2010–2019
Hald stefnu þinni
Október 2015


Hald stefnu þinni

Setjið Guð fyrst, sama hverjar áskoranir ykkar eru. Elskið Guð. Hafið trú á Krist og felið ykkur honum í öllu.

Hinn 11. mars 2011 var ég á Tokyo Shinagawa lestarstöðinni á leið minni í heimsókn til Kobe trúboðsins í Japan. Það var um klukkan 14:25 sem jarðskjálfti af stærðargráðunni 9 á richters-kvarða reið yfir. Ég gat ekki staðið vegna hristingsins og ríghélt mér í handriðið. Ljós sem voru á loftinu þar rétt hjá duttu niður á gólfið. Allir í Tokyo voru flemtri slegnir.

Til allrar hamingju varð mér ekki mein af og fjórum klukkustundum síðar bárust mér þær gleðifregnir að öll fjölskyldan mín væri örugg.

Í sjónvarpinu var straumur af skelfilegum og átakanlegum myndum. Gríðarstór flóðbylgja flæddi inn yfir Sendai trúboðssvæðið – sópandi öllu í burt sem á vegi hennar varð: Bílum, húsum, verksmiðjum og ökrum. Mér varð mjög brugðið að sjá myndirnar og ég grét. Ég bað þess einlæglega að vernd og aðstoð himnesks föðurs myndi vera yfir fólkinu sem byggi á þessu svæði, sem var mér svo kært.

Síðar var staðfest að í lagi væri með alla trúboðana og meðlimi kirkjunnar. Hins vegar hafði jarðskjálftinn áhrif á marga meðlimi sem misstu ástvini, heimili og húsmuni. Rúmlega 20.000 manns létust, samfélög eyðilögðust og margir þurftu að yfirgefa heimili sín vegna slyssins í kjarnorkuverinu.

Svipaðar hörmungar valda usla á mörgum stöðum í heiminum í dag með tilheyrandi dauðsföllum. Við höfum verið vöruð við að hörmungar, stríð og óteljandi erfiðleikar munu eiga sér stað í heiminum.

Þegar slíkar áskoranir hellast skyndilega yfir, þá má vera að við spyrjum okkur: „Hvers vegna gerist þetta fyrir mig?“ eða „Hvers vegna þarf ég að þjást?“

Í langan tíma eftir að ég snérist til trúar á fagnaðarerindið, hafði ég ekki skýr svör við spurningunni: „Hvers vegna eru mér gefnar raunir?“ Ég skildi þann hluta sáluhjálparáætlunarinnar sem segir að við myndum verða reynd. Hins vegar var ég í raun ekki með nægilega sterka sannfæringu til að svara þessari spurningu með fullnægjandi hætti. Á tímabili gekk ég einnig í gegnum mikla raun.

Ég heimsótti Nagoya trúboðið, starfs míns vegna, þegar ég var 30 ára gamall. Trúboðsforsetinn var svo vinsamlegur að biðja öldungana að keyra mig út á flugvöll að fundi loknum. Þegar við nálguðumst gatnamót neðst í langri brekku kom stór vörubifreið aðvífandi fyrir aftan okkur á miklum hraða. Hann klessti aftan á bílinn okkar og ýtti okkur rúma 20 metra áfram. Það sem var ógnvekjandi við þetta slys var að það var enginn ökumaður í vörubifreiðinni. Afturhluti bíls okkar hafði þjappast saman í helming af sinni upprunalegu stærð. Sem betur fer lifðu báðir öldungarnir og ég slysið af.

Næsta dag fór ég reyndar að finna fyrir verk í hálsinum og öxlunum og ég fékk ákafan höfuðverk. Frá þeim degi gat ég ekki sofið og upplifði dag hvern bæði líkamlegan og andlegan verk. Ég bað til Guðs um að lækna verki mína en einkennin héldu áfram í um 10 ár.

Efasemdir tóku einnig að læðast í hug mér á þessum tíma og ég hugleiddi: „Hvers vegna þarf ég að þjást svona mikið.“ Þrátt fyrir að lækningin sem ég leitaði eftir hafi ekki fengist þá kappkostaði ég að halda boðorð Guðs. Ég hélt áfram að biðja þess að ég gæti ráðið fram úr spurningu minni um raunir mínar.

Síðan kom sá tími þar sem ég tók að eiga erfitt með nýja persónulega vandamálið mitt og ég varð órólegur, því ég vissi ekki hvernig ég gæti ráðið við þessa nýju raun. Ég bað um svar. En ég fékk ekki svarið strax. Því fór ég og ræddi við kirkjuleiðtoga sem ég treysti.

Hann sagði, með kærleik í röddinni, er við ræddum saman: „Bróðir Aoyagi, er ekki tilgangur þinn í þessu jarðlífi að ganga í gegnum þessa raun? Er það ekki að gangast undir allar raunir þessa lífs, eins og þær koma, og láta svo Drottin sjá um restina? Heldur þú ekki að þetta vandamál muni verða leyst þegar við rísum upp?“

Ég fann sterklega fyrir anda Drottins þegar ég heyrði þessi orð. Ég hafði heyrt þessa kenningu ótal oft en augu skilnings míns höfðu aldrei opnast eins og nú. Ég skildi að þetta var svarið sem ég hafði leitað eftir í bænum mínum til Drottins. Ég gat greinilega skilið sáluhjálparáætlun himnesks föður okkar og á ný skilið þessa mikilvægu reglu.

Drottinn Guð hefur í Abraham lýst yfir: „Og með þessu munum við reyna þá og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim.“1

Reglan er sú, að Guð, sem skapaði himnana og jörðina, þekkir hinn mikilfenglega tilgang þessarar jarðar, hann hefur vald yfir öllu á himni og á jörðu og til að geta gert sáluhjálparáætlunina að veruleika, þá lætur hann okkur í té mismunandi reynslu – það er að segja raunir – á meðan við erum á jörðunni.

Og Drottinn sagði eftirfarandi við Joseph Smith:

„Vita skaltu þá, sonur minn, að allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs. …

Hald … stefnu þinni …, því að Guð verður með þér alltaf og að eilífu.“2

Raunir þessarar jarðar – þar á meðal veikindi og dauðsföll – eru hluti af sáluhjálparáætluninni og óumflýjanleg reynsla. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að halda stefnu okkar og takast á við áskoranir okkar í trú.

Tilgangur lífs okkar er þó ekki aðeins að standast áskoranir. Himneskur faðir sendi ástkæran son sinn, Jesú Kristur, til að vera frelsara okkar og lausnara, svo við gætum yfirstígið þær raunir sem við þurfum að takast á við hér á jörðunni. Með öðrum orðum, hann lætur veikleika okkar verða að styrkleika,3 Hann friðþægði fyrir syndir okkar og ófullkomleika og hann gerir okkur kleift að öðlast ódauðleika og eilíft líf.

Henry B. Eyring forseti hefur sagt: „Prófraunin sem kærleiksríkur Guð hefur sett okkur í er ekki til þess að sjá hvort við fáum staðist erfiðleika. Hún er til að sjá hversu þolgóð við erum. Við stöndumst prófið með því að sýna að við munum eftir honum og boðorðunum sem hann gaf okkur.“4

Haltu stefnu þinni er lykilatriði á tímum prófrauna. Snúið hjörtum ykkar að Guði, einkum þegar áskoranir koma upp. Haldið boðorð Guðs af auðmýkt. Sýnið trú til að samrýma eigin óskir að vilja Guðs.

Við skulum íhuga aftanákeyrsluna í Nagoya. Ég hefði geta dáið í þessu slysi. Það var hins vegar kraftaverki líkast að ég lifði af, vegna miskunnar Drottins. Ég veit að þjáning ar mínar voru til þess að ég gæti lært af þeim og vaxið.5 Himneskur faðir kenndi mér að auka þolinmæði mína, þroska samkennd og hugga þá sem þjást. Hjarta mitt fylltist þakklæti til himnesks föður fyrir þessa raun er mér varð þetta ljóst.

Setjið Guð fyrst, sama hverjar áskoranir ykkar eru. Elskið Guð. Hafið trú á Krist og felið ykkur honum í öllu. Moróní gefur slíkum eftirfarandi loforð: „Komið til Krists, fullkomnist í honum og hafnið öllu óguðlegu. Og ef þér hafnið öllu óguðlegu og elskið Guð af öllum mætti yðar, huga og styrk, þá bregst yður eigi náð hans, en fyrir náð hans náið þér fullkomnun í Kristi.“6

Ég vitna einlæglega um að Guð faðirinn og ástkær sonur hans, Jesú Kristur, lifa og að loforð Guðs til þeirra sem halda stefnu sinni og elska hann munu uppfyllast jafnvel á raunarstundu, í hinu heilaga nafni Jesú Krists, amen.