Ritningar
Mósía 11


11. Kapítuli

Nóa konungur stjórnar í ranglæti — Hann lifir gálausu lífi með eiginkonum sínum og hjákonum — Abinadí spáir og segir að fólkið verði hneppt í ánauð — Nóa konungur sækist eftir lífi hans. 160–150 f.Kr.

1 Og nú bar svo við, að Seniff afhenti Nóa, einum sona sinna, konungdóminn. Þess vegna tók Nóa við ríkjum eftir hann, en hann fylgdi ekki í fótspor föður síns.

2 Því að sjá. Hann hélt ekki boðorð Guðs, heldur fór eftir óskum síns eigin hjarta. Og hann átti margar konur og hjákonur. Og hann varð valdur að því, að fólk hans syndgaði og gjörði það, sem viðurstyggilegt var í augum Drottins. Já, og það drýgði hór og stundaði alls konar ranglátt athæfi.

3 Og hann lagði á skatt, sem nam fimmta hluta af öllu, sem þeir áttu, fimmta hluta af öllu gulli þeirra og silfri, fimmta hluta af öllu siffi þeirra og kopar, látúni og járni, fimmta hluta af alikálfum þeirra og einnig fimmta hluta af öllu korni þeirra.

4 Og allt þetta tók hann sjálfum sér, konum sínum og hjákonum til framfæris, og einnig prestum sínum, konum þeirra og hjákonum. Og þannig breytti hann málum ríkisins.

5 Því að hann setti alla prestana af, sem faðir hans hafði vígt og vígði nýja í þeirra stað, presta, sem hreyktu sér hátt í hroka hjarta síns.

6 Já, og þeim var framfleytt þannig í leti sinni, falsguðadýrkun sinni og í hórdómi sínum, með sköttunum, sem Nóa konungur hafði lagt á þjóð sína. Þannig lagði fólkið afar hart að sér til að standa undir misgjörðunum.

7 Já, og fólkið gjörðist einnig falsguðadýrkendur vegna þess, að það lét blekkjast af hégómlegum skjallyrðum konungs og prestanna, því að þeir skjölluðu fólkið vissulega.

8 Og svo bar við, að Nóa konungur reisti margar glæsilegar og rúmgóðar byggingar. Og hann skreytti þær fögru viðarverki og alls konar dýrmætum hlutum úr gulli, silfri, járni, látúni, siffi og kopar —

9 Og hann reisti sér einnig rúmgóða höll og hásæti í henni miðri, sem allt var úr fögrum viði og skreytt gulli, silfri og dýrmætum hlutum.

10 Og hann lét einnig handverksmenn sína vinna alls konar fögur verk innan veggja musterisins, úr fögrum viði, kopar og látúni.

11 Og sætin, sem ætluð voru æðstu prestunum og voru ofar öllum öðrum sætum, lét hann skreyta skíru gulli. Og hann lét gjöra brjóstvörn fyrir framan þau, svo að þeir gætu látið líkama sína og arma hvíla á henni, meðan þeir mæltu lygar og hégómleg orð til þjóðarinnar.

12 Og svo bar við, að hann lét reisa turn nálægt musterinu, já, ákaflega háan turn, svo háan, að hann gat staðið efst á honum og séð yfir Sílomsland og einnig Semlonsland, sem Lamanítar áttu. Og hann gat jafnvel séð yfir allt landið umhverfis.

13 Og svo bar við, að hann lét reisa margar byggingar í Sílomslandi. Og hann lét reisa stóran turn á hæðinni norður af Sílomslandi, sem verið hafði griðastaður fyrir börn Nefís á þeim tíma, er þau flúðu land. Og þannig fór hann með auðæfin, sem hann fékk af skattlagningu á þjóð sína.

14 Og svo bar við, að hann lét auðæfin ná tökum á hjarta sínu. Og hann varði tímanum í gjálífi með konum sínum og hjákonum. Og prestar hans höfðust líkt að og vörðu tímanum með skækjum.

15 Og svo bar við, að hann kom upp vínekrum hingað og þangað um landið, og hann lét gjöra vínpressur og búa til vín í miklum mæli. Og þess vegna varð hann víndrykkjumaður og þjóð hans einnig.

16 Og svo bar við, að Lamanítar tóku að sækja að þjóð hans, að fáeinum í senn, og drepa þá á ökrum þeirra og á meðan þeir gættu hjarða sinna.

17 Og Nóa konungur sendi varðmenn sína um landið til að bægja þeim frá, en hann sendi ekki nógu marga og Lamanítar komu að þeim, drápu þá og ráku margar hjarðir þeirra úr landinu. Á þennan hátt tóku Lamanítar að tortíma þeim og sýna þeim hatur sitt.

18 Og svo bar við, að Nóa konungur sendi heri sína gegn þeim, og þeir hröktu þá til baka eða gjörðu þá afturreka um hríð og sneru því til baka fagnandi yfir ránsfeng sínum.

19 Og vegna þessa mikla sigurs mikluðust þeir í hroka sínum. Þeir gumuðu af eigin styrk og sögðu, að fimmtíu þeirra gætu staðið gegn þúsundum Lamaníta. Og þeir hreyktu sér þannig og glöddust yfir blóði og úthellingu blóðs bræðra sinna og það vegna ranglætis konungs síns og presta sinna.

20 Og svo bar við, að á meðal þeirra var maður að nafni Abinadí, sem fór um meðal þeirra, tók að spá og sagði: Sjá, svo segir Drottinn, og þetta bauð hann mér og sagði: Gakk þú fram, og seg þú þessum lýð, svo segir Drottinn — Vei sé þessum lýð, því að ég hef séð viðurstyggð hans, ranglæti hans og hórdóm. Og iðrist hann ekki, mun ég vitja hans í reiði minni.

21 Og gjöri hann eigi iðrun og snúi sér til Drottins Guðs síns, sjá, þá mun ég selja hann í hendur óvinum sínum. Já, og hann mun hnepptur í ánauð og verða að þola þrengingar af hendi óvina sinna.

22 Og svo ber við, að þeir skulu vita, að ég er Drottinn Guð þeirra og að ég er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða fólks míns.

23 Og svo ber við, að ef þessi þjóð iðrast eigi og snýr til Drottins Guðs síns, mun hún hneppt í ánauð. Og enginn mun bjarga henni nema Drottinn, hinn almáttugi Guð.

24 Já, og svo ber við, að þegar hún ákallar mig, þá verð ég tregur til að heyra hróp hennar. Já, ég mun leyfa óvinum hennar að ljósta hana.

25 Og iðrist hún ekki í sekk og ösku og ákalli Drottin Guð sinn hástöfum, mun ég ekki heyra bænir hennar, né heldur bjarga henni úr þrengingum sínum, og svo segir Drottinn, og þetta bauð hann mér.

26 Nú bar svo við, að þegar Abinadí hafði mælt þessi orð til þeirra, reiddust þeir honum og sátu um líf hans, en Drottinn bjargaði honum úr höndum þeirra.

27 Þegar Nóa konungur heyrði nú orðin, sem Abinadí hafði mælt til fólksins, reiddist hann einnig, og hann sagði: Hver er Abinadí, að hann dæmi mig og þjóð mína, eða hver er Drottinn, að hann leggi svo miklar þrengingar á þjóð mína?

28 Ég skipa ykkur að færa Abinadí hingað, svo að ég geti drepið hann, því að hann hefur sagt þetta til að reita þjóð mína til reiði, einn gegn öðrum, og valda deilum meðal þjóðar minnar. Þess vegna mun ég drepa hann.

29 En augu fólksins voru blinduð. Því herti það hjörtu sín gegn orðum Abinadís og leitaðist upp frá því við að ná honum. Og Nóa konungur herti hjarta sitt gegn orði Drottins og iðraðist ekki illverka sinna.