Þeir hlutir sem sálu minni tilheyra
Hvaða hluti ígrundið þið? Hvaða hlutir skipta ykkur raunverulega máli? Hverjir eru þeir hlutir sem sálu ykkar tilheyra?
Bræður mínir og systur, nú er ég stend enn á ný í Ráðstefnuhöllinni, minnist ég orða postulans Péturs: „Drottinn, gott er að við erum hér.“ 1
Hugrenningar mínar í dag snúast um orð spámannsins Nefí, sem skráði sögu þjóðar sinnar í kjölfar andláts föður síns, Lehís. Nefí skrifaði: „En á þessar rita ég [þá hluti], sem sálu minni [tilheyra].“ 2
Ég var vanur að hlaupa yfir þetta vers, þar sem mér fannst orðið hluti ekki mjög vandað eða andlegt, ekki nógu mikilfenglegt til að tengja það „sálu minni.“ Ég hef samt komist að því að orðið hluti [things] er notað 2.354 sinnum í ritningunum. 3 Hér er dæmi úr Móse: „Ég er upphafið og endirinn, hinn almáttugi Guð. Með mínum eingetna skapaði ég [þessa hluti].“ 4 Með orðum Nefís: „Sjá, sál mín hefur unun af [öllum hlutum], sem Drottin snertir. Og hjarta mitt ígrundar án afláts [þá hluti], sem ég hef séð og heyrt.“ 5
Orð Nefís vekja spurningarnar: „Hvaða hluti ígrundið þið?“ „Hvaða hlutir skipta ykkur raunverulega máli?“ „Hverjir eru þeir hlutir sem sálu ykkar tilheyra?“
Þeir hlutir sem sálu okkar tilheyra skýrast oft og aukast með spurningum.
Á tímum faraldursins hef ég hitt ungmenni hvaðanæva að úr heimi á fjölmörgum trúarsamkomum – stórum sem smáum, í útsendingum og á samfélagsmiðlum og við höfum rætt spurningar þeirra.
Hinn fjórtán ára Joseph Smith hafði spurningu djúpt í sálu sinni og hann bar hana fram við Drottin. Russell M. Nelson forseti lagði áherslu á þetta: „Leggið spurningar ykkar fyrir Drottin og aðra trúfasta aðila. Lærið í þeirri þrá að trúa, fremur en í von um að finna bresti í lífi spámanns eða ósamræmi í ritningunum. Hættið að styrkja efasemdir ykkar með því að næra þær með … efasemdarfólki. Leyfið Drottni að leiða ykkur á ferð andlegrar uppgötvunar.“ 6
Ungmenni spyrja mig reglulega hverju ég trúi og hvers vegna ég trúi.
Ég man eftir að hafa heimsótt stúlku rafrænt á heimili hennar. Ég spurði hvort þetta væri í fyrsta skipti sem postuli kæmi á heimilið. Hún brosti og svaraði um hæl: „Já.“ Spurning hennar til mín var góð: „Hverjir eru mikilvægustu hlutirnir sem ég ætti að vita?“
Ég svaraði með þeim hlutum sem sálu minni tilheyra, því sem býr mig undir að heyra hvatningu, sem lyftir augliti mínu ofar leiðum heimsins og gefur verki mínu tilgang í fagnaðarerindinu og jafnvel lífinu.
Mætti ég miðla ykkur sumum af þeim hlutum sem sálu minni tilheyra? Þeir eiga við um alla sem leitast við að vera sannir lærisveinar Jesú Krists. Tíu væri góð og þægileg tala. Í dag segi ég ykkur frá sjö hlutum, í þeirri von að þið munið sjálf ljúka við þann áttunda, níunda og tíunda af eigin reynslu.
Í fyrsta lagi: Elskið Guð föðurinn og frelsara okkar, Jesú Krist.
Jesús fór með hið æðsta og fremsta boðorð: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ 7
Nelson forseti lýsti yfir hollustu sinni við Guð, eilífan föður okkar, og son hans, Jesú Krist, þegar hann var kallaður til að leiða kirkju Drottins, og sagði: „Ég þekki og elska þá og heiti því að þjóna þeim – og ykkur – af öllum lífsins mætti.“ 8
Í fyrsta lagi: Elskið föðurinn og soninn.
Í öðru lagi: „Þú skalt elska náunga þinn.“ 9
Þetta er ekki aðeins góð hugmynd; þetta er annað æðsta boðorðið. Náungar okkar eru maki og fjölskylda, meðlimir deildar, samstarfsfólk, herbergisfélagar, þeir sem eru annarar trúar, þeir sem þurfa hjálpandi hendur og satt að segja, allir. Kjarninn í „þú skalt elska náunga þinn“ er tjáður í sálminum „Elskið hver annan.“ 10
Nelson forseti minnir okkur á þetta: „Þegar við elskum Guð af öllu okkar hjarta, beinir hann hjarta okkar að velferð annarra á dásamlegan og dyggðugan hátt.“ 11
Í þriðja lagi: Elskið ykkur sjálf.
Þetta eiga margir erfitt með að gera. Er það ekki forvitnilegt að það virðist erfiðara að elska sjálfan sig en aðra? Þrátt fyrir það hefur Drottinn sagt: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ 12 Hann virðir guðleikann hið innra með okkur og það verðum við líka að gera. Þegar við erum þjökuð með mistökum, sorg, tilfinningum ófullkomleika, vonbrigðum, reiði eða synd, þá er kraftur friðþægingar frelsarans einn þeirra hluta sem hefur þá guðlegu eiginleika að lyfta sál okkar.
Í fjórða lagi: Haldið boðorðin.
Drottinn hefur sagt þetta skýrt: „Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín.“ 13 Vinnið að því á hverjum degi að verða betri og gera aðeins betur og sækja fram í réttlæti.
Í fimmta lagi: Verið ávallt verðug þess að fara í musterið.
Ég kalla það að vera meðmælt fyrir Drottin. Hvort sem þið hafið aðgang að musteri eða ekki; að vera verðug gildra musterismeðmæla, heldur einbeitingu ykkar staðfastri á því sem skiptir máli, sáttmálsveginum.
Í sjötta lagi: Gleðjist og verið vonglöð.
Drottinn hefur sagt: „Verið … vonglaðir og óttist ei.“ 14 Af hverju? Hvernig, þegar við stöndum frammi fyrir áskorunum við hvert fótmál? Vegna fyrirheitsins sem Jesús Kristur gaf okkur: „Ég, Drottinn, er með yður og mun standa með yður.“ 15
Nelson forseti lýsir hinu endurreista fagnaðarerindi sem „[boðskapar] gleði!“ 16 Hann útskýrir: „Gleðin sem við finnum hefur lítið að gera með okkar lífsins aðstæður, en þess meira með það sem við einblínum á í lífinu.“ 17
Í sjöunda lagi: Fylgjum lifandi spámanni Guðs.
Þrátt fyrir að vera sjöunda atriði listans, er þetta mér efst í huga, ef litið er á mikilvægi þess á okkar tíma.
Við höfum spámann Guðs á jörðinni á okkar tíma! Aldrei draga úr mikilvægi þess fyrir ykkur. Munið eftir stúlkunni sem ég nefndi í upphafi. Hún vildi vita hvaða hlutir væru mikilvægastir. „Fylgja lifandi spámanni,“ sagði ég þá og legg aftur áherslu á það í dag.
Við erum skilgreind sem kirkja sem leidd er af spámönnum, sjáendum og opinberurum, kölluðum af Guði fyrir þennan tíma. Ég lofa að þegar þið hlustið og fylgið ráðum þeirra, munuð þið aldrei vera afvegaleidd. Aldrei!
Við lifum á tímum þar sem við „[hrekjumst og berumst] fram og aftur,“ 18 þar sem atlaga er gerð að andlegri viðleitni, velsæmi, ráðvendni og virðingu. Við verðum að taka ákvarðanir. Við heyrum rödd Drottins stilla ótta og lyfta ásjónu okkar fyrir tilstilli spámannsins, því þegar Nelson forseti talar, þá talar hann fyrir hönd Drottins.
Við erum blessuð með ritningum og kenningum sem minna okkur á að „mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir og yðar vegir ekki mínir vegir, segir Drottinn.“ 19
Þannig var það hjá Naaman, sem var mikill herforingi í Sýrlandi, en holdsveikur, sem frétti að spámaðurinn Elísa gæti læknað sig. Elísa sendi boðbera sinn til að segja Naaman að baða sig sjö sinnum í Jórdan og hann yrði heilbrigður. Naaman reiddist. Víst voru til voldugri ár en Jórdan-áin og hvers vegna að senda þjón, þegar hann hafði búist við því að spámaðurinn Elísa læknaði sig persónulega? Naaman fór leiðar sinnar, en þjónar hans sannfærðu hann að lokum: „Ef spámaðurinn hefði falið þér erfitt verk hefðir þú þá ekki unnið það?“ 20 Naaman dýfði sér á endanum sjö sinnum í Jórdan og læknaðist.
Frásögnin af Naaman minnir okkur á áhættu þess að velja og hafna hvaða leiðsögn spámannsins hentar hugsunarhætti okkar, væntingum okkar eða stöðlum nútímans. Spámaðurinn okkar vísar okkur stöðugt á okkar eigin Jórdan til að læknast.
Mikilvægustu orð sem við getum heyrt, íhugað og fylgt, eru þau sem opinberuð eru með lifandi spámanni. Ég ber vitni um að hafa setið í ráði með Nelson forseta, til að ræða mikilvæg málefni kirkjunnar og heimsins og séð opinberun flæða í gegnum hann. Hann þekkir Drottin, hann þekkir hans leiðir og þráir að öll börn Guðs muni hlýða á hann, Drottin Jesú Krist.
Við höfum í mörg ár heyrt tvisvar á ári frá spámanninum á aðalráðstefnu. Vegna flókinna málefna okkar tíma, talar Nelson forseti mikið oftar á umræðufundum, 21 samfélagsmiðlum, 22 trúarsamkomum 23 og jafnvel blaðamannafundum. 24 Ég hef fylgst með honum við undirbúning og kynningu á djúpstæðum boðskap opinberunar, sem hvatt hefur til aukins þakklætis, stuðlað að því að allir bræður okkar og systur á jörðinni séu höfð með og aukið frið, von, gleði, heilbrigði og lækningu í persónulegu lífi okkar.
Nelson forseti er hæfileikaríkur í samskiptum, en mikilvægara er að hann er spámaður Guðs. Það er sláandi þegar maður hugsar um það, en það er nauðsynlegt að skilja að skýr leiðsögn hans mun verja okkur öll gegn svikum, slægð og veraldlegum leiðum sem reyna að fá meðbyr í heiminum nú á tímum. 25
Spámannsmöttullinn snýst um opinberun. „Endurreisn fyllingar fagnaðarerindis Jesú Krists: Tvö hundruð ára afmælisyfirlýsing til heimsins,“ sem gefin var á aðalráðstefnunni í apríl 2020, leggur áherslu á að Drottinn leiðir þetta verk. Í þessari yfirlýsingu segja Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin: „Við lýsum fagnandi yfir að hinni fyrirheitnu endurreisn miðar áfram með viðvarandi opinberun. Jörðin verður aldrei aftur söm, því Guð mun ‚safna öllu … undir eitt höfuð í Kristi‘ (Efesusbréfið 1:10).“ 26
„Undir eitt höfuð í Kristi“ 27 og „[þeir hlutir] sem sálu minni tilheyra“ 28 er allt það sem þessi kirkja, þetta fagnaðarerindi og þetta fólk einbeitir sér að.
Ég lýk með því að bjóða sérhverju ykkar að ígrunda þá sjö „[hluti] sem sálu minni [tilheyra]“ sem ég miðlaði í dag: elska Guð föðurinn og Jesú Krist, frelsara okkar; elska náungann; elska ykkur sjálf; halda boðorðin; vera ávallt verðug musterismeðmæla; gleðjast og vera vonglöð; og fylgja lifandi spámanni Guðs. Ég býð ykkur að bera kennsl á ykkar eigin átta, níu og tíu. Íhugið á hvaða hátt þið gætuð miðlað ykkar hjartans „hlutum“ með öðrum og hvatt þá til að biðja, ígrunda og leita leiðsagnar Drottins.
Þeir hlutir sem sálu minni tilheyra eru mér jafn dýrmætir og þeir sem ykkur tilheyra eru ykkur dýrmætir. Þessir hlutir styrkja þjónustu okkar í kirkjunni og öll svið lífsins. Þeir skuldbinda okkur Jesú Kristi, minna okkur á sáttmála okkar og hjálpa okkur að vera örugg í örmum Drottins. Ég ber vitni að þrá hans er sú að sál okkar „mun aldrei hungra né þyrsta, heldur skal mett vera“ 29 með elsku hans, þegar við leitum eftir því að verða sannir lærisveinar hans, að sameinast honum á sama hátt og hann er sameinaður föðurnum. Í nafni Jesú Krists, amen.