2010–2019
Augu til að sjá og eyru til að heyra
Október 2015


Augu til að sjá og eyru til að heyra

Ef við lítum til Krists og opnum augu okkar og eyru, þá mun heilagur andi blessa okkur til að sjá Drottin Jesú Krist starfa í lífi okkar.

Jesú vann öflug kraftaverk lækninga og kenndi með slíku valdi og krafti að ritningarnar segja: „Orðstír hans barst um allt Sýrland, og … mikill mannfjöldi fylgdi honum.“1

Sumir sem sáu hann lækna og heyrðu hann kenna höfnuðu honum. Aðrir fylgdu honum um stund, síðan ei meir.2 Drottinn Jesú Kristur var fyrir framan þá, en þeir sáu samt ekki hver hann í raun var. Þeir voru blindir og kusu að líta undan. Jesú sagði um þá:

„Ég kom til minna eigin, en mínir eigin tóku ekki á móti mér.“3

„Illa heyra þeir með eyrum sínum, og augunum hafa þeir lokað.“4

Hins vegar voru margir, þar á meðal hinir trúföstu postular hans, sem höfðu hann sem þungamiðju lífs síns. Þrátt fyrir að basla við veraldlegar truflanir, ringlaðir varðandi það sem hann kenndi og jafnvel óttaslegnir, þá trúðu þeir á hann, elskuðu og fylgdu honum.

Um þá sagði Jesús: „En sæl eru augu yðar, að þau sjá, og eyru yðar, að þau heyra.“5

Jesús gaf lærisveinum sínum dýrmætt loforð rétt áður en hann þjáðist í Getsemane og á Hauskúpuhæð. „Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau, því ég fer til föðurins.“6

Jesú uppfyllti þetta loforð, sem hófst á hvítasunnudegi, þegar lærisveinarnir voru blessaðir með skírn elds og heilags anda.7 Heilagur andi varð félagi þeirra, breytti hjörtum þeirra og blessaði þá með varanlegu vitni um sannleikann, vegna trúar þeirra á Krist, iðrun og hlýðni.

Þessar gjafir og blessanir styrktu lærisveina Drottins. Andleg gjöf þeirra var augu til að sjá og eyru til að heyra, þótt þeir hafi stundum lifað á hættulegum og ruglingslegum tímum. Þeir tóku, með krafti heilags anda, að sjá sannleikann eins og hann er, sérstaklega sannleikann um Drottin Jesú Krist og starf hans meðal þeirra.8 Heilagur andi upplýsti skilning þeirra og þeir heyrðu á skýrari hátt rödd Drottins. Fagnaðarerindi Jesú Krists smaug djúpt í hjarta þeirra.9 Þeir voru staðfastir og hlýðnir.10 Þeir prédikuðu fagnaðarerindið af kjarki og krafti og byggðu upp ríki Guðs.11 Þeir fundu gleði í Drottni Jesú Kristi.

Við eigum margt sameiginlegt með þessu trúföstu körlum og konum á miðbaugi tímans. Við lifum einnig á tíma þegar Drottinn Jesús Kristur framkvæmir kraftaverk meðal okkar – þar á meðal læknar hina sjúku, hreinsar okkur af synd, umbreytir hjarta okkar og opnar fyrir börnum Guðs sáluhjálp beggja megin hulunnar. Á okkar tímum höfum við einnig lifandi spámenn og postula, prestdæmiskraft, andlegar gjafir og yfirnáttúrlegar blessanir helgiathafna sáluhjálpar.

Okkar tímar eru einnig hættulegir tímar – tímar mikillar illsku og freistinga, ruglings og uppnáms. Á þessum háskatímum hefur spámaður Drottins á jörðinni, Thomas S. Monson forseti, kallað okkur til að bjarga hinum andlega særðu,12 að standa af kjarki með sannleikanum13 og byggja upp ríki Guðs.14 Hvert sem andríki okkar er nú, trúarstyrkur eða hlýðni, þá dugar það skammt fyrir starfið sem framundan er. Við þurfum á að halda auknu andlegu ljósi og krafti. Við þurfum augu sem greina betur hvernig frelsarinn starfar í lífi okkar og eyru til að heyra rödd hans dýpra í hjörtum okkar.

Þessi dásamlega blessun kemur er við opnum hjörtu okkar og meðtökum,15 sannlega meðtökum, Drottin Jesú Krist, kenningar hans og kirkju í líf okkar. Við þurfum ekki að vera fullkomin, en við verðum að vera góð og bæta okkur stöðugt. Við þurfum að kappkosta að lifa eftir hinum einfalda og skýra sannleika fagnaðarerindisins. Ef við tökum á okkur nafn Krists, iðkum trú á hann til iðrunar synda okkar, höldum boðorð hans og höfum hann ætíð í huga, þá munum við njóta samfélags heilags anda, fyrir miskunn og náð Jesú Krists.

Einföld hlýðni færir andann í hjarta okkar. Á heimilum okkar biðjum við í trú, rannsökum ritningarnar og höldum hvíldardaginn heilagan. Í kapellum okkar meðtökum við sakramentið og gerum helg loforð við himneskan föður, í nafni Krists. Í helgum musterum tökum við þátt í helgiathöfnum fyrir hönd bræðra okkar og systra, sem eru hinum megin hulunar. Í fjölskyldum okkar og verkefnum okkar frá Drottni náum við til annara, lyftum byrðum þeirra og bjóðum þeim að koma til Krists.

Bræður og systur, ég veit að ef við gerum þetta þá mun heilagur andi koma! Við munum vaxa andlega og læra inná heilagan anda og hann mun verða félagi okkar. Ef við lítum til Krists og opnum augu okkar og eyru, þá mun heilagur andi blessa okkur til að sjá Drottin Jesú Krist starfa í lífi okkar, styrkja trú okkar á hann, með fullvissu og sönnun. Við munum í ríkari mæli sjá alla bræður okkar og systur á sama hátt og Guð sér þau; með kærleika og samúð. Við munum heyra rödd frelsarans í ritningunum, með hinni hljóðu rödd andans og í orðum lifandi spámanna.16 Við munum sjá kraft Guðs hvíla á spámanni hans og öllum leiðtogum hans sönnu og lifandi kirkju og við munum vita með vissu að þetta er heilagt verk Guðs.17 Við munum sjá og skilja okkur sjálf og heiminn í kringum okkur á sama hátt og frelsarinn gerir. Við munum öðlast það sem Páll postuli kallaði „huga Krists.“18 Við munum hafa augu til að sjá og eyru til að heyra og við munum byggja upp ríki Guðs.

Lífið getur verið erfitt, ruglingslegt, sársaukafullt og niðurdrepandi. Ég ber ykkur vitnisburð minn að með samfélagi heilags anda, þá mun ljós fagnaðarerindis Jesú Krists skína í gegnum ruglinginn, sársaukann og myrkrið. Hvort heldur það kemur með makalausri sprengingu eða blíðu flæði, þá mun hinn dýrðlegi andlegi kraftur blása kærleik og huggun í brjóst hins iðrandi og særða, hrekja myrkrið á brott með ljósi sannleikans og varpa úrtölum á dyr með von í Kristi. Við munum sjá þessar blessanir koma og við munum vita með vitni andans að það er Drottinn Jesús Kristur sem er að verki í lífi okkar. Byrðar okkar munu sannlega „[hverfa] í fögnuði [lausnara okkar].“19

Lífsreynsla foreldra minna, sem átti sér stað fyrir mörgum árum, sýnir mikilvægi og kraft þess að hafa augu til að sjá og eyru til að heyra. Foreldrar mínir voru kölluð árið 1982 til að þjóna í Davao trúboðinu á Filippseyjum. Þegar móðir mín opnaði bréfið og sá hvert þau voru kölluð, hrópaði hún upphátt til föður míns: „Nei! Þú verður að hringja í þá og segja þeim að við getum ekki farið til Filippseyja. Þeir vita að þú ert með asma.“ Faðir minn hafði þjáðst af asma í mörg ár og móðir mín hafði miklar áhyggjur af honum.

Um klukkan 2:30, nokkrum nóttum síðar, vakti móðir mín föður minn. Hún sagði: „Merlin, heyrðir þú í röddinni?“

„Nei, ég heyrði ekki í neinni rödd.“

„Nú, ég heyrði sömu röddina þrisvar í nótt segja: ‚Hví hefur þú áhyggjur? Veist þú ekki að ég veit að hann er með asma? Ég mun annast hann og ég mun annast þig. Undirbúðu þig fyrir þjónustu á Filippseyjum.‘“

Merlin og Helen Clark

Móðir mín og faðir þjónuðu á Filipseyjum og upplifðu margt undursamlegt. Heilagur andi var félagi þeirra og þau hlutu blessun og vernd. Faðir minn átti aldrei í erfiðleikum með asmann. Hann þjónaði sem fyrsti ráðgjafi í trúboðsforsætisráðinu og bæði þjálfuðu þau hundruð trúboða og þúsundir Síðari daga heilagra fyrir komu deilda og stikna á eyjunni Mindanao. Þau voru blessuð með augum til að sjá og eyrum til að heyra.

Bræður og systur, ég ber vitni um Jesú Krist. Ég veit að hann lifir. Hann er frelsari okkar og lausnari. Ég veit að ef við tökum á móti honum inn í líf okkar og lifum eftir hinum einfalda sannleika fagnaðarerindis hans, þá munum við njóta samfélags heilags anda. Við munum eignast hina dýrmætu gjöf að hafa augu til að sjá og eyru til að heyra. Um það vitna ég í heilögu nafni Jesú Krists, amen.