Ritningar
Alma 44


44. Kapítuli

Moróní fyrirskipar Lamanítum að gjöra friðarsáttmála, ella verði þeim tortímt — Serahemna neitar boði hans og stríðið heldur áfram — Herir Morónís vinna sigur á Lamanítum. Um 74–73 f.Kr.

1 Og svo bar við, að þeir staðnæmdust og gengu nokkur skref frá þeim. Og Moróní sagði við Serahemna: Sjá, Serahemna. Við erum ekki blóðþyrstir menn. Þú veist, að þið eruð í okkar höndum, en þó höfum við enga löngun til að drepa ykkur.

2 Sjá, við gengum ekki til orrustu gegn ykkur til að úthella blóði ykkar og ná völdum. Okkur langar heldur ekki til að hneppa neinn undir ok ánauðar. En þetta er einmitt ástæðan fyrir því, að þið hafið ráðist gegn okkur. Já, og þið eruð reiðir okkur vegna trúar okkar.

3 En nú sjáið þið, að Drottinn er með okkur. Og þið sjáið, að hann hefur selt ykkur í hendur okkar. Og ég vildi, að þið gætuð skilið, að svo er vegna trúarbragða okkar og trúar á Krist. Og nú sjáið þið, að þið getið ekki tortímt þessari trú okkar.

4 Nú sjáið þið, að þetta er hin sanna trú Guðs. Já, þið sjáið, að Guð mun styðja, vernda og varðveita okkur, á meðan við erum trygg honum, trú okkar og trúarbrögðum, og Drottinn mun aldrei leyfa, að okkur sé tortímt, nema því aðeins að við gjörumst lögmálsbrjótar og afneitum trú okkar.

5 Og nú, Serahemna, býð ég ykkur í nafni Guðs hins alvalda — sem styrkt hefur arma okkar, svo að við næðum valdi yfir ykkur með trú okkar, trúarbrögðum og trúarsiðum, kirkju okkar og heilögum stuðningi, sem við eigum að þakka konum okkar og börnum, með því lýðfrelsi, sem bindur okkur við lönd okkar og fósturjörð, já, og einnig með hlýðni okkar við hið heilaga orð Guðs, en því eigum við alla hamingju okkar að þakka, og með öllu, sem okkur er kærast —

6 Já, og þar með er ekki allt talið. Ég býð ykkur með skírskotun til allrar þeirrar lífsþrár, sem í ykkur er, að afhenda okkur stríðsvopn ykkar, og við munum ekki sækjast eftir blóði ykkar, heldur þyrma lífi ykkar, ef þið hverfið á brott og komið ekki aftur til að heyja stríð við okkur.

7 Og ef þið gjörið þetta ekki — sjá, þið eruð í okkar höndum, og ég mun skipa mönnum mínum að ráðast á ykkur og veita ykkur banasár, svo að þið líðið undir lok. Og þá munum við sjá, hverjir hafa vald yfir þessu fólki, já, við munum sjá, hverjir verða hnepptir í ánauð.

8 Og nú bar svo við, að þegar Serahemna hafði hlýtt á þessi orð, gekk hann fram og afhenti sverð sitt og sveðju og boga sinn í hendur Morónís og sagði við hann: Sjá, hér eru stríðsvopn okkar, við munum afhenda ykkur þau, en við viljum ekki sverja ykkur eið, sem við vitum, að við munum rjúfa og einnig börn okkar. En tak þú stríðsvopn okkar og leyfðu okkur að hverfa á brott út í óbyggðirnar. Að öðrum kosti munum við halda sverðum okkar og farast eða sigra.

9 Sjá, við erum ekki ykkar trúar. Við trúum ekki, að það sé Guð, sem hefur selt okkur í ykkar hendur, heldur trúum við, að það sé kænska ykkar, sem hefur verndað ykkur fyrir sverðum okkar. Sjá, það eru brynjur ykkar og skildir, sem hafa verndað ykkur.

10 Og þegar Serahemna hafði lokið þessum orðum, skilaði Moróní Serahemna aftur sverðinu og stríðsvopnunum, sem hann hafði tekið við, og sagði: Sjá, við munum ljúka bardaganum.

11 Ég get ekki tekið orð mín aftur. Og svo sannarlega sem Drottinn lifir munuð þið ekki hverfa á brott nema með eiði um að snúast ekki aftur gegn okkur í stríði. Þar eð þið eruð nú í okkar höndum, munum við annaðhvort úthella blóði ykkar á jörðina eða þið beygið ykkur undir þá skilmála, sem ég hef sett.

12 En þegar Moróní hafði mælt þessi orð, reiddist Serahemna honum, tók sverð sitt aftur og þaut fram til að drepa Moróní. En þegar hann lyfti sverði sínu, sjá, þá sló einn af hermönnum Morónís það til jarðar, og það brotnaði við meðalkaflann. Og hann hjó einnig til Serahemna, svo að af tók höfuðleðrið, og það féll til jarðar. En Serahemna dró sig í hlé frá þeim inn í miðjan hóp hermanna sinna.

13 Og svo bar við, að hermaðurinn, sem stóð hjá og flett hafði höfuðleðrinu af Serahemna, tók höfuðleðrið upp af jörðunni á hárinu og setti það á sverðsodd sinn. Og rétti það fram til þeirra og sagði hárri röddu:

14 Á sama hátt og þetta höfuðleður féll til jarðar, en það er höfuðleður fyrirliða ykkar, þannig munuð þið og falla til jarðar, nema því aðeins, að þið látið stríðsvopn ykkar af hendi og hverfið á brott eftir að hafa gjört friðarsáttmála.

15 Nú urðu margir óttaslegnir, þegar þeir heyrðu þessi orð og sáu höfuðleðrið á sverðsoddinum, og margir gengu fram og hentu stríðsvopnum sínum að fótum Morónís og gjörðu friðarsáttmála. Og þeim, sem gjörðu sáttmálann, var leyft að hverfa á brott út í óbyggðirnar.

16 Nú bar svo við, að Serahemna varð æfareiður, og hann æsti þá hermenn sína, sem eftir voru, til reiði og til að berjast af enn auknum krafti við Nefíta.

17 En nú var Moróní reiður vegna þrjósku Lamaníta. Þess vegna fyrirskipaði hann mönnum sínum að ráðast á þá og drepa þá. Og svo bar við, að þeir tóku að drepa þá. Já, og Lamanítar börðust með sverðum sínum af öllum mætti.

18 En sjá. Nakið hörund þeirra og nakin höfuð voru óvarin gegn beittum sverðum Nefíta. Já, sjá sverð Nefítanna gengu á hol og þeir voru höggnir niður. Já, og þeir féllu mjög hratt fyrir sverðum Nefíta og voru stráfelldir eins og hermaður Morónís hafði spáð.

19 En þegar Serahemna sá nú, að þeim yrði brátt öllum tortímt, hrópaði hann hátt til Morónís og lofaði, að ef hann vildi þyrma þeim, sem eftir lifðu, mundi hann og einnig menn hans gjöra við hann sáttmála um að heyja aldrei stríð við þá framar.

20 Og svo bar við, að Moróní lét aftur stöðva drápin meðal mannanna. Og hann tók stríðsvopnin af Lamanítum. Og þegar þeir höfðu gjört friðarsáttmála við hann, var þeim leyft að hverfa á brott út í óbyggðirnar.

21 En fjöldi hinna föllnu varð ekki í tölum talinn, vegna þess hve mikill hann var. Já, fjöldi hinna föllnu var mjög mikill, bæði meðal Nefíta og Lamaníta.

22 Og svo bar við, að þeir köstuðu hinum föllnu í vötn Sídons, og líkin bárust fram og eru grafin í djúpum sjávar.

23 Og herir Nefíta, eða Morónís, sneru til heimila sinna og landareigna.

24 Og þannig lauk átjánda stjórnarári dómaranna yfir Nefíþjóðinni. Og þannig lauk heimildum Alma, sem letraðar voru á töflur Nefís.