Ritningar
Mormón 6


6. Kapítuli

Nefítar safnast saman til lokabardaga í landi Kúmóra — Mormón felur helgu heimildirnar í Kúmórahæðinni — Lamanítar sigra og Nefíþjóðinni er tortímt — Hundruð þúsunda drepnir með sverði. Um 385 e.Kr.

1 Og nú lýk ég frásögn minni af tortímingu þjóðar minnar, Nefíta. Og svo bar við, að við héldum áfram undan Lamanítum.

2 Og ég, Mormón, reit bréf til konungs Lamaníta og bað hann leyfis um að fá að safna saman þjóð okkar í landinu Kúmóra, við hæð, sem nefnd var Kúmóra, og þar gætum við barist við þá.

3 Og svo bar við, að konungur Lamaníta veitti mér það, sem ég bað um.

4 Og svo bar við, að við héldum til Kúmóralands og reistum tjöld okkar umhverfis hæðina Kúmóra. Og þetta land var ríkt að vötnum, fljótum og uppsprettum. En hér vonuðumst við til að ná yfirhöndinni yfir Lamanítum.

5 Og þegar þrjú hundruð áttatíu og fjögur ár voru liðin, höfðum við safnað saman í Kúmóralandi öllum þeim, sem eftir voru af þjóð okkar.

6 Og svo bar við, að þegar við höfðum safnað allri þjóð okkar saman í Kúmóralandi, sjá, var ég, Mormón, farinn að eldast. Og þar sem ég vissi, að þetta var lokabarátta þjóðar minnar og Drottinn hafði boðið mér að láta ekki heimildir þær, sem heilagar voru og feður okkar höfðu afhent mann fram of manni, falla í hendur Lamanítum (því að Lamanítarnir mundu tortíma þeim), já, þess vegna skráði ég þessa heimild af töflum Nefís og fól allar þær heimildir, sem Drottinn hafði trúað mér fyrir, í hæðinni Kúmóra, að undanskildum þeim fáu töflum, sem ég afhenti syni mínum, Moróní.

7 Og svo bar við, að menn mínir ásamt konum sínum og börnum sáu nú heri Lamaníta koma í átt til sín, og með þeim hræðilega ótta við dauðann, sem fyllir hjörtu hinna ranglátu, biðu þeir þeirra.

8 Og svo bar við, að þeir réðust gegn okkur, og hver sála var full skelfingar, vegna þess hve margir þeir voru.

9 Og svo bar við, að þeir réðust á menn mína með sverði og boga, örvum og eggjárnum og alls kyns stríðsvopnum.

10 Og svo bar við, að menn mínir voru brytjaðir niður, já, þau tíu þúsund, sem með mér voru, og ég féll særður til jarðar mitt á meðal þeirra, en þeir fóru fram hjá mér og bundu ekki enda á líf mitt.

11 Og eftir að þeir höfðu brytjað niður alla þjóð mína, að undanskildum tuttugu og fjórum (þar á meðal syni mínum, Moróní) og eftir að við höfðum lifað dauða þjóðar okkar af, sáum við á komanda degi ofan af Kúmórahæðinni, þegar Lamanítarnir höfðu snúið aftur til búða sinna, þær tíu þúsundir manna minna, sem höfðu verið brytjaðar niður, og sem ég var í fararbroddi fyrir.

12 Og einnig sáum við þær tíu þúsundir manna minna, sem sonur minn Moróní hafði leitt.

13 Og sjá. Tíu þúsundir manna Gídgiddóna höfðu fallið og hann sjálfur einnig á meðal þeirra.

14 Og Lama hafði fallið ásamt sínum tíu þúsundum, og Gílgal hafði fallið ásamt sínum tíu þúsundum, og Lima hafði fallið ásamt sínum tíu þúsundum, og Jeneúm hafði fallið ásamt sínum tíu þúsundum. Og Kumenía, Morónía, Antíónum, Siblom, Sem og Jos höfðu fallið ásamt tíu þúsundum hvers þeirra.

15 Og svo bar við, að aðrir tíu höfðu fallið fyrir sverði, hver ásamt sínum tíu þúsundum. Já, öll þjóð mín — utan þeirra tuttugu og fjögurra, sem með mér voru, og einnig örfárra, sem flúið höfðu til landanna í suðri, og örfárra, sem snúið höfðu yfir til Lamaníta — hafði fallið. Og hold fólksins, bein og blóð lá á yfirborði jarðar, þar sem þeir, er drápu það, höfðu skilið það eftir til að rotna og verða að dufti og hverfa aftur til móður jarðar.

16 Og sál mín var sundurtætt af kvölum vegna dauða þjóðar minnar, og ég hrópaði:

17 Ó, þú fríða sveit. Hvernig gátuð þér snúið af vegum Drottins! Ó, þú fríða sveit, hvernig gátuð þér hafnað Jesú, sem stóð með opinn faðm til að taka á móti yður!

18 Sjá, hefðuð þér ekki gjört þetta, hefðuð þér ekki fallið. En sjá, þér eruð fallin, og ég syrgi yður.

19 Ó, þér fríðu synir og dætur, þér feður og mæður, þér eiginmenn og eiginkonur, þér fríða fólk! Hvernig má vera, að þér séuð fallin?

20 En sjá! Þér eruð farin, og sorg mín leiðir yður ekki til baka.

21 En sá dagur kemur brátt, að dauðleiki yðar hlýtur að íklæðast ódauðleika, og þessir líkamar, sem nú rotna í forgengileika, hljóta brátt að verða óforgengilegir líkamar. Og þá verðið þér að standa frammi fyrir dómstóli Krists og verða dæmd af verkum yðar. Og reynist þér réttlát, þá munuð þér blessuð verða ásamt feðrum yðar, sem farið hafa á undan yður.

22 Ó, að þér hefðuð iðrast, áður en hin mikla tortíming kom yfir yður. En sjá. Þér eruð farin, og faðirinn, já, hinn eilífi faðir himinsins, þekkir ástand yðar, og hann breytir við yður í samræmi við réttvísi sína og miskunn.