2010–2019
„Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín“
Október 2015


„Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín“

Lögmál Guðs staðfesta elsku hans til okkar, og hlýðni við boðorð hans er kærleikstjáning til hans.

Þegar elsta dóttir mín, Jen, kom með þriðju dóttur sína heim af fæðingardeildinni, fór ég heim til hennar til að hjálpa til. Eftir að ég hafði komið elstu dóttur hennar af stað í skólann, var ákveðið að best væri fyrir Jen að hvíla sig. Það besta sem ég gat því gert var að taka, Chloe, dóttur hennar með mér heim, svo að móðir hennar og nýja barnið hefðu næði saman.

Ég spennti Chloe í bílstólinn, setti á mig öryggisbeltið og ók út úr heimreiðinni. Áður en við höfðum ekið götuna á enda, hafði Chloe afspennt sætisólarnar og staðið upp til að geta rætt við mig! Ég stöðvaði bílinnn við vegkantinn, fór út og spennti hana aftur í stólinn.

Við hófum ferð okkur aftur, en eftir stutta stund hafði hún komist upp úr stólnum aftur. Ég fór aftur í gegnum sömu skrefin, en í þetta sinn hafði ég vart náð að setjast inn í bílinn og spenna á mig beltið áður en Chloe hafði staðið upp aftur!

Ég var því föst í bílnum út í vegkanti og átti í valdabaráttu við þriggja ára gamalt barn. Og hún hafði yfirhöndina!

Ég reyndi að sannfæra hana á allan mögulegan hátt um að henni væri fyrir bestu að vera föst í bílstólnum. Hún lét ekki sannfærast! Ég reyndi þá að nota ef/þá aðferðina.

Ég sagði: „Chloe, ef þú vilt sitja bundin í bílstólnum, þá máttu föndra úr trölladeigi þegar við komum heim til ömmu.“

Ekkert svar barst.

„Chloe, ef þú situr bundin í bílstólnum, þá skulum við baka brauð heima hjá ömmu.“

Ekkert svar barst.

Ég reyndi aftur. „Chloe, ef þú situr bundin í bílstólnum, þá skulum við koma við í marvöruversluninni og kaupa nammi!“

Eftir þrjár tilraunir, var mér ljóst að þetta áorkaði engu. Hún var ákveðin og ekkert ef/þá nægði til að sannfæra hana um að vera bundin í stólnum.

Við gátum ekki varið deginum sitjandi í bílnum við vegkanntinn, en ég vildi fara eftir umferðarlögum og ekki var öruggt að aka með Chole lausa í bílnum. Ég flutti bæn í huganum og greindi láværa rödd andans: „Kenndu henni.“

Ég snéri mér við og tók öryggisbeltið af mér, svo hún fengið séð það. Ég sagði: „Chloe, ég set öryggisbeltið á mig af því að það verndar mig. Þú aftur á móti ert ekki með öryggisbeltið og það verndar þig því ekki. Ég verð afar sorgmædd, ef þú slasast.“

Hún horfði á mig og ég fékk næstum séð hvernig hugur hennar tók að starfa á meðan ég beið spennt eftir svari hennar. Loks birti yfir bláu augum hennar og hún sagði: „Amma, þú vilt að ég noti öryggisbeltið af því að þú elskar mig!“

Andinn fyllti bílinn meðan ég tjáði þessari dýrmætu litlu telpu elsku mína. Ég vildi ekki að þessi tilfinning hyrfi, en mér varð ljóst að hér væri tækifæri, svo ég fór út og festi hana í bílstólinn. Ég spurði síðan: „Chloe, viltu sitja kyrr í stólnum þínum?“ Hún gerði það – alla leiðina að versluninni til að fá verðlaunin! Hún var spennt í stólinn alla leiðina frá versluninni að heimili mínu, þar sem við bökuðum brauð og föndruðum úr trölladeigi, því Chloe hafði tekist vel upp!

Þegar ég ók eftir veginum þennan dag, kom þetta ritningarvers upp í huga minn: „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín.“1 Við höfum reglur fyrir börnin til að kenna þeim, leiða og vernda. Hvers vegna? Af því að við elskum þau. Það var ekki fyrr en Chloe skildi að ég vildi að hún væri bundin í bílstólnum af því að ég elskaði hana, að hún var fús til að gera það sem henni fannst hamlandi. Henni fannst öryggisbeltið frelsissviptandi.

Við getum, líkt og Chloe, kosið að sjá boðorð sem annmarka. Stundum kann okkur að finnast lögmál Guðs takmarka frelsi okkar og draga úr sjálfræði okkar og vexti. Þegar við leitum æðri skilnings og leyfum föður okkar að kenna okkur, munum við taka að sjá að lögmál hans er staðfesting á elsku hans til okkar og hlýðni við lögmál hans er kærleikstjáning okkar til hans.

Ef þið sjáið myndrænt fyrir ykkur að þið hafið stoppað við vegkantinn, mætti ég þá koma með nokkrar reglur, sem hjálpa ykkur að komast örugg aftur út á „veg trúar og hlýðni“?2

Í fyrsta lagi, treystið Guði. Reiðið ykkur á hans eilífu áætlun fyrir ykkur. Sérhvert ykkar er „ástkær andasonur eða dóttir himneskra foreldra.“ Ást þeirra til okkar er augljós sökum boðorðanna. Boðorð eru nauðsynleg til að fræða, leiða og vernda okkur, við að „öðlast jarðneska reynslu“3.

Í „fortilverunni“ notuðum við sjálfræði okkar til að viðurkenna áætlun Guðs4 og okkur lærðist að hlýðni við hin eilífu lögmál Guðs væru okkur nauðsynleg til árangurs í áætluninni. Ritningarnar kenna: „Það óafturkallanlega lögmál gildir á himni, ákvarðað áður en grundvöllur þessa heims var lagður, sem öll blessun er bundin við.“5 Ef við hlítum lögmálinu, hljótum við blessanirnar.

Þrátt fyrir öll mistökin, mótlætið og lærdóminn sem fylgdu jarðlífinu, þá missir Guð aldrei sjónar á okkar eilífu möguleikum, jafnvel þótt við gerum það. Við getum sett traust okkar á hann „því Guð þráir að börnin hans komi til baka.“6 Í þeim tilgangi hefur hann búið leið með friðþægingu sonar síns, Jesú Krists. Friðþægingin „er kjarninn í áætlun sáluhjálpar.“7

Í öðru lagi, treystið Jesú. Æðsta tjáning hlýðni og kærleika, er friðþæging Jesú Krists. Hann fór að vilja föður síns og lagði líf sitt í sölurnar fyrir okkur. Hann sagði: „Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.“8

Jesús kenndi líka:

„Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.

Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð.

Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“9

Hvern sunnudag gefst okkur kostur á að ígrunda og minnast hinnar hreinu ástar frelsarans, er við meðtökum tákn hans óendanlegu friðþægingar. Meðan á sakramentinu stendur, þá horfi ég á fram réttar hendur sem færa okkur brauðið og vatnið. Þegar ég rétti hönd mína fram, til að meðtaka sakramentið, þá heiti ég því að vera fús til að taka á mig nafn hans, að hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans. Hann lofar á móti „að andi hans [verði] ætíð með [okkur].“10

Í þriðja lagi, reiðið ykkur á hina kyrrlátu rödd andans. Munið þið eftir því að andinn veitti mér hugboð um ritningarvers í upplifun minni með Ghloe? Það var Jóhannes 14:15 : „Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín.“ Þessi mikilvægu vers koma síðan í kjölfarið:

„Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu,

anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður.“11

Sérhver verðugur, staðfestur meðlimur Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu á rétt á samfélagi heilags anda. Fasta, ritningarnám og hlýðni, gera okkur mun hæfari til að heyra og skynja hugboð andans.

Þegar hugur ykkar er ráðvilltur og fullur af efasemdum, mun faðirinn og sonurinn senda heilagan anda til að aðvara ykkur og leiða ykkur örugglega í gegnum hættur þessarar jarðnesku ferðar. Hann mun minna okkur á, hugga okkur og fylla okkur„von og fullkominni elsku.“12

Í fjórða lagi, treystið leiðsögn lifandi spámanna. Faðir okkar hefur með spámönnum sínum séð okkur fyrir leið til að heyra orð sitt og þekkja lögmál sitt. Drottinn sagði: „Orð mitt [mun] … allt uppfyllast, hvort sem það er sagt með minni eigin rödd eða með rödd þjóna minna, það gildir einu.“13

Nýverið hafa lifandi spámenn hvatt okkur til að „minnast hvíldardagsins, að halda hann heilagan,“14 og lifa eftir föstulögmálinu. Hlýðni við þessa spámannlegu leiðsögn, gerir okkur kleift að hlýða boðorðum Guðs um að elska hann og náunga okkar, með því að iðka aukna trú á Jesú Krist og rétta öðrum hönd elsku og umhyggju.15

Það felst öryggi í því að tileinka sér orð Drottins, gefin með spámönnum hans. Guð kallaði Thomas S. Monson forseta, ráðgjafa Æðsta forsætisráðsins og meðlimi Tólfpostulasveitarinnar, sem spámenn, sjáendur og opinberara. Í þessum heimi aukins ótta, ringulreiðar, andstreymis og reiði, getum við horft til þeirra, til að læra hvernig lærisveinar Jesú Krists – fylltir kærleika hans – takast á við og bregðast við málum sem gætu sundrað. Þeir vitna um Jesú Krist og sýna kærleika, hina hreinu ást Jesú Krists, hvers vitni þeir eru.

Eftir reynslu mína með Chloes, leitaði ég í ritningunum að versum sem fjölluðu um boðorð og elsku. Ég fann fjölmörg. Hvert þessara versa minna okkur á að boðorð hans eru staðfesting á elsku hans til okkar, og hlýðni við boðorðin er kærleikstjáning til hans.

Ég ber vitni um að ef við setjum traust okkar á Guð, okkar eilífa föður, á son hans, Jesú Krist, og friðþægingu hans, reiðum okkur á hina hljóðlátu rödd andans og leiðsögn lifandi spámanna, þá munum við geta farið örugg frá vegkantinum – ekki aðeins til að þrauka, heldur finna gleði í heimferð okkar. Í nafni Jesú Krists, amen.