Heimildaskrá Seniffs — Frásögn af fólki hans, frá því að það yfirgaf Sarahemlaland til þess tíma, er það var frelsað undan Lamanítum.
Nær yfir 9. til og með 22. kapítula.
9. Kapítuli
Seniff fer fyrir hópi manna frá Sarahemla til að leggja undir sig land Lehí-Nefís — Konungur Lamaníta leyfir þeim að slá eign sinni á landið — Stríð á milli Lamaníta og fólks Seniffs. Um 200–187 f.Kr.
1 Ég, Seniff, sem fékk tilsögn á allri tungu Nefíta og þekkti Nefíland, eða fyrsta erfðaland feðra okkar, var sendur sem njósnari meðal Lamaníta til að njósna um herstyrk þeirra, svo að herir okkar gætu komist að þeim og tortímt þeim, en þegar ég sá það, sem gott var í fari þeirra, óskaði ég þess, að þeim yrði ekki tortímt.
2 Mér varð þess vegna sundurorða við bræður mína í óbyggðunum, því að ég vildi láta stjórnanda okkar gjöra sáttmála við þá, en hann, sem var harður maður og blóðþyrstur, skipaði svo fyrir, að ég skyldi tekinn af lífi. En mér varð bjargað með miklum blóðsúthellingum, því að faðir barðist við föður og bróðir við bróður, þar til mestur hluti hers okkar hafði tortímst í óbyggðunum, en við, sem af komumst, snerum aftur til Sarahemlalands til að segja eiginkonum þeirra og börnum söguna.
3 Þar eð mér var mikið í mun að ná erfðalandi feðra okkar, safnaði ég saman öllum, sem vildu fara og eigna sér landið, og lagði aftur upp í ferð út í óbyggðirnar til landsins. En hungursneyð og sárar þrengingar dundu yfir okkur, því að við vorum seinir til að minnast Drottins, Guðs okkar.
4 Eftir margra daga ferð í óbyggðunum reistum við engu að síður tjöld okkar nálægt landi feðra okkar, á þeim stað, þar sem bræður okkar voru ráðnir af dögum.
5 Og svo bar við, að ég fór með fjórum mönnum mínum aftur inn í borgina til konungsins til að komast að, hver afstaða hans væri og hvort ég gæti haldið innreið mína með fólki mínu og eignast landið friðsamlega.
6 Og ég hélt til konungs, og hann gjörði sáttmála við mig, um að ég mætti slá eign minni á Lehí-Nefíland og Sílomsland.
7 Og hann mælti einnig svo fyrir, að hans fólk skyldi hverfa úr landinu, en ég og mitt fólk héldum inn í landið til að slá eign okkar á það.
8 Og við tókum að reisa byggingar og lagfæra múra borgarinnar — já, múra Lehí-Nefíborgar og Sílomsborgar.
9 Og við tókum að yrkja jörðina, já, og sá alls konar frætegundum, maís, hveiti, byggi, neas og seum og alls kyns ávaxtafræjum. Og okkur tók að fjölga og vegna vel í landinu.
10 En Laman konungur gaf okkur landið eftir til eignar aðeins til að hneppa fólk mitt í ánauð með slægð og undirferli.
11 Þess vegna bar svo við, að þegar við höfðum dvalið í landinu um tólf ára skeið, tók Laman konungur að ókyrrast yfir því, að mitt fólk gæti orðið svo máttugt í landinu, að þeir gætu ekki borið það ofurliði og hneppt það í ánauð.
12 Nú voru þeir latir og dýrkuðu skurðgoð. Þess vegna vildu þeir hneppa okkur í ánauð, svo að þeir gætu belgt sig út á því, sem hendur okkar framleiddu, já, svo að þeir gætu gjört sér hátíð úr hjörðunum á völlum okkar.
13 Þess vegna bar svo við, að Laman konungur tók að etja þjóð sinni til deilna við þjóð mína, og hófust því illdeilur og styrjaldir í landinu.
14 Og á þrettánda valdaári mínu í Nefílandi, þegar fólk mitt var að brynna hjörðum sínum, fóðra þær og rækta landið í suðurhluta Sílomslands, komu fjölmennar hersveitir Lamaníta að þeim, tóku að drepa þá og flytja á brott hjarðir þeirra og kornið af ökrum þeirra.
15 Já, og svo bar við, að allir, sem ekki náðust, flúðu alla leið til Nefíborgar og báðu mig verndar.
16 Og svo bar við, að ég vopnaði þá bogum, örvum, sverðum, sveðjum, kylfum, slöngum og öllum þeim vopnum, sem við gátum upphugsað, og ég gekk til orrustu gegn Lamanítum ásamt fólki mínu.
17 Já, með Drottins styrk gengum við til orrustu gegn Lamanítum, því að ég og fólk mitt ákölluðum Drottin ákaft og báðum hann að leysa okkur úr höndum óvina okkar, því að við minntumst lausnar feðra okkar.
18 Og Guð heyrði ákall okkar og svaraði bænum okkar. Og við gengum fram í hans mætti, já, við gengum fram gegn Lamanítum, og á einum degi og einni nóttu felldum við þrjú þúsund fjörutíu og þrjá. Og við héldum áfram að ráða þá af dögum, þar til okkur hafði tekist að hrekja þá úr landi okkar.
19 Og sjálfur hjálpaði ég til með eigin höndum að grafa hina dauðu þeirra. Og sjá. Okkur til mikils harms og sorgar höfðu tvö hundruð sjötíu og níu af bræðrum okkar fallið.