Óttast ekki, trú þú aðeins
Þegar við veljum að trúa á og fylgja frelsara okkar, Jesú Kristi, og iðka trú til iðrunar, þá ljúkum við upp okkar andlega auga að meiri dýrðarljóma en við fáum ímyndað okkur.
Babýlon og Daníel
Fyrir sex hundruð árum var Babýlon heimsins mesta stórveldi. Einn forn sagnritari sem lýsti múrum Babýlon, sem umluktu borgina, sagði þá vera 90 metra háa og 25 metra þykka. „Stórbrotið,“ ritaði hann, „engin önnur borg kemst í hálfkvist við … hana.“1
Á sínum tíma var Babýlon heimsmiðstöð lærdóms, laga og heimspeki. Herstyrkur hennar átt sér engan líka. Hann sigraði herafla Egyptalands. Hann gerði innrás í Nineve, höfðuborg Assyríu, og brenndi og rændi borgina. Hann sigraði Jerúsalem auðveldlega og herleiddi bestu og greindustu börn Ísraels til Babýlon, til að þjóna Nebúkadnesar konungi.
Piltur að nafni Daníel var einn þeirra sem tekinn var herfangi. Margir sagnfræðingar telja Daníel hafa verið frá 12 til 17 ára á þeim tíma. Hugsið ykkur, kæru ungu Aronsprestdæmishafar: Daníel var líklegast á ykkar aldri þegar hann var tekinn í hirð konungs, til að læra tungumál, lög, trúarbrögð og vísindi hinnar veraldlegu Babýlon.
Getið þið ímyndað ykkur hvernig það hefur verið að vera tekinn frá heimili sínu, að ganga 800 kílómetra til framandi borgar og vera innrætt trúarbrögð óvina þjóðar?
Daníel hafði verið alinn upp sem fylgjandi Jehóva. Hann trúði á og tilbað Guð Abrahams, Ísaks og Jakobs. Hann hafði lært orð spámannanna og var kunnugur samskiptum Guðs við menn.
En nú, á unga aldri, var hann námsmanns-fangi í Babýlon. Það hlýtur að hafa verið þrýst mikið á hann að láta af sinni gömlu trú og tileinka sér trú Babýlon. Hann var þó sannur trú sinni – í orði og verki.
Margir okkar vita hvernig það er að verja miður vinsælan sannleika. Á Alnetinu tölum við um að sá sé „brenndur“ sem er ósammála í skoðunum. Daníel átti ekki bara háðung almennings á hættu. Í Babýlon vissu þeir sem stóðu gegn trúarlegri yfirstjórn hvað í því fólst að vera „brenndur“ – bæði í óeiginlegri og eiginlegri merkingu. Spyrjið bara vini Daníels, þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó.2
Ég veit ekki hvort það reyndist Daníel auðvelt að trú í slíku umhverfi. Sumir eru blessaðir með eðlislægri trú – svo virðist sem trúin sé þeim gjöf frá himnum. Ég held þó að Daníel hafi verið líkur mörgum okkar, sem þurfum að hafa fyrir því að öðlast vitnisburð. Ég þykist viss um að Daníel hafi varið mörgum stundum á hnjánum við bænagjörð, leggjandi bænarefni sitt og áhyggjur á altari trúar, bíðandi þess að Drottinn veitti honum skilning og visku.
Drottinn belssaði Daníel vissulega. Hann var trúr því sem hann vissi af eigin reynslu að var rétt, þótt hann hefði verið spottaður og honum ögrað sökum trúar sinnar.
Daníel trúði. Daníel efaðist ekki.
Svo var það nótt eina, að Nebúkadnesar konung dreymdi draum sem skelfdi huga hans. Hann kallaði á fræðimenn og ráðgjafa sína og krafðist þess að þeir segðu frá draumnum og réðu hann síðan.
Auðvitað gátu þeir ekki gert það. „Engin getur gert það sem þú biður um,“ svöruðu þeir. Þetta jók aðeins á gremju Nebúkadnesar konungs, sem fyrirskipaði að allir fræðimennirnir, töframennirnir, stjörnuspekingarnir og ráðgjafarnir yrðu höggnir niður – þar með talið Daníel og hinir ungu nemendurnir frá Ísrael.
Þið sem eruð kunnugir Bók Daníels vitið hvað næst gerðist. Daníel bað Nebúkadnesar um örlítið meiri tíma og hann og félagar hans leituðu til trúaruppsprettu sinnar og siðferðisstyrks. Þeir báðu til Guðs um guðlega hjálp á þessari lífsins örlagastundu. Svo kom að því að „leyndardómurinn [var] opinberaður Daníel í nætursýn.“3
Pilturinn Daníel, frá hertekinni þjóð – sem hafði verið kúgaður og ófsóttur fyrir sín undarlegu trúarbrögð – fór fyrir konunginn, lýsti draumnum og réð hann.
Frá þessari stundu varð Daníel trúnaðarráðgjafi konungs, sem var bein afleiðing trúfesti hans við Guð, og þekktur fyrir vísdóm sinn um alla Babýlon.
Pilturinn, sem varðveitti hafði trú sína og lifað eftir henni, varð maður Guðs. Spámaður. Réttlætishöfðingi.4
Erum við líkir Daníel?
Okkur alla, sem hafa prestdæmi Guðs, spyr ég: Erum við líkir Daníel?
Erum við trúir Guði?
Lifum við eftir því sem við kennum eða erum við bara sunnudaga-kristnir?
Sýna verk okkar glögglega það sem við segjumst vera?
Erum við að annast „[hina] fátæku og þurfandi, sjúku og aðþrengdu“?5
Erum við bara orðin tóm eða látum við verkin tala af eldmóði?
Bræður, okkur hefur verið mikið gefið. Okkur hefur verið kenndur guðlegur sannleikur hins endurreista fagnaðarerindis Jesú Krists. Okkur hefur verið treyst fyrir valdsumboði prestdæmisins, til að liðsinna náunga okkar og byggja upp ríki Guðs á jörðu. Við lifum á tíma undursamlegar úthellingar andlegs kraftar. Við höfum fyllingu sannleikans. Við höfum prestdæmislykla til að innsigla á jörðu og á himni. Helgar ritningar og kenningar lifandi spámanna og postula standa okkur til boða, aldrei sem áður.
Mínir kæru ungu vinir, við skulum ekki fara léttúðlega með þessa hluti. Þessum blessunum og forréttindum fylgir mikil ábyrgð og skylda. Við skulum standa undir þeim.
Hin forna borg Babýlon er hrunin. Glæsileiki hennar er horfinn. Veraldarhyggja og ranglæti Babýlon er þó enn við lýði. Nú fellur það í okkar hlut að lifa eftir trú okkar í heimi vantrúar. Sú áskorun er okkar að lifa dag hvern af kostgæfni eftir reglum hins endureista fagnaðarerindi Jesú Krists og boðorðum Guðs. Við verðum að halda ró okkar undir þrýstingi jafnaldra, láta ekki truflast af tískubylgjum, leiða hjá okkur háðung hinna guðlausu, sporna gegn freistingum hins illa og sigrast á eigin leti.
Hugleiðið samt þetta. Hversu miklu auðveldar hefði það ekki verið fyrir Daníel að laga sig bara að lífsháttum Babýlon? Hann hefði getað sagt skilið við hinn stranga hegðunarstaðal sem Guð hafði gefið Ísraelsmönnum Hann hefði getað nært sig á þeim kræsingum sem konungurinn reiddi fram og tekið þátt í veraldlegri stundaránægju hins náttúrlega manns. Hann hefði getað komist hjá háði og spotti.
Hann hefði getað aflað sér vinsælda.
Hann hefði getað smollið inn.
Líf hans hefði getað verið mun einfaldara.
Auðvitað þó aðeins fram að þeim tíma er konungurinn krafðist túlkunar á draumi sínum. Þá hefði Daníel áttað sig á því að hann, líkt og hinir „vitringar“ Babýlon, hefði glatað sambandi sínu við hina sönnu uppsprettu ljóss og visku.
Daníel stóðst prófið. Við erum enn að þreyja okkar.
Hugrekki til að trúa
Satan, óvinur okkar, þráir að við föllum. Hann dreifir lygum og reynir þannig að eyðileggja trú okkar. Af kænsku bendir hann á að vantrúar- og efahyggjufólk sé snjallt og gáfað, en þeir sem trúa á Guð og kraftaverk hans, séu barnalegir, blindaðir eða heilaþvegnir. Hann er talsmaður þess að sniðugt sé að efast um andlegar gjafir og kenningar sannra spámanna.
Ég vildi að ég gæti fengið alla til að skilja þessa einföldu staðreynd: Við trúum á Guð vegna þess sem við vitum af öllu hjarta og huga, ekki vegna þess sem við vitum ekki. Stundum er okkar andlega reynsla of helg til að hægt sé að útskýra hana á veraldlegan hátt, en það þýðir ekki að hún sé ekki raunveruleg.
Himneskur faðir hefur búið börnum sínum andlegt veisluborð, sem á eru allskonar dýrindis réttir – og í stað þess að njóta þessara andlegu gjafa, þá kjósa efahyggjumenn að horfa á úr fjarlægð, sötrandi úr bollum vantrúar, efasemda og virðingarleysis.
Af hverju ætti einhver að fara í gegnum lífið og láta sér nægja dauft ljós eigin skilnings, þegar hæglega er hægt að leita til himnesks föður og upplifa bjart sólarljós andlegrar þekkingar, sem þenur út vísdóm hugans og fyllir sálina gleði?
Þegar við ræðum við fólk um trú og trúarskoðanir, heyrum við þá ekki oft sagt: „Ég vildi að ég gæti trúað eins og þú gerir“?
Í slíkum orðum felst önnur blekking Satans: Að trú sé aðeins fyrir suma en ekki aðra. Það er engin galdur að trúa. En löngun til að trúa er hið nauðsynlega fyrsta skref! Guð fer ekki í manngreinarálit.6 Hann er faðir okkar. Hann þráir að tala við ykkur. Það krefst hins vegar örlítillar vísindalegrar tilraunar – tilraunar með orð Guðs – og að sýna „örlitla trú.“7 Örlítil auðmýkt þarf líka að koma til. Það krefst opins huga og hjarta. Það krefst leitar, í fullri merkingu þess orðs. Það krefst líka þolinmæði, sem kannski er erfiðast, að bíða tíma Drottins.
Ef við legðum ekkert á okkur til að trúa, værum við lík manni sem aftengir sviðsljósið og skellir síðan skuldinni á sviðsljósið fyrir að gefa ekki ljós.
Nýverið varð ég gáttaður og dapur yfir því að heyra að Aronsprestdæmishafi hafi verið stoltur af þeirri staðreynd að fjarlægja sig Guði. Hann sagði: „Ef Guð sýnir mér að hann er til, þá skal ég trúa. Þangað til það gerist ætla ég að reiða mig á að eigin skilningur og vitsmunir lýsi mér veginn.“
Ég þekki ekki hjarta þessa unga manns, en kenndi þó ósjálfrátt í brjósti um hann. Hve auðveldlega hann hafnaði þeim gjöfum sem Drottinn bauð honum. Þessi ungi maður hafði aftengt sviðsljósið og virtist síðan ánægður með þá sniðugu ályktun að ekkert ljós væri fyrir hendi.
Því miður virðist þetta vera nokkuð vinsælt viðhorf okkar tíma. Ef við getum sett sönnunarbyrðina yfir á Guð, teljum við okkur afsakaða frá því að taka boðorð Guðs alvarlega og að axla samfélagsábyrgð við föður okkar á himnum.
Bræður, ég segi hreint út: Það er hvorki göfugt, né áhrifaríkt að vera efahyggjumaður. Efahyggja er auðveld – allir geta tileinkað sér hana. Það er hið trúfasta líferni sem krefst siðferðisstyrks, helgunar og hugrekkis. Þeir sem halda fast í trúnna ná mun meiri árangri, en þeir sem gefa sig efanum á vald, ef upp koma vafaatriði eða erfið álitamál.
Það ætti þó ekki að undra okkur að hið veraldlega samfélag leggi ekki mikið upp úr trúnni. Saga heimsins sýnir að hann hefur löngum hafnað því sem hann fær ekki skilið. Hann er líka sérstaklega þekktur fyrir að eiga erfitt með að skilja það sem ekki er sýnilegt. En þótt við fáum ekki séð eitthvað með okkar mannlega auga, þarf það ekki að merkja að það sé ekki til. Vissulega er „meira til á himni og jörðu … en dreymt er um“ í námsbókum, vísindabókum og heimspekiritum.8 Heimurinn er fullur af undrum og furðum – sem aðeins verða skilin með hinu andlega auga.
Fyrirheit trúar
Þegar við veljum að trúa á og fylgja frelsara okkar, Jesú Kristi, og iðka trú til iðrunar, þá ljúkum við upp okkar andlega auga að meiri dýrðarljóma en við fáum ímyndað okkur. Þannig mun trú okkar verða stöðugt sterkari og við við munum jafnvel sjá meira.9
Bræður, ég ber vitni um að jafnvel á erfiðustu stundum, mun frelsarinn segja við ykkur, líkt og hann sagði við áhyggjufullan föður í fjölförnu stræti í Galelíu: „Óttast ekki, trú þú aðeins.“10
Við getum valið að trúa.
Í trúnni uppgötvum við ljós dagrenningar.
Við munum uppgötva sannleikann.11
Við munum finna frið.12
Sökum trúar okkar mun okkur aldrei hungra, aldrei þyrsta.13 Náðargjafir Guðs gera okkur kleift að vera sannir í trúnni og verða sál okkar sem „lind, sem streymir fram til eilífs lífs.“14 Við munum upplifa sanna og varanlega gleði.15
Þess vegna, kæru vinir og bræður í prestdæmi Guðs:
Verið hugrakkir og trúið.
Óttist eigi, trúið aðeins.
Verið Daníels megin.
Ég bið þess að sérhver okkar – ungur sem aldinn – finni aukinn þrótt, hugrekki og þrá til að trúa. Í nafni meistara okkar, Jesú Krists, amen.