Trompethljómurinn skal heyrast
Heimurinn þarfnast lærisveina Krists sem geta tjáð boðskap fagnaðarerindisins af skýrleika og frá hjartanu.
Síðastliðið sumar fengum við eiginkona mín tvö af ungum barnabörnum okkar í heimsókn á meðan foreldrar þeirra tóku þátt í frumherja ferðalagi með stiku sinni. Dóttir okkar vildi vera viss um að drengirnir æfðu píanó á meðan þeir væru að heiman. Hún vissi að auðveldara væri að gleyma píanó æfingunum þessa örfáu daga hjá afa og ömmu. Ég ákvað, einn eftirmiðdaginn, að sitja hjá afabarni mínu, Andrew sem er 13 ára, og hlusta á hann spila.
Strákurinn er uppfullur af orku og dýrkar útiveru. Hann gæti auðveldlega varið öllum sínum tíma í veiðar. Ég skynjaði að hann vildi frekar vera að fiska í nálægri á en að æfa sig á píanóið. Ég hlustaði er hann hamraði á nótur kunnuglegs lags. Sérhver nóta sem hann spilaði var með sömu áherslu og hraða svo erfitt var að auðkenna laglínuna. Ég sat á bekknum við hliðina á honum og útskýrði mikilvægi þess að þrýsta fastar á laglínu tónana og ýta örlítið léttar á tóna viðlagsins. Við töluðum um að píanóið væri meira en vélrænt kraftaverk. Það gæti verið framlenging á hans eigin rödd og tilfinningum og er dásamlegt samskipta verkfæri. Laglína ætti að flæða frá einni nótu til næstu rétt eins og manneskja sem talar og færir sig þýðlega frá einu orði til hins næsta.
Við hlógum saman er hann reyndi aftur og aftur. Spékoppa brosið hans stækkaði er laglína tók á sig form sem áður hafði verið villtir tónar. Boðskapurinn skein í gegn: „Guðs barnið eitt ég er, hann um mig heldur vörð.“1 Ég spurði Andrew hvort hann fyndi fyrir mismun í boðskapnum. Hann svaraði: „Já afi, ég get fundið það!“
Páll postuli kennir okkur að bera saman samskipti og hljóðfæri þegar hann skrifaði Korintu mönnum:
„Jafnvel hinir dauðu hlutir, sem gefa hljóð frá sér, hvort heldur er pípa eða harpa, ef þær gefa ekki mismunandi hljóð frá sér, hvernig ætti þá að skiljast það, sem leikið er á pípuna eða hörpuna?
Gefi lúðurinn óskilmerkilegt hljóð, hver býr sig þá til bardaga?“2
Hafi heimurinn nokkru sinni þurft á að halda lærisveinum Krists sem geta tjáð boðskap fagnaðarerindisins af skýrleika og frá hjartanu þá er það nú. Við þurfum á trompethljómnum að halda.
Kristur var sannarlega besta fordæmi okkar. Hann sýndi ætíð kjarkinn til að standa fyrir það sem rétt er. Orð hans bergmála í gegnum aldirnar er hann býður okkur að muna að elska Guð og nágranna okkar, að halda öll boðorð Guðs og vera sem ljós heimsins. Hann óttaðist ekki að tala gegn jarðnesku valdi eða leiðtoga síns tíma, jafnvel þegar þeir stilltu sig upp á móti sendiför þeirri sem faðir hans sendi hann í. Orð hans voru ekki gerð til að rugla heldur til að bæra hjörtu. Það var greinilegt af öllu sem hann sagði og gjörði að hann þekkti vilja föður síns.
Mér þykir einnig mjög vænt um fordæmi Péturs, sem af hugrekki og með skýrleika stóð andspænis veraldlegum mönnum á hvítasunnudegi. Fólk var samankomið frá mörgum löndum á þeim degi til að gagnrýna hina heilögu vegna þess að þau heyrðu þau tala tungum og töldu þau drukkin. Andinn reis upp í anda Péturs og hann stóð upp til að verja kirkjuna og þegna hennar. Hann bar vitni með þessum orðum: „Gyðingar og allir þér Jerúsalembúar! Þetta skuluð þér vita. Ljáið eyru orðum mínum.“3
Síðan vitnaði hann úr ritningunum í spádómana um Krist og bar vitnisburð sinn vafningalaust: „Með öruggri vissu viti þá öll Ísraels ætt, að þennan Jesú, sem þér krossfestuð, hefur Guð gjört bæði að Drottni og Kristi.“4
Margir heyrðu orð hans, fundu fyrir andanum og 3.000 sálir sameinuðust kirkjunni. Þetta er kraftmikil sönnun þess að einn maður eða kona, sem er reiðubúin að bera vitni þegar heimurinn virðist fara í gagnstæða átt, getur skipt sköpum.
Þegar við sem meðlimir tökum ákvörðun að standa upp og vitna kröftuglega um kenningar Guðs og kirkju hans, þá breytist eitthvað innra með okkur. Við öðlumst ásjónu hans. Við komumst nær anda hans. Á móti mun hann fara fyrir okkur og verða okkur „til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi [hans] mun vera í hjörtum [okkar] og englar [hans] umhverfis [okkur], [okkur] til stuðnings.“5
Sannir lærisveinar Krists leita ekki afsakana á kenningum þegar þær henta ekki hugmyndum heimsins. Páll er annar frækinn lærisveinn sem umbúðalaust lýsti því yfir að hann „[fyrirverði sig] ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir.“6 Sannir lærisveinar eru fulltrúar Drottins, jafnvel þegar það er ekki hentugt. Sannir lærisveinar þrá að veita hjörtum mannanna innblástur, ekki bara vekja hrifningu þeirra.
Það er oft óhentugt að standa upp fyrir Krist. Ég er viss um að sú var raunin með Pál þegar hann var kallaður framm fyrir Agrippa konung og var sagt að réttlæta sjálfan sig með sögu sinni. Páll, án efablendni, lýsti yfir trú sinni af slíkum krafti að yfirþyrmandi konungurinn játaði að hann var „næstum því“ sannfærðu um að gerast kristinn.
Viðbrögð Páls vitna um þá þrá hans að allir gætu skilið algjörlega það sem hann hafði að segja. Hann sagði Agrippa konungi að það væri þrá hans að allir sem heyrðu rödd hans myndu ekki „næstum því“ verða kristnir heldur myndu „að fullu“ gjörast lærisveinar Krists.7 Þeir sem tala af skýrleika geta komið þessu til leiðar.
Ég hef ætíð hugsað um hina stóru og rúmmiklu byggingu, í þau mörgu ár sem ég hef numið draum Lehís í Mormónsbók,8 sem stað þar sem einungis þeir uppreisnargjörnustu búa. Byggingin var yfirfull af fólki, hæðandi og bendandi fingrum á hina trúföstu sem héldu fast í járnstöngina, sem táknar orð Guðs, og héldu í átt að lífsins tré, sem táknar elsku Guðs. Sumir gátu ekki staðist álagið frá hæðandi fólkinu og ráfuðu burt. Aðrir ákváðu að sameinast því í byggingunni. Höfðu þau ekki kjarkinn til að tala umbúðalaust gegn gagnrýni eða boðskap heimsins?
Ég tel að þessi bygging sé að stækka, nú er ég horfi á núverandi heim sem fjarlægist Guð. Margir eru allt í einu farnir að ramba um ganga hinar stóru og rúmmiklu byggingar án þess að gera sér grein fyrir því að þeir eru orðnir hluti af menningu hennar. Oft á tíðum láta þau undan freistingunum og boðskapnum. Að lokum sjáum við þau hæða eða taka undir með þeim sem gagnrýna og hæða.
Í mörg ár hélt ég að hæðandi hópurinn væri að gera gys að líferni hinna trúföstu en raddir frá byggingunni hafa í dag breytt tóni sínum og nálgun. Þeir sem hæða reyna oft að drekkja hinum einfalda boðskap fagnaðarerindisins með því að ráðast á hluta af sögu kirkjunnar eða gagnrýna á hvassan hátt spámanninn eða aðra leiðtoga. Þeir ráðast einnig á kjarnan í kenningum okkar og lögum Guðs, sem gefin voru við sköpun jarðar. Við, sem lærisveinar Jesú Krists og meðlimir kirkju hans, megum aldrei sleppa hendinni af járnstönginni. Við verðum að láta trompethljóminn heyrast frá sálum okkar.
Einfaldi boðskapurinn er sá að Guð er kærleiksríkur himneskur faðir okkar og Jesús Kristur er sonur hans. Fagnaðarerindið hefur verið endurreist á þessum síðari dögum með lifandi spámönnum og sönnun þess er Mormónsbók. Leiðin til hamingjunnar er með grunneiningu fjölskyldunnar eins og hún var upprunalega skipulögð og opinberuð af himneskum föður. Þetta er hin kunnuglega laglína boðskaparins sem margir kannast við vegna þess að þeir hafa áður heyrt hana í fortilverunni.
Nú er tíminn fyrir okkur, sem Síðari daga heilaga, að láta í okkur heyra og bera vitni. Nú er tíminn fyrir tóna laglínunnar að rísa upp yfir óhljóð heimsins. Ég bæti vitnisburði mínum við boðskap frelsara og lausnara heimsins. Hann lifir! Fagnaðarerindi hans hefur verið endurreist og blessanir hamingju og friðar er hægt að öðlast í þessu lífi með því að lifa eftir boðorðum hans og ganga veg hans. Þetta er vitnisburður minn, í nafni Jesú Krists, amen.