2010
Enginn er fullkominn
mars 2010


unglingar

Enginn er fullkominn

Mig hefur ætíð langað til að verða eins og Nefí: algjörlega hlýðinn, mjög trúfastur og ákaflega andlegur. Í mínum huga var Nefí æðsta fordæmi góðsemi. Fátt annað höfðaði til mín meira en hugsunin að verða alveg eins og hann þegar ég yrði stór—eða að minnsta kosti búa yfir hluta af yfirburðum hans.

Dag einn var ég stödd á tímamótum í lífi mínu sem orsökuðust af vonleysis tilfinningum. Metnaður minn var mikill og ég hafði sett mörg markmið. En ég virtist ekki vera að ná neinum árangri. Ég tjáði föður mínum tilfinningar mínar er tár vonleysis runnu niður kinnar mínar. Hann stóð tafarlaust á fætur, gekk að bókhillunni og teygði sig í Mormónsbókina sína. Án þess að segja orð fletti hann upp að 2. Nefí 4 og hóf að lesa í versi 17.

Kuldahrollur fór um líkama minn eins og rafmagn er ég hlustaði á þessi kraftmiklu orð: „Ó, ég aumur maður!“ Hugsanir mínar fóru á flug. Hvernig gat Nefí, hetjan mín og fordæmi, sagt að hann væri „aumur“? Ef hann væri aumur, hvað væri ég þá?

Rafmagnið fór aftur um mig er faðir minn las vers 28: “Vakna, sál mín! Lát ei framar vanmegnast í synd.“ Það var eins og dökku skýin í huga mínum hefðu klofnað og hörfað frá. Í staðinn birtist hlýja og ljómi bjartrar sólar og skýlauss himins. Það er ógjörningur að lýsa því hvernig þetta vers lýsti upp sál mína. Fá eru ritningarversin sem hafa fyllt mig með eins mikilli von, innblæstri og gleði eins og þessi gerðu.

Í versi 30 sagði Nefí með mikilli mælsku einmitt það sem ég var að hugsa: „Sál mín mun fyllast fögnuði í þér, þú Guð minn og bjarg sáluhjálpar minnar.“ Þetta vers færði tilfinningar friðar og þakklætis fyrir hinni mildu miskunn og ást Drottins.

Pabbi minn lokaði bókinni og útskýrði að þessi vers eru stundum kölluð sálmar Nefís. Síðan kenndi hann mér að jafnvel hinir mestu hér á jörðu eru ófullkomnir og þetta fólk þarf að viðurkenna eigin ófullkomleika því annars myndi það verða stærilátt og þar af leiðandi falla af sessi sínum.

Ég skildi. Ég gat orðið eins og Nefí þótt ég hefði veikleika. Viðurkenning á veikleikum mínum færði mig nær gæðastaðli Nefís. Nefí var mikill vegna þess að hann var auðmjúkur og tilbúinn að viðurkenna eigin galla ásamt því að vera hlýðinn og trúfastur.

Ég hef varðveitt þessi orð Nefís ætíð síðan. Í hvert skipti sem ég les þau upplifi ég sömu ánægju og innblástur og ég fékk í fyrsta skiptið sem ég las þau. Ég sé í þessum versum að ég er dóttir Guðs með getu til að áorka meiru en ég gæti nokkurn tímann ímyndað mér. Ég veit að óteljandi blessanir bíða mín ef ég er trúföst og sæki fram.

Prenta