Reglur hirðisþjónustu, júní 2019
Hirðisþjónusta er að sjá fólk með augum frelsarans
Jesús varði mestum tíma meðal þeirra sem voru öðruvísi. Hann sá guðlega möguleika þeirra.
Í þeirri viðleitni að þjóna eins og frelsarinn gerði, gætum við verið beðin um að þjóna einhverjum sem er ólíkur okkur. Það felur í sér tækifæri til að læra og vaxa.
Ólík menning, menntun, kynþáttarstaða, efnahagur, aldur, núverandi eða fyrrverandi breytni, eða annað sem skilur okkur að, getur fengið okkur til að fella dóma yfir fólki áður en við kynnumst því. Slíkir áfellisdómar eiga rætur í fordómum og frelsarinn varaði við þeim (sjá 1 Sam 16:7; Jóh 7:24).
Getum við horft framhjá því sem skilur okkur að og séð aðra með augum frelsarans? Hvernig getum við lært að elska aðra eins og þeir eru og geta orðið?
Verið athugul og sýnið elsku
Í Biblíunni er hin kunna saga um unga, ríka manninn, sem spurði hvernig öðlast ætti eilíft líf: „Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: Eins er þér vant. Far þú, sel allt, sem þú átt, og gef fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan, og fylg mér“ (Mark 10:21).
Þegar öldungur S. Mark Palmer, af hinum Sjötíu, ígrundaði ritningarnar fyrir nokkrum árum, laukst skyndilega upp fyrir honum skilningur á frásögninni:
„,Jesús horfði á hann með ástúð.‘
Er ég heyrði þessi orð, þá fyllti huga minn ímynd af Drottni, gefa sér tíma og virða þennan unga mann fyrir sér. Virða hann fyrir sér – eins og að horfa djúpt og í gegnum sál hans, meðvitaður um góðmennsku hans og möguleika, ásamt því að greina mestu þörf hans.
Þá voru það einföldu orðin – [Jesús elskaði hann.] Hann fann til yfirgnæfandi kærleika og samhygðar gagnvart þessum góða, unga manni og vegna þessarar elsku og með þessari elsku þá ætlaðist Jesús til meira af honum. Ég ímynda mér hvernig þessum unga manni hefur liðið að vera umvafinn slíkum kærleik, jafnvel þegar hann var beðinn um að gera eitthvað sem var eins ótrúlega erfitt eins og að selja allt sem hann átti og gefa það fátækum.…
[Ég spyr mig sjálfan]: „Hvernig get ég verið uppfullur kristilegum kærleika þannig að [fólk] geti skynjað elsku Guðs í gegnum mig og þráð að breytast?“ Hvernig get ég séð [samferðafólk mitt] á sama hátt og Drottinn sá ríka unga manninn, sjá þau fyrir það hver þau raunverulega eru og hver þau geta orðið, frekar en bara fyrir það hvað þau eru að gera eða ekki gera? Hvernig get ég verið líkari frelsaranum?”1
Lærið að sjá fólk
Að læra að sjá fólk með augum frelsarans, er afar gefandi. Hér eru nokkrar gagnlegar ábendingar til að keppa að því marki.
-
Kynnist fólki
Leggið á ykkur að kynnast fólki betur en aðeins yfirborðslega. Gerið ykkur ljóst að tíma og kostgæfni þarf til að byggja upp sambönd. (Sjá greinina „Þróa innilegt samband,“ reglur hirðisþjónustu, ágúst 2018, til hjálpar.) -
Skoðið ykkur sjálf
Hugið að meðvitaðri eða ómeðvitaðri gagnrýni sem vaknar hjá ykkur. Hugið að ályktunum sem þið dragið um aðra og reynið að átta ykkur á ástæðu þess viðhorfs sem þið hafið til þeirra. -
Forðist áfellisdóma
Gerið ykkur ljóst að einstaklingsvirðið ákvarðast ekki af aðstæðum. Setjið ykkur í spor fólks og hugleiðið hvernig þið mynduð vilja að það sæi ykkur, ef þið væruð í aðstæðum þess. Að aðskilja atferli og breytni fólks frá hinum raunverulegu gildum þess og guðlegu möguleikum, getur hjálpað okkur að sjá það eins og frelsarinn hefði séð það. -
Biðjið fyrir því að elska fólk
Biðjið reglubundið fyrir fólki með nafni og að geta þróað sanna vináttu af þolinmæði. Íhugið þjónustu ykkar af kostgæfni. Samræmist það sem þið gerið raunverulegum þörfum fólks?
Jesús varði tíma meðal fólks með fjölbreyttan bakgrunn, hinum ríku, fátæku, valdamiklu og venjulegu. Oft sætti hann óréttmætri gagnrýni af hálfu fólks, er það virti hann fyrir sér og hans fátæklegu eða lítilvægu aðstæður, að því er virtist. „Hann var hvorki fagur né glæsilegur, svo að oss gæfi á að líta, né álitlegur, svo að oss fyndist til um hann. Hann var fyrirlitinn … og vér mátum hann einskis“ (Jes 53:2–3).
Kristilegt viðhorf
Systir nokkur segir þessa sögu um að læra að líta nágranna kristilegum augum:
„Júlía (nafni hefur verið breytt) bjó nærri mér og virtist vinalaus. Hún virtist alltaf ósátt og skapvond. Þrátt fyrir það, ákvað ég að vingast við hana. Ekki einungis sem skammvinnur vinur, heldur sannur vinur. Þegar ég sá hana talaði ég alltaf við hana og sýndi áhuga á því sem hún hafði fyrir stafni. Smám saman styrkti ég vinskap okkar, sem veitti mér hjartans gleði.
Dag einn ákvað ég að heimsækja Júlíu og spyrja hana um ástæðu þess að hún kæmi ekki í kirkju.
Ég komast að því að enginn fjölskyldumeðlimur eða ættingi bjó nærri henni. Eina systkini hennar, bróðir sem bjó langt í burtu, átti einungis samskipti við hana einu sinni á ári í síma. Þegar ég hlustaði á hana úthella biturð sinni, reiði og vonbrigðum gagnvart fjölskyldu sinni og kirkjunni, upplifði ég sterka og óyggjandi samkennd og elsku til þessarar systur. Ég fann fyrir vonbrigðum hennar og sársauka. Mér varð ljóst hve einmanalegt líf hennar var. Það var líkt og ég heyrði sagt hljóðlega fyrir aftan mig: ,Ég elska hana líka. Elska hana og virði.‘
Ég sat og hlustaði þar til hún hafði úttalað sig. Ég fann samkennd og elsku til hennar. Þetta var systir sem aldrei hafði upplifað að vera elskuð. Skyndilega dýpkaði skilningur minn á henni. Ég þakkaði henni fyrir að leyfa mér að koma í heimsókn og skildi við hana með faðmlagi og elsku og virðingu. Hún mun aldrei vita hversu snortin ég var í þessari heimsókn. Himneskur faðir opnaði augu mín og kenndi mér að ég gæti elskað af meiri samkennd. Ég er staðráðin í því að vera ekki einungis vinur hennar, heldur líka fjölskylda hennar.“
Það er helgur hlutur að vera boðið inn í líf annars. Við getum, með bæn, þolinmæði og liðsinni andans, lært að gera það með kristilegra viðhorfi.
© 2019 Intellectual Reserve, Inc. All rights reserved. Printed in USA. Samþykkt á ensku: 6/18. Þýðing samþykkt: 6/18. Þýðing á Ministering Principles, June 2019. Icelandic. 15767 190