Formáli
Mormónsbók er heilög ritning, sem líkja má við Biblíuna. Hún er frásögn af samskiptum Guðs við forna íbúa Ameríku og geymir fyllingu hins ævarandi fagnaðarerindis.
Bókina rituðu margir fornir spámenn með anda spádóms og opinberunar. Útdrátt úr orðum þeirra, sem rituð voru á gulltöflur, gerði spámaðurinn og sagnaritarinn Mormón. Bókin greinir frá tveimur miklum menningarþjóðum. Önnur kom frá Jerúsalem árið 600 f.Kr. en skiptist síðar í tvo þjóðflokka, sem nefndust Nefítar og Lamanítar. Hin kom miklu fyrr, þegar Drottinn ruglaði tungumáli fólksins á tímum Babelturnsins. Sú þjóð nefndist Jaredítar. Eftir þúsundir ára höfðu allir tortímst nema Lamanítar, og þeir eru meðal forfeðra amerísku Indíánanna.
Mesti viðburðurinn, sem skráður er í Mormónsbók, er þjónusta sjálfs Drottins Jesú Krists meðal Nefítanna fljótlega eftir upprisu hans. Sú frásögn setur fram kenningar fagnaðarerindisins, skýrir sáluhjálparáætlunina, og segir mönnum hvað þeir þurfi að gera til að öðlast frið í þessu lífi og eilíft hjálpræði í hinu komanda.
Eftir að Mormón lauk skráningu rita sinna, afhenti hann þau syni sínum Moróní, sem bætti við nokkrum orðum frá eigin brjósti og faldi töflurnar síðan í Kúmórahæðinni. Þann 21. september 1823 birtist þessi sami Moróní, þá dýrðleg og upprisin vera, spámanninum Joseph Smith og veitti honum leiðbeiningar varðandi hinar fornu heimildir og áformaða þýðingu þeirra á enska tungu.
Að því kom, að Joseph Smith voru afhentar töflurnar og þýddi hann þær með gjöf og krafti Guðs. Þetta heimildarrit er nú gefið út á mörgum tungumálum sem nýtt og annað vitni um að Jesús Kristur sé sonur hins lifanda Guðs, og að allir sem vilja koma til hans og hlýða lögmálum og fyrirmælum fagnaðarerindis hans geti orðið hólpnir.
Um þetta heimildarrit sagði Joseph Smith: „Ég sagði bræðrunum, að Mormónsbók væri réttari en allar aðrar bækur á jörðinni og burðarsteinn trúar okkar, og að maðurinn kæmist nær Guði með því að fara eftir kenningum hennar, fremur en nokkurrar annarrar bókar.“
Auk Josephs Smith lét Drottinn ellefu aðra sjá gulltöflurnar og verða sérstök vitni að sannleika og guðdómleik Mormónsbókar. Skráðir vitnisburðir þeirra fylgja hér sem „Vitnisburður þriggja vitna“ og „Vitnisburður átta vitna.“
Við bjóðum öllum mönnum alls staðar að lesa Mormónsbók, að íhuga í hjarta sínu þann boðskap, sem hún geymir, og spyrja síðan Guð, hinn eilífa föður, í nafni Krists, hvort bókin sé sönn. Þeir, sem fylgja þessari leið og biðja í trú, munu fá vitnisburð um sannleiksgildi hennar og guðdómleik fyrir kraft hins heilaga anda. (Sjá Moróní 10:3–5.)
Þeir, sem öðlast þennan guðlega vitnisburð frá hinum heilaga anda, munu einnig fá að vita með sama krafti, að Jesús Kristur er frelsari heimsins, að Joseph Smith er opinberari hans og spámaður á þessum síðustu dögum, og að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er ríki Drottins, stofnað enn á ný á jörðu til undirbúnings síðari komu Messíasar.