2010–2019
Þjóna með krafti og valdi Guðs
Apríl 2018


Þjóna með krafti og valdi Guðs

Við munum þjóna í hans nafni, með hans krafti og valdi og af gæsku hans.

Kæru bræður mínir, þakka ykkur fyrir hollustu ykkar við Drottin og hans helga verk. Það er mér sönn gleði að vera meðal ykkar. Við þökkum ykkur, sem nýtt Æðsta forsætisráð, fyrir bænir ykkar og stuðning í verki. Við erum þakklátir fyrir lífsmáta ykkar og þjónustu við Drottin. Hollusta ykkar, ábyrgð og óeigingjörn þjónusta eru af engu síðra mikilvægi í ykkar köllunum, en okkar köllunum. Í ævilangri þjónustu í þessari kirkju, hefur mér lærst að engu skiptir hvar maður þjónar. Það sem Drottinn lætur sig skipta er hvernig maður þjónar.

Ég tjái innilegt þakklæti fyrir Thomas S. Monson forseta, sem var mér fordæmi í yfir 50 ár. Ég tjái líka djúpa aðdáun mína á ráðgjöfum hans, Henry B. Eyring forseta og Dieter F. Uchtdorf forseta. Ég hrósa þeim fyrir þjónustu þeirra í þágu Drottins og spámanna hans. Báðir þessir tryggu þjónar hafa fengið ný verkefni. Þeir halda áfram að þjóna af eldmóð og einurð. Ég heiðra og elska þá báða.

Það er dásamleg blessun að þjóna í hinni sönnu og lifandi kirkju Drottins, með valdi og krafti hans. Endurreisn prestdæmis Guðs, þ.m.t. lykla pestdæmisins, lýkur upp öllum æðstu andlegu blessunum fyrir verðuga Síðari daga heilaga. Við sjáum þessar blessanir streyma til karla, kvenna og barna víða um heim.

Við sjáum trúfastar konur sem skilja kraftinn sem tengist köllunum þeirra, musterisgjöfinni og öðrum helgiathöfnum musterisins. Þessar konur vita hvernig á að kalla á krafta himins til að vernda og styrkja eiginmenn sína, börn og aðra sem þeim er annt um. Þetta eru andlega sterkar konur sem leiða, kenna og þjóna af óttaleysi í köllunum sínum, með valdi og krafti Guðs! Hve ég er þeim þakklátur!

Við sjáum líka trúfasta karla, sem lifa samkvæmt forréttindum sínum sem handhafar prestdæmisins. Þeir leiða og þjóna með því að fórna að hætti Drottins, af kærleika, gæsku og þolinmæði. Þeir blessa, leiða, vernda og styrkja aðra með krafti prestdæmisins sem þeir hafa. Þeir leiða fram kraftaverk í lífi þeirra sem þeir þjóna á sama tíma og þeir varðveita eigið hjónaband og fjölskyldu. Þeir forðast hið illa og eru máttugir öldungar í Ísrael. Ég er þeim afar þakklátur!

Má ég nú benda á áhyggjuefni? Það er þetta: Of margir bræðra okkar og systra skilja ekki hvað felst í valdi og krafti prestdæmisins. Með breytni sinni virðast þau fremur vilja eltast við eigingjarnar þrár og langarnir, í stað þess að nota kraft Guðs börnum hans til blessunar.

Ég óttast að of margir bræðra okkar og systra átti sig ekki á þeim forréttindum sem gætu verið þeirra. Sumir bræðra okkar breyta til að mynda eins og þeir skilji ekki hvað prestdæmið er og hvað það gerir þeim kleift að gera. Ég ætla að setja fram nokkur dæmi:

Fyrir nokkru var ég á sakramentissamkomu þar sem ungbarni var gefið nafn og veitt föðurblessun. Hinn ungi faðir hélt á dýrmætu barni sínu í fanginu, gaf því nafn og flutti síðan fallega bæn. Hann veitti barninu ekki blessun. Hinu ljúfa stúlkubarni var gefið nafn ekki blessun! Þessi kæri öldungur þekkti ekki muninn á bæn og prestdæmisblessun. Hann hefði getað blessað barnið sitt með valdi og krafti prestdæmis síns, en hann gerði það ekki. Ég hugsaði með mér: „Þarna var tækifæri sem fór forgörðum!“

Ég ætla að nefna önnur dæmi. Við vitum að sumir bræður setja systur í embætti sem leiðtoga og kennara Barnafélags, Stúlknafélags eða Líknarfélags, en láta hjá líða að blessa þær – blessa þær með kraftinum sem þarf til að framfylgja köllun þeirra. Þeir veita einungis áminningar og fyrirmæli. Við sjáum verðuga feður láta hjá líða að veita eiginkonum sínum og börnum prestdæmisblessanir, einmitt þegar þau þurfa á þeim að halda. Prestdæmisvald hefur verið endurreist á þessa jörðu og samt upplifa of margir bræður og systur hræðilegar raunir í lífinu, án þess að vera veitt réttmæt prestdæmisblessun. Hvílík ógæfa! Það er ógæfa sem við getum útilokað.

Bræður, við höfum hið heilaga prestdæmi Guðs! Við höfum valdsumboð til að blessa fólkið hans. Hugsið um hina merkilegu staðfestingu sem Drottinn gaf með orðunum: „Hvern sem þú blessar mun ég blessa.“ Við njótum þeirra forréttinda að fá starfað í nafni Jesú Krists, til að blessa börn Guðs, að vilja hans hvað þau varðar. Stikuforsetar og biskupar, gætið vinsamlega að því að hver meðlimur í þeim sveitum sem eru á ykkar ábyrgðarsviði, viti hvernig gefa á prestdæmisblessun – og sé kunnugur þeim verðugleika og nauðsynlega andlega undirbúningi, til að nota til fulls kraft Guðs.

Ég býð öllum þeim bræðrum sem hafa prestdæmið að hvetja meðlimi til að halda sáttmála sína, fasta og biðja, lesa ritningarnar, tilbiðja í musterinu og þjóna sem karlar og konur Guðs. Við getum hjálpað öllum að sjá með auga trúar að hlýðni og réttlæti færa þau nær Jesú Kristi, gera þeim kleift að njóta samfélags heilags anda og upplifa gleði lífsins!

Aðalsmerki hinnar sönnu og lifandi kirkju Drottins, mun ætíð verða skipulagt og hnitmiðað þjónustustarf í þágu einstakra barna Guðs og fjölskyldna þeirra. Þar sem þetta er kirkjan hans, munum við, sem þjónar hans, þjóna hinum eina, á sama hátt og hann gerði. Við munum þjóna í hans nafni, með hans krafti og valdi og af gæsku hans.

Atvik sem ég upplifði í Boston fyrir yfir 60 árum sýndi mér hve áhrifarík forréttindi það geta verið að þjóna hinum eina. Ég var þá skurðlæknanemi á almenningssjúkrahúsi Massachusetts – á vöktum alla daga, aðra hverja nótt og aðra hverja helgi. Ég hafði takmarkaðan tíma fyrir eiginkonu mína, fjögur börn og kirkjustarfið. Greinarforsetinn fékk mér engu að síður það verkefni að heimsækja heimili Wilburs og Leonoru Cox, í von um að bróðir Cox færi að koma aftur í kirkju. Hann og Leonora höfðu verið innsigluð í musterinu. Wilbur hafði þó ekki komið í kirkju í mörg ár.

Ég og félagi minn fórum heim til þeirra. Þegar við komum þangað, tók systir Cox hlýlega á móti okkur, en bróðir Cox gekk fyrirvaralaust rakleiðis inn í annað herbergi og lokaði að sér.

Ég fór að lokuðum dyrunum og knúði á þær. Eftir andartak heyrði ég dauflega sagt: „Kom inn.“ Ég opnaði dyrnar og sá bróður Cox sitjandi við hlið fjölmargra heimasmíðaðra útvarpstækja. Í þessu litla herbergi kveikti hann sér í vindli. Heimsókn mín var augljósleg ekki æskileg.

Ég leit yfir herbergið af undrun og sagði: „Bróðir Cox, mig hefur alltaf langað til að kynna mér betur útvarpssmíði. Værir þú til í að fræða mig um hana? Því miður get ég þó ekki dvalið lengur í kvöld, en væri í lagi að koma síðar?“

Hann hikaði andartak og jánkaði því síðan. Það var upphafið að dásamlegri vináttu. Ég koma aftur og hann fræddi mig. Væntumþykja og virðing vöknuðu í hans garð. Eftir því sem heimsóknunum fjölgaði, kom mikilleiki mannsins í ljós. Við urðum afar góðir vinir og það urðu okkar kæru eilífu lífsförunautar líka. Þegar tíminn leið, flutti ég í burtu með fjölskyldu mína. Svæðisleiðtogar héldu áfram að annast Cox-hjónin.

Um átta árum eftir þessa fyrstu heimsókn, var Boston stikan stofnuð. Getið þið getið ykkur til um hver fyrsti stikuforsetinn var? Já, einmitt! Bróðir Cox! Á árunum eftir það, þjónaði hann líka sem trúboðsforseti og musterisforseti.

Mörgum árum síðar var mér, sem meðlimi Tólfpostulasveitarinnar, falið að stofna nýja stiku í Sanpets-sýslu, Utah. Meðan á hinum venjubundnu viðtölum stóð, naut ég þeirra óvæntu ánægju að hitta aftur minn kæra vin, bróður Cox! Ég fann mig knúinn til að kalla hann sem patríarka í hinni nýju stiku. Eftir að hafa vígt hann, féllumst við í faðma og tárfelldum. Fólkið í herberginu velti fyrir sér af hverju tveir fullorðnir menn væru þar grátandi saman. Við vissum það aftur á móti. Systir Cox vissi það líka. Við grétum af gleði! Við hugsuðum hljóðlega um þá undursamlegu ferð kærleika og iðrunar, sem hófst að kvöldi til fyrir yfir 30 árum á heimili þeirra.

Frásögninni lýkur ekki hér. Fjölskylda bróður og systur Cox stækkaði og taldi 3 börn, 20 barnabörn og 54 barnabarnabörn. Ofan á það má svo bæta áhrifum þeirra á hundruð trúboða, þúsunda í musterinu og hundruð fleiri sem Wilbur Cox veitti patríarkablessanir. Áhrif hans og Leonoru munu halda áfram að margfaldast með mörgum kynslóðum víða um heim.

Slíkar upplifanir, eins og þessi með Wilbur og Leonoru Cox, gerast í hverri viku – vonandi á hverjum degi – í þessari kirkju. Trúfastir þjónar Drottins Jesú Krists framfylgja verki hans, með krafti og valdi hans.

Bræður, til eru dyr sem ljúka má upp, prestdæmisblessanir sem veita má, hjörtu sem græða má, byrðar sem létta má, vitnisburðir sem styrkja má, líf sem bjarga má og gleði sem færa má inn á heimili Síðari daga heilagra – aðeins bundið því að við höfum prestdæmi Guðs. Við erum þeir sem „í samræmi við forþekkingu Guðs [vorum] kallaðir og undirbúnir frá grundvöllun veraldar vegna mikillar trúar [okkar], til að vinna þetta verk.

Í kvöld býð ég ykkur í bókstaflegri merkingu að rísa upp með mér í hinu mikla eilífa bræðralagi. Þegar ég nefni prestdæmisembættið ykkar, rísið þá vinsamlega úr sætum og standið áfram. Djáknar, standið á fætur! Kennarar, standið á fætur! Prestar! Biskupar! Öldungar! Háprestar! Patríarkar! Hinir Sjötíu! Postular!

Bræður, viljið þið nú standa áfram og syngja með kórnum öll þrjú vers sálmsins “Rise Up, O Men of God” (rís upp, ó menn Guðs). Hugsið um þá ábyrgð ykkar sem hersveit almáttugs Guðs, meðan þið syngið, að búa heiminn undir síðari komu Drottins. Þetta er boðið okkar. Þetta eru forréttindi okkar. Um það ber ég vitni í nafni Jesú Krists, amen.