Ritningar
3 Nefí 5


5. Kapítuli

Nefítar iðrast og láta af syndum sínum — Mormón skrifar sögu þjóðar sinnar og boðar henni hið ævarandi orð — Ísrael mun safnað saman eftir langvarandi tvístrun. Um 22–26 e.Kr.

1 Og sjá. Engin lifandi sála meðal Nefíta var nú í minnsta vafa um orð allra hinna heilögu spámanna, sem töluð höfðu verið, því að þeir vissu, að þau hlytu að koma fram.

2 Og þeir vissu, að Kristur hlyti að hafa komið, vegna hinna mörgu tákna, sem gefin höfðu verið í samræmi við orð spámannanna. Og vegna þess, sem þegar var orðið, vissu þeir, að allt annað, sem talað hafði verið, hlyti að rætast.

3 Þess vegna létu þeir af öllum syndum sínum, viðurstyggð og hórdómi og þjónuðu Guði af kappi dag og nótt.

4 Og nú bar svo við, að þegar þeir höfðu tekið alla ræningjana til fanga, en enginn komst undan, sem ekki var drepinn, vörpuðu þeir föngum sínum í fangelsi og létu prédika Guðs orð fyrir þeim. Og öllum þeim, sem vildu iðrast synda sinna og gjöra sáttmála um að myrða aldrei framar, var gefið frelsi.

5 En allir þeir, sem ekki gjörðu sáttmála og enn báru leynda morðþrá í hjörtum sér, já, allir þeir, sem höfðu í hótunum við bræður sína, voru dæmdir og þeim refsað í samræmi við lögin.

6 Og þannig bundu þeir enda á öll þessi ranglátu, leynilegu og viðurstyggilegu samtök, en slíku hafði fylgt mikið ranglæti og fjöldi morða.

7 Og þannig leið tuttugasta og annað árið, einnig tuttugasta og þriðja árið og tuttugasta og fjórða og það tuttugasta og fimmta. Og þannig voru tuttugu og fimm ár liðin.

8 Og margt hafði gerst, sem í augum sumra var bæði mikið og undursamlegt. Þó er ekki unnt að skrá það allt í þessa bók. Já, þessi bók getur ekki einu sinni geymt hundraðshluta af því, sem gjörðist meðal svo margra á tuttugu og fimm ára tímabili —

9 En sjá. Til eru heimildir, sem geyma alla sögu þessarar þjóðar, og Nefí skráði stytta en sanna frásögn.

10 Þess vegna hef ég skráð frásögn mína af þessum atburðum í samræmi við heimild Nefís, sem letruð var á töflur þær, er nefndust töflur Nefís.

11 Og sjá. Ég skrái heimildirnar á töflur, sem ég hef gjört með eigin höndum.

12 Og sjá. Ég er nefndur Mormón eftir Mormónslandi, þar sem Alma stofnaði kirkju sína meðal fólksins, já, fyrstu kirkjuna, sem stofnsett var meðal fólksins eftir lögmálsbrot þess.

13 Sjá, ég er lærisveinn Jesú Krists, sonar Guðs. Hann hefur kallað mig til að boða orð sitt meðal fólks síns, svo að það geti öðlast ævarandi líf.

14 Og samkvæmt vilja Guðs er við hæfi, að ég skrái heimild um það, sem gjört hefur verið, svo að bænir hinna heilögu, sem farnir eru héðan, uppfyllist í samræmi við trú þeirra —

15 Já, stutta heimild um það, sem átt hefur sér stað, frá því að Lehí yfirgaf Jerúsalem og fram að líðandi stundu.

16 Þess vegna skrái ég heimild mína eftir þeim frásögnum, sem fyrirrennarar mínir hafa gefið, allt fram á mína daga —

17 Og síðan skrái ég heimild um það, sem ég hef séð með eigin augum.

18 Og ég veit, að sú heimild, sem ég skrái, er rétt og sönn, en þó er margt, sem við getum ekki skráð á tungu okkar.

19 Og nú lýk ég að segja frá sjálfum mér, en held áfram frásögn minni af því, sem varð fyrir mína tíð.

20 Ég er Mormón og beinn afkomandi Lehís. Ég hef ástæðu til að blessa Guð minn og frelsara minn Jesú Krist fyrir að leiða feður okkar út úr landi Jerúsalem (og enginn vissi það utan hann sjálfur og þeir, sem hann leiddi úr landinu) og fyrir að veita mér og þjóð minni svo mikla þekking, sálum okkar til hjálpræðis.

21 Vissulega hefur hann blessað hús Jakobs og verið niðjum Jósefs miskunnsamur.

22 Og sem börn Lehís hafa haldið boðorð hans, svo hefur hann blessað þau með auðnu og velgengni í samræmi við orð sitt.

23 Já, og vissulega mun hann enn leiða leifarnar af niðjum Jósefs til þekkingar á Drottni Guði sínum.

24 Og svo sannarlega sem Drottinn lifir, mun hann safna saman frá öllum skautum jarðar öllum þeim leifum af niðjum Jakobs, sem dreifðar eru um gjörvallt yfirborð jarðar.

25 Og á sama hátt og hann gjörði sáttmála við allt hús Jakobs, já, þá mun sá sáttmáli, sem hann gjörði við hús Jakobs, uppfyllast þegar honum sjálfum hentar, þar til allt hús Jakobs hefur verið endurreist til þekkingar á sáttmálanum, sem hann gjörði við þá.

26 Og þá skulu þeir þekkja lausnara sinn, sem er Jesús Kristur, sonur Guðs. Og þá skulu þeir safnast frá öllum fjórum hlutum jarðar til síns eigin lands, sem þeir tvístruðust frá. Já, svo sannarlega sem Drottinn lifir, þá skal það verða. Amen.