Jólasamkomur
Himneskar gjafir


Himneskar gjafir

Ungur drengur

Engum litlum dreng hlakkaði meira til jólanna en mér. Ég elskaði þau! Foreldrar mínir voru snillingar í því að gera heimilið okkar að dásamlegu litlu undralandi. Þar voru skreytingar, tónlist, ljósaseríur, góðgæti og svo auðvitað gjafir. Hve ég hlakkaði til gjafanna. Á hverju ári bjó ég staðfastlega til óskalista yfir mínar hjartans dýpstu þrár.

Þar sem við bjuggum á sveitabýli, þá kyntum við upp í köldu vetrarloftinu áður en við opnuðum pakkana og huguðum að dýrunum okkar. Ekkert var betra en að ljúka verki okkar og flýta sér síðan inn aftur til að njóta töfra morgunsins.

Ég var rétt að byrja á því að læra um manninn, Jesú Krist, hvers fæðingu við héldum upp á. Þetta virtist nokkuð góð staða. Hann var afmælisbarnið, en við fengum allar gjafirnar. Hvaða barn myndi ekki elska það! Jólin voru eitthvað gott.

Til allrar lukku, þá jókst skilningur minn á frelsaranum eftir því sem tíminn leið – á fæðingu hans og afmæli, lífi hans og kraftaverkum, mætti hans og fórnum, friðþægingu hans og upprisu og aðallega hátign hans og ólýsanlegri elsku. Já, jólin voru allt það sem gott var, en það var einfaldlega vegna þess að Jesús Kristur var allt hið góða. Betra væri þó að segja að Jesús Kristur væri allt hið dásamlega.

Trúboðsþjónusta

Eins og margt ungt fólk, þá hlakkaði ég mikið til þess að þjóna í trúboði, en fyrstu jólin að heiman voru þó nokkuð erfið. Á mánuðunum fyrir 19 ára afmælið mitt, gat ég vart hugsað um nokkuð annað en að fara í trúboðið. Ég var yngri en flestir bekkjarfélaga og vina minna og margir þeirra höfðu þegar farið í trúboð á undan mér. Mér fannst ég líka tilbúinn til þess að fara í trúboð. Það eina sem stóð í vegi þess var afmælisdagurinn minn.

Eftir endalausa bið, að því að mér fannst, þá fór ég loks í trúboðsskólann. Árla í desember var ég svo í flugvél á leið til trúboðsins míns í Santiago, Chile. Loks var ég á leið þangað og það sem betra var, jólin voru framundan. Ég var sannfærður um að ég væri tilbúinn fyrir stórkostlegustu upplifun lífs míns.

Þegar ég steig út úr flugvélinni, þá varð mér ljóst að hlutirnir voru afar frábrugðnir því sem ég hafði vanist í Utah. Já, jólin voru handan við hornið, en mér leið eins og á miðju sumri. Hvar var snjórinn? Hvar voru kuldaskórnir og úlpurnar?

Ég var brátt niðursokkinn í áskoranir verksins. Ég var enn undir áhrifum tímamismunarins og stóð mig stundum að því að sofna við kennslu trúarnema. Menningin var ólík, tungumálið var ráðgáta – það hljómaði vissulega ekki eins og ég lærði það í trúboðsskólanum – og maturinn var einkennilegur. Talandi um matinn, þá hljótum ég og félagi minn að hafa borðað eitthvað slæmt, því báðum varð okkur hræðilega ómótt og svo ofan á allt annað þá skall á jarðskjálfti fyrstu nóttina mína í Chile.

Þetta voru fyrstu jólin að heiman og ég varð afar veikur. Ég lá í rúminu í ókunnugu landi, reynandi að skilja hið erfiða tungumál og búandi með öðrum einstaklingi sem ég varla þekkti. Snérist trúboðsstarfið bara um þetta og af hverju hafði mér legið svo á að fara?

Þrátt fyrir allar þessar áskoranir, þá tók ég að elska íbúa Chile af öllu hjarta. Þeir voru svo dásamlegir og auðvelt var að elska þá – og margir þeirra þráðu innilega að hlusta á boðskap frelsarans. Í hinum hrjáða og raunverulega heimi, þar sem fólkið þráði innilega boðskapinn um frelsarann, urðu jólatrén og jólaskrautið ekki næstum eins mikilvæg og áður. Fyrst Kristur hafði yfirgefið sín himnesku heimkynni til að koma til jarðar og þjást og deyja fyrir okkur öll, þá gat ég vissulega yfirgefið eigið heimili og þolað einhver óþægindi til að miðla hans dásamlega boðskap.

Þessi jól kynntist ég gleði þess að hjálpa fólki að taka á móti æðstu allra gjafa himnesks föður, hinni miklu sáluhjálparáætlun hans – þeirri hamingju sem ég uppgötvaði að væri það sem allir þráðu heitast, ekki bara á jólum, heldur öllum stundum.

Ungur ekkill og hjónaband

Nokkrum árum eftir trúboðið mitt, þá stóð ég frammi fyrir annarri áskorun. Ég var sorgmæddur, þreyttur og einmana. Nokkrum mánuðum áður hafði eiginkona mín til tveggja ára látið óvænt lífið í bílslysi, svo ég varð einn eftir með sjö mánaða gamalt stúlkubarn okkar.

Ég var við nám í háskóla, lærði og vann og reyndi að takast á við að vera einstætt foreldri. Jólin voru að koma og meðan aðrir voru á leið heim til að vera með fjölskyldu sinni og ástvinum yfir hátíðina, þá varð ég áfram í skólanum vegna atvinnu minnar. Ég var einmana og afar dapur Jólin komu og fóru og tíminn leið.

Næstum ári síðar, er jólin voru að halda innreið sína, var ég enn einhleypur. Í ritningunum segir jú að það sé ekki gott manninum að vera einn (sjá 1 Mós 2:18) og ég var algjörlega sammála því. Ég þarfnaðist félaga og dóttir mín þarfnaðist móður.

Ég hugsaði með mér: „Ég er kannski ekki gott mannsefni, en hvaða kona myndi ekki vilja alvöru lítið stúlkubarn í jólagjöf? Ekki bara brúðu – heldur alvöru manneskju?“ Ef einhverri langaði í barn, tja, þá yrði ég hluti af pakkanum, til allrar hamingju.

Ég hafði haft auga á ungri konu að nafni Nancy í líffræðitíma, en það dró að lokum námsannarinnar og ég hafði enn ekki safnað nægum kjark til að tala við hana. Ég hlýt að hafa haft himnanna í mínu liði, því dag einn, af hreinni tilviljun, þá gerðist það að við vorum samtímis í prófamiðstöðinni. Nú var tækifærið. Ég bryddaði upp á samræðum og hringdi síðan í Nancy um kvöldið og bauð henni á stefnumót. Við fórum á eitt stefnumót, síðan annað og svo enn eitt. Mér var þó ljóst að jólin væru að koma og að Nancy væri að fara heim til sín. Hvað gæti ég gert til að viðhalda hinum litla neista sem hafði myndast á milli okkar og var að stækka?

Ég bjó til áætlun. Með aðstoð systur Nancy og unnusta hennar, hugðist ég koma Nancy á óvart með því að færa henni gjöf á hverjum hinna 12 daga sem eftir væru fram að jólum.

Áætlunin virkaði. Nancy fékk gjafir án þess að hafa hugmynd um frá hverjum þær væru. Það varð að ráðgátu sem öll fjölskyldan reyndi að finna lausn á. Systir Nancy og unnusti hennar lofuðu að koma ekki upp um sinn þátt í málinu. Þetta voru sannlega leynisamtök – sem þó höfðu góðan tilgang.

Kvöld eitt tókst fjölskyldunni þó að koma upp með vísbendingu. Dyrabjallan hringdi, fjölskyldan þaut til dyra og náði að sjá bíl bruna í burtu. Þau skráðu númer bílsins og daginn eftir hringdu þau í ökutækjaskrá til að auðkenna eiganda bílsins. Þau uppgötvuðu að hann tilheyrði einhverjum í fjölskyldu unnusta systurinnar. Kötturinn var úr sekknum. Systir Nancy og unnusti hennar gáfu sig fram og viðurkenndu að þau ættu hlut að máli. Innst inni var ég ánægður að upp um mig komst, því ég og Nancy gátum þá varið jóladeginum saman og haldið síðan áfram tilhugalífinu.

Rétt eins og ég hafði vonað, þá vildi Nancy alvöru stúlkubarn í jólagjöf. Hún elskaði dóttir mína sem sína eigin. Ég var svo hluti af pakkanum, til allrar hamingju. Við giftumst næsta sumar. Það var ein besta gjöfin sem ég hafði nokkru sinni hlotið.

Ég var að upplifa hina dásamlegu hamingjuáætlun himnesks föður. Ég átti eilífa fjölskyldu og við vorum innsigluð saman að eilífu. Gjöf eilífs hjónabands og fjölskyldu er gjöf sem allir trúfastir geta vænst, hvort heldur í þessu lífi eða því næsta. Er til einhver stærri gjöf?

Þegar ég hugsa um einmanaleikann og sorgina sem ég upplifði áður, þá varð mér ljóst að Jesús Kristur hafði líka upplifað sig einan og yfirgefinn. Hann skildi sársauka minn betur en nokkur annar. Jafnvel í mínum mesta einmanaleika, fannst mér hann aldrei yfirgefa mig. Hann var ekki aðeins frelsari minn, heldur bróðir og besti vinur.

Ungur faðir

Litla fjölskylda okkar fór stækkandi og fáum árum síðar stóð ég frammi fyrir öðru áhyggjuefni. Þegar jólin nálguðust, litum ég og Nancy á hvort annað og gerðum okkur ljóst að við ættum ekki einn eyri til að kaupa jólagjafir fyrir ungu börnin okkar það árið.

Ég hafði nýverið útskrifast úr háskóla og við vorum enn að fóta okkur í lífinu. Þótt ég hefði góða atvinnu, þá varð okkur brátt ljóst að hinn mikli kostnaður við að draga fram lífið væri meiri en fjárhagur okkar leyfði. Það eina sem var okkar megin var að við greiddum fulla tíund. Þótt engin annar vissi af aðstæðum okkar, þá vissu himneskur faðir og frelsarinn um þær og þeir tóku að senda okkur lítil jólakraftaverk.

Dag einn hringdi dyrabjallan. Það var nágranni sem hélt á leikfangakassa. Hún sagði: „Við vorum að hreinsa til hjá okkur og við sáum þessi leikföng sem börnin okkar hafa ekki lengur not fyrir. Okkur datt í hug hvort börnin ykkar hefðu gaman af þeim.“ Gæti það verið!

Annan dag hringdi dyrabjallan aftur. Í þetta skipti voru það meðlimir í deildinni okkar. Þau stóðu þarna með lítið stelpuhjól. Þau sögðu: „Við höfum ekki lengur not fyrir þetta hjól og okkur var hugsaði til ykkar. Haldið þið að dóttir ykkar gæti notað það?“ Við vorum yfir okkur glöð!

Nokkrum vikum áður hafði ungur sonur okkar tekið þátt í litasamkeppni verslunar í nágrenninu. Í okkur var hringt einn daginn með þau skemmtilegu tíðindi að hann hefði unnið keppnina. Hann hafði fengið vinsælt barnamyndband í verðlaun Við vorum orðlaus!

Öll þessi litlu kraftaverk – börnin okkar áttu þá eftir allt saman að fá fáeinar jólagjafir. Við höfðum greitt tíundina okkar og himneskur faðir og frelsarinn höfðu lokið upp gáttum himins og úthellt yfir okkur blessunum sínum – beint í gegnum strompinn.

Mér varð hugsað um að kristsbarnið hefði fæðst við afar fábrotnar aðstæður og að aðrir hefðu líka fundið hann til að færa honum dýrmætar gjafir. Sem jarðneskur faðir, þá þráði ég svo innilega að gefa börnum mínum allt sem í mínu valdi stóð.

Faðir okkar á himnum þráir það líka. Elska hans er svo fullkomin að hann þráir að gefa okkur allt sem er hans. Það er ólýsanleg gjöf.

Lokaorð

Bræður og systur, öllum munum við einhvern tíma verða einmana, sjúk, sorgmædd, fátæk eða fjarri heimili okkar. Til allrar hamingju, þá eigum við eilífan föður og frelsara sem skilja okkur. Þegar við komum til þeirra, mun þeir taka í hönd okkar og leiða okkur í gegnum allar áskoranir.

Bræður og systur, við munum líka öll einhvern tíma þekkja einhvern sem er einmana, sjúkur, sorgmæddur, fátækur eða fjarri heimili sínu. Faðir okkar og frelsarinn geta leitt okkur til að hjálpa öðrum og það mun verða okkur forréttindi að gera svo.

Sem barn, þá hélt ég að jólin væru aðeins einn dagur á ári hverju. Sem fullorðinn maður, er mér nú ljóst að jólin eru á hverjum degi. Vegna gæsku ástríks himnesks föður og hins ástkæra frelsara, Jesú Krists, þá tökum við stöðugt á móti himneskum gjöfum – sérhvern dag. Himneskum gjöfum, sem eru of margar til að þylja upp.

Þakklæti mitt fyrir föðurinn og soninn er svo mikið og innilegt og er líkt og Ammon sagði til forna: „Ég get aðeins lýst broti af því, sem mér býr í brjósti“ (Alma 26:16).

Já, það er afmæli Jesú Krists, sem við höldum hátíðlegt á hverjum jólum, en vegna gæsku föðurins og sonarins, þá fáum við sjálf ennþá allar gjafirnar. Um þetta vitna ég í nafni Jesú Krists, amen.