Jólasamkomur
Óttist eigi


Óttist eigi

Kæru bræður og systur, við erum sameinuð nú í kvöld, því við elskum öll jólin og jólatíðina. Er til eitthvað betra en hin fallega jólatónlist, fjölskyldu- og vinaboð, brosandi andlit og fjör og kæti barnanna á jólunum? Jólin búa yfir guðlegum eiginleika til að sameina okkur sem fjölskyldur, vini og samfélög. Við hlökkum til þess að skiptast á gjöfum og njóta hátíðlegra veitinga.

Í Jólasögu, eftir enska höfundinn, Charles Dickens, finnur frændi Skröggs fyrir töfrum þessa helga árstíma og segir með sjálfum sér: „Ég hef alltaf notið jólanna, þegar þau hafa runnið í garð … sem góðrar tíðar; þau koma með góðvild, anda fyrirgefningar og kærleika; þau eru eini tími ársins þar sem karlar og konur virðast fús til að ljúka upp … hjörtum sínum, til að hugsa um aðra. … Og þess vegna, … þótt þau hafi aldrei fært mér í vasann ögn af silfri eða gulli, þá trúi ég að þau hafimunu gerta mig að betri manni, og ég segi að þau séu Guðs blessun!“ (A Christmas Carol [1858], 5–6).

Ég hef, bæði sem faðir og nú sem afi, upplifað töfra jólanna, með því að fylgjast með börnum mínum og nú börnum þeirra, halda fæðingu frelsarans hátíðlega og njóta samfélags hvers annars, þegar fjölskyldan kemur saman. Ég er viss um að þið, líkt og ég, hafið horft á börnin geisla gleði, kátínu og sakleysi, er þau hlakka til og njóta þessa sérstöku hátíðar. Þegar við finnum gleði þeirra, minnumst við liðinna gleðiríkra jóla. Það var Dickens sem líka sagði: „Stundum er gott að vera barn, en aldrei betra en á jólum, þegar hinn mikli skapari var sjálfur barn.“ (A Christmas Carol, 67).

Ég ólst upp nærri Los Angeles, og húsið okkar var umlukið appelsínutrjám. Á hverjum jólum höfðu foreldrar mínir heimboð með fjölskyldu, vinum og nágrönnum, til að syngja jólasöngva og njóta veitinga. Þetta fannst okkur öllum dásamlegur siður og söngurinn virtist hljóma tímunum saman. Við börnin sungum eins lengi og við höfðum úthald til og laumuðumst síðan út til að til að leika okkur í appelsínutrjánna.

Ég og eiginkona mín, Kathy, ólum líka börn okkar upp í Suður-Kaliforníu, ekki allfjarri ströndinni. Jólin einkennast af blaktandi pálmatrjám. Á hverju ári hlakka börn okkar til að fara niður í höfn til að horfa á hina árlegu jóla-bátafylkingu. Ótal fallegir bátar, skreyttir ljósum í öllum regbogans litum, sigldu um höfnina meðan fólkið horfði hugfangið á.

Nú, þegar við búum í Salt Lake City, þá höfum ég og Kathy komið á þeim sið að fara með börnunum og barnabörnunum á uppfærslu leikritsins Jólasaga. Á hverju ári, þegar við sjáum Ebeneser skrögg breytast frá því að vera harðbrjósta einsetumaður í það að verða hamingjusamur náungi, og njóta gleði jólanna, þá finnum við löngun til að sleppa takinu á okkar innra Skröggi. Okkur finnst við þá þurfa að leggja okkur örlítið betur fram við að fylgja fordæmi frelsarans um að elska aðra.

Hinn umbreytandi andi jólanna á rætur í endurlausnarkrafti Jesú Krists til að breyta lífi okkar til hins betra. Hin kæra frásögn um fæðingu sonar Guðs, fyrir rúmum tvö þúsund árum í Betlehem, er skráð í Lúkasarguðspjalli:

„En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. …

Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.

Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, …

að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð.

En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.

Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.

„En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.

Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir,

en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum:

Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.

Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu‘.

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á“ (Lúk 2:1, 3–14).

Engillinn skynjaði ótta fjárhirðanna, er hann birtist þeim, og sagði því: „Óttist eigi.“ Hin undraverða dýrð Guðs, sem ljómaði af hinum óvænta himneska boðbera, hafði sannlega vakið ótta í hjörtum þeirra. En tíðindin sem engillinn kom til að færa þeim voru ekki óttaleg. Hann kom til að segja frá kraftaverki, að færa þeim hin mikilvægu góðu tíðindi um að endurlausn mannkyns hefði þegar hafist. Enginn sendiboði, fyrr eða síðar, hefur boðað slík gleðitíðindi. Hinn eingetni föðurins var að hefja sína jarðnesku viðdvöl: „Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“ Þetta voru vissulega mikil og góð fagnaðartíðindi.

Öll upplifum við stundir í lífi okkar þegar hin mikla gleði sem engillinn lofaði virðist torskilin og fjarlæg. Öll erum við háð breyskleika og áþján lífsins – veikindum, mistökum, vonbrigðum og loks dauða. Margir í dag lifa við þá blessun að búa við líkamlegt öryggi, en aðrir ekki. Margir eiga afar erfitt með að standa undir kröfum lífsins, og því líkamlega og tilfinningalega gjaldi sem það færir.

En þrátt fyrir erfiðleika lífsins, þá er boðskapur Drottins til okkar allra sá sami og fyrir fjárhirðana fyrir tvö þúsund árum: „Óttist eigi.“ Orð engilsins um að óttast ekki eiga kannski meira erindi til okkar á þessum tíma, en fjárhirðanna, til að lægja ótta þeirra þessa fyrstu jólanótt. Getur verið að hann hafi ætlað okkur að skilja að sökum frelsarans, þá mun óttinn aldrei sigra? Að það réttlæti aldrei að ýta undir þann ótta? Að gera okkur ljóst að ekkert jarðneskt vandamál sé varanlegt, að ekkert okkar sé án endurlausnar?

Ljúfasta gjöf jólanna verður ætíð sú sem frelsari okkar gaf okkur: Hans fullkomna frið. Hann sagði: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist“ (Jóh 14:27). Þótt friður virðist fjarri í heiminum, þá getur sá friður sem frelsarinn gefur okkur dvalið í hjörtum okkar, hverjar sem aðstæður okkar eru. Ef við tökum á móti boði frelsarans um að fylgja honum, þá hverfur hinn viðvarandi ótti endanlega. Framtíð okkar verður þá tryggð. Þetta er „[hinn mikli fögnuður], sem veitast mun öllum lýðnum.“ Jesaja spámaður sagði: „Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns“ (Jes 41:10).

Sökum þess að frelsarinn fæddist fyrir tvö þúsund árum í Betlehem, þá er von – og svo miklu meira. það er endurlausn, líkn, sigur og fögnuður. „Falla mun ranglætið, sigra mun réttlætið“ („I Heard the Bells on Christmas Day,“ Hymns, nr. 214). Engin furða að englakór hafi skyndilega komið fram, sem himnesk staðfesting á boðskap engilsins um fæðingu frelsarans, og sungið: „Dýrð sé Guði í hæðum og friður á jörðu með mönnum sem hann hefur velþóknun á.“ Enginn boðskapur er huggunaríkari en þessi. Enginn boðskapur hefur að geyma meiri kærleika til manna.

Megi þessi tími veita ykkur og ástvinum ykkar frið og gleði, því „[okkur var þennan dag] frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“ Í nafni Jesú Krists, amen.

Prenta