„Við erum kölluð til að gera gott,“ Líahóna, júní 2024.
Mánaðarlegur boðskapur: Líahóna, júní 2024
Við erum kölluð til að gera gott
Við byggjum ríki Guðs þegar við þjónum, höldum ljósi okkar á lofti og stöndum fyrir trúfrelsi.
Gídeon bar kennsl á falskenningar þegar hann heyrði þær. Hann hafði heyrt þær áður hjá Nóa konungi og prestum hans – prestum „sem hreyktu sér hátt í hroka hjarta síns“ og „var framfleytt … í leti sinni, falsguðadýrkun sinni og í hórdómi sínum, með sköttunum, sem Nóa konungur hafði lagt á þjóð sína“ (Mósía 11:5–6).
Það sem verra var, Nóa konungur hafði látið drepa spámanninn Abinadí og reynt að tortíma Alma og trúskiptingum hans (sjá Mósía 17; 18:33–34). Til að binda endi á slíka illsku, sór Gídeon að stöðva konung, sem hann hlífði eingöngu vegna innrásar Lamaníta (sjá Mósía 19:4–8).
Síðar kenndi Gídeon prestum Nóa réttilega um brottnám 24 dætra Lamaníta. Hann veitti því athygli að spádómur Abinadí gegn fólkinu hefði ræst, þar sem það neitaði að iðrast. (Sjá Mósía 20:17–22.) Hann átt þátt í frelsun þjóðar Limís, sem voru í ánauð Lamaníta (sjá Mósía 22:3–9).
Gídeon, orðinn eldri, bauð enn eina ferðina drambi og illsku birginn er hann stóð frammi fyrir Nehor, sem hafði innleitt prestaslægð meðal fólksins. Nehor „[beitti sér] gegn kirkjunni“ og reyndi að leiða fólk á villigötur. (Sjá Mósía 1:3, 7, 12; sjá einnig 2. Nefí 26:29.)
Nehor beitti Guðs orði sem vopni og ávítti Nehor fyrir illvirki sín. Nehor reiddist og drap Gídeon með sverði sínu. (Sjá Alma 1:7–9.) Þannig lauk dögum „réttláts manns“ sem „gjört [hafði] mikið gott meðal þessarar þjóðar“ (Alma 1:13).
Hinir síðari dagar sem við lifum á, bjóða upp á fjölmörg tækifæri til að líkja eftir Gídeon sem „verkfæri í höndum Guðs“ (Alma 1:8) með því að „þjóna“ (Mósía 22:4) öðrum, standa fyrir réttlæti og standast ógnir við frelsi okkar til að tilbiðja Guð og þjóna honum. Þegar við fylgjum fordæmi Gídeons getum við einnig komið miklu góðu til leiðar.
Sameinast í þjónustu
Æðsta forsætisráðið hefur sagt: „Sem fylgjendur [frelsarans], sækjumst við eftir að elska Guð og náunga okkar um heim allan. Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu vill óðfús blessa aðra og hjálpa nauðstöddum. Við erum blessuð með getu, úrræðum og áreiðanlegu heimslægu tengslaneti til að inna af hendi þessa helgu ábyrgð.“1
Ég er þakklátur fyrir þá óeigingjörnu þjónustu sem meðlimir kirkjunnar veita í musterum okkar og í deildum sínum, greinum og stikum. Ég er einnig þakklátur fyrir að meðlimir kirkjunnar þjóni í ótal félaga-, mennta- og góðgerðarsamtökum og að þeir taki þátt í þúsundum mannúðarverkefnum árlega og gefi milljónir klukkustunda í nær 200 löndum og landsvæðum.2
Ein leið kirkjunnar til að bjóða upp á fjölbreytt þjónustutækifæri í ýmsum löndum er JustServe.org. JustServe.org, sem er styrkt af kirkjunni en í boði fyrir hvern þann sem vill blessa aðra, „tengir þá sem þurfa á sjálfboðaliðum að halda í samfélaginu við sjálfboðaliða“ sem „auðga lífsgæðin í samfélaginu“.3
Kirkjan og meðlimir hennar eiga í samstarfi við þjónustusamtök víða um heim. Kirkjan, þökk sé meðlimum hennar, var „stærsti staki blóðgjafi Rauða krossins árið 2022“. Til viðbótar lagði kirkjan nýlega 8,7 milljónir dollara til Rauða krossins.4
Kirkjan starfar einnig með samtökum við að flytja hreint vatn og vatnshreinsunarverkefni til ýmissa svæða um heim allan. Árið 2022 tók kirkjan þátt í 156 slíkum verkefnum.5 Við vinnum líka með og gefum til annarra aðila sem veita aðstoð þjáðum börnum Guðs.6
„Þegar við tökum höndum saman til að þjóna fólki í nauð,“ sagði Henry B. Eyring forseti, annar ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, „mun Drottinn sameina hjörtu okkar.“7
Halda ljósi yðar á loft
Sem lærisveinar frelsarans, blessum við einnig náunga okkar þegar við höldum sáttmála okkar og lifum kristilegu lífi. Mormónsbók kennir að fólk kirkjunnar þurfi ekki bara að velja réttlæti, heldur þurfi það einnig að láta í réttlæti sínu heyra ef það óskar þess að Drottinn verndi það og láti því vegna vel (sjá Alma 2:3–7; sjá einnig Mósía 29:27). Drottinn væntir þess að við miðlum trú okkar og höldum ljósi okkar á loft. „Sjá, ég er ljósið, sem þér skuluð halda á loft“ (3. Nefí 18:24).
„Við þjónum frelsara okkar ekki vel ef við óttumst manninn meira en Guð,“ sagði Dallin H. Oaks forseti, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu. Hann bætti við: „Við erum kölluð til að setja á stofn staðla Drottins, ekki fylgja stöðlum heimsins.“8
Hvort sem við erum í skólanum, í vinnunni, við leik, í fríi, á stefnumóti eða á netinu, þá „[blygðast lærisveinar Drottins sín ekki] fyrir að taka á sig nafn Krists“ (Alma 46:21). Með orði okkar og verki, vitnum við um að Guð lifir og að við fylgjum syni hans.
„Trú okkar er ekki skipt niður, eða henni ætti vissulega ekki að vera það. Trú er ekki bara fyrir kirkju, ekki bara fyrir heimilið, ekki bara fyrir [skóla],“ sagði Paul Lambert, Síðari daga heilagur sérfræðingur í trúarlegri fjölhyggju. „Hún er fyrir allt sem þið takið ykkur fyrir hendur.“9
Við vitum ekki hvaða áhrif vitnisburður okkar, gott fordæmi og góðverk gætu haft á aðra. En þegar við stöndum fyrir hið rétta og höldum ljósi frelsarans á loft, mun fólk veita okkur athygli og himnarnir hvetja okkur.
Standa fyrir trúfrelsi
Prestaslægð nútímans, þar sem sífellt veraldlegri samfélög beita sér gegn trúuðu fólki, er ekki mjög frábrugðin þeirri á tímum Mormónsbókar. Raddir þeirra sem standa gegn hinu mikilvæga hlutverki trúarbragða á almennum og pólitískum vettvangi verða sífellt háværari. Veraldarhyggjufólk og ríkisstjórnir, ásamt mörgum skólum og háskólum, þvinga framferði og prédika ósiðsemi, trúleysi og siðmatsafstæði.
Árásir gegn trúfrelsi munu bera árangur ef við stöndum ekki upp fyrir trúarleg réttindi okkar. „Sem kirkja,“ kenndi ég nýlega, „sameinumst við öðrum trúarbrögðum í því að verja fólk af öllum trúarbrögðum og skoðunum og rétt þess til að tjá eigin sannfæringu.“10
Á himni var háð stríð yfir siðferðislegu sjálfræði – valfrelsi okkar. Það að varðveita valfrelsi okkar krefst þess að við verndum trúfrelsi okkar af kappi.
Lifandi trú styrkir og verndar fjölskyldur, samfélög og þjóðir. Hún leiðir af sér löghlýðni, innrætir virðingu fyrir lífi og eignum og kennir kærleika, heiðarleika og siðsemi – dyggðir sem nauðsynlegar eru til að viðhalda réttlátu, frjálsu og kurteisu samfélagi. Við þurfum aldrei að afsaka trú okkar.
Trúboðsstarf okkar, staðgengilsverk okkar í musterinu, viðleitni okkar í að byggja ríki Guðs og hamingja okkar krefjast þess að við stöndum fyrir trú og trúfrelsi. Við getum ekki glatað þessu frelsi án þess að frelsi okkar skerðist á annan hátt.
Spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „Það er frelsisástin sem innblæs sál mína – hið borgaralega og trúarlega frelsi alls mannkyns.“11 Trúarlegt frelsi mun einnig innblása sál okkar er við fylgjum leiðsögn kirkjuleiðtoga:
-
„Verið meðvituð um mikilvæg almenn málefni og látið í ykkur heyra af hugrekki og kurteisi.“12
-
„Gerið ykkur grein fyrir að niðurrif trúfrelsis mun hafa mikil áhrif á tækifæri okkar til að vaxa í styrk og þekkingu á fagnaðarerindinu, að hljóta blessanir helgiathafna og að reiða okkur á að Drottinn leiði kirkju sína.“13
-
„Standið upp og látið í ykkur heyra til að staðfesta að Guð sé til og að boðorð hans staðfesti fullkominn sannleika.“14
-
„Standið gegn lögum sem myndu skerða frelsi okkar til að iðka trú okkar.“15
-
„Farið út í heiminn til að gera gott, byggja upp trú á almáttugan Guð og til að hjálpa við að færa aðra á hamingjusamari stað.“16
-
Skoðið heimildir á religiousfreedom.ChurchofJesusChrist.org og á religiousfreedomlibrary.org/documents.
Við byggjum ríki Guðs þegar við þjónum, höldum ljósi okkar á lofti og stöndum fyrir trúfrelsi. Megi Drottinn blessa okkur í viðleitni okkar til að gera „mikið gott“ í fjölskyldu okkar, samfélagi og þjóð.
© 2024 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in USA. Samþykkt á ensku: 6/19. Þýðing samþykkt: 6/19. Þýðing á Monthly Liahona Message, June 2024. Icelandic. 19347 190