Jólasamkomur
Jólin – tími til að elska, þjóna og fyrirgefa


Jólin – tími til að elska, þjóna og fyrirgefa

Ég hrífst af því að sjá tilhlökkun og eftirvæntingu barnanna allan jólatímann. Ég minnist eigin tilhlökkunnar á bernskuárum mínum í Barnafélaginu í Argentínu. Eitt árið báðu kennararnir í Barnafélaginu okkur um að þvo gömlu leikföngin okkar, hárið á dúkkunum og gera við kjólana þeirra, svo við gætum gefið þau litlum drengjum og stúlkum sem þurftu að verja jólunum á sjúkrahúsi.

Í vikunni sem ég þvoði gömlu dúkkurnar mínar, spurði mamma hvað ég væri að gera við þær. Ég útskýrði að kennararnir í Barnafélaginu hefðu beðið okkur að gera þetta og hún spyrði: „Þú ætti líka að gefa börnunum eitt af fínu leikföngunum þínum.“

Við því svaraði ég: „Af hverju ætti ég að gera það?“

Hún sagði þá nokkuð sem aldrei hefur horfið úr huga mér öll þessi ári. Hún sagði: „Cris, það er afar gott að gefa eitthvað sem við kunnum vel að meta, eitthvað sem erfitt er að láta frá sér, því það er okkur kært, eitthvað sem gæti verið fórn. Sú var gjöf himnesks föður til okkar. Hann sendi son sinn, Jesú Krist – ekki bara einhvern son. Hann sendi sinn ástkæra og fullkomna son, svo við gætum komið og dvalið aftur í návist hans.“

Þetta árið, er ég gaf eftirlætis leikföngin mín, skildi ég aðeins betur gjöf himnesks föður til okkar – hans ástkæra son, Jesú Krist, sem gaf líf sitt í okkar þágu af elsku og óeigingirni.

Sem hluta af jólahátíðinni, las pabbi minn á hverju ári fyrir okkur hina fallegu frásögn Lúkasar úr ritningunum:

„En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. …

Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.

Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, …

að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð.

En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.

Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.

„En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.

Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir,

en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum:

Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.

Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu‘.

Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“1

Bræður og systur, hvernig getum við notið þessa sama friðar í dag og velvildar til allra manna?

Eftir að hafa ígrundað þessa spurningu undanfarnar vikur, með það í huga að á jólum er við hæfi að gefa, komu upp í hugann þrjár athafnir – reyndar þrennskonar gjafir sem hvert okkar getur gefið. Við gefum auðvitað þessar gjafir allan ársins hring, en á hinum dásamlegu jólum minnumst við þeirrar gjafar föðurins sem sonur hans var og íhugum hvernig við getum fylgt fordæmi þeirra, er við vöxum að geta og þrá til að gefa.

1. Á jólum er við hæfi að gefa gjöf elsku.

Faðir okkar á himnum og frelsari okkar, Jesús Kristur, eru æðstu fyrirmyndir elsku. Kær ritningargrein segir: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“2

Frelsari okkar kenndi okkur að elska alla með eigin fordæmi. Hann kenndi okkur líka að elska Guð og að elska náungann eins og sjálf okkur.

Öldungur John A. Widtsoe útskýrði:

„Ekki er víst að við fáum fyllilega skilið eðli elsku, en hana má auðkenna með ýmsum hætti.

Elska grundvallast ætíð á sannleika. … Lygar og blekkingar eða hvaða annað brot gegn siðferðislögmálinu, staðfesta að elska er ekki fyrir hendi. Elska fjarar út mitt í ósannindum. … Því er það svo, … að [sá] sem lýgur að elskunni sinni eða býður henni einhverja þá athöfn sem andstæð er sannleikanum, elskar hana í raun ekki.

Ennfremur þá móðgar eða særir elska ekki eigin ástvin. … Grimmd er jafn fjarri elsku … og sannleikurinn er ósannindunum. …

„Kærleikurinn er jákvæður og virkur eiginleiki. Hann hjálpar þeim sem er elskaður. Ef þörf kemur upp, reynir kærleikurinn að uppfylla hana. Ef veikleiki er fyrir hendi, bætir hann það með styrkleika. … Sú elska sem ekki hjálpar er fölsk eða skammvin.

Hversu góðar sem slíkar prófanir kunna að vera, þá er til önnur betri. Sönn ást fórnar í þágu hins elskaða. … Það er lokaprófraunin. Kristur gaf sig sjálfan, gaf líf sitt, í okkar þágu og staðfesti þar með raunveruleika elsku sinnar til jarðneskra bræðra og systra sinna.“3

Faðir okkar á himnum býður okkur öllum, börnum sínum, að fórna og gefa af þessari elsku. „Gefið,“ sagði frelsarinn, „og yður mun gefið verða.“4 „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.“5

2. Á jólum er við hæfi að gefa gjöf þjónustu.

Drottinn okkar og frelsari þjónaði fólkinu persónulega, uppörvaði hina undirokuðu, vakti hinum sorgbitnu von og leitaði hinna týndu. Hann veitti blindum sjón, læknaði hina sjúku og lömuðu, svo þeir gætu gengið og reisti dána upp upp frá dauðum.

Á jólum hugsa ég um trúboðana – öldungana, systurnar, eldri trúboðana og trúboðsforsetana víða um heim – sem eru fulltrúar Jesú Krists og gefa fúslega af eigin tíma til að þjóna öllu mannkyni. Ég hugsa um alla þá bræður og systur sem verja mörgum klukkustundum við að þjóna í köllunum sínum af kostgæfni. Á þessum tíma hugsa ég líka um þá karla og konur sem þjóna í hernum til að tryggja öryggi okkar. Þakka ykkur fyrir þjónustu ykkar!

Þótt við hins vegar þjónum ekki Drottni eða landi okkar í fullri vinnu, þá eru tækifærin til þjónustu ótakmörkuð. Ljúf orð og verk geta létt byrðar og glatt hjörtu! Himneskur faðir býður okkur öllum að láta í té þjónustu. „Konungurinn mun þá svara [okkur ef við gerum það]: Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér“6

3. Á jólum er við hæfi að gefa gjöf fyrirgefningar.

Að fyrirgefa öðrum, veitir okkur frið og gleði. Heber J. Grant forseti sagði: „Það er ekkert sem eykur okkur meira anda Guðs, en að … vera vingjarnleg, tillitssöm, gæskurík, þolinmóð og fús til að fyrirgefa. Það er ekkert sem veitir okkur jafn mikla gleði en að vera fús til að fyrirgefa náunganum misgjörðir hans gagnvart okkur og það er ekkert sem leiðir yfir okkur jafn mikla fordæmingu og að herða hjörtu okkar og ala á biturð og hefnigirni gagnvart þeim sem umhverfis okkur eru.“7

Til að hljóta fyrirgefningu synda okkar, þá verðum við að vera fús til að fyrirgefa öðrum.

Að fyrirgefa öðrum, gerir okkur kleift að sigrast á reiði, biturð og hefnigirni. Hver vill svo sem bera slíkar tilfinningar á jólum? Fyrirgefning megnar líka að græða andlegan sársauka og veitir þann frið og þá elsku sem Guð einn getur gefið.

Faðir okkar á himnum vill að við iðrumst og fyrirgefum öllum – líka okkur sjálfum. Öldungur Jeffrey R. Holland sagði: „Þótt þið teljið það um seinan, að tækifærin séu glötuð, að þið hafið gert of mörg mistök eða þið hafið ekki hæfileikann til þess eða að þið hafið fjarlægst heimili ykkar og fjölskyldu og Guð of mikið, þá ber ég vitni um að þið eruð ekki utan guðlegrar elsku. Þið fáið ekki sokkið neðar geislum hins óendanlega ljóss friðþægingar Krists.“8

Bræður og systur, gefum öll okkar bestu gjafir þessi jól. Gefum okkar eftirlætis leikföng af þakklátu hjarta – ekki þau sem eru orðin úr sér gengin. Gefum þeim sem umhverfis okkur eru gjöf elsku, gjöf þjónustu og hina sönnu gjöf fyrirgefningar. Því sem við iðrumst, mun hinn heilagi Ísraels fyrirgefa okkur. Ég ber vitni um að hann lifir! Hann er konungur konunga, Friðarprinsinn, frelsari okkar, lausnari okkar og vinur okkar. Í nafni Jesú Krists, amen