Ritningar
Alma 60


60. Kapítuli

Moróní kvartar við Pahóran um að yfirvöld vanræki herina — Drottinn leyfir að hinir réttlátu séu drepnir — Nefítar verða að nota alla orku sína og eigur til að losna undan óvinum sínum — Moróní hótar að berjast við yfirvöld ef hjálp berist ekki herjum hans. Um 62 f.Kr.

1 Og svo bar við, að hann skrifaði aftur til landstjórans, sem var Pahóran, en þetta eru orðin, sem hann skrifaði og sagði: Sjá. Ég beini orðum mínum til Pahórans í Sarahemlaborg, sem er yfirdómari og landstjóri landsins, og einnig til allra þeirra, sem þessi þjóð hefur valið til að stjórna og sjá um málefni þessarar styrjaldar.

2 Því að sjá. Ég hef nokkuð að segja þeim til sakfellingar. Því að sjá. Þið vitið sjálfir, að þið hafið verið skipaðir til að safna saman mönnum og vopna þá með sverðum og sveðjum og alls konar tegundum stríðsvopna og senda gegn Lamanítum, hvar svo sem þeir kynnu að ráðast inn í land okkar.

3 Og sjá nú. Ég segi ykkur, að ég sjálfur, einnig menn mínir svo og Helaman og hans menn, höfum þolað mjög miklar þjáningar, já, jafnvel hungur, þorsta og þreytu og alls kyns þrengingar.

4 En sjá. Væri þetta allt og sumt, sem við höfum mátt þola, mundum við hvorki mögla né kvarta.

5 En sjá. Manndrápið meðal þjóðar okkar hefur verið mikið. Já, þúsundir hafa fallið fyrir sverði, sem hefði mátt koma í veg fyrir, ef þið hefðuð léð herjum okkar nægan styrk og næga liðveislu. Já, mikil hefur vanræksla ykkar gagnvart okkur verið.

6 Og sjá nú. Við æskjum að vita ástæðuna fyrir þessari miklu vanrækslu. Já, við æskjum að vita, hvers vegna þið eruð svo hugsunarlausir.

7 Hvernig getið þið hugsað ykkur að sitja hugsunarlausir og sljóir í hásætum ykkar, meðan dauðinn herjar allt í kringum ykkur af völdum óvinanna? Já, meðan þeir myrða þúsundir bræðra ykkar —

8 Já, einmitt þá, sem leitað hafa til ykkar um vernd og hafa sett ykkur í þá stöðu að geta liðsinnt sér, já, geta sent sér heri til að styrkja sig og bjarga þúsundum þeirra frá því að falla fyrir sverði.

9 En sjá. Þetta er ekki allt — þið hafið haldið vistum ykkar fyrir þeim, jafnvel þótt margir hafi barist og þeim hafi blætt til dauða, vegna þess hve ákaflega annt þeim var um velferð þessarar þjóðar. Já, og þetta hafa þeir gjört, á sama tíma og þeir voru um það bil að farast úr hungri vegna hinnar miklu vanrækslu ykkar gagnvart þeim.

10 Og nú, ástkæru bræður mínir — því að þið ættuð að vera ástkærir. Já, og þið hefðuð átt að vinna af meiri elju að velferð og frelsi þessarar þjóðar. En sjá. Þið hafið vanrækt hana svo mikið, að blóð þúsunda mun koma yfir höfuð ykkar og kalla á hefnd. Já, því að Guði voru kunn öll hróp þeirra og allar þjáningar þeirra —

11 Sjá. Hvernig gátuð þið búist við að geta setið í hásætum ykkar og að Guð mundi með takmarkalausri gæsku sinni varðveita ykkur, þó að þið gerðuð ekki neitt? Sjá, hafi það verið trú ykkar, þá er sú trú til einskis.

12 Ímyndið þið ykkur, að svo margir bræðra ykkar hafi verið drepnir, vegna þess hve ranglátir þeir hafi verið? Ég segi ykkur, hafi það verið trú ykkar, þá er sú trú til einskis. Því að ég segi ykkur: Margir hafa fallið fyrir sverði, en sjá, það er ykkur til fordæmingar —

13 Því að Drottinn leyfir, að hinir réttlátu séu drepnir, til þess að réttvísi hans og dómur megi koma yfir hina ranglátu. Þess vegna þurfið þið ekki að ætla, að hinir réttlátu séu glataðir, vegna þess að þeir hafa verið drepnir, heldur sjá, þeir ganga inn til hvíldar Drottins Guðs síns.

14 Og sjá nú. Ég segi ykkur, ég óttast mjög, að dómur Drottins komi yfir þessa þjóð vegna mikillar hyskni hennar, já, vegna hirðuleysis stjórnar okkar og stórkostlegrar vanrækslu gagnvart bræðrum sínum, já, gagnvart þeim, sem drepnir hafa verið.

15 Því að væri það ekki vegna þess ranglætis, sem hófst fyrst meðal hinna æðstu okkar, hefðum við getað staðist óvini okkar, og þeir hefðu ekki getað náð valdi yfir okkur.

16 Já, hefði það ekki verið vegna stríðsins, sem braust út meðal okkar sjálfra. Já, hefði það ekki verið vegna konungssinna, sem ollu svo mikilli blóðsúthellingu meðal okkar sjálfra. Já, ef við hefðum sameinað krafta okkar — eins og við gerðum fram að því — í stað þess að berjast innbyrðis. Já, hefði þessi þrá konungssinna eftir valdi og yfirráðum yfir okkur ekki skotið rótum. Hefðu þeir aðeins verið trúir málstað frelsis okkar og sameinast okkur og haldið gegn óvinunum í stað þess að taka upp sverð sín gegn okkur, sem varð orsök mikilla blóðsúthellinga meðal okkar sjálfra. Já, ef við hefðum haldið gegn þeim í styrk Drottins, hefðum við stökkt óvinum okkar á dreif, því að svo hefði verið gjört, í samræmi við uppfyllingu orða hans.

17 En sjá. Nú ráðast Lamanítar á okkur og leggja undir sig lönd okkar, já, og þeir myrða fólk okkar með sverði, já, konur okkar og börn og flytja þau einnig á brott sem fanga og láta þau þola alls konar þrengingar, og það vegna hins mikla ranglætis þeirra, sem sækjast eftir völdum og yfirráðum, já, einmitt þessara konungssinna.

18 En hvers vegna skyldi ég eyða svo mörgum orðum í þetta mál? Því að við vitum ekki nema þið sjálfir sækist eftir völdum. Við vitum ekki nema þið kunnið einnig að vera svikarar við land ykkar.

19 Eða er það vegna þess, að þið eruð í hjarta lands okkar og umkringdir öryggi, að þið vanrækið okkur og sendið okkur hvorki vistir né menn til að styrkja heri okkar?

20 Hafið þið gleymt boðorðum Drottins Guðs ykkar? Já, hafið þið gleymt ánauð feðra okkar? Hafið þið gleymt hversu oft okkur hefur verið bjargað úr höndum óvina okkar?

21 Eða gjörið þið ráð fyrir, að Drottinn varðveiti okkur, meðan við sitjum í hásætum okkar og notum ekki það, sem Drottinn hefur séð okkur fyrir?

22 Já, ætlið þið að sitja í aðgjörðarleysi, umkringdir þúsundum þeirra, já, tugum þúsunda þeirra, sem einnig sitja í aðgjörðarleysi, meðan aðrar þúsundir, allt í kring á landamærum landsins, falla fyrir sverði, já, særðir og blæðandi?

23 Gjörið þið ráð fyrir, að Guð muni líta á ykkur sem saklausa, meðan þið sitjið kyrrir og horfið á þessa hluti? Sjá, ég segi ykkur, nei. Nú vil ég, að þið minnist þess, að Guð hefur sagt, að fyrst verði að hreinsa kerið að innan og síðan einnig að hreinsa kerið að utan.

24 Og því aðeins að þið iðrist þess, sem þið hafið gjört, og rísið á fætur og takið til höndum og sendið okkur mat og menn, og einnig Helaman, svo að hann geti haldið þeim landshlutum okkar, sem hann hefur unnið aftur, og svo að við getum einnig endurheimt önnur landsvæði okkar í þessum landshlutum, sjá, þá verður við hæfi, að við berjumst ekki aftur við Lamaníta, fyrr en við höfum hreinsað okkar eigið ker að innan, já, jafnvel hið mikla höfuð stjórnar okkar.

25 Og ef þið verðið ekki við bréfi mínu og komið fram og sýnið mér hinn sanna frelsisanda og leitist við að styrkja og treysta heri okkar og veitið þeim fæði sér til viðurværis, sjá, þá mun ég skilja eftir hluta af mínum frjálsu mönnum til að varðveita þennan landshluta okkar, og styrk og blessanir Guðs mun ég skilja eftir hjá þeim, svo að ekkert annað afl fái unnið gegn þeim —

26 Og það vegna hinnar sterku trúar þeirra og þolgæðis í andstreymi sínu —

27 Og ég mun koma til ykkar, og ef einhver meðal ykkar þráir frelsið, já, þó ekki sé nema frelsisneisti eftir, sjá, þá mun ég stofna til andspyrnu gegn ykkur, þar til þeim, sem þrá að hrifsa til sín völd og yfirráð, verður útrýmt.

28 Já, sjá. Ég óttast hvorki vald ykkar né yfirráð, en Guð minn óttast ég. Og það er samkvæmt boðum hans, að ég gríp til sverðs míns til að verja málstað lands míns, og það er vegna misgjörða ykkar, að við höfum mátt þola svo mikið tap.

29 Sjá. Það er tími til kominn, já, sá tími er nú kominn, að sverð réttvísinnar vofi yfir ykkur, ef þið snúist ekki nú til varnar landi ykkar og börnum. Já, og það mun falla á ykkur og vitja ykkar, ykkur til algjörrar tortímingar.

30 Sjá. Ég bíð eftir aðstoð frá ykkur, en ef þið komið okkur ekki til hjálpar, sjá, þá mun ég koma til ykkar, já, til Sarahemlalands og ljósta ykkur með sverði, þannig að þið hafið ekki lengur vald til að hindra framsókn þessarar þjóðar til frelsis.

31 Því að sjá. Drottinn mun ekki líða, að þið lifið og magnist í misgjörðum ykkar til þess að tortíma hans réttláta fólki.

32 Sjá. Teljið þið að Drottinn hlífi ykkur, en láti dóm sinn falla yfir Lamaníta, þegar það eru arfsagnir feðra þeirra, sem hafa orsakað hatur þeirra? Já, og það hefur margfaldast vegna þeirra, sem horfið hafa frá okkur. En misgjörðir ykkar eru aftur á móti vegna metnaðar ykkar og hégómagirni.

33 Þið vitið, að þið brjótið lögmál Guðs, og þið vitið, að þið fótumtroðið þau. Sjá, Drottinn segir við mig: Ef þeir, sem þið hafið skipað landstjóra, iðrast ekki synda sinna og misgjörða, þá skuluð þið ganga til orrustu gegn þeim.

34 Og sjá nú. Ég, Moróní, er bundinn þeim sáttmála, sem ég hef gjört um að halda boðorð Guðs míns. Þess vegna óska ég, að þið haldið fast við orð Guðs og sendið fljótt til mín af vistum ykkar og mönnum, og einnig til Helamans.

35 Og sjá. Ef þið gjörið þetta ekki, kem ég í skyndi til ykkar. Því að sjá. Guð mun ekki leyfa, að við förumst úr hungri. Þess vegna mun hann gefa okkur af matvælum ykkar, jafnvel þó að það verði með hjálp sverðsins. Sjáið nú um að uppfylla orð Guðs.

36 Sjá, ég er Moróní, yfirforingi ykkar. Ég sækist ekki eftir valdi, heldur eftir að rífa það niður. Ég leita ekki eftir heiðri heimsins, heldur eftir dýrð Guðs míns og frelsi og velfarnaði lands míns. Og þannig læt ég bréfi mínu lokið.