Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, mars 2010
Siðferðislegt hugrekki
Hluti af tilgangi stundlegs lífs er að sanna fyrir Guði að við munum halda boðorð hans þegar til þarf hugrekki. Við stóðumst þá prófraun í andaheiminum. Hins vegar gerði þriðjungur af her himins uppreisn gegn þeirri tillögu að þeir yrðu reyndir í dauðlegri tilvist þar sem sá möguleiki væri til staðar að þeir myndu ekki geta staðist prófraunina.
Við þekktum Guð föðurinn og son hans, Jesú Krist, persónulega áður en við fæddumst. Við gátum séð þá og hlustað á þá er þeir kenndu og hvöttu okkur áfram. Nú hefur hins vegar hula verið sett yfir huga okkar og minni. Við þurfum að sjá með auga trúarinnar hver við í raun erum og á sama tíma eru líkamar okkar undirokaðir holdlegri freistingu og líkamlegum veikleikum og því hefur Satan, faðir lyginnar, forskot.
Okkur stendur til boða mikil hjálp sem veitir okkur hvatningu í þessu lífi. Mest er þar friðþæging Jesú Krists. Hægt er að lauga sig af syndum í skírnarvatninu vegna þess sem hann gerði. Er við meðtökum sakramentið í trú og með iðrandi hjarta, getum við endurnýjað þá blessun.
Andlegar gjafir er önnur hjálp sem okkur býðst. Við meðtökum anda Krists við fæðingu. Hann veitir okkur kraft til að vita hvort það val sem verður á vegi okkar muni leiða til eilífs lífs. Þegar við lesum ritningarnar í samvist heilags anda þá verða þær að öruggri leiðsögn.
Heilagur andi veitir okkur tækifæri til þess að tjá þakklæti og biðja um aðstoð í bæn með sama skýrleika og trausti sem við nutum áður fyrr með himneskum föður okkar og sem við munum hafa þegar við snúum aftur til hans. Slík samskipti við Guð hjálpa að hrekja á brott ótta úr hjörtum okkar er þau byggja upp trú og ástúð gagnvart himneskum föður og Jesú Kristi.
Hið heilaga prestdæmi veitir okkur hugrekki í þjónustu okkar. Í gegnum helgiathafnir þess hljótum við kraft til að þjóna börnum Guðs og standast ill áhrif. Við fáum eftirfarandi loforð er hann kallar okkur til þjónustu: „Og hjá hverjum þeim, sem veitir yður viðtöku, mun ég einnig vera, því að ég mun fara fyrir yður. Ég mun verða yður til hægri handar og til þeirrar vinstri, og andi minn mun vera í hjörtum yðar og englar mínir umhverfis yður, yður til stuðnings“ (K&S 84:88).
Í þjónustu sinni hafði spámaðurinn Joseph Smith tilefni til að vera hræddur. En Guð veitti honum kjark með þessari fullvissu sem sýnir fordæmi meistarans:
„Og verði þér varpað í gryfju eða í hendur morðingja og dauðadómur felldur yfir þér, verði þér kastað í djúpið, gjöri beljandi öldurnar samsæri gegn þér, verði ólmandi stormar óvinir þínir, myrkvist himnarnir og sameinist allar höfuðskepnurnar um að loka leiðinni, og umfram allt, opni skoltar heljar gin sitt upp á gátt fyrir þér, vita skaltu þá, sonur minn, að allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs.
Mannssonurinn hefur beygt sig undir allt þetta. Ert þú meiri en hann?“ (K&S 122:7–8).
Hvað sem við glímum við í lífinu þá hefur Guð gefið okkur nægja hjálp til þess að hrekja óttann á brott og veita okkur hugrekki. Er við seilumst eftir hans hjálp getur hann lyft okkur í átt að því eilífa lífi sem við leitumst eftir.
© 2009 by Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Prentað í Þýskalandi. Samþykkt á ensku: 6/09. Þýðing samþykkt: 6/09. Þýðing á First Presidency Message, March 2010. Icelandic. 09363 190