Skýr og dýrmætur sannleikur
Af gæsku sinni þá gerir himneskur faðir okkur kleift að lifa í fyllingu tímanna, til að vega upp á móti hinum örðugu tíðum.
Kæru bræður og systur, í áratugi höfum við á aðalráðstefnum notið nærveru Boyds K. Packer forseta, öldungs L. Toms Perry og öldungs Richards G. Scott, sem setið hafa fyrir aftan þennan ræðustól og flutt ræður á einhverjum ráðstefnuhlutunum. Við söknum þeirra sáran og ég votta þeim virðingu mína. Þeir voru afar ólíkir persónuleikar, en þó svo samhljóma í vitnisburði sínum um Jesú Krist og friðþægingu hans.
Ég vil ennfremur draga styrk frá Thomas S. Monson forseta og styðja hann sem spámann, sjáanda og opinberara. Ég dáist að skuldurækni hans og trúfastri þjónust sem postula, sem spannar 50 undraverð ár.
Það var svo á þriðjudagamorgun í þessari viku, rétt rúmlega klukkan níu, þegar biskupsráðið var að hefja fund með forsætisráði Asíusvæðisins, sem er hér vegna ráðstefnunnar, að ég var beðinn að eiga orð við Monson forseta, og ráðgjafa hans. Stuttu síðar, er ég gekk inn í stjórnarherbergið við hlið skrifstofunnar hans, hlýt ég að hafa borið það með mér að vera taugaóstyrkur, er ég settist á móti honum við borðið, því hann tók að tala ljúflega til mín til að róa mig. Hann sá hver aldur minn var og benti á að ég væri nokkuð ungur og liti jafnvel út fyrir að vera yngri en ég væri.
Monson forseti sagði síðan að stuttri stund liðinni, að hann færi nú að vilja Drottins og kallaði mig í Tólfpostulasveitina. Hann spurði hvort ég vildi taka á móti þessari köllun, sem ég svaraði ótvítætt með miklu andvarpi, af geðshræringu. Áður en ég fékk svo tækifæri til að úthella mínum ólýsanlegu tilfinningum, sem að mestu voru vanmáttartilfinningar, þá kom Monson forseti mér ljúflega til hjálpar og lýsti því hvernig hann hefði verið kallaður fyrir mörgum árum sem postuli af David O. McKay, og líka upplifað sig vanmáttugan. Hann talaði af rósemd og sagði: „Stevenson biskup, Drottinn mun gera þá hæfa sem hann kallar.“ Þessi sefandi orð spámanns hafa orðið mér til huggunar og friðar í stormi sársaukafullrar sjálfsprufunar og vakið ljúfar tilfinningar á þjakandi stundum sem ég hef upplifað daga og nætur frá þessari stundu.
Það sem ég hef sagt ykkur nú, sagði ég líka við mína ljúfu eiginkonu, Lesu, síðar þennan sama dag, þar sem við sátum saman á hljóðlátum afviknum stað á Musteristorginu og virtum fyrir okkur musterið og hinn sögufræga Laufskála. Þegar við reyndum að átta okkur á atburðum dagsins, fundum við að okkar lífsins akkeri væri trú okkar á Jesú Krist og þekking okkar á hinni miklu sæluáætlun. Þetta fær mig til að tjá Lesu mína dýpstu elsku. Hún er sólskin lífs míns og undraverð dóttir Guðs. Líf hennar einkennist af óeigingjarnri þjónustu og skilyrðislausri elsku til allra. Ég mun keppa að því að vera verðugur blessana okkar eilífa samfélags.
Ég tjái sonum mínum fjórum mína innilegustu elsku og fjölskyldum þeirra, en þrír þeirra eru hér með sínum fallegu eiginkonum, mæðrum okkar sex barnabarna; sá fjórði, sem er trúboði, hefur fengið sérstakt leyfi til að vaka fram yfir svefntíma trúboða, til að horfa beint á þessa samkomu, með trúboðsforseta sínum og eiginkonu hans, á trúboðsheimili þeirra í Tævan. Ég ann þeim öllum og dái hvernig þau elska frelsarann og fagnaðarerindið.
Ég tjái elsku mína til allra í fjölskyldunni; minni kæru móður og föður, sem lést á síðasta ári, og innrætti mér vitnisburð, sem virðist hafa verið með mér allt frá fyrstu minningu. Ég færi ennfremur bróður mínum og systrum þakkir, og þeirra trúföstu mökum, sem og fjölskyldu Lesu, sem reyndar eru mörg hver hér í dag. Ég tjái öllum hinum fjölmörgu ættmennum mínum, vinum, trúboðum, leiðtogum og kennurum á lífsleið minni, þakklæti mitt.
Ég hef verið blessaður með nánum samskiptum við Æðsta forsætisráðið, Tólfpostulasveitina, hina Sjötíu og aðalforsætisráð aðildarfélaganna. Ég tjái ykkur öllum, systur og bræður, elsku mína og mun kappkosta að vera verðugur okkar áframhaldandi samskipta. Yfirbiskupsráðið nýtur næstum himneskrar einingar. Ég mun sakna daglegs samstarfs við Gérald Caussé biskups og Dean M. Davies biskups og samstarfsfólks okkar.
Ég stend frammi fyrir ykkur sem staðfesting þeirra orða Drottins, sem skráð eru í fyrsta kafla Kenningar og sáttmála: „Að hinir veiku og einföldu fái boðað fyllingu fagnaðarerindisins til endimarka heims, og frammi fyrir konungum og stjórnendum.“1 Þessi orð koma á undan þeim orðum sem staðfesta elsku föðurins til barna sinna: „Þess vegna kallaði ég, Drottinn, sem þekki þær hörmungar er koma munu yfir íbúa jarðar, þjón minn Joseph Smith yngri og talaði til hans frá himni og gaf honum fyrirmæli.“2
Okkar kærleiksríki himneski faðir og sonur hans, Jehóva, sem þekkja endinn frá upphafinu,3 luku upp himninum og innleiddu nýja ráðstöfun, til að vega upp á móti þeim hörmungum sem þeim er ljóst að koma skal. Páll postuli sagði hinar komandi hörmungar vera „örðugar tíðir.“4 Það segir mér að af gæsku sinni þá gerir himneskur faðir okkur kleift að lifa í fyllingu tímanna, til að vega upp á móti hinum örðugu tíðum.
Þótt ég harmi misbresti mína þessa vikuna, þá hlaut ég áþreifanlegan innblástur, sem bæði agaði og hughreysti: Að einblína ekki á það sem ég gæti ekki gert, heldur á það sem ég gæti gert. Ég get borið vitni um hinn skýra og dýrmæta sannleika fagnaðarerindisins.
Þessu hef ég miðlað ótal sinnum, bæði þeim sem tilheyra kirkjunni og mörgum sem ekki eru meðlimir hennar: „Guð er okkar [kærleiksríki] faðir á himnum. Við erum hans börn. … Hann finnur til með okkur þegar við þjáumst og fagnar þegar við breytum rétt. Hann þráir að eiga samskipti við okkur og við getum átt samskipti við hann í einlægri bæn. …
… Himneskur faðir hefur séð okkur, börnum sínum, fyrir leið til … að dvelja að nýju í návist hans. … Friðþæging Jesú Krists er þungamiðjan í áætlun föðurins á himnum.“5
Himneskur faðir sendi son sinn til jarðar til að friðþægja fyrir syndir alls mannkyns. Um þennan skýra og dýrmæta sannleika gef ég minn vitnisburð og það geri ég í nafni Jesú Krists, amen.