Aðalráðstefna
Persónulegur friður á krefjandi tímum
Aðalráðstefna október 2021


13:48

Persónulegur friður á krefjandi tímum

Aldrei hefur verið mikilvægara að leita persónulegs friðar.

Nýlega fékk ég það verkefni að vígja hluta hins sögufræga staðar Nauvoo. Hluti af verkefninu var að fara til Liberty-fangelsisins í Missouri. Á meðan ég skoðaði fangelsið, íhugaði ég atburðina sem gerðu það að svo mikilvægum hluta kirkjusögunnar. Lífi hinna heilögu var ógnað, sem rekja mátti til útrýmingarfyrirskipunar ríkisstjórans í Missouri. Auk þess höfðu spámaðurinn Joseph og nokkrir liðsmenn hans verið vistaðir í fangelsi fyrir rangar sakir. Ein ástæðan að baki ofbeldisins var andstaða meðlima okkar við þrælahald. 1 Þessar miklu ofsóknir gegn Joseph Smith og fylgjendum hans, er ofsafengið dæmi um óréttláta iðkun sjálfræðis sem getur yfirtekið réttlátt fólk. Vistunartími Josephs í Liberty-fangelsinu sýnir að erfiðeikar staðfesta ekki vanþóknun Drottins eða að hann dragi blessanir sínar til baka.

Ég varð djúpt snortinn við að lesa ákall spámannsins Josephs Smith í vistun hans í Liberty-fangelsinu: „Ó Guð, hvar ert þú? Og hvar er tjaldið, sem hylur skýli þitt?“ 2 Joseph spurði hversu lengi fólk Drottins þyrfti að „þola þessi rangindi og þessa óréttmætu áþján.“ 3

Öldungur Cook heimsækir Liberty-fangelsið

Ég varð djúpt snortinn þar sem ég stóð í Liberty-fangelsinu, er ég las svar Drottins: „Sonur minn, friður sé með sál þinni. Mótlæti þitt og þrengingar munu aðeins vara örskamma stund. Og ef þú stenst það vel, þá mun Guð upphefja þig í upphæðum.“ 4 Ljóst er að mótlæti getur fágað okkur fyrir eilíf, himnesk örlög. 5

Hin dýrmætu orð frelsarans, „sonur minn, friður sé með sál þinni,“ 6 tala persónulega til mín og hafa mikla þýðingu fyrir okkar tíma. Þau minna mig á kennslu hans til lærisveina sinna í jarðneskri þjónustu hans.

Áður en Kristur þjáðist í Getsemane-garðinum og á krossinum, bauð hann postulum sínum: „Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað.“ 7 Hann hughreysti þá síðar með þessum orðum: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“ 8

Eitt kærasta nafn Drottins og frelsara okkar, Jesú Krists, er „Friðarhöfðingi.“ 9 Ríki hans mun að lokum verða stofnað og þar mun ríkja friður og elska. 10 Við hlökkum til þúsund ára valdatíðar Messíasar.

Þrátt fyrir þessa hugsjón um þúsund ára valdatíð, þá vitum við engu að síður að friður og samlyndi ráða ekki ríkjum í okkar heimi. 11 Á allri minni lífstíð hef ég ekki séð meiri skort á háttvísi. Á okkur dynur málfar fyllt reiði og átökum og ögrandi, átakanleg breytni sem eyðileggur frið og rósemd.

Okkur er ekki lofaður eða tryggður friður hér í heimi fyrr en við síðari komu Jesú Krists. Frelsarinn greindi postulum sínum frá því að jarðnesk þjónusta hans myndi ekki leiða til heimsfriðar. Hann kenndi: „Ætlið ekki að ég sé kominn að færa frið á jörð.“ 12 Heimsfriður var ekki hluti af hinni upphaflegu jarðnesku þjónustu frelsarans. Heimsfriður er ekki fyrir hendi á okkar tíma.

Þó er mögulegt að hljóta persónulegan frið, þrátt fyrir reiði, átök og sundurlyndi, sem eyða og spilla heiminum á okkar tíma. Aldrei hefur verið mikilvægara að leita persónulegs friðar. Í fallegum og vinsælum nýjum sálmi, sem bróðir Nik Day samdi fyrir ungmenni okkar tíma, er heitir „Kristur færir frið,“ segir: „Ef hér löng er lausnar bið, Kristur færir frið.“ 13 Við vorum blessuð með þessum sálmi rétt fyrir Kóvid-19 heimsfaraldurinn.

Þessi sálmur tjáir á fallegan hátt þrá eftir friði og undirstrikar samhliða að friður sé tryggður í lífi og hlutverki Jesú Krists. Joseph F. Smith forseti kenndi: „Andi friðar og kærleika getur aldrei komið í heiminn … fyrr en mannkyn meðtekur sannleika og skilaboð Guðs … og viðurkennir guðlegan kraft hans og valdsumboð.“ 14

Þótt við munum aldrei láta af tilraunum okkar til að ná fram heimsfriði, þá höfum við verið fullvissuð um að við getum notið persónulegs friðar, eins og Kristur kennir. Þessi regla er sett fram í Kenningu og sáttmálum: „En lærið að sá, sem vinnur réttlætisverk, hlýtur sín laun, já, frið í þessum heimi og eilíft líf í komanda heimi.“ 15

Hver eru sum „réttlætisverk“ sem munu hjálpa okkur að kljást við ágreining og draga úr deilum og finna frið í þessum heimi? Allar kenningar Krists vísa í átt að þessu. Ég ætla að benda á nokkrar sem ég tel sérlega mikilvægar.

Fyrsta: Elskið Guð, lifið eftir boðorðum hans og fyrirgefið öllum

George Albert Smith var forseti kirkjunnar árið 1945. Sem postuli, hafði hann verið þekktur fyrir að vera friðelskandi leiðtogi. Á þeim 15 árum, áður en hann varð forseti, höfðu þrautir og þrengingar heimskreppu og dauði og eyðilegging síðari heimstyrjaldarinnar í kjölfarið, verið allt annað en friðsamleg.

Á sinni fyrstu aðalráðstefnu sem forseti, í október 1945, að síðari heimsstyrjöldinni lokinni, minnti Smith forseti hina heilögu á boð frelsarans um að elska náunga sinn og fyrirgefa óvinum sínum og kenndi síðan: „Þetta er sá andi sem allir Síðari daga heilagir ættu að leitast við að tileinka sér, ef þeir vonast til að standa í návist hans dag einn og hljóta hans dýrðlegu viðtökur er við komum heim.“ 16

Annað: Leitið ávaxta andans

Í bréfi sínu til Galatamanna, lýsir Páll postuli tveimur andstæðum verkum manna, annars vegar réttlætisverkum, er gera þá hæfa til að erfa Guðs ríki, og hins vegar verkum sem geta, án iðrunar, gert þá vanhæfa. Meðal þess sem gerir okkur hæf eru ávextir andans: „Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska [og] hógværð.“ 17 Páll hvetur líka til þess að við berum byrðar hvers annars og þreytumst ekki á því að gera gott. 18 Meðal þeirra verka sem ekki eru réttlát, nefnir hann fjandskap, reiði og deilur. 19

Ein mikilvægasta lexían á tíma Gamla testamentisins, tengist föður Abraham. Abraham og frændi hans, Lot, voru auðugir, en komust að því að þeir gátu ekki búið saman. Til að deilur yrðu ekki á milli þeirra, þá leyfði Abraham Lot að velja sér landareign. Lot valdi sléttur Jórdan, sem voru bæði frjósamar og fallegar. Abraham fékk hinar síður frjósömu sléttur Mamre. Ritningin segir að Abraham hefði þá fært sig með tjöld sín og reist „Drottni altari.“ 20 Lot, hins vegar, „sló upp tjöldum sínum í grennd við Sódómu.“ 21 Lexían hér er augljós hvað varðar friðsamleg samskipti: við ættum að vera fús til að miðla málum og koma í veg fyrir deilur í öllu sem ekki varðar réttlætið. Eins og Benjamín konungur kenndi: „Þér munuð ekki hafa hug á að gjöra hver öðrum mein.“ 22 Við þurfum hins vegar að vera óhagganleg og staðföst varðandi réttláta breytni og ófrávíkjanlegar kenningar.

Ef við viljum njóta friðar, sem er ávöxtur réttlætisverka, munum við ekki slá upp tjöldum okkar í grennd við heiminn. Við munum slá upp tjöldum okkar móts við musterið.

Þriðja: Notið sjálfræðið til að velja réttlætið

Friður og sjálfræði eru samtvinnuð og nauðsynlegir þættir í áætlun sáluhjálpar. Eins og sagt er í Leiðarvísi að ritningunum um „Sjálfræði og Ábyrgðarskyldu,“ þá er það „hæfileiki og forréttindi sem Guð gefur [okkur] til þess að velja og framkvæma [sjálf].“ 23 Sjálfræðið er því lykill að persónulegum vexti og reynslu, sem blessar okkur er við fylgjum frelsaranum. 24

Sjálfræði var regla sem var kynnt í í fortilverunni á stórþingi himins og í baráttunni á milli þeirra sem völdu að fylgja Kristi og fylgjenda Satans. 25 Að láta af drambi og valdbeitingu og velja að fylgja frelsaranum, myndi gera okkur kleift að hafa ljós og frið hans. Það myndi þó stofna persónulegum friði í hættu, ef fólk notaði sjálfræðið á skaðlegan og særandi hátt.

Ég er viss um að hin friðsæla fullvissa sem við fundum í hjarta okkar, hafi aukist vegna þeirrar vitneskju sem við höfðum um það sem frelsari heimsins myndi gera í okkar þágu. Þetta er fagurlega sett fram í Boða fagnaðarerindi mitt: „Þegar við reiðum okkur á friðþægingu Jesú Krists, getur hann hjálpað okkur að standast mótlæti, sjúkdóma og sársauka. Við getum fyllst gleði, friði og huggun. Hvaðeina sem ósanngjarnt er í lífinu er hægt að færa í réttar skorður fyrir friðþægingu Jesú Krists.“ 26

Fjórða: Byggið Síon í hjarta ykkar og á heimili ykkar

Við erum börn Guðs og tilheyrum fjölskyldu hans. Við tilheyrum líka þeirra fjölskyldu sem við fæddumst í. Fjölskyldan sem stofnun er grundvöllur að bæði hamingju og friði. Russell M. Nelson forseti hefur kennt – og við höfum lært í þessum faraldri – að heimamiðað og kirkjustyrkt trúarstarf getur „[leyst] kraft fjölskyldunnar úr læðingi, … [til] að breyta heimilum [okkar] í griðarstað trúar.“ 27 Ef við höfum þetta trúarstarf á heimilum okkar, munum við líka hafa frið frelsarans. 28 Okkur er ljóst að mörg ykkar njótið ekki þeirrar blessunar að búa að réttlátu heimili og eigið reglubundið í erjum við þá sem velja óréttlætið. Frelsarinn getur veitt vernd og frið, til að leiða ykkur að lokum til öryggis og skjóls frá stormum lífsins.

Ég fullvissa ykkur um að sú gleði, elska og ánægja sem njóta má í ástríkum, réttlátum fjölskyldum, leiðir bæði til friðar og hamingju. Elska og góðvild eru nauðsynleg til að hafa Síon í hjarta og á heimili okkar. 29

Fimmta: Farið eftir áminningum spámanns okkar

Friður okkar mun stórum aukast, ef við fylgjum spámanni Drottins, Russell M. Nelson forseta. Við munum hlýða á hann innan skamms. Köllun hans var honum fyrirbúin frá grundvöllun veraldar. Persónulegur undirbúningur hans hefur verið einkar markverður. 30

Hann hefur kennt að við getum „fundið viðvarandi frið og gleði, jafnvel á örðugum tíðum,“ ef við keppum að því að líkjast meira frelsara okkar, Jesú Kristi. 31 Hann hefur hvatt okkur til að „iðrast daglega“ til að meðtaka „hreinsandi, græðandi og styrkjandi mátt“ Drottins. 32 Ég er persónulegt vitni um að okkar ástkæri spámaður hefur hlotið og hlýtur áfram opinberun frá himnum.

Þótt við heiðrum og styðjum hann sem spámann okkar, þá tilbiðjum við himneskan föður og Jesú Krist. Við erum þjónustuð af heilögum anda.

Ég vitna og gef mína persónulegu, postullegu staðfestingu um að Jesús Kristur, frelsari og lausnari heimsins, leiðir sína endurreistu kirkju. Líf hans og friðþæging er sönn uppspretta friðar. Hann er Friðarhöfðinginn. Ég ber mitt örugga og hátíðlega vitni um að hann lifir. Í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. „Íbúar Independence höfðu óbeit á því að hinir heilaögu prédikuðu fyrir indjánum og væru á móti þrælahaldi“ ( Saints: The Story of the Church of Jesus Christ in the Latter Days , bindi 1, The Standard of Truth, 1815–1846 [2018], 172).

  2. Kenning og sáttmálar 121:1.

  3. Kenning og sáttmálar 121:3.

  4. Kenning og sáttmálar 121:7–8.

  5. Sjá 2. Nefí 2:11–15.

  6. Kenning og sáttálar 121:7.

  7. Jóhannes 13:34.

  8. Jóhannes 14:27.

  9. Jesaja 9:5; 2. Nefí 19:6. Frelsarinn kenndi líka í Sæluboðum sínum: „Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða“ (Matteus 5:9).

  10. „Með réttvísi og réttlæti … að eilífu“ (sjá Jesaja 9:6–7; 2. Nefí 19:6–7; see also Galatabréfið 5:22).

  11. Sjá Kenning og sáttmálar 1:35. Wilford Woodruff lýsti þessu yfir árið 1894 og aftur 1896 (sjá The Discourses of Wilford Woodruff, valið af G. Homer Durham [1946], 251–52; sjá einnig Marion G. Romney, í Conference Report, apríl 1967, 79–82; Ezra Taft Benson, „The Power of the Word,“ Ensign, maí 1986, 79–80; Dallin H. Oaks, „Undirbúningur að síðari komunni,“ aðalráðstefna, apríl 2004).

  12. Matteus 10:34.

  13. Nik Day, „Peace in Christ [Kristur færir frið],“ þemalag ungmenna 2018, Liahona, jan. 2018, 54–55; New Era, jan. 2018, 24–25. Lagið „Kristur færir frið“ kennir:

    Ef við himins höldum sið,

    Kristur færir frið.

    Hann veitir von,

    er lífsins lind.

    Hann veitir vörn

    og styrk gegn synd.

    Hann okkur verndar

    frá sterkum vind.

    Ef fjötruð erum við,

    Kristur færir frið.

  14. Teachings of Presidents of the Church: Joseph F. Smith (1998), 400.

  15. Kenning og sáttmálar 59:23.

  16. Sjá George Albert Smith, í Conference Report, okt. 1945, 169–70.

  17. Galatabréfið 5:22–23.

  18. Sjá Galatabréfið 6:2, 9.

  19. Sjá Galatabréfið 5:20.

  20. 1. Mósebók 13:18.

  21. 1. Mósebók 13:12.

  22. Mósía 4:13.

  23. Leiðarvísir að ritningunum, um „Sjálfræði og Ábyrgðarskyldu,“ KirkjaJesuKrists.is, Ritningar/Námshjálp.

  24. Okkur er „frjálst að velja frelsi og eilíft líf fyrir atbeina hins mikla meðalgöngumanns allra manna“ (2. Nefí 2:27). Sjálfræðið gerir líka mögulegt að vondir og skaðlegir valkostir annarra valdi þrautum og þrengingum og stundum jafnvel dauða. Ritningarnar segja skýrt að Drottinn Guð hafi veitt manninum sjálfræði, svo hann gæti valið gott eða illt (2. Nefí 2:16).

  25. Sjá Leiðarvísir að ritningunum, um „Sjálfræði og Ábyrgðarskyldu,“ KirkjaJesuKrists.is, Ritningar/Námshjálp.

  26. Boða fagnaðarerindi mitt: Leiðarvísir að trúboðsþjónustu (2005), 52, KirkjaJesuKrists.is; skáletrað hér.

  27. Russell M. Nelson, „Verðum fyrirmyndar Síðari daga heilagir,“ aðalráðstefna, október 2018, (ath. texti styttur og breyttur).

  28. Sjá Kenning og sáttmálar 19:23.

  29. Ég var svo lánsamur að alast upp á heimili þar sem friður ríkti. Það var aðallega vegna áhrifa móður okkar, sem var trúfastur meðlimur kirkjunnar. Faðir minn var framúrskarandi að öllu leyti, en þó lítt virkur. Móðir okkar heiðraði föður okkar og forðaðist deilur. Hún kenndi okkur sem börnum að greiða tíund og sækja kirkju. Hún kenndi okkur líka að elska og þjóna hvert öðru (sjá Mósía 4:14–15). Að alast upp á slíku heimili, veitti frið og hefur verið mikil blessun í lífi mínu.

  30. Russell M. Nelson útskrifaðist frá læknadeild Háskólans í Utah fyrstur í sínum námbekk, 22 ára gamall. Hann hafði lengi þráð að verða skurðlæknir og fékk bestu hugsanlegu þjálfun á helstu sjúkrastofnunum. Hann sinnti dyggilega herskyldu í Kóreu og Japan. Í mörg ár var hann brautryðjandi í opnum hjartaaðgerðum og var viðurkenndur um allan heim. Þótt þessi undirbúningur hans, til að blessa fólk um allan heim með læknisfræðilegri kunnáttu, hafi verið markverður, þá var andlegur undirbúningur Nelson forseta enn mikilvægari. Hann er faðir stórrar fjölskyldu barna, barnabarna og barnabarnabarna. Hann hefur allt sitt líf þjónað fjölskyldu sinni og kirkju dyggilega.

  31. Russell M. Nelson, „Upphafsboðskapur,“ aðalráðstefna, apríl 2020; sjá einnig Russell M. Nelson, „Gleði og andleg þrautseigja,“ aðalráðstefna, október 2016.

  32. Russell M. Nelson, „Upphafsboðskapur.“