Tilmæli til systra minna
Við þurfum styrk ykkar, trúskipti ykkar, sannfæringu ykkar, hæfileika ykkar til að leiða, visku ykkar og raddir.
Kæru öldungar Rasband, Stevenson og Renlund, við bræður ykkar bjóðum ykkur velkomna í Tólfpostulasveitina. Við þökkum Guði fyrir þær opinberanir sem hann veitir spámanni sínum, Thomas S. Monson forseta.
Bræður og systur þegar við hittumst á aðalráðstefnu fyrir sex mánuðum síðan þá átti enginn okkar von á þeim breytingum sem myndu toga í hjartarætur allrar kirkjunnar. Öldungur L. Tom Perry flutti kröftug skilaboð um hið óviðjafnanlega hlutverk hjónabandsins og fjölskyldunnar í áætlun Drottins. Nokkrum dögum síðar vorum við slegin, er við fréttum af krabbameininu sem myndi fljótt taka hann frá okkur.
Þó að heilsa Boyds K. Packer forseta hafi farið dvínandi, þá hélt hann áfram baráttunni í verki Drottins. Hann var veikburða síðasta apríl, samt var hann ákveðinn í að flytja vitnisburð sinn svo lengi sem hann hefði krafta til. Svo var það einungis 34 dögum eftir að öldungur Perry lést að Packer forseti fór einnig í gegnum huluna.
Við söknuðum öldungs Richard G. Scott á síðustu ráðstefnu, en við leiddum huga okkar að því kröftuga vitni sem hann hafði borið um frelsarann á svo mörgum ráðstefnum fram að því. Einungis 12 dögum síðan var öldungur Scott kallaður heim til endurfunda við sína ástkæru Jeanene.
Það voru forréttindi mín að vera með þessum bræðrum á síðustu dögum þeirra, ásamt því að sameinast nánustu fjölskyldu Packers forseta og öldungs Scotts rétt áður en þeir skildu við. Það hefur verið erfitt fyrir mig að trúa því að þessir dýrmætu vinir, þessir stórkostlegu þjónar Drottins, séu skyndilega horfnir á braut. Ég sakna þeirra meira en orð fá lýst.
Þegar ég hef hugleitt þessa óvæntu atburði, þá hefur það sem ég varð vitni að hjá eftirlifandi eiginkonunum, dvalið með mér lengst. Greypt í huga mér eru hinar friðsælu myndir af systur Donnu Smith Packer og systur Barböru Dayton Perry, þar sem þær sátu við rúm eiginmanna sinna, báðar fullar kærleika, sannleika og hreinni trú.
Þar sem systir Packer sat við hlið manns síns, síðustu stundirnar þá geislaði hún friði sem var æðri öllum skilningi.1 Þó að hún gerði sér grein fyrir því að félagi hennar, til næstum því 70 ára, væri fljótt að hverfa á braut, þá sýndi hún hugarró trúaðrar konu. Hún virtist sem engill, alveg eins og á þessari mynd af þeim við vígslu Brigham City musterisins.
Ég sá þessa sömu ást og trú stafa frá systur Perry. Hollusta hennar, bæði til manns hennar og Drottins var greinileg og það snerti mig djúpt.
Í gegnum síðustu stundir eiginmanna þeirra og fram til dagsins í dag, hafa þessar dyggu konur sýnt fram á þann styrk og það hugrekki sem sáttmálskonur hafa alltaf sýnt.2 Það væri vonlaust að meta þau áhrif sem slíkar konur hafa, ekki bara á fjölskyldur, heldur á kirkju Drottins, sem eiginkonur, mæður og ömmur, sem systur, frænkur, sem kennarar og leiðtogar og sérstaklega sem fyrirmyndir og trúfastir verndarar trúarinnar.3
Svona hefur það verið á öllum ráðstöfunartímum allt frá dögum Adams og Evu. Samt eru konurnar á þessum ráðstöfunartíma ólíkar konunum á öðrum ráðstöfunartímum, því þessi ráðstöfunartími er ólíkur öllum öðrum.4 Þessi mismunur veitir bæði forréttindi og ábyrgð.
Fyrir þrjátíu og sex árum síðan, árið 1979, þá kom Spencer W. Kimball forseti, fram með merkilegan spádóm um þau áhrif sem konur, sem halda sáttmála sína, myndu hafa á framtíð kirkju Drottins. Hann spáði: „Vöxtur kirkjunnar á hinum síðari dögum mun að stórum hluta verða rakinn til þess að fjölmargar góðar konur í heiminum … munu laðast að kirkjunni. Það mun gerast að svo miklu leyti sem konur í kirkjunni sýna réttlæti og skýrleika í framkomu og að því marki að konurnar í kirkjunni skeri sig áberandi úr – hvað gleði og hamingju varðar – frá öðrum konum í heiminum.5
Kæru systur, þið sem eruð bráðnauðsynlegir samstarfsaðilar okkar á þessum lokaspretti, dagurinn sem Kimball forseti sá í sýn, er í dag. Þið eruð þær konur sem hann sá. Dyggð ykkar, ljós, kærleikur, þekking, hugrekki, eðlisfar, trú og réttlátt líf, mun draga góðar heimsins konur, ásamt fjölskyldum þeirra, til kirkjunnar í þvílíkum fjölda sem á sér engin fordæmi!6
Við bræður ykkar, þurfum styrk ykkar, trúskipti ykkar, sannfæringu ykkar, hæfni ykkar til að leiða, visku ykkar og raddir. Ríki Guðs er ekki, og getur ekki verið, fullkomið án kvenna sem gera helga sáttmála og halda þá, kvenna sem geta talað með krafti og valdi Guðs!7
Packer forseti lýsti yfir:
„Við þörfnumst kvenna sem eru skipulagðar og kvenna sem geta skipulagt. Við þörfnumst kvenna með stjórnunarhæfileika sem geta áætlað, stjórnað og framkvæmt, kvenna sem geta kennt, kvenna sem geta látið í sér heyra. …
Við þörfnumst kvenna með gjöf greiningar sem geta séð gang mála heimsins og greint þá sem eru grunnhyggnir og hættulegir, sama hve vinsælir þeir eru.“8
Leyfið mér að bæta við að, í dag þörfnumst við kvenna sem vita hvernig þær eiga að láta mikilvæga hluti gerast með trú sinni og sem eru hugrakkir verndarar siðferðis og fjölskyldunnar í þessum synd-sjúka heimi. Við þörfnumst kvenna sem helga sig því að smala börnum Guðs áfram eftir vegi sáttmálans í áttina að upphafningu, kvenna sem kunna að taka á móti persónulegri opinberun, sem skilja kraft og frið musterisgjafarinnar, kvenna sem vita hvernig á að kalla á krafta himins til að vernda og styrkja börn og fjölskyldur, kvenna sem kenna óttalaust.
Allt mitt líf hef ég verið blessaður með slíkum konum. Kona mín, heitin, Dantzel, var slík kona. Ég mun ávallt vera þakklátur fyrir þau miklu áhrif sem hún hafði á líf mitt, á öll svið lífs míns, meðal annars á brautryðjendastarf mitt í opnum hjartaaðgerðum.
Fyrir fimmtíu og átta árum síðan var ég beðinn um að gera aðgerð á lítilli stúlku, mjög alvarlega veikri, með meðfæddan hjartagalla. Eldri bróðir hennar hafði látist áður úr samskonar veikindum. Foreldrar hennar grátbáðu um aðstoð. Ég var ekki bjartsýnn á útkomuna, en lofaði að gera allt sem í mínu valdi stæði til að bjarga lífi hennar. Þrátt fyrir að gera allt sem ég gat, þá lést hún. Seinna komu sömu foreldrar til mín með aðra dóttur, þá aðeins 16 mánaða gamla, sem einnig hafði fæðst með hjartagalla. Aftur, að beiðni þeirra, gerði ég aðgerð. Þetta barn lést einnig. Þetta þriðja fráfall í einni fjölskyldu gekk alveg frá mér.
Ég fór heim niðurbrotinn af sorg. Ég henti mér á stofugólfið og grét alla nóttina. Dantzel sat með mér, hlustaði á mig er ég endurtók aftur og aftur að ég myndi aldrei framkvæma aðra opna hjartaaðgerð. Svo um klukkan 05:00 um morguninn þá leit Dantzel á mig og spurði ljúflega: „Ertu búinn að gráta? Klæddu þig þá. Farðu aftur á rannsóknarstofuna. Farðu að vinna! Þú þarft að læra meira. Ef þú hættir núna þá munu aðrir þurfa að læra það á sársaukafullan hátt, sem þú þegar veist.“
Ó, hve ég þurfti á sýn konu minnar að halda, kjark hennar og ást! Ég fór aftur í vinnuna og lærði meira. Ef það væri ekki vegna innblásinnar hvatningar Dantzel, þá hefði ég ekki lagt fyrir mig opnar hjartaaðgerðir og hefði ekki verið tilbúinn að gera aðgerðina á Spencer W. Kimball forseta árið 1972, sem bjargaði lífi hans.9
Systur, gerið þið ykkur grein fyrir vídd og umfangi áhrifa ykkar þegar þið segið þá hluti sem andinn hvíslar að hjarta ykkar og huga. Frábær stikuforseti sagði mér frá stikuráðsfundi þar sem tekist var á um mjög erfitt mál. Á einum tímapunkti gerði hann sér grein fyrir því að Barnafélagsforseti stikunar hafði ekkert sagt, svo hann spurði hana hvort að hún hefði einhverjar tilfinningar um málið. „Já. eiginlega hef ég það,“ sagði hún og deildi svo með þeim hugsun sem breytti allri stefnu fundarins. Stikuforsetinn hélt áfram: „Er hún talaði, þá bar andinn mér vitni um að hún hefði komið orðum að opinberuninni sem við, sem stikuráð, höfðum verið að leita að.“
Kæru systur, hver sem köllun ykkar er, hverjar sem aðstæður ykkar eru, við þörfnumst áhrifa ykkar, innsýnar ykkar og innblásturs. Við þurfum á því að halda að þið látið í ykkur heyra og tjáið ykkur í deildar eða stikuráðum. Við þörfnumst þess að hver gift systir tjái sig „sem virkur og fullgildur félagi“10 er þið sameinist með eiginmönnum ykkar í að stýra fjölskyldu ykkar. Giftar eða einhleypar, þá búið þið yfir sérstökum hæfileikum og einstöku innsæi sem þið hafið fengið að gjöf frá Guði. Við bræðurnir getum ekki hermt eftir ykkar einstæðu áhrifum.
Við vitum það að hápunktur allrar sköpunarinnar var sköpun konunnar!11 Við þurfum á styrk ykkar að halda!
Árásir á kirkjuna, kenningar hennar og lífsmynstur okkar eiga eftir að aukast. Vegna þess þörfnumst við kvenna sem hafa bjargfastan skilning á kenningum Krists og sem munu nota þann skilning til að kenna og ala upp kynslóð sem getur hrint frá sér syndinni.12 Við þurfum konur sem geta skynjað blekkingu í allri sinni mynd Við þurfum konur sem vita hvernig á að tengjast þeim krafti sem Guð býður sáttmálsfólki sínu upp á og sem tjá trú sína með öryggi og kærleika. Við þurfum konur sem hafa hugrekki og sýn móður okkar Evu.
Kæru systur mínar, ekkert er mikilvægara fyrir eilíft líf ykkar en ykkar eigin trúskipti. Það eru réttlátar trúar-umbreyttar konur – og þar tel ég með kæra félagann minn, Wendy – sem halda sáttmála sína, sem mun standa upp úr í hrakandi heimi og sem mun verða tekið eftir sem ólíkar og frábrugnar á jákvæðasta máta.
Svo í dag grátbið ég systur mínar í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu að stíga fram. Takið réttmæta og nauðsynlega stöðu ykkar á heimilum ykkar, í samfélögum ykkar og í ríki Guðs, í ríkari mæli en þið hafið nokkrum sinnum gert áður. Ég bið ykkur að uppfylla spádóm Kimballs forseta. Ég lofa ykkur, jafnframt, í nafni Jesú Krists, að er þið gerið svo þá mun heilagur andi magna upp áhrif ykkar á fordæmislausan hátt!
Ég gef ykkur mitt vitni um raunveruleika Drottins Jesú Krists og um endurleysandi, friðþægjandi og helgandi mátt hans. Sem einn af postulum hans, þá þakka ég ykkur, kæru systur mínar, og blessa ykkur að þið megið rísa upp til ykkar fullu hæðar, til að uppfylla sköpun ykkar, er við göngum hönd í hönd inn í þetta helga verk. Saman munum við hjálpast að við að undirbúa heiminn undir síðari komu Drottins. Um þetta vitna ég, sem bróðir ykkar, í nafni Jesú Krists, amen.