Ykkar næsta skref
Himneskur faðir og sonur hans, Jesús Kristur, bjóða ykkur ástúðlega að taka næsta skrefið í átt að þeim. Ekki bíða. Takið það núna.
Nýlega varð ég hryggur í hjarta á samkomu með dásamlegum Síðari daga heilögum. Spurt var: „Hver þráir að geta aftur dvalið hjá himneskum föður?“ Allir réttu upp hönd. Næst var spurt: „Hver er viss um að það muni takast?“ Því miður var óvænt að sjá að flestir létu hönd síga.
Þegar við einblínum á allt erfiðið sem við þurfum að leggja á okkur til að verða það sem við þráum að verða, missa margir okkar móðinn og glata trú sinni og von.1
Þar sem „ekkert óhreint fær dvalið með Guði,“2 þá þurfum við að hreinsast af synd3 og helgast,4 til að geta dvalið aftur hjá honum. Það væri ómögulegt, ef við þyrftum að gera þetta eingöngu sjálfir. En við erum ekki einir. Við erum í raun aldrei einir.
Við njótum hjálpar himins, sökum Jesú Krists og friðþægingar hans.5 Frelsarinn sagði: „Ef þér trúið á mig, skuluð þér hafa kraft til að gjöra allt, sem mér er æskilegt.“6 Trúin eflist þegar hún er iðkuð.
Við skulum íhuga saman þrjár reglur sem auðvelda okkur ferðina til föður okkar á himnum.
Verða sem lítið barn
Fyrstu regluna útskýrum við með yngsta barnasyni mínum. Eftir að hann hafði lært að skríða og síðan að standa upp, gat hann farið að reyna að ganga. Í fyrstu tilraunum sínum datt hann á hausinn, fór að skæla og setti upp svip sem sagði: „Ég mun aldrei nokkurn tíma reyna þetta aftur! Ég ætla bara að halda áfram að skríða.“
Þegar hann missti fótana og féll, fannst foreldrum hans hann ekki vera vonlaus eða að hann ætti ekki eftir að ganga aftur. Þess í stað réttu þau út hendurnar og hvöttu hann áfram, svo hann horfði á þau og reyndi að fikra sig í áttina að kærleiksríkum faðmi þeirra.
Ástúðlegir foreldrar eru ætíð reiðubúnir með útrétta arma, til að taka fagnandi á móti hinu smæsta skrefi í rétta átt. Þau vita að ef við reynum stöðugt aftur, mun það leiða til árangurs og framfara.
Frelsarinn kenndi að við þyrftum að verða sem lítil börn, til að geta erft ríki Guðs.7 Í andlegri merkingu þurfum við því að gera það sem við gerðum sem börn.8
Af barnslegri auðmýkt og fúsleika til að snúa okkur að himneskum föður og frelsara okkar, tökum við skref í átt að þeim og gefumst aldrei upp, jafnvel þótt við föllum. Faðir okkar á himnum gleðst yfir hverju því tryggðarskrefi sem við tökum og ef við föllum, gleðst hann yfir öllu því sem við gerum til að komast á fætur og reyna aftur.
Láta verkin tala í trú
Aðra regluna útskýrum við með tveimur trúföstum heilögum, sem bæði þrá innilega að finna sér eilífan lífsförunaut. Bæði tóku þau bænþrungin trúarskref.
Yuri, sem var rússneskur Síðari daga heilagur, færði fórnir og lagði fyrir til að fara í langt ferðalag til musterisins. Í lestinni veitti hann athygli fallegri og bjartri konu sem honum fannst hann eiga að miðla fagnaðarerindinu. Hann vissi ekki hvað hann gæti gert, svo hann tók að lesa í Mormónsbók og vonaði að hún tæki eftir því.
Yuri vissi ekki að konan, Mariya, væri líka Síðari daga heilög. Hún vissi heldur ekki að Yuri væri meðlimur og eftir að hafa hlotið hugboð um að miðla honum fagnaðarerindinu, tók Mariya líka að lesa Mormónsbók, í þeirri von að hann veitti því athygli.
Þegar Yuri og Mariya litu samtímis upp, voru þau bæði furðulostin að sjá Mormónsbók í kjöltu hvors annars – og, já, eftir að þau urðu ástfangin, voru þau innsigluð í musterinu. Í dag leggja Yuri og Mariya Kutepov, frá Voronezh í Rússlandi, sitt mikilvæga starf af mörkum fyrir kirkjunna í Rússlandi.
Aðalatriðið hér er ekki bara fúsleiki parsins til að breyta í trú. Það felur líka í sér aðra regluna – að Drottinn geri meira en að bæta að jöfnu fúsleika okkar til að breyta í trú. Fúsleiki okkar til að taka trúarskref er ekki aðeins bættur upp að jöfnu, heldur meira en það, eins og fyrirheit hans kveða á um.
Himneskur faðir og frelsari okkar vilja óðfúsir blessa okkur. Þegar allt kemur til alls, þá fara þeir aðeins fram á einn tíunda af því sem þeir blessa okkur með og lofa síðan að gáttir himins ljúkist upp fyrir okkur!9
Alltaf þegar við erum fús til að breyta í trú á Jesú Krist og taka eitt skref til viðbótar, einkum ef skrefið er erfitt og krefst breytingar eða iðrunar, þá erum við blessuð með styrk.10
Ég ber vitni um að Drottinn mun leiða okkur að – og í gegnum – okkar næstu skref. Hann mun gera meira en að bæta að jöfnu viðleitni okkar með mætti sínum, ef við erum fús til að halda áfram að reyna, iðrast og sækja fram í trú á himneskan föður og son hans, Jesú Krist.
Andlegum gjöfum er ekki aðeins heitið þeim sem elska Guð og halda öll hans boðorð, heldur líka þeim sem „leitast við að gjöra svo.“11 Styrkur veitist þeim sem halda áfram að reyna.
Tveir nauðsynlegir þættir sem marka leiðina aftur til okkar himneska föður, eru hinn viðvarandi sáttmáli helgiathafnar sakramentis og hvíldardagsþjónustan. Russell M. Nelson forseti kenndi á síðustu aðalráðstefnu að hvíldardagurinn væri okkur gjöf frá Drottni. Hin vikulega hvíldardagsþjónusta okkar sýnir Drottni að við elskum hann.12
Á hverjum hvíldardegi vitnum við að við séum fúsir – fúsir til að taka á okkur nafn hans, að hafa hann ávallt í huga og halda boðorð hans.13 Í skiptum fyrir okkar iðrandi hjarta og skuldbindingu, endurnýjar Drottinn loforðið um fyrirgefningu synda okkar og gerir kleift að „andi hans sé ætíð með [okkur].“14 Áhrif heilags anda aukast og styrkja, kenna og leiða okkur.
Ef við minnumst frelsarans og snúum hjarta okkar að honum, með þessa tvo mikilvægu þætti í huga, þá mun viðleitni okkar enn á ný meira en bætt að jöfnu, eins og fyrirheit hans kveða á um. Okkur er heitið því, ef við virðum hvíldardaginn af trúmennsku, að fylling jarðarinnar verði okkar.15
Leiðin til okkar himneska föður liggur um hús Drottins, þar sem við erum blessuð með því að taka á móti endurleysandi helgiathöfnum fyrir okkur sjálfa og látna ástvini okkar. Boyd K. Packer forseti kenndi að helgiathafnir og sáttmálar verði okkar aðgangs í návist [Guðs].16 Ég bið þess að sérhver okkar verði ætíð verðugur musterismeðmæla og noti þau til reglubundinnar þjónustu.
Sigrast á hinum náttúrlega manni
Þriðja reglan er þessi: Við verðum að gera ráð fyrir þeirri tilhneigingu hins náttúrlega manns að fresta, hætta við eða gefast upp.17
Þegar við tökum framförum á sáttmálsveginum, þá munum við gera mistök, stundum ótal sinnum. Sumir okkar heyja baráttu við breytni eða ánetjun sem okkur finnst erfitt að sigrast á. En trú á himneskan föður og Jesú Krist krefst verka og áreynslu.18 Ef við erum fús til að láta verkin tala, munum við hljóta styrk til að iðrast og verða betri.
Við gerum aðeins mistök, ef við látum hjá líða að taka enn eitt skref áfram af trúfesti. Okkur mun ekki mistakast, ef við erum tryggilega tengd við frelsara heimsins – hann, sem aldrei hefur brugðist og mun aldrei bregðast okkur!
Fyrirheitnar blessanir
Ég heiti því að sérhverju trúarskrefi okkar mun mætt með liðsinni frá himnum. Við hljótum leiðsögn þegar við biðjum til himnesks föður, reiðum okkur á frelsarann og fylgjum honum og hlustum á heilagan anda. Styrkur hlýst sökum friðþægingar Jesú Krists.19 Lækning og fyrirgefning hljótast sökum náðar Guðs.20 Viska og þolinmæði hljótast með því að setja traust sitt á tímasetningu Drottins fyrir okkur. Við hljótum vernd með því að fylgja hinum lifandi spámanni Guðs, Thomas S. Monson forseta.
Þið eruð skapaðir, svo „[þið megið] gleði njóta,“21 gleði sem þið finnið þegar þið verðugir snúið aftur í kærleiksríkan faðm himnesks föður og frelsara ykkar.
Ég ber vitni um þennan óviðjafnanlega sannleika. Himneskur faðir og sonur hans, Jesús Kristur, lifa. Þeir þekkja ykkur. Þeir elska ykkur. Af ástúð bjóða þeir að þið takið næsta skrefið í átt að þeim. Ekki bíða. Takið það núna. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.