2019
Get ég hjálpað einhverjum að breytast?
Ágúst 2019


Ljósmynd
ministering

Reglur hirðisþjónustu, ágúst 2019

Get ég hjálpað einhverjum að breytast?

Já. Hlutverk ykkar gæti þó verið annað en þið haldið.

Við vorum sköpuð með þeim eiginleika að geta tekið umskiptum. Að vaxa í átt að okkar guðlegu möguleikum, er tilgangur hins dauðlega lífs okkar. Eitt megin markmið okkar með hirðisþjónustu, er að hjálpa öðrum að koma til Krists og gera nauðsynlegar breytingar til að komast aftur í návist hans. Sökum sjálfræðis annarra, er geta okkar takmörkuð til að hjálpa öðrum að verða líkari Kristi.

Hér eru sjö áhrifaríkar lexíur frá frelsaranum um hvernig við getum hjálpað öðrum í viðleitni þeirra til að breytast og verða líkari honum.

  1. Óttist ekki að hvetja fólk til að breytast

    Frelsarinn óttaðist ekki að bjóða öðrum að láta af gömlum venjum og taka á móti kenningum sínum. Hann bauð Pétri og Jóhannesi að yfirgefa atvinnu sína, svo þeir mættu „menn veiða“ (Markús 1:17). Hann bauð konunni sem staðin var að hórdómi: „Far þú, syndga ekki framar“ (Jóhannes 8:11). Hann bauð ríka unga manninum að láta af veraldarhyggju sinni og fylgja sér (sjá Markús 10:17–22). Við getum líka verið bæði djörf og ástúðleg þegar við hvetjum aðra til að gera breytingar og fylgja frelsaranum.

  2. Hafið í huga að það er val fólks að breytast

    Sú breyting sem frelsarinn leggur til verður ekki þvinguð fram. Frelsarinn kenndi og hvatti, en þvingaði aldrei. Ungi ríki maðurinn fór „brott hryggur“ (Matteus 19:22). Í Kapernaum „hurfu“ margir lærisveina hans „frá“ og hann spurði hina Tólf að því hvort þeir hygðust líka fara (sjá Jóhannes 6:66–67). Sumir fylgjenda Jóhannesar skírara völdu að fylgja frelsaranum og aðrir ekki (sjá Jóhannes 1:35–37; 10:40–42). Við getum boðið öðrum að líkjast honum meira, en ekki tekið ákvörðun fyrir þá um að breytast. Ef þeir hafa enn ekki tekið ákvörðun um að breytast, ættum við ekki að gefast upp – eða finnast við hafa brugðist.

  3. Biðjið fyrir því að fólk geti breyst

    Í hinni miklu fyrirbæn sinni, bað Jesús þess að Guð varðveitti þá frá hinu illa, að þeir mættu verða líkari sér og föðurnum og fyllast kærleika Guðs (sjá Jóhannes 17:11, 21–23, 26). Frelsarinn bað líka fyrir Pétri, því hann vissi að hann þyrfti styrk til að vaxa upp í hlutverk sitt (sjá Lúkas 22:32). Bænir okkar fyrir öðrum geta komið miklu til leiðar (sjá Jakob 5:16).

  4. Kennið fólki að treysta á mátt hans

    Það er einungis fyrir frelsarann sem við getum sannlega breyst og vaxið í átt að þeim guðlegu möguleikum sem búa í okkur öllum. Hann er „vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir [hann]“ (Jóhannes 14:6). Það er hans máttur sem mun „láta hið veika verða [að] styrk“ (Eter 12:27). Það var trú á mátt friðþægingar hans sem gerði Alma yngri kleift að breytast (sjá Alma 36:16–23). Við getum kennt öðrum að setja traust sitt á frelsarann, svo þeir fái líka notið hreinsandi máttar hans.

  5. Komið fram við fólk með eilífa möguleika þess í huga

    Elska og viðurkenning geta verið áhrifamiklir eiginleikar til breytingar. Konan við brunninn bjó með manni sem var ekki eiginmaður hennar. Lærisveinar Jesú „furðuðu sig á því, að hann [væri] að tala við [konuna] (Jóhannes 4:27), en Jesús hugsaði meira um eilífa möguleika hennar. Hann kenndi henni og sýndi henni fram á að hún gæti breyst, sem hún og gerði. (Sjá Jóhannes 4:4–42.)

    Þegar við komum fram við fólk eins og það hefur verið, en ekki eins og það getur orðið, getum við dregið úr möguleikum þess. Þess í stað getum við fyrirgefið og gleymt gömlum mistökum. Við getum haft trú á að aðrir geti breyst. Við getum leitt hjá okkur veikleika annarra og sagt þeim frá jákvæðum eiginleikum sem þeir sjálfir hafa ekki greint í eigin fari. „Við berum ábyrgð á að sjá fólk eins og það getur orðið en ekki eins og það er.“1

  6. Leyfið fólki að breytast á eigin hraða

    Breytingar taka tíma. Öll þurfum við að „[halda] áfram af þolinmæði, þar til [við verðum fullkomnuð]“ (Kenning og sáttmálar 67:13). Jesús hafði þolinmæði með öðrum og hélt áfram að kenna, jafnvel þeim sem stóðu gegn honum, og vitnaði um hlutverk sitt frá föður sínum og svaraði spurningum þeirra (sjá Matteus 12:1–13; Jóhannes 7:28–29). Við getum verið þolinmóð við aðra og hvatt þá til að vera þolinmóða gagnvart sjálfum sér.

  7. Gefist ekki upp þótt fólk falli aftur í sama farið

    Eftir að Kristur dó, hurfu jafnvel Pétur og sumir hinna postulanna til þess sem þeim var áður tamt að gera (sjá Jóhannes 21:3). Kristur áminnti Pétur um að hann þyrfti að „[gæta] lamba [sinna]“ (sjá Jóhannes 21:15–17) og Pétur tókst aftur á við þjónustu sína. Alltof auðvelt getur reynst að falla aftur í gamla farið. Við getum áfram veitt stuðning með ljúfri og innblásinni hvatningu til að fólk fylgi frelsaranum og reyni að verða líkara honum.

Leyfið fólki að vaxa

Öldungur Jeffrey R. Holland í Tólfpostulasveitinni, sagði sögu sem tengist því að leyfa öðrum að vaxa: „Mér var eitt sinn sagt frá ungum manni sem í mörg ár hafði verið skotspónn allra í skólanum. Hann átti erfitt uppdráttar og jafnöldrum hans reyndist auðvelt að stríða honum. Hann flutti síðar í burtu. Hann fór að lokum í herinn og náði þar nokkuð góðum árangri í öflun menntunar og sneri að mestu baki við eigin fortíð. Mikilvægara var þó að hann uppgötvaði, líkt og margir í herþjónustu gera, fegurð og mikilfengleika kirkjunnar og varð virkur og glaður í henni.

Hann sneri síðan aftur til æskuborgar sinnar að nokkrum árum liðnum. Flestir af hans kynslóð höfðu sótt á ný mið, en ekki allir. Þegar hann koma til baka, eftir nokkra velgengni og breyttur maður, var sama gamla viðhorfið gagnvart honum augljóslega ríkjandi og beið hans þar. Hvað fólkið í heimaborg hans varðaði, var hann enn sami gamli ‚gaurinn.‘ …

Smám saman dró úr mætti þessa manns til að segja skilið við hið liðna og festa tökum á þeim fjársjóði sem Guð hafði ætlað honum og að því kom að hann dó í sama ástandi og hann hafði búið við í æsku. … Sárt og sorglegt var að hann skildi aftur lenda meðal … þeirra sem fannst fortíð hans áhugaverðari en framtíð hans. Þeim tókst að hrifsa af honum það sem Kristur hafði gefið honum. Hann dó því sorgmæddur og bar litla sök á því sjálfur. …

Leyfið fólki að iðrast. Leyfið fólki að vaxa. Trúið að fólk geti breyst og orðið betra.“2

Heimildir

  1. Thomas S. Monson, “See Others as They May Become,” Liahona, nóv. 2012, 70.

  2. Jeffrey R. Holland, “The Best Is Yet to Be,” Liahona, jan. 2010, 19, 20.

Prenta