fyrr vitnaði ég í þýskan höfund, sem harmaði eyðileggingu Dresden. Hann skrifaði líka þessi orð: „Es gibt nichts Gutes, ausser: Man tut es.” Fyrir ykkur sem ekki talið hið himneska tungumál, þá mætti þýða þetta svo: „Ekkert gott hlýst nema það sé gert.“10
Við getum talað af mikilli færni um andlega hluti. Við gætum vakið hrifningu fólks með beittri og vitsmunalegri túlkun á trúarlegu efni. Við getum tjáð okkur af eldmóði um trúarlegt efni og „látið okkur dreyma um okkar himnesku húsakynni,“11 en ef við umbreytumst ekki fyrir trú okkar – ef trúin hefur ekki áhrif á okkar daglegu ákvarðanir – er trú okkar einskis virði og ef hún er ekki þegar dauð, þá er sú hætta fyrir hendi að hún dofni og hverfi loks alveg.12
Hlýðni er undirstaða trúar. Með því að hlýða fyllist sál okkar ljósi.
Stundum held ég að við misskiljum hlýðni. Við gætum skilið hlýðni sem lokatakmark, fremur en leið að lokatakmarkinu. Við getum, í óeiginlegri merkingu, lamið hamri hlýðninnar á járn boðorðanna, og reynt þannig að móta þá sem við elskum, með stöðugum höggum og hita, í himneskt heilagt efni.
Það er þó engum vafa undirorpið að stundum þarf að kalla okkur miskunnarlaust til iðrunar. Vissulega er aðeins hægt að ná til sumra á þann hátt.
Kannski er þó til önnur líking sem útskýrir ástæðu þess að við hlýðum boðorðum Guðs. Hlýðni snýst kannski ekki svo mikið um að beygja, snúa og vinda sál okkar og gera okkur að einhverju sem hún er ekki. Þess í stað er hún ferli til að skilja hver hinn raunverulegi efniviður okkar er.
Við erum sköpuð af almáttugum Guði. Hann er faðir okkar á himnum. Við erum bókstaflega andabörn hans. Við erum gerð úr afar dýrmætum og fáguðum himneskum efniviði og erum því hið innra gædd kjarna guðleikans.
Hér á jörðu verða hugsanir og verk fyrir áhrifum af því sem er spillandi, vanheilagt og óhreint. Ryk og óhreinindi heimsins hvíla á sálum okkar, svo okkur reynist erfitt að þekkja og muna eftir fæðingarrétti okkar og tilgangi.
Allt þetta fær þó ekki breytt því hver við í raun erum. Okkar guðlegi uppruni helst áfram sá sami. Um leið og við ákveðum að helga frelsaranum hjarta okkar, og fara ínn á veg lærisveinsins, mun nokkuð dásamlegt gerast. Elska Guðs fyllir hjarta okkar; ljós sannleikans fyllir huga okkar; það dregur úr löngun okkar til að syndga; og við viljum ekki lengur vera í myrkrinu.13
Við förum að sjá að hlýðni er ekki refsing, heldur vegur endurlausnar að okkar guðlega ákvörðunarstað. Smám saman mun svo ryk spillingar af okkur falla og hindranir þessarar jarðar hverfa. Að endingu mun hinn dýrmæti eilífi andi okkar himnesku tilveru koma í ljós og ljómi góðleikans verður okkur eðlislægur.
Þið verðskuldið björgun
Bræður og systur, mínir kæru vinir, ég ber vitni um að Guð sér okkur eins og við í raun erum – og honum finnst við verðskulda björgun.
Ykkur kann finnast líf ykkar rústir einar. Þið kunnið að hafa syndgað. Þið gætuð verið óttaslegin, reið, sorgmædd eða kvalin af efasemdum. Á sama hátt og góði hirðirinn finnur sinn týnda sauð, þá mun hann finna ykkur, ef þið aðeins komið til frelsarans af fúsu hjarta.
Hann mun koma ykkur til bjargar.
Hann mun lyfta ykkur og leggja á herðar sér.
Hann mun bera ykkur heim.
Ef dauðleg hönd getur endurbyggt dásamlegt tilbeiðsluhús úr rústum og braki, getum við verið viss um og reitt okkur á að okkar kærleiksríki himneski faðir geti og muni endurreisa okkur. Ætlun hans er að gera okkur að nokkru sem tekur langt fram því sem við vorum – meiru en við fáum með nokkru móti ímyndað okkur. Með hverju trúarskrefi sem við tökum á vegi lærisveinsins, munum vaxa til þeirrar eilífu dýrðar og óendanlegu gleði sem okkur var ætlað að gera.
Þetta er minn vitnisburður, blessun mín og auðmjúk bæn, í hinu helga nafni meistara okkar, Jesú Krists, amen.
© 2016 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/15. Þýðing samþykkt: 6/15. Þýðing á Visiting Teaching Message, May 2016. Icelandic. 12865 190