„Miðla ljósi frelsarans um jólin,“ Líahóna, desember 2020
Reglur hirðisþjónustu, desember 2020
Miðla ljósi frelsarans um jólin
Hugsið um þá sem þið þjónið. Hvernig getið þið aðstoðað þau við að komast nær Kristi þessi jólin.
Á sama tíma og við minnumst frelsarans Jesú Krists allt árið, þá eru jólin sá tími er við fögnum mestu gjöf sem gefin hefur verið: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn“ (Jóhannes 3:16). Þegar við þjónum um jólin, getum við einnig gefið gjafir sem hjálpa öðrum að nálgast frelsarann meira. Það er yndislegt að hugsa um okkur endurspegla þá gjöf er himneskur faðir gaf.
Ég met enn þá gjöf.
Susan Hardy, Kaliforníu, Bandaríkjunum
Þegar ég var 11 ára, sagði sunnudagaskólakennari minn, bróðir Deets, bekknum okkar að ef við lærðum Trúaratriðin utanbókar og útskýrðum þau fyrir honum, myndi hann gefa okkur okkar eigin ritningar.
Bróðir og systir Deets voru ung hjón, bara rétt að hefja lífið saman. Ég var ekki viss um að bróðir Deets myndi hafa efni á því að kaupa ritningar handa okkur öllum. Ég ákvað samt að ef hann héldi að Trúaratriðin væru nægilega mikilvæg til að læra utanbókar, myndi ég taka áskoruninni.
Eftir að hafa lokið við öll 13 leið tíminn og ég gleymdi öllu um loforðið.
Svo um jólin fékk ég pakka, merktan mér. Ég opnaði hann og fann ritningar, bara handa mér, með korti sem hvatti mig til að lesa þær reglulega. Þetta var árið 1972 og allt til þessa dags held ég upp á þessar ritningar. Þær eru mér enn dýrmætar.
Það var ekki kostnaðurinn heldur góðvildin sem hann sýndi mér og fórnin sem hann var tilbúinn að færa fyrir mig sem veitti mér djúpa þrá til að læra orð Guðs. Ég reyni að fylgja fordæmi bróður Deets í þjónustu með því að veita fólki í kringum mig þýðingarmiklar gjafir, í von um að geta blessað líf annarra eins og hann blessaði mitt.
Boð um að taka þátt
Richard M. Romney, Utah, Bandaríkjunum
Ég var óöruggur þegar þeir sem skipulögðu jólaskemmtunina í deildinni okkar báðu mig að heimsækja lítt virkan meðlim og bjóða honum að taka þátt í dagskránni. Ég hafði bara hitt Darren einu sinni áður, þegar hann tók þátt í öðrum deildarviðburði. Hann hafði verið með mótórhjólaennisband á höfðinu. Sítt, hvítt hár hans hafði verið í tagli, skegg hans var mikið og hvítt og handleggir hans þaktir húðflúrum.
Nú stóð ég við dyr Darren með öðrum nefndarmeðlimi og hugleiddi mögulegt svar hans. Hann bauð okkur inn og við sögðum honum ástæðu þess að við værum komnir. Svar hans var: „Ó, ég hefði gaman að því!“
Hann stóð sig frábærlega vel og lagði sitt fram við að gera viðburðinn þýðingarmikinn fyrir marga. Stuttu síðar voru ég og þjónustufélagi minn beðnir að heimsækja Darren reglulega. Hann virtist alltaf glaður að sjá okkur og við áttum ánægjulegar samræður. Ég er þakklátur fyrir að sá innblástur að bjóða honum að taka þátt í deildarviðburðinum hafi leitt til svo hjartfólgins sambands.
Þjóna öðrum um jólin
Hér eru nokkrir hlutir sem þið getið gert til að sjá til þess að þau sem þið þjónið viti að þið eruð að hugsa til þeirra, sérstaklega á þessum árstíma.
-
Stundum breytir það heilmiklu að fá bara símtal eða textaskilaboð. Það getur gert heilmikið ef þið bara hefjið samtal með „hæ, hvernig hefur þú það?“
-
Takið þátt í hátíðarhöldum þeirra þegar það er viðeigandi. Jólin geta verið góður tími til að læra um þau gildi sem þið eigið sameiginleg. Þegar þið deilið skoðunum ykkar og hlustið á aðra, opnið þið dyr að dýpri skilningi.
-
Biðjið fyrir þeim með nafni. Biðjið himneskan föður að hjálpa ykkur að finna leiðir til að færa þau nær syni hans.
-
Oft eru einfaldar gjafir minnistæðastar. Gjafir þurfa ekki að vera íburðarmiklar til að vera metnar. Að gefa af tíma sínum, að hlusta, að miðla ljósmynd eða minningu – geta allt verið gjafir frá hjartanu.
-
Gefið gjöf vitnisburðar. Biðjið þau að deila með ykkur elsku þeirra til frelsarans og bjóðist til að gera slíkt hið sama fyrir þau.
-
Bjóðið öðrum að koma á jólasamkomu. Sumir vilja tilbiðja en vita ekki hvert skal fara. Bjóðið þeim að koma með ykkur.
-
Fyllið heimili þeirra friði. Látið þau vita að trúboðarnir eru með sérstakan jólaboðskap sem þeir geta miðlað, sem mun færa von og kærleika inn í hjörtu þeirra.
Þjónum öllum sem söfnuður.
Þarfir allra söfnuða eru einstakar. Sumir njóta góðs af því að skipuleggja stóra viðburði. Aðrir söfnuðir gætu haft hag af einhverju smærra í sniðum og einfaldara. Þeir sem taka þátt í að gera áætlanir og skipuleggja viðburði ættu að hugleiða í bænarhug hvernig hægt væri að mæta núgildandi þörfum.
-
Meðlimir frá stikunum þremur í París, Frakklandi, veittu kvöldsamkomunni Light the World, (Vera heiminum ljós) stuðning sinn og þar mátti finna hæfileika- og tískusýningu. Þeir undirbjuggu gjafapoka sem voru afhendir flóttamönnum og heimilislausum einstaklingum.
-
Stikan í Charlotte, Norður Karólínu, bauð upp á „Christmas around the World“ (Jól um allan heim) fyrir samfélagið, veislu sem haldin var til að fagna Kristi með mat, sýningu á alþjóðlegum jólahefðum, tónlist, þjónustuverkum og leikþætti um fæðingu frelsarans.
-
Meðlimir í Stikunni í Vero Beach, Flórída, tóku þátt í samfélagslegri áminningu um ástæðu þess að við höldum jól. Leikföng voru gefin til góðgerðarsamtaka í samfélaginu. Barnafélagskór kom fram og margar kirkjur voru með upplýsingabása.
-
Stikan í Jacksonville, Flórída, hafði sýninguna Frelsari heimsins fyrir samfélagið.
© 2020 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in USA. Samþykkt á ensku: 6/19. Þýðing samþykkt: 6/19. Þýðing á Ministering Principles, Desember 2020. Icelandic. 16727 190