2021
Jesús Kristur frelsaði okkur frá synd og dauða
Apríl 2021


„Jesús Kristur frelsaði okkur frá synd og dauða,“ Líahóna, apríl 2021

Líahóna: Mánaðarlegur boðskapur, apríl 2021

Jesús Kristur frelsaði okkur frá synd og dauða

Við getum fundið eilífan frið og gleði, sökum fórnar hans.

Ljósmynd
Síðasta kvöldmáltíðin

Kristur skapar jörðina, eftir Robert T. Barrett

Við vísum til Jesú Krists sem frelsara okkar. Það er vegna þess að hann galt gjaldið fyrir syndir okkar og sigraði dauðann. Hann bjargaði okkur! Fórn hans fyrir okkur, sem er nefnd friðþægingin, er mikilvægasti atburður sem gerst hefur. Sökum hans er dauðinn ekki endir alls. Sökum hans getum við hlotið fyrirgefningu synda okkar, orðið hrein aftur og orðið betri dag hvern.

Jesús Kristur var hinn frumgetni

Áður en við komum til jarðar, bjuggum við hjá himneskum foreldrum okkar. Jesús Kristur, sem hinn frumgetni, hjálpaði við sköpun þessarar fallegu jarðar. Hann var útvalinn til að verða frelsari okkar og samþykkti að fæðast á jörðu, svo hann gæti sýnt fullkomið fordæmi, kennt fagnaðarerindi sitt og fullkomnað friðþægingu sína fyrir okkur.

Ljósmynd
Jesús Kristur biðst fyrir í Getsemane

Ó, faðir minn, eftir Simon Dewey

Jesús Kristur galt fyrir syndir okkar

Þegar Jesús vissi að hann mundi brátt deyja, fór hann í garð sem hét Getsemane til að biðjast fyrir. Á meðan að á þeirri bæn stóð hóf hann að greiða gjaldið fyrir syndir okkar. Hann þjáðist sjálfviljugur, svo við þyrftum ekki að gera það – ef við iðrumst. Ef við látum af syndum okkar og fylgjum frelsaranum þess í stað, getum við fundið fyrirgefningu og lækningu. Jesús skilur nákvæmlega aðstæður okkar allra, vegna upplifunar sinnar í Getsemane. Hann upplifði allar okkar sorgir, sjúkdóma og sársauka. Þetta er fyrsti hluti friðþægingarinnar.

Ljósmynd
greftrun Krists

Greftrun Krists, eftir Carl Heinrich Bloch

Jesús Kristur sigraði dauðann

Eftir bæn Jesú í Getsemane, var hann svikinn, tekinn höndum og dæmdur til dauða með krossfestingu. Þótt Jesús væri almáttugur, þá gekkst hann við því að deyja á krossinum. Fylgjendur hans settu líkama hans af umhyggju í gröf. Þeir vissu ekki að þótt líkami hans væri líflaus, þá var andi hans lifandi í andaheiminum. Þremur dögum síðar lifnaði Jesús aftur við og vitjaði þeirra, til að staðfesta að hann hefði sigrað dauðann. Þetta fullkomnaði friðþæginguna. Sökum þess að Jesús var uppreistur, þá mun hvert okkar lifa aftur eftir að við deyjum.

Ljósmynd
Kristur og María við gröfina

Hann lifir, eftir Simon Dewey

Merking jóla og páska

Stór hluti heims heldur hátíðlega tvo helgidaga til minningar um friðþægingu Jesú Krists. Á jólum minnumst við með þakklæti að Jesús var fús til að framfylgja því hlutverki sínu að koma til jarðar, þótt það fæli í sér að þjást og deyja fyrir okkur. Á páskum höldum við upp á sigur frelsarans yfir synd og dauða, sem veitir okkur von um eilífa framtíð og gleði.

Ljósmynd
Kristur kallar Pétur og Andrés

Kristur kallar Pétur og Andrés, eftir James Taylor Harwood

Hvað segja ritningarnar um friðþægingu frelsarans?

Þar sem Jesús þekkir okkur fullkomlega, þá getur hann „liðsinnt“ eða hjálpað okkur (sjá Alma 7:11–12).

Frelsarinn skilur sorgir okkar og harm (sjá Jesaja 53: 2–5).

Guð sendi Jesú til að frelsa okkur, því Guð elskar hvert okkar (sjá Jóhannes 3:16–17).

Jesús bað fyrir fylgjendum sínum, þar á meðal okkur, að þeir yrðu verndaðir frá hinu illa og yrðu eitt með honum og himneskum föður (sjá Jóhannes 17).

Frelsarinn býður okkur að fylgja sér og snúa aftur í návist sína (sjá Kenning og sáttmálar 19:16–19, 23–24; 132:23).

Prenta