Boðskapur svæðisleiðtoga
Finna fyrir og fylgja andanum – læra um það sem við skynjum
Ég uppgötvaði fyrst sem trúboði hvernig það var að finna fyrir heilögum anda af fullvissu. Það var ekki svo, að ég hafði ekki áður fundið fyrir andanum, heldur vissi ég ekki fyrir víst að um andann væri að ræða. Meira að að segja áður en ég gekk í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, minnist ég tilfinninga frá heilögum anda í lífi mínu. Andinn reyndi að hafa áhrif á mig með tilfinningum sem virtust tengjast annarri kunnugri leiðsögn, svo sem samvisku minni. Þótt þeim svipaði til, þá fann ég að tilfinningar frá andanum voru ekki samviska sjálfs míns, en þær gætu, líkt og samviskan, verið afar fínar og auðveldlega yfirskyggðar af öðrum tilfinningum.
Þótt ég hefði ekki vitað margt um tilfinningar andans á þeim tíma, þá hafði mér lærst að byrja að treysta slíkum tilfinningum þegar þær vöknuðu. Ég man að þessar tilfinningar hjálpuðu mér að ákveða að ganga í kirkjuna og vöktu mér þrótt til að þjóna öðrum, hvatningu til iðrunar og eftirvæntingu þegar ég lærði sannleika og fann gæsku lífsins. Þessar tilfinningar voru mér fullvissa um að fagnaðarerindi Jesú Krists veitti mér afar mikilvæga hamingju, sem ég vildi að yrði hluti af lífi mínu og þeirra sem ég elskaði.
Þar sem ég gat ekki með góðu móti lýst tilfinningum mínum sem „brjóst [mitt brynni] hið innra“1 og mér fannst hinar mildu tilfinningar hjarta míns ekki samræmast hinum andfylltu fullyrðingum sem ég heyrði frá mörgum heilögum á föstu- og vitnisburðasamkomum, þá fannst mér ég ekki hafa hina fyrirheitnu sannfæringu sem frá himnum kæmi. Því meira sem ég bar mig saman við aðra, því lítilsverðari virtist upplifun mín verða. Þótt ég væri þakklátur fyrir að hafa þessar traustu og mildu tilfinningar mér til leiðsagnar, þá hafði ég enn ekki þróað með mér fullvissu um að þær væru hinar fyrirheitnu tilfinningar heilags anda.
Sem trúboði, lærði ég nánast dag hvern af öðrum sem nutu leiðsagnar andans í lífi sínu. Það var þá sem skrif Páls vöktu mér skilning. Mér varð ljóst, að þegar Páll talaði um ,ávöxt andans,‘ þá var hann að vísa til hluta andans sem við upplifum – við höfum jú bragðað ávöxt. Hann var að reyna að tjá hvernig hann upplifði tilfinningar andans. Hann kenndi að „ávöxtur andans [væri]: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi…“2. Ég gat ekki lýst með einu orði eða tveimur hvernig ávöxtur bragðast. Þannig var það líka með lýsingu Páls á ávöxtum andans, hann lýsti hinum ýmsa ,bragðkeim‘ sem hann skynjaði þegar hann fann fyrir anda Drottins. Þetta var bragðkeimur sem ég fann líka fyrir. Þetta veitti mér fullvissu, skilning og sjálfstraust. Úr því að Páll hafði hlotið leiðsögn frá andanum, þá átti það líka við um mig!
Upplifun mín af ávexti andans, gæti verið mér ólíkari bragðkeimur, en upplifun annarra af honum, en hvorttveggja er jafn gilt. Ég bragðaði ekki öðrum til ánægju og bragðkeimur annarra var ekki mér ætlaður. Við brögðum öll sjálfum okkur til farsældar og leiðsagnar.
Frá þessum tíma hef ég reynt að hvetja til þessara gleðilegu tilfinninga leiðsagnar andans og fylgja þeim. Þær halda mér alltaf á vegi lífs og hamingju3. Upplifun mín staðfestir, að þegar við virðumst tæplega hafa skynjað nóg til að fylgja andanum, þá nægir það þó til þess að við getum valið að fylgja honum!
Við getum, til að auka guðlega leiðsögn í lífi okkar, farið að þessari hvetjandi innsýn Nelson forseta: „Ekkert er áhrifaríkara við að ljúka upp gáttum himins eins og samspilandi þættir aukins hreinleika, algjörrar hlýðni, einlægrar leitar, daglegrar endurnæringar á orðum Krists í Mormónsbók og reglubundins tíma sem helgaður er musteris- og ættarsögustarfi.“4