2017
Leita Krists á jólum
December 2017


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, desember 2017

Leita Krists á jólum

Fyrir alla sem vilja skilja hver við erum sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, þá ætla ég að leggja áherslu á skilgreiningu þessara þriggja orða: Við leitum Krists.

Við leitumst við að læra af honum. Að fylgja honum. Að verða líkari honum.

Við leitum hans sérhvern dag ársins. Einkum þó á þessum árstíma – jólum, er við minnumst fæðingar okkar ástkæra frelsara – þá snúum við hjörtum okkar að honum sem aldrei fyrr.

Við skulum gera það að hluta af jólaundirbúningi okkar að hugleiða hvernig þeir sem voru uppi fyrir tveimur árþúsundum síðan tóku fagnandi á móti frelsaranum.

Hirðarnir

Það er fremur lítið vitað hirðana, einungis að þeir voru „úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.“1 Hirðarnir voru líkast til nokkuð venjulegir menn, líkt og margar lofsverðar sálir sem takast á við daglegt líf og afla sér tekna.

Þeir gætu verið táknmynd þeirra, sem áður fyrr, voru ekki virkir í því að leita Krists, en upplifðu síðan breytingu í hjarta þegar himnarnir lukust upp og Kristur var þeim kunngerður.

Þetta eru þeir sem héldu þegar í stað til Betlehem til að fá séð, eftir að hafa hlustað á raddir himneskra sendiboða.2

Vitringarnir

Vitringarnir voru fræðimenn sem höfðu lært um komu Messíasar, sonar Guðs. Af lærdómi sínum gátu þeir auðkennt táknin sem vísuðu á fæðingarstað hans. Þegar þeir sáu táknin birtast, þá héldu þeir af stað frá heimilum sínum til Jerúsalem og spurðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga?“3

Þekking þeirra á Kristi var ekki aðeins fræðileg. Þegar þeir loks sáu táknin um fæðingu hans, þá brugðust þeir við. Þeir einsettu sér að finna Krist.

Vitringarnir gætu verið táknmynd þeirra sem leita Krists í gegnum lærdóm og fræðimennsku. Dálæti þeirra á sannleikanum leiddi loks til þess að þeir fundu Krist og vegsömuðu hann sem konung konunganna, frelsara mannkyns.4

Símeon og Anna

Símeon og Anna gætu verið táknmynd þeirra sem leita Krists í gegnum andann. Þessar dásamlegu sálir voru trúræknar og væntu þess innilega að líta þann dag er sonur Guðs kæmi í heiminn, með því að fasta og biðjast fyrir og sýna tryggð og hlýðni.

Þau biðu þolinmóð komu frelsarans og auðsýndu tryggð, auðmýkt og trú.

Að því kom svo að trúfesti þeirra bar ávöxt, er María og Jósef sýndu þeim barnið sem dag einn myndi taka á sig syndir alls mannkyns.5

Hinir trúuðu meðal Nefíta og Lamaníta

Hina hugljúfu frásögn um hvernig hinir trúuðu í Nýja heiminum gættu að táknunum um fæðingu frelsarans má finna í Mormónsbók.

Eins og þið munið, þá voru þeir sem trúðu á Krist hæddir og ofsóttir. Hinir veraldarvönu þess tíma sögðu hina trúuðu gleypa við heimskulegri bábilju. Í raun þá voru hinir vantrúuðu svo háværir að þeir ollu „miklu uppnámi“ um allt landið (3 Ne 1:7). Þeir spottuðu þá sem trúðu því að frelsari myndi fæðast.

Reiði og úlfúð þeirra var slík að þeir urðu helteknir því að þagga í eitt skipti fyrir öll niður í þeim sem trúðu á frelsarann. Í Mormónsbók er sagt frá hinum afdrifaríku lyktum.6

Hinir trúuðu sem voru uppi á þeim tíma gætu verið táknmynd þeirra sem leita Krists, þrátt fyrir háð, spott og ögranir annarra. Þeir leita Krists, þrátt fyrir að aðrir reyni að skopstæla þá sem óheflaða, einfalda og auðtrúa.

Þeir sem trúa af einlægni láta þó ekki lítilsvirðingu annarra draga úr sér kjark við að leita Krists.

Við leitum Krists

Allt árið um kring og þó kannski einkum á jólum, gerði það okkur gott að spyrja okkur enn á ný: „Hvernig leita ég Krists?“

Á erfiðu tímabili lífs síns, ritaði hinn mikli konungur, Davíð: „Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég, sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig, í þurru landi, örþrota af vatnsleysi.“7

Kannski var þetta viðhorf Davíðs að leita Guðs ein af þeim ástæðum að hann var sagður maður eftir Guðs hjarta.8

Megum við á þessum jólum, og allt árið um kring, leita okkar ástkæra frelsara af öllu hjarta og allri sálu, Friðarhöfðingjans, hins heilaga Ísraels. Því ef við þráum það, þá sýnir það, að miklu leyti, ekki aðeins hver við erum sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, heldur jafnvel enn frekar hver við erum sem lærisveinar Krists.

Prenta