2023
Búa sig undir að fara í musterið
Desember 2023


„Búa sig undir að fara í musterið,“ Líahóna, des. 2023.

Mánaðarlegur boðskapur Líahóna, desember 2023

Búa sig undir að fara í musterið

fólk á gangi upp að Ogden-musterinu í Utah

Ljósmynd af Ogden-musterinu í Utah, eftir Mark Brunson

Í musterum Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu getum við tekið á móti heilögum sáttmálum og helgiathöfnum fyrir okkur sjálf og áa okkar. Við förum í musterið til að sýna kærleika okkar og þakklæti til himnesks föður og Jesú Krists. Við getum búið okkur undir að fara í musterið með því að læra og lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists. Nánari upplýsingar um musteri er að finna í greininni „Musterisverk“ í helstu trúarreglum í októberútgáfu Líahóna 2021.

orð utan á Durban-musterinu í Suður-Afríku

Ljósmynd af Durban-musterinu í Suður-Afríku, eftir Matthew Reier

Hús Drottins

Musteri eru kölluð „hús Drottins“. Þau eru heilagir staðir þar sem við getum fundið anda Guðs og kærleika hans til okkar. Þau eru líka staðir þar sem við getum gert sáttmála og tekið á móti sérstökum helgiathöfnum sem búa okkur undir eilíft líf. (Sáttmálar eru heilög fyrirheit milli Guðs og barna hans.) Að vera trú sáttmálum okkar og meðtaka þessar helgiathafnir, hjálpar okkur að eiga sérstakt samband við himneskan föður og Jesú Krist.

ungmenni sem standa fyrir utan Guayaquil-musterið í Ekvador

Ljósmynd af Guayaquil-musterinu í Ekvador, eftir Janae Bingham

Hverjir geta farið í musterið?

Kirkjumeðlimir geta skírst fyrir látna í upphafi þess árs sem þeir verða 12 ára. Meðlimur getur hlotið musterisgjöfina ef hann eða hún er hið minnsta 18 ára, hefur verið meðlimur kirkjunnar í hið minnsta eitt ár og vill gera og halda musterissáttmála (sjá Almenn handbók: Þjónusta í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, 27.2.2, KirkjaJesuKrists.is). Karl og kona sem þegar hafa fengið musterisgjöf sína geta verið innsigluð (gift) um eilífð í musterinu.

Sáttmálar og helgiathafnir

Þið munuð gera sáttmála og taka á móti helgiathöfnum í musterinu. „Að ganga í sáttmálssamband við Guð, bindur okkur við hann, á þann hátt sem gerir allt við lífið auðveldara“ (Russell M. Nelson, „Sigrast á heiminum og finna hvíld,“ aðalráðstefna, okt. 2022). Helgiathöfn er heilög athöfn sem framkvæmd er með valdsumboði prestdæmisins. Helgiathafnir hafa djúpa andlega merkingu. Þegar þið til að mynda takið þátt í helgiathöfn, sýnið þið Guði að þið séuð fús til að meðtaka og halda sáttmála hans.

Persónulegur undirbúningur

Undirbúið ykkur andlega með því að fylgja kenningum Jesú Krists og halda þá sáttmála sem þið gerðuð við Guð í skírninni. Þið getið líka kynnt ykkur heimildir kirkjunnar, svo sem ritningarnar og aðalráðstefnuræður. Temples.ChurchofJesusChrist.org veitir upplýsingar um hvers vænta má þegar þið farið í musterið. Þar eru líka frekari upplýsingar um musterissáttmála, helgiathafnir og táknræna framsetningu.

fyrir utan Nauvoo-musterið í Illinois

Ljósmynd af Nauvoo-musterinu í Illinois, eftir Evu Tuft

Táknræn framsetning

Drottinn kennir oft með því að nota tákn. Dæmi um það er skírnin – að fara undir vatn og koma upp aftur – er táknrænt um dauða ykkar gamla manns og hinn nýja mann sem endurfæðist (sjá Rómverjabréfið 6:3–6). Musterishelgiathafnir vísa til Jesú Krists og friðþægingar hans. Það gæti verið erfitt að skilja alla hina táknrænu framsetningu í fyrsta skipti sem þið farið í musterið, en þið getið haldið áfram að læra út ævina þegar þið komið aftur í musterið.

Musterismeðmæli

Þið þurfið að vera tilbúin og verðug til að komast í musterið. Þið getið fengið meðmæli til að fara í musterið eftir viðtal við biskup ykkar eða greinarforseta og stiku- eða trúboðsforseta. Þessir leiðtogar munu spyrja spurninga til að tryggja að þið séuð að lifa eftir fagnaðarerindi Jesú Krists. Leiðtogar ykkar geta rætt við ykkur um þessar spurningar fyrir fram.

Fara aftur til musterisins í þágu áa ykkar

Himneskur faðir vill að öll börn hans geri sáttmála við sig og taki á móti helgiathöfnum. Þessar helgiathafnir, svo sem skírn og musterisgjöf, verða að fara fram í musterum fyrir þá sem dóu án þess að meðtaka fagnaðarerindið. Þið getið farið aftur í musterið til að gera helgiathafnir fyrir látin skyldmenni ykkar.