Jólasamkomur
Ljós og líf heimsins


Ljós og líf heimsins

(3 Ne 11:11)

Þekktasta og kærasta frásögnin um fæðingu frelsarans er í öðrum kapítula Lúkasarguðspjalls í Nýja testamentinu. Ég fyllist þakklæti í hvert sinn er ég les um ferð Jósefs og Maríu til Betlehem, hina dásamlegu jötu, hina auðmjúku fæðingu Drottins Jesú Krists, fjárhirðana og englana boða „mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum“ (Lúk 2:10).

Endurreisn fagnaðarerindisins á síðari tímum sér okkur fyrir annarri frásögn um fæðingu frelsarans, sem er í Mormónsbók. Boðskapur minn er um þessa frásögn hinna fyrstu jóla. Þegar við hugleiðum frásögnina saman, bræður og systur, hvet ég ykkur til að hlusta ekki aðeins á orð mín, heldur líka ímynda ykkur að þið sjálf takið þátt í þessum atburðum.

Ég bið þess að heilagur andi hjálpi ykkur að heimfæra þessi ritningarvers upp á ykkar sjálf og fjölskyldu ykkar (sjá 1 Ne 19:23) og fylla hjörtu ykkar af hinum sanna anda jólanna.

Lamanítinn Samúel

Frásögn okkar hefst í Sarahemlalandi, fáeinum árum fyrir fæðingu frelsarans. Lamanítinn Samúel var meðal fólksins að prédika iðrun og spá um Krist. Ímyndið ykkur nú að þið séuð 10 ára og séuð meðal mannfjöldans sem hlýðir á spámann Guðs segja fyrir um komandi atburði.

Samúel sagði: „Sjá, ég gef yður tákn. Fimm ár munu enn líða, en sjá, þá kemur Guðssonurinn til að endurleysa alla þá, sem á nafn hans trúa.

Og sjá. Þetta gef ég yður sem tákn við komu hans. Því að sjá, mikil ljós verða á himni, svo mikil, að nóttina fyrir komu hans mun ekkert myrkur verða, þannig að manninum virðist sem dagur sé.

Fyrir því verður einn dagur og nótt og dagur, sem væri það einn samfelldur dagur en engin nótt. Og þetta verður yður tákn. …

Og sjá. Ný stjarna mun rísa, … og hún skal einnig verða yður tákn. (He 14:2–5).

Fæðing frelsarans

Með tímanum, „þá tóku spádómar spámannanna að koma betur fram, því að stærri tákn og undur urðu meðal þjóðarinnar“ (3 Ne 1:4).

Ímyndið ykkur að fimm ár hafi liðið og að þið séuð nú um 15 ára gömul. Þið munið glögglega eftir spádómum Samúels, þegar þið íhugið þær aðstæður sem þið nú búið við.

„En sumir tóku að segja, að tíminn væri liðinn, þegar orðin, sem Lamanítinn Samúel mælti, skyldu uppfyllast.

Og hlakka tók í þeim gagnvart bræðrum sínum, og þeir sögðu: Sjá. Tíminn er liðinn og orð Samúels hafa ekki uppfyllst. Gleði ykkar yfir þessu og trú ykkar á það hefur þess vegna verið fánýt.

Og svo bar við, að þeir ollu miklu uppnámi um allt landið. En hinir trúuðu urðu áhyggjufullir, ef svo kynni að fara, að það, sem talað hafði verið um, yrði ekki að veruleika.

En sjá. Staðfastir væntu þeir þess dags og þeirrar nætur og þess dags, sem verða skyldu sem einn dagur án nokkurrar nætur, er þeir fengju að vita, að trú þeirra hefði ekki verið til einskis.

Nú bar svo við, að trúleysingjarnir tiltóku ákveðinn dag, er allir þeir, sem trúðu þessum arfsögnum, skyldu teknir af lífi, ef táknin, sem spámaðurinn Samúel talaði um, kæmu ekki fram“ (3 Ne 1:5–9).

Bræður og systur, getum við ímyndað okkur hvernig það hefur verið að bíða tákna komu hans, samtímis því að standa frammi fyrir hræðilegum dauðdaga? Myndum við standa stöðug og vera staðföst í trúnni eða skelfast og draga í land?

En táknin um fæðingu Krists, sem Samúel sagði fyrir um, birtust vissulega. Í umhverfi trúarofsókna og verandi á hinum viðkvæma 15 ára aldri, þá furðið þið ykkur á því að ekkert myrkur varð, þótt sólin settist og hyrfi.

„Og fólkið varð forviða, vegna þess að albjart var, þegar nótt féll á. …

Og þeir tóku að gjöra sér ljóst, að Guðssonurinn hlyti brátt að birtast. … Allt fólkið … varð svo agndofa, að það féll til jarðar. …

Og svo bar við, að ekkert myrkur féll á þessa nótt, heldur var albjart sem um miðjan dag. Og svo bar við, að sólin reis upp að morgni á ný. … Og vegna táknanna, sem gefin höfðu verið, vissu þau að þetta var fæðingardagur Drottins.

Og allt hafði komið fram í samræmi við orð spámannanna, já, hvert smáatriði.

Og svo bar einnig við, að ný stjarna birtist í samræmi við orðið“ (3 Ne 1:15, 17, 19–21).

Fæðingardagur Jesú var dagur björgunar fyrir hina trúuðu í hinum nýja heimi. Ljósið sem var tákn um fæðingu frelsarans, bjargaði í raun lífi fólksins.

Dauði og upprisa frelsarans

Ímyndið ykkur nú, bræður og systur, að rúm þrjátíu ár hafi liðið og þið nálgist 50 ára aldurinn. Þið munið enn glögglega eftir kennslu Samúels og reynslu ykkar sem unglingar, þegar táknin um fæðingu Drottins voru gefin.

Eitt af þeim táknum sem Samúel sagði frá um dauða Krists, voru þrír dagar almyrkurs (sjá He 14:27; 3 Ne 8:3).

„Og svo bar við, að svo mikið niðamyrkur grúfði yfir öllu landinu, að íbúar þess, sem uppi stóðu, gátu fundið myrkurhjúpinn–

Og ekki varð unnt að tendra neitt ljós vegna myrkursins, hvorki kertaljós né blys. … þannig að alls ekkert ljós var að hafa–

Og ekkert ljós var sýnilegt, hvorki eldur, leiftur, sólin, tunglið né stjörnurnar, svo mikill var myrkurhjúpurinn, sem grúfði yfir öllu landinu.

Og svo bar við, að þetta hélst í þrjá daga, og ekkert ljós var sýnilegt“ (3 Ne 8:20–23).

Hvernig haldið þið að það hafi verið að upplifa þessa þrjá daga almyrkurs og síðan, nokkru síðar, að koma saman með 2500 manns við musterið í landi Nægtarbrunns? Getið þið ímyndað ykkur þá dramatísku stund, er frelsarinn steig niður af himni og lýsti yfir: „Sjá, ég er Jesús Kristur. … Ég er ljós og líf heimsins“? (3 Ne 11:10–11; skáletrað hér).

Tvö fyrstu orðin sem frelsarinn notaði til að lýsa sjálfum sér fyrir mannfjöldanum, voru „ljós.“ Samúel spáði um tákn ljóss. Tákn ljóss var gefið við fæðingu frelsarans. Óttinn og ömurlegt myrkrið, sem mannfjöldinn hafði upplifað, hurfu nú fyrir hinu sanna ljósi, já, Jesú Kristi.

Þessi frásögn í Mormónsbók um fyrstu jólin, auðveldar okkur að skilja betur að Jesús Kristur er „ljósið, sem skín í myrkrinu“ (sjá K&S 10:57–61). Á hverju æviskeiði, í öllum okkar hugsanlegu aðstæðum og í hverri áskorun sem við tökumst á við, þá er Jesús Kristur ljósið sem eyðir óttanum, veitir fullvissu og leiðsögn og varanlegan frið og gleði.

Margir minnistæðir og sívarandi jólasiðir, hafa að geyma öðruvísi ljós – ljós á trjám, ljós í og utan á húsum okkar og kerti á borðum. Megi slík falleg jólaljós minna okkur á hann, sem er uppspretta alls ljóss.

Þó lýsir ljósið bjarta,

það ljós er aldrei dvín,

sú von og trú er væntir þú,

hún verður loksins þín.

(„Ó, borgin litla, Betlehem,“ Sálmar, nr. 81).

Ég ber vini um að Jesús fæddist í Betlehem, að hann uppfyllti sigrihrósandi sína jarðnesku þjónustu og ætlunarverk og að hann lifir í dag, sem okkar upprisini Drottinn. Um það vitna ég í heilögu nafni Drottins Jesú Krists, amen.

Prenta