2010–2019
Hér til að þjóna réttlátum málstað
Október 2015


Hér til að þjóna réttlátum málstað

Megum við velja að þjóna réttlátum málstað sem hugdjarfir sendiboðar Drottins okkar, Jesú Krists.

Ég er þakklát fyrir að vera hér með trúföstum konum, líkt og Lisu – systirinni í myndbandinu – sem er hrein í hjarta, elskar Drottin og þjónar honum, jafnvel í eigin erfiðleikum. Saga Lisu er mér áminning um að við þurfum að elska hver aðra og sjá í hver annarri fegurð sálarinnar. Frelsarinn kenndi: „Hafið hugfast að verðmæti sálna er mikið í augum Guðs.“1 Hvort sem við erum 8 eða 108 ára gamlar, þá er hver okkar „dýrmæt í augum hans,“2 Hann elskar okkur. Við erum dætur Guðs. Við erum systur í Síon. Við höfum guðlegt eðli og sérhver okkar er ætlað að framkvæma dýrðlegt verk.

Í sumar heimsótti ég unga yndislega móður og dætur hennar. Hún sagði mér að stúlkurnar okkar þyrftu á málstað að halda, einhverju sem efldi sjálfsmat þeirra. Henni var ljóst að við gætum uppgötvað okkar eilífa einstaklingsmat með því að breyta í samhljóm við okkar guðlega tilgang í jarðlífinu. Í kvöld söng þessi fallegi og dásamlegi kór texta sem kennir tilgang okkar. Í sorg og sút, í ótta og ógn, hugrekki prýðir vort hjarta. Við einbeittar vinnum vort verk. Við erum hér til að þjóna réttlátum málstað.3 Systur, í þessum málstað erum við metnar að verðleikum. Það er þörf fyrir okkur allar.

Sá réttláti málstaður sem við þjónum er málstaður Krists. Þetta er starf sáluhjálpar.4 Drottinn kenndi: „Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“5 Við erum sá málstaður sem Jesús Kristur þjáðist fyrir, svo blæddi úr hverri svitaholu, og sem hann lét lífi sitt fyrir í fullkominni elsku. Málstaður hans eru góðu tíðindin, „gleðitíðindin … sem röddin frá himni bar okkur vitni um að hann kom í heiminn, sjálfur Jesús, til að verða krossfestur fyrir heiminn, og til að bera syndir heimsins, og til að helga heiminn og hreinsa hann af öllu óréttlæti, svo að fyrir hann gætu allir … frelsast.“6 Frelsari okkar „sýndi veg og veitti leið.“7 Ég ber vitni um að ef við fylgjum fordæmi hans, elskum Guð og þjónum hvert öðru af kærleika og samúð, munum við „standa [saklausar] frammi fyrir Guði á efsta degi.“8 Við veljum að þjóna Drottni í hans réttláta málstað, svo við getum orðið eitt með föðurnum og syninum.9

Spámaðurinn Moróní sagði: „Því að við höfum verk að vinna, meðan við dveljum í þessu leirmusteri, svo að við fáum sigrað óvin alls réttlætis og hvílt sálir okkar í Guðs ríki.“10 Leiðtogar og brautryðjendur kirkjunnar á árum áður sóttu fram af mikilli hugdirfsku og staðfestu, til að rótfesta hið endurreista fagnaðarerindi og reisa musteri, svo hægt væri að framkvæma helgiathafnir upphafningar. Brautryðjendur okkar tíma, sem erum við, sækja líka fram og „vinna í víngarði [Drottins] til hjálpræðis sálum manna.“11 Og, eins og Gordon B. Hinckley forseti kenndi: „Hve framtíðin verður stórkostleg, er almættið breiðir út sitt dýrðlega verk … með óeigingjarnri þjónustu þeirra sem eru fullir elsku til frelsara heimsins.“12 Við tökum höndum saman með trúföstum systrum fortíðar, nútíðar og hinni rísandi kynslóð í starfi sjáluhjálpar!

Áður en við fæddumst, þá samþykktum við áætlun himnesks föður, „en samkvæmt henni gátu börn hans hlotið efnislíkama og öðlast jarðneska reynslu til að feta í átt að fullkomnun og að lokum gera að veruleika guðleg örlög sín sem erfingjar eilífs lífs.“13 Um þennan sáttmála fortilverunnar sagði öldungur John A. Widtsoe: „Við gengumst undir það, þá og þar, að verða ekki aðeins sjálfum okkar frelsarar, … heldur öllu mannkyni. Við gengum í samstarf með Drottni. Framkvæmd áætlunarinnar varð þannig ekki aðeins verk föðurins og frelsarans, heldur varð hún líka okkar verk. Hinn minnsti meðal okkar, hinn auðmjúkasti, á í samstarfi við almættið við að framkvæma tilgang hinnar eilífu sáluhjálparáætlunar.“14

Hér í jarðlífinu gerum við aftur sáttmála um að þjóna frelsaranum við sáluhjálparstarfið. Með því að taka þátt í helgiathöfnum prestdæmisins, heitum við því að helga okkur þjónustu Guðs, af allri sálu, mætti, huga og styrk.15 Við tökum á móti heilögum anda og leitum innblásturs hans til að leiða okkur í verkinu. Réttlætið breiðist út um heiminn þegar við skiljum hvað Guð vill að við gerum og við framkvæmum það.

Ég þekki barn í Barnafélaginu sem sagði við vin sinn í strætóskýlinu: „Hei! Þú ættir að koma í kirkju með mér og læra um Jesú!“

Ég sá stúlkur í Stúlknafélaginu taka höndum saman og heita því að þjóna hver annarri og síðan að ráðgera hvernig best væri að hjálpa stúlku í félaginu sem átti við ánetjun að stríða.

Ég hef séð ungar mæður verja öllum sínum tíma, hæfileikum og orku í að kenna og sýna í verki reglur fagnaðarerindisins, svo að börn þeirra, líkt og synir Helamans, gætu sýnt hugdirfsku og staðfestu í raunum, freistingum og andstreymi.

Kannski fann ég fyrir mestu auðmýktinni er ég heyrði einhleypa unga systur segja af eldmóð hins sanna vitnisburðar, að mikilvægasta viðfangsefni okkar væri að búa okkur undir hjónaband og fjölskyldulíf. Þótt hún hefði enn ekki reynt það, þá vissi hún að fjölskyldan væri kjarni sáluhjálparstarfsins. „Hin guðlega sæluáætlun gerir fjölskylduböndin varanleg handan grafar.“16 Við heiðrum áætlun og dýrð föðurins er við upphefjum þau sambönd í hinum nýja og ævarandi hjónabandssáttmála. Við veljum að lifa hreinu og dyggðugu lífi, svo við séum undir það búnar að gera þann helga sáttmála í húsi Drottins, er tækifæri gefst, og halda hann eilíflega.

Við göngum allar í gegnum mismunandi tíma í lífi okkar. Hvort sem við erum í skóla, vinnu, samfélaginu og einkum heima fyrir, þá erum við fulltrúar Drottins og erum í hans erindagjörðum.

Í starfi sjáluhjálpar er ekkert rúm fyrir samkeppni, gagnrýni eða áfellisdóma. Það snýst ekki um aldur, reynslu eða almennar vinsældir. Þetta helga verk snýst um að þróa með sér sundurkramið hjarta og sáriðrandi anda og fúsleika til að nota okkar guðlegu gjafir og einstaka hæfileika til að framkvæma verk Drottins að hans hætti. Það snýst um auðmýkt til að falla á kné og segja: „Faðir minn … ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt.“17

Með styrk Drottins megnum við að „[gjöra] allt“18 Við leitum stöðugt handleiðslu hans í bæn, í ritningunum og í hinni kyrrlátu rödd heilags anda. Systir nokkur, sem stóð frammi fyrir yfirþyrmandi verkefni, skrifaði: „Stundum velti ég fyrir mér hvort systurnar á fyrri tíma kirkjunnar hafi, líkt og við gerum, lagt höfuðið á koddann á kvöldin og beðið: ‚Hjálpa mér að takast á við morgundaginn, hvað sem þá kann að bíða mín.‘“ Hún skrifaði líka: „Ein blessun okkar er sú að við höfum hver aðra og erum í þessu saman!“19 Hverjar sem aðstæður okkar eru, hvar sem við erum staddar á vegi sáluhjálpar, þá erum við sameinaðar í skuldbindingu okkar við frelsarann. Við styðjum hver aðra í þjónustu hans.

Ella Hoskins lýkur Eigin framþróun

Þið gætuð hafa lesið nýlega um systur Ellu Hoskins, sem á 100 ára afmæli sínu var kölluð til að hjálpa stúlkunum í deild sinni við verkefnabókina Eigin framþróun.20 Um tveimur árum síðar, 102 ára, ávann systir Hoskins sér kvendómsviðurkenningu Stúlknafélagsins. Stúlknafélagið, forsætisráð Líknarfélags deildar og stiku og ættingjar komu saman til að halda upp á þennan áfanga hennar. Mörk aldurs, félaga og hjúskaparstöðu hurfu með öllu í trúfastri þjónustu. Stúlkurnar tjáðu þakklæti fyrir systur Hoskins, kennslu hennar og réttlátt fordæmi. Þær vildu líkjast henni. Eftir á spurði ég systur Hoskins: „Hvernig tókst þér þetta?“

Hún svaraði að bragði: „Ég iðraðist dag hvern.“

Ég var áminnt af ljúfri konu, sem var svo full af anda Drottins að hún ljómaði af hreinu ljósi, um að við þyrftum að vera hreinar til þess að ljóma af yndisþokka heilagleika og hafa frelsarann hjá okkur til að blessa aðra. Hreinleiki er mögulegur fyrir náð Krists, er við höfnum óguðleika og veljum að elska Guð af mætti, huga og styrk.21 Páll postuli kenndi: „Flý … æskunnar girndir, … stunda réttlæti, trú, kærleika og frið við þá, sem ákalla Drottin af hreinu hjarta.“22 Engin okkar er fullkomin. Allar höfum við gert mistök. En við iðrumst til að bæta okkur og „varðveita ætíð [nafn Krists] í hjörtum [okkar].“23 Þegar við þjónum í nafni Drottins, af hreinu hjarta, endurspeglum við elsku frelsarans og gefum öðrum nasasjón af himnum.

Megum við velja að þjóna réttlátum málstað sem hugdjarfir sendiboðar Drottins okkar, Jesú Krists. Við skulum standa saman og „sækja fram með söng í hjarta, lifa eftir fagnaðarerindinu, elska Drottin og byggja upp ríki hans.“24 Ég ber vitni um að við skynjað hina hreinu ást Krists í þessu dýrðlega verki. Við getum hlotið sanna gleði og allar dýrðir eilífs lífs. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.