2. Kapítuli
Amlikí reynir að verða konungur, en rödd þjóðarinnar hafnar honum — Fylgjendur hans taka hann til konungs — Amlikítar heyja stríð við Nefíta en bíða ósigur — Lamanítar og Amlikítar sameinast en bíða ósigur — Alma ræður Amlikí af dögum. Um 87 f.Kr.
1 Og svo bar við, að í upphafi fimmta stjórnarárs dómaranna hófst ágreiningur meðal þjóðarinnar, því að maður nokkur, Amlikí að nafni, var mjög slóttugur, já, vitur maður á veraldarvísu, en hann tilheyrði sömu reglu og sá, er hjó Gídeon með sverði og tekinn var af lífi lögum samkvæmt —
2 Nú hafði þessi Amlikí með kænsku sinni dregið marga til sín, jafnvel svo marga, að þeir tóku að gjörast mjög öflugir. Og þeir reyndu að gjöra Amlikí að konungi yfir þjóðinni.
3 Nú ógnaði þetta fólki kirkjunnar og einnig öllum þeim, er ekki höfðu látið ginnast burt af fortölum Amlikís, því að þeir vissu, að samkvæmt lögum þeirra yrði rödd þjóðarinnar að ráða í slíkum málum.
4 Ef Amlikí tækist því að ná fólkinu á sitt band, mundi hann, sem var ranglátur maður, svipta það rétti sínum og réttindum kirkjunnar, því að hann ætlaði sér að tortíma kirkjunni.
5 Og svo bar við, að um gjörvallt landið safnaðist fólkið saman í aðskilda hópa, með eða móti Amlikí og deildi ákaft, og ágreiningurinn var ótrúlega mikill.
6 Þess vegna safnaðist fólkið saman til að segja álit sitt á þessu máli, og niðurstaðan var lögð fyrir dómarana.
7 Og svo bar við, að rödd þjóðarinnar var andsnúin Amlikí, þannig að hann var ekki gjörður að konungi yfir þjóðinni.
8 Þetta gladdi þá mikið, sem gegn honum voru, en Amlikí æsti þá, sem honum voru hliðhollir, til reiði gegn þeim, sem voru honum andsnúnir.
9 Og svo bar við, að þeir söfnuðust saman og vígðu Amlikí sem konung sinn.
10 Nú þegar Amlikí var orðinn konungur þeirra, skipaði hann þeim að taka upp vopn gegn bræðrum sínum, og þetta gjörði hann til að gjöra þá undirgefna sér.
11 Nú voru þegnar Amlikís auðkenndir með nafni Amlikís og kallaðir Amlikítar, en hinir, sem eftir voru, kölluðust Nefítar eða fólk Guðs.
12 Nefítar voru sér þess vegna meðvitandi, hvað fyrir Amlikítum vakti, og bjuggu sig því undir að mæta þeim. Já, þeir vopnuðust sverðum, sveðjum, bogum og örvum, sem og steinum og slöngum og alls konar stríðsvopnum af öllum gerðum.
13 Og þannig voru þeir undir það búnir að mæta Amlikítum, þegar þeir kæmu. Og liðsforingjar, herforingjar og yfirherforingjar voru skipaðir í samræmi við mannaforráð sín.
14 Og svo bar við, að Amlikí vopnaði menn sína hvers kyns stríðsvopnum af öllum gerðum. Og hann skipaði einnig stjórnendur og foringja yfir menn sína til að leiða þá í stríði gegn bræðrum sínum.
15 Og svo bar við, að þegar Amlikítarnir voru komnir upp á hæðina Amníú, sem var austan við Sídonsfljót, sem rann meðfram Sarahemlalandi, hófu þeir stríð gegn Nefítum.
16 Alma, sem var yfirdómari og landstjóri Nefíþjóðarinnar, hélt þess vegna með menn sína, já, með herforingja sína og yfirherforingja, já, í fararbroddi hersveita sinna, gegn Amlikítum til orrustu.
17 Og þeir tóku að vega Amlikíta á hæðinni austan við Sídon. Og Amlikítar börðust af miklum krafti við Nefíta, svo að margir Nefítar féllu fyrir Amlikítum.
18 En Drottinn veitti Nefítum styrk svo að mannfall varð mikið hjá Amlikítum, og þeir lögðu á flótta undan þeim.
19 Og svo bar við, að Nefítar veittu Amlikítum eftirför allan þann dag og felldu þá og mannfall varð slíkt, að tólf þúsund fimm hundruð þrjátíu og tvær sálir meðal Amlikíta létu lífið, en af Nefítum létu lífið sex þúsund fimm hundruð sextíu og tvær sálir.
20 Og svo bar við, að þegar Alma gat ekki lengur veitt Amlikítum eftirför, lét hann menn sína tjalda í Gídeonsdal, en dalurinn var nefndur eftir Gídeon, sem Nehor drap með sverði. Og í þessum dal reistu Nefítar tjöld sín fyrir nóttina.
21 Og Alma sendi út njósnara til að veita þeim, sem eftir voru af Amlikítum, eftirför til að komast að áformum þeirra og ráðabruggi, svo að hann gæti þannig varið sig gegn þeim og varðveitt fólk sitt frá tortímingu.
22 Mennirnir, sem hann sendi út til að hafa gætur á herbúðum Amlikíta, nefndust Seram, Amnor, Mantí og Limher. Þetta voru þeir, sem héldu af stað með menn sína til að hafa gætur á herbúðum Amlikíta.
23 Og svo bar við, að næsta dag sneru þeir aftur til herbúða Nefíta með miklum hraða, afar undrandi og óttaslegnir, og sögðu:
24 Sjá, við fylgdumst með herbúðum Amlikíta, og okkur til mikillar undrunar sáum við mikinn fjölda Lamaníta í landi Mínons, ofan við Sarahemlaland, í stefnu á Nefíland. Og sjá, Amlikítarnir eru gengnir í lið með þeim —
25 Og þeir hafa ráðist á bræður okkar í því landi, og þeir eru á flótta undan þeim með hjarðir sínar, eiginkonur og börn, í áttina að borg okkar. Og ef við höfum ekki hraðan á, ná þeir eignarhaldi á borg okkar, og feður okkar, eiginkonur og börn verða tekin af lífi.
26 Og svo bar við, að Nefímenn tóku tjöld sín og héldu úr Gídeonsdal í átt að borg sinni, en það var Sarahemlaborg.
27 Og sjá. Þegar þeir fóru yfir Sídonsfljót, réðust Lamanítar og Amlikítar, næstum jafn margir og sandkorn sjávarstrandar, á þá til að tortíma þeim.
28 Engu að síður styrkti hönd Drottins Nefítana, en þeir höfðu beðið hann heitt um að bjarga þeim úr höndum óvina sinna. Þess vegna heyrði Drottinn hróp þeirra og veitti þeim styrk, svo að Lamanítar og Amlikítar féllu fyrir þeim.
29 Og svo bar við, að Alma barðist í návígi við Amlikí með sverði, og þeir börðust hvor við annan af miklum krafti.
30 Og svo bar við, að Alma, sem var Guðs maður og mikill trúmaður, hrópaði og sagði: Ó Drottinn, sýndu miskunn og hlífðu lífi mínu, svo að ég megi vera verkfæri í þínum höndum til að frelsa þessa þjóð og varðveita hana.
31 Þegar Alma hafði mælt þessi orð, lagði hann aftur til bardaga við Amlikí, og honum veittist svo mikill styrkur, að hann felldi Amlikí með sverði.
32 Og hann barðist einnig við konung Lamaníta, en konungur Lamaníta flúði undan Alma og sendi verði sína til að berjast við hann.
33 En Alma barðist við verði konungs Lamaníta með vörðum sínum, þangað til hann ýmist felldi þá eða rak til baka.
34 Og þannig hreinsaði hann svæðið, eða réttara sagt bakkann, sem lá vestan við Sídonsfljót og kastaði líkum Lamaníta, sem fallið höfðu, í Sídonsvötn, svo að menn hans fengju þannig svigrúm til að komast yfir og berjast við Lamaníta og Amlikíta á vesturbakka Sídonsfljóts.
35 Og svo bar við, að þegar þeir voru allir komnir yfir Sídonsfljót, tóku Lamanítar og Amlikítar að flýja undan þeim, enda þótt þeir væru svo fjölmennir, að ekki yrði tölu á þá komið.
36 Og þeir flúðu undan Nefítum í áttina að óbyggðunum, sem voru til vesturs og norðurs, langt utan landamæra landsins. En Nefítar veittu þeim eftirför af fullum krafti og felldu þá.
37 Og þeir mættu þeim, hvert sem þeir fóru, og þeir voru drepnir eða burtu reknir, þar til þeir tvístruðust til vesturs og norðurs og komu að óbyggðunum sem nefndust Hermonts, og gráðug villidýr herjuðu á.
38 Og svo bar við, að margir létu lífið í óbyggðunum af sárum sínum, og þessi villidýr eða ránfuglar loftsins rifu þá í sig. Og bein þeirra hafa fundist, og þeim hefur verið hrúgað upp á jörðunni.