2022
Hinn ævarandi sáttmáli
Október 2022


„Hinn ævarandi sáttmáli,“ Líahóna, okt. 2022.

Mánaðarlegur boðskapur Líahóna, október 2022

Hinn ævarandi sáttmáli

Allir þeir sem hafa gert sáttmála við Guð, hafa aðgang að sérstökum kærleika og náð.

mynd af Jesú Kristi

Drottinn Jesús Kristur, eftir Del Parson

Í þessum heimi sem er hrjáður af stríðum og fréttum af stríðum, er þörfin fyrir sannleika, ljós og hinn hreina kærleika Jesú Krists meiri en nokkru sinni fyrr. Fagnaðarerindi Krists er dýrðlegt og við erum blessuð af því að læra það og lifa í samræmi við reglur þess. Við gleðjumst yfir þeim tækifærum okkar að miðla því – að vitna um sannleika þess, hvar sem við erum.

Ég hef oft talað um mikilvægi sáttmála Abrahams og samansöfnunar Ísraels. Þegar við meðtökum fagnaðarerindið og erum skírð, tökum við á okkur hið heilaga nafn Jesú Krists. Skírnin er hliðið sem leiðir til þess að menn verða samarfar allra þeirra fyrirheita sem Drottinn gaf Abraham, Ísak, Jakob og afkomenda þeirra til forna.1

„Hinn nýi og ævarandi sáttmáli“2 (Kenning og sáttmálar 132:6) og sáttmáli Abrahams eru í megin atriðum eitt og hið sama – tvær leiðir til að orða sáttmála Guðs við jarðneska karla og konur á mismunandi tímum.

Lýsingarorðið ævarandi gefur til kynna að þessi sáttmáli hafi verið til jafnvel áður en heimurinn var grundvallaður! Áætlunin sem lögð var fram á stórþinginu á himnum fól í sér þann alvarlega raunveruleika að við yrðum öll útilokuð frá nærveru Guðs. Guð lofaði þó að hann myndi sjá okkur fyrir frelsara sem myndi sigrast á afleiðingum fallsins. Guð sagði við Adam eftir skírn hans:

„Þú ert eftir reglu hans, sem var án upphafs daganna eða loka áranna, frá allri eilífð til allrar eilífðar.

Sjá, þú ert eitt í mér, sonur Guðs. Og þannig geta allir orðið synir mínir“ (HDP Móse 6:67–68).

Adam og Eva tóku á móti helgiathöfn skírnar og hófu það ferli að verða eitt með Guði. Þau höfðu farið inn á sáttmálsveginn.

Þegar þið og ég förum líka inn á þann veg, verður lífsmáti okkar annar. Með því sköpum við samband við Guð sem gerir honum mögulegt að blessa og breyta okkur. Sáttmálsvegurinn leiðir okkur aftur til hans. Ef við látum Guð ríkja í lífi okkar, mun þessi sáttmáli leiða okkur stöðugt nær honum. Öllum sáttmálum er ætlað að vera bindandi. Þeir skapa samband með eilífum böndum.

Sérstakur kærleikur og náð

Þegar við gerum sáttmála við Guð, verðum við aldrei aftur hlutlaus. Guð mun ekki fyrirgera sambandi sínu við þá sem hafa bundist honum slíkum böndum. Allir þeir sem hafa gert sáttmála við Guð, hafa aðgang að sérstökum kærleika og náð. Á hebresku er þessi sáttmálskærleikur kallaður hesed (חֶסֶד).3

Ekkert orð á ensku hefur sama ígildi og hesed. Þýðendur biblíuútgáfu Jakobs konungs hljóta að hafa átt erfitt með að gera hugtakinu hesed skil á ensku. Þeir völdu oft að nota orðið „lovingkindness [kærleiksgæska].“ Þetta hugtak felur nokkuð vel í sér merkingu orðsins hesed en ekki algjörlega. Aðrar þýðingar voru líka notaðar, svo sem „mercy [náð]“ og „goodness [gæska].“ Hesed er einstakt hugtak sem lýsir sáttmálssambandi þar sem báðir aðilar eru bundnir því að vera hvor öðrum tryggir og trúfastir.

Himneskt hjónaband er slíkt sáttmálasamband. Eiginmaður og eiginkona gera sáttmála við Guð og hvort annað, um að vera hvort öðru trygg og trú.

Hesed er sérstakur kærleikur og náð sem Guð hefur fyrir þá og veitist þeim sem gert hafa sáttmála við hann. Við endurgjöldum honum með hesed.

nýgift hjón fyrir utan musteri

Þegar þið og ég höfum gert sáttmála við Guð, verður samband okkar við hann miklu nánara en áður en við gerðum sáttmála okkar. Við erum nú bundin saman.

Ljósmynd eftir Jerry L. Garns

Þar sem Guð býr að hesed til þeirra sem hafa gert sáttmála við hann, mun hann elska þau. Hann mun áfram vinna með þeim og bjóða þeim tækifæri til að breytast. Hann mun fyrirgefa þeim þegar þau iðrast. Hann mun hjálpa þeim til baka, ef þau hafa villst af leið.

Þegar þið og ég höfum gert sáttmála við Guð, verður samband okkar við hann miklu nánara en áður en við gerðum sáttmála okkar. Við erum nú bundin saman. Vegna sáttmála okkar við Guð, mun hann aldrei þreytast á viðleitni sinni til að hjálpa okkur og við munum aldrei þurrausa hina náðarsamlegu þolinmæði hans til okkar. Sérhvert okkar á sér sérstakan stað í hjarta Guðs. Hann bindur miklar vonir við okkur.

Þið þekkið hina sögulegu yfirlýsingu Drottins til Josephs Smith. Hún barst með opinberun. Drottinn sagði við Joseph: „Þetta fyrirheit er einnig yðar vegna þess að þér eruð af Abraham komin og fyrirheitið var gefið Abraham“ (Kenning og sáttmálar 132:31).

Þessi ævarandi sáttmáli var því endurreistur sem hluti af hinni miklu endurreisn fagnaðarerindisins í fyllingu sinni. Hugleiðið þetta! Hjónabandssáttmáli sem gerður er í musterinu, á beinar rætur í þessum sáttmála Abrahams. Í musterinu er parinu kynnt allar blessanir sem geymdar eru hinum trúföstu niðjum Abrahams, Ísaks og Jakobs.

Þið og ég fórum persónulega inn á sáttmálsveginn við skírn, eins og Adam gerði. Við förum síðan enn lengra inn á hann í musterinu. Þessar blessanir sáttmála Abrahams eru veittar í helgum musterum. Þessar blessanir gera okkur mögulegt, við upprisu okkar, að „erfa hásæti, ríki, hátignir og völd, yfirráð, alla hæð og dýpt … til upphafningar [okkar] og dýrðar í öllu“ [Kenning og sáttmálar 132:19].“4

Í lokatexta Gamla testamentisins lesum við loforð Malakís, um að Elía muni „sætta feður við syni og syni við feður“ (Malakí 3:24). Í Ísrael til forna hefði slík tilvísun til feðranna innifalið feðurna Abraham, Ísak og Jakob. Þetta loforð er útskýrt betur við lestur annarrar útgáfu þessa vers, sem Moróní vitnaði í við spámanninn Joseph Smith: „Hann [Elía] mun gróðursetja í hjörtum barnanna fyrirheit þau, sem feðrunum voru gefin, og hjörtu barnanna munu snúast til feðra sinna“ (Joseph Smith – Saga 1:39). Þessir feður innifela vissulega Abraham, Ísak og Jakob. (Sjá Kenning og sáttmálar 27:9–10.)

mynd af Jesú Kristi

Þeim sem gera helga sáttmála og halda þá, er lofað eilífu lífi og upphafningu. Jesús Kristur er ábyrgðarðarmaður þessara sáttmála.

Hluti af Kristur og ríki ungi höfðinginn, eftir Heinrich Hofmann

Jesús Kristur: Þungamiðja sáttmálans

Friðþægingarfórn frelsarans gerði föðurnum mögulegt að uppfylla loforð sín við börn sín. Þar sem Jesús Kristur er „vegurinn, sannleikurinn og lífið,“ þá fylgir í kjölfarið að „enginn kemur til föðurins nema fyrir [hann]“ (Jóhannes 14:6). Uppfylling sáttmála Abrahams verður möguleg vegna friðþægingar frelsara okkar, Drottins Jesú Krists. Jesús Kristur er þungamiðja sáttmála Abrahams.

Gamla testamentið er ekki aðeins ritningabók; hún er líka sögubók. Þið munið eftir að hafa lesið um hjónaband Saraí og Abrams. Þar sem þau voru barnlaus gaf Saraí ambátt sína, Hagar, til að verða eiginkona Abrams, í samræmi við fyrirmæli Drottins. Hagar fæddi Ísmael.5 Abram elskaði Ísmael, en hann átti ekki að verða það barn sem sáttmálinn færi gegnum. (Sjá 1. Mósebók 11:29–30; 16:1, 3, 11; Kenning og sáttmálar 132:34.)

Sem blessun frá Guði og til að bregðast við trú Saraí, 6 þá varð hún þunguð á efri árum, svo að sáttmálinn færi gegnum son hennar, Ísak (sjá 1. Mósebók 17:19). Hann fæddist í sáttmálanum.

Guð gaf Saraí og Abram ný nöfn – Sara og Abraham (sjá 1. Mósebók 17:5, 15). Þessi nýja nafngjöf markaði upphaf nýs lífs og nýrra örlaga þessarar fjölskyldu.

Abraham elskaði bæði Ísmael og Ísak. Guð sagði Abraham að Ísmael myndi fjölga sér og verða mikil þjóð (sjá 1. Mósebók 17:20). Guð gerði jafnframt ljóst að hinn eilífi sáttmáli yrði gerður fyrir milligöngu Ísaks (sjá 1. Mósebók 17:19).

Allir sem taka á móti fagnaðarerindinu verða hluti af ættarlínu Abrahams. Í Galatabréfinu lesum við:

„Þið öll, sem eruð skírð til samfélags við Krist, hafið íklæðst Kristi.

… Þið eruð öll eitt í Kristi Jesú.

Ef þið eruð í samfélagi við Krist þá eruð þið niðjar Abrahams og erfið það sem honum var heitið“ (Galatabréfið 3:27–29).

Við getum þannig orðið erfingjar sáttmálans, hvort heldur með fæðingu eða ættleiðingu.

fólk kemur saman til skírnarathafnar

Þegar við gerum sáttmála við Guð, verðum við aldrei aftur hlutlaus. Guð mun ekki fyrirgera sambandi sínu við þau sem hafa bundist honum slíkum böndum.

Jakob, sonur Ísaks og Rebekku, fæddist í sáttmálanum. Auk þess valdi hann að ganga inn í hann af sjálfsdáðum. Eins og þið vitið þá var nafni Jakobs breytt í Ísrael (sjá 1. Mósebók 32:28), sem merkir „lát Guð ríkja“ eða „sá sem ríkir með Guði.“7

Í 2. Mósebók lesum við að „Guð [hafi minnst] sáttmála síns við feður þeirra, Abraham, Ísak og Jakob“ (2. Mósebók 2:24). Guð sagði við Ísraelsmenn: „Ef þið nú hlýðið á mig af athygli og haldið sáttmála minn skuluð þið verða sérstök eign mín“ (2. Mósebók 19:5).

Orðtakið „sérstök eign“ er þýðing hebreska orðsins segullah, sem merkir eign sem er mikils virði – „fjársjóður.“8

5. Mósebók segir frá mikilvægi sáttmálans. Postular Nýja testamentisins vissu af þessum sáttmála. Eftir að Pétur hafði læknað haltan mann á musteriströppunum, kenndi hann áhorfendum um Jesú. Pétur sagði: „Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs, hefur gert þjón sinn, Jesú, dýrlegan“ (Postulasagan 3:13).

Pétur lauk orðum sínum á því að segja við áheyrendur: „Þið eruð börn spámannanna og eigið hlut í sáttmálanum sem Guð gerði við forfeður ykkar er hann sagði við Abraham: Af þínu afkvæmi skulu allar ættkvíslir jarðarinnar blessun hljóta“ (Postulasagan 3:25). Pétur gerði þeim ljóst að hluti af hlutverki Krists væri að uppfylla sáttmála Guðs.

Drottinn flutti svipaða prédikun fyrir íbúum Ameríku til forna. Þar sagði hinn upprisni Kristur fólkinu hver þau í raun væru. Hann sagði:

„Og sjá. Þér eruð börn spámannanna og af húsi Ísraels, og þér tilheyrið sáttmálanum, sem faðirinn gjörði við feður yðar, er hann sagði við Abraham: Af þínu afkvæmi skulu allar ættkvíslir jarðar blessun hljóta.

Fyrir yður hefur faðirinn allra fyrst uppvakið mig og sent mig til að blessa yður með því að snúa sérhverjum yðar frá misgjörðum sínum. Og þetta er vegna þess, að þér eruð börn sáttmálans“ (3. Nefí 20:25–26).

Skiljið þið mikilvægi þessa? Þeir sem halda sáttmála sína við Guð munu verða að ættstofni syndþolinna sálna! Þeir sem halda sáttmála sína munu hafa styrk til að standa gegn stöðugum áhrifum heimsins.

maður meðtekur sakramentið

Þeir sem halda sáttmála sína við Guð munu verða að ættstofni syndþolinna sálna! Þeir sem halda sáttmála sína munu hafa styrk til að standa gegn stöðugum áhrifum heimsins.

Trúboðsstarf: Miðla sáttmálanum

Drottinn hefur boðið að við breiðum út fagnaðarerindið og miðlum sáttmálanum. Það er þess vegna sem við höfum trúboða. Hann óskar þess að öll börn sín fái tækifæri til að velja fagnaðarerindi frelsarans og fara inn á sáttmálsveginn. Guð vill tengja alla menn við sáttmálann, sem hann gerði til forna við Abraham.

Trúboðsstarfið er því ómissandi hluti af hinni miklu samansöfnun Ísraels. Sú samansöfnun er það mikilvægasta sem á sér stað á jörðunni í dag. Ekkert annað er jafn umfangsmikið. Ekkert annað er jafn mikilvægt. Trúboðar Drottins – lærisveinar hans – taka þátt í mestu áskoruninni, mikilvægasta málstaðnum, mikilvægasta starfinu á jörðu á okkar tíma.

Það er jafnvel enn meira – mikið meira. Það er gríðarleg þörf á að breiða út fagnaðarerindið til fólks beggja vegna hulunnar. Guð vill að allir, beggja megin hulunnar, njóti blessana sáttmála hans. Sáttmálsvegurinn er öllum opinn. Við sárbiðjum alla að ganga þann veg með okkur. Ekkert annað verk er svo allt umlykjandi. Því „Drottinn er miskunnsamur öllum þeim, sem af einlægu hjarta vilja ákalla hans heilaga nafn“ (Helaman 3:27).

Þar sem Melkísedeksprestdæmið hefur verið endurreist, þá hafa karlar og konur sem halda sáttmála sína aðgang að „öllum andlegum blessunum fagnaðarerindisins (Kenning og sáttmálar 107:18; skáletrað hér).

Við vígslu Kirtland-musterisins árið 1836 birtist Elía, undir handleiðslu Drottins. Tilgangur hans? „Til að snúa … [börnunum] til feðranna“ (Kenning og sáttmálar 110:15). Elía birtist líka. Tilgangur hans? Til að fela Joseph Smith og Oliver Cowdery „ráðstöfun fagnaðarboðskapar Abrahams, [og segja] að með okkur og niðjum okkar verði allar kynslóðir eftir okkur blessaðar“ (Kenning og sáttmálar 110:12). Þannig veitti meistarinn Joseph Smith og Oliver Cowdery prestdæmisvaldið og réttinn til að miðla öðrum hinum einstöku blessunum sáttmála Abrahams.9

Í kirkjunni förum við sáttmálveginn bæði persónulega og sameiginlega. Rétt eins og hjónabönd og fjölskyldur búa að sérstöku sameiginlegu sambandi, sem knýr fram sérstakan kærleika, svo og gerir hið nýja samband sem verður til þegar við bindum okkur Guði persónulega með sáttmála!

Þetta kann að vera það sem Nefí átti við þegar hann sagði að Guð „elskar þá, sem vilja hafa hann að Guði sínum“ (1. Nefí 17:40). Þetta er einmitt ástæða þess að sérstök náð og kærleikur – eða hesed – stendur öllum þeim til boða sem ganga inn í þetta bindandi og nána samband við Guð, já, „í þúsund ættliði“ (5. Mósebók 7:9).

Að gera sáttmála við Guð, breytir sambandi okkar við hann um eilífð. Sáttmálinn blessar okkur með kærleika og náð í enn ríkari mæli.10 Hann hefur áhrif á það hver við erum og hvernig Guð hjálpar okkur að verða að því sem við getum orðið. Okkur er lofað að hann taki okkur líka „sér til [sérstakrar] eignar“ (Sálmarnir 135:4).

Fyrirheit og forréttindi

Þeim sem gera helga sáttmála og halda þá, er lofað eilífu lífi og upphafningu, „en sú gjöf er mest allra gjafa Guðs“ (Kenning og sáttmálar 14:7). Jesús Kristur er er ábyrgðarmaður þessara sáttmála (sjá Hebreabréfið 7:22; 8:6). Sáttmálshaldendur sem elska Guð og leyfa honum að ríkja yfir öllu öðru í eigin lífi, gera hann að mesta áhrifavaldi lífs síns.

Á okkar tíma njótum við þeirra forréttinda að hljóta patríarkablessanir og vitneskju um tengsl okkar við forfeðurna. Þessar blessanir veita líka innsýn í það sem framundan er.

Jesús ræðir við Pétur

Vegna sáttmála okkar við Guð, mun hann aldrei þreytast á viðleitni sinni til að hjálpa okkur og við munum aldrei þurrausa hina náðarsamlegu þolinmæði hans til okkar.

Elskar þú mig meira en þessir? eftir David Lindsley

Köllun okkar sem sáttmáls-Ísrael, er að tryggja að hver meðlimur kirkjunnar skilji þá gleði og þau forréttindi sem fylgja því að gera sáttmála við Guð. Það er ákall til að hvetja alla sem halda sáttmála, karl og konu, dreng og stúlku, til að miðla þeim fagnaðarerindinu sem eru á áhrifasvæði þeirra. Það er líka ákall til að styðja og hvetja trúboða okkar, sem eru sendir út með boð um að skíra og hjálpa við samansöfnun Ísraels, svo að við getum saman verið fólk Guðs og hann verði Guð okkar (sjá Kenning og sáttmálar 42:9).

Hver karl og hver kona sem tekur þátt í helgiathöfnum prestdæmisins og gerir og heldur sáttmála við Guð, hefur beinan aðgang að krafti Guðs. Við tökum nafn Drottins á okkur sem einstaklingar. Við tökum líka nafn hans á okkur sem fólk. Að vera áhugasamur um að nota rétt nafn Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, er mikilvæg leið til að við sem fólk tökum nafn hans á okkur. Sérhvert kærleiksverk Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu og meðlima hennar, er tjáning á hesed Guðs.

Af hverju var Ísrael tvístrað? Af því að fólkið braut boðorðin og grýtti spámennina. Kærleiksríkur en syrgjandi faðir brást við með því að tvístra Ísrael vítt og breitt.11

Hann tvístraði honum þó með loforði um að sá tími kæmi að Ísrael yrði aftur safnað saman í hjörð hans.

Ættkvísl Júda var gefin sú ábyrgð að búa heiminn undir fyrri komu Drottins. María, sem tilheyrði þeirri ættkvísl, var kölluð til að verða móðir sonar Guðs.

Ættkvísl Jósefs, gegnum syni hans og Asenatar, Efraím og Manasse (sjá 1. Mósebók 41:50–52; 46:20), var falin sú ábyrgð að vera leiðandi í samansöfnun Ísraels, til að búa heiminn undir síðari komu Drottins.

Með slíku ævarandi hesed sambandi, er það bara eðlilegt að Guð vilji safna saman Ísrael. Hann er faðir okkar á himnum! Hann vill að - öll börn sín – beggja vegna hulunnar – hlýði á boðskap hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists.

Kærleiksverkvegur

Sáttmálsvegurinn er kærleiksverkvegur – hins dásamlega heseds, hinnar kærleiksríku umhyggju gagnvart hvert öðru og liðsinnis. Að upplifa þann kærleika er frelsandi og upplyftandi. Mesta gleðin sem þið munuð nokkurn tíma upplifa, er þegar þið eruð fyllt kærleika til Guðs og allra barna hans.

Að elska Guð meira alla og allt, er það ástand sem færir sannan frið, huggun, fullvissu og gleði.

Sáttmálsvegurinn snýst eingöngu um samband okkar við Guð – okkar hesed samband við hann. Þegar við gerum sáttmála við Guð, höfum við gert sáttmála við þann sem mun alltaf halda orð sín. Hann mun gera allt sem hann getur, án þess að brjóta á sjálfræði okkar, til að hjálpa okkur að halda orð okkar.

Mormónsbók hefst og lýkur með því að vísa til þessa eilífa sáttmála. Frá titilsíðu sinni til lokavitnisburðar Mormóns og Morónís, vísar Mormónsbók til sáttmálans (sjá Mormón 5:20; 9:37). „Framkoma Mormónsbókar er tákn til alls heimsins um að Drottinn hefur hafið samansöfnun Ísraels og er að uppfylla þá sáttmála sem hann gerði við Abraham, Ísak, og Jakob.“12

Kæru bræður og systur, við höfum verið kölluð á þessum mikilvæga tíma í sögu jarðar til að kenna heiminum um fegurð og kraft hins eilífa sáttmála. Himneskur faðir treystir okkur skilyrðislaust til að vinna þetta mikla verk.

Þessi boðskapur var líka fluttur á leiðtogafundi aðalráðstefnu 31. mars 2022.

Heimildir

  1. Sjá Russell M. Nelson, „Children of the Covenant,“ Ensign, maí 1995, 34.

  2. Hinn nýi og ævarandi sáttmáli er fylling fagnaðarerindis Jesú Krists. Það felur í sér allar helgiathafnir og sáttmála sem nauðsynlegir eru til sáluhjálpar (sjá Kenning og sáttmálar 66:2). Hann er „nýr“ hvenær sem Drottinn endurnýjar eða endurreisir hann og hann er „ævarandi“ af því að hann breytist ekki.

  3. Ítarlega umfjöllun um hesed og hinn ævarandi sáttmála má finna í grein Kerrys Muhlestein, God Will Prevail: Ancient Covenants, Modern Blessings, and the Gathering of Israel (2021).

  4. Russell M. Nelson, í „Special Witnesses of Christ,” Liahona, apríl 2001, 7.

  5. Hebreska hugtakið Ísmael merkir „Guð heyrir“ (Bible Dictionary, „Ishmael“).

  6. „Fyrir trú öðlaðist Abraham kraft til að eignast son og þó var Sara óbyrja og hann komin yfir aldur. Hann treysti þeim sem fyrirheitið hafði gefið“ (Hebreabréfið 11:11).

  7. Bible Dictionary, „Israel.“

  8. Sjá Bible Dictionary, „Peculiar“; „orðabókina Hebrew and Chaldee Dictionary,“ Strong’s Exhaustive Concordance of the Bible (1984), 82, orð 5459.

  9. Sjá Russell M. Nelson, „Thanks for the Covenant“ (trúarsamkoma Brigham Young háskóla, 22. nóv. 1988), 4, speeches.byu.edu.

  10. „Allir sáttmálar við Guð fela í sér tækifæri til að komast nær honum. Hverjum þeim sem hugleiðir andartak hvað þeir hafa þegar fundið varðandi kærleika Guðs, þá verður það ómótstæðilegt boð að styrkja tengslin og sambandið nánar“ (Henry B. Eyring, „Making Covenants with God“ [kvöldvaka í Brigham Young háskóla, 8. sept. 1996], 3, speeches.byu.edu).

  11. “En um leið lét Drottinn þessa tvístrun sinnar kjörnu þjóðar meðal þjóða heimsins verða þeim þjóðum til blessunar“ (Leiðarvísir að ritningunum, „Ísrael,“ scriptures.ChurchofJesusChrist.org; sjá einnig Jakob 5:1-8, 20).

  12. Russell M. Nelson, „The Future of the Church: Preparing the World for the Savior’s Second Coming,“ Liahona, apríl 2020, 9.