2010
Trúfastir vinir
júlí 2010


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, júlí 2010

Trúfastir vinir

Einn mesti virðingarvottur sem frelsarinn getur veitt okkur er að kalla okkur „vini.“ Við vitum að hann elskar öll börn himnesks föður fullkominni elsku. Þrátt fyrir það áskilur hann sér rétt til að nefna þá sem hafa verið trúfastir í þjónustu við hann þessum sérstaka titli. Þið munið eftir orðunum úr 84. kafla í Kenningu og sáttmálum: „Og enn segi ég yður, vinir mínir, því að héðan af kalla ég yður vini: Mér þykir æskilegt að gefa yður þessi fyrirmæli, svo að þér verðið eins og vinir mínir voru á þeim tíma, þegar ég var með þeim og ferðaðist um og prédikaði fagnaðarerindið með krafti mínum“ (K&S 84:77).

Þegar við þjónum öðrum fyrir hans hönd verðum við vinir hans. Hann sýndi fullkomið fordæmi að vináttu sem við ættum að fylgja. Hann óskar börnum himnesks föður einungis þess besta. Hamingja þeirra er hamingja hans. Hann skynjar sorgir þeirra sem sínar eigin, því hann hefur goldið fyrir allar syndir þeirra, tekið á sig misbresti þeirra, borið allar byrðar þeirra og skynjað allar þrár þeirra. Ásetningur hans er einlægur. Hann leitar ekki eftir viðurkenningu sjálfum sér til handa, heldur veitir hann sínum himneska föður alla dýrðina. Jesús Kristur, hinn fullkomni vinur, er algjörlega ósjálfselskur er hann býður öðrum að njóta hamingju.

Sérhvert okkar sem gert hefur skírnarsáttmála hefur lofað að fylgja fordæmi hans við að bera hver annars byrðar (sjá Mósía 18:8).

Á næstu dögum mun ykkur gefast mörg tækifæri til þess að vera vinir fyrir hans hönd. Vera má að tækifærið gefist er þið gangið eftir rykugum vegi. Kannski það gefist þegar þið setjist niður í lestarvagni, eða þegar þið leitið sætis á kirkju samkomu. Ef þið hafið augun opin, munið þið sjá einhvern sem ber þungar byrðar. Sú byrði kann að vera sorg, einmanaleiki eða biturð. Vera má að byrðin verði ykkur aðeins sýnileg eftir að þið hafið leitað þess í bæn að andinn veiti ykkur innsýn í hjörtun og lofað að lyfta máttvana örmum.

Svarið við bænum ykkar kann að verða andlit gamals vinar, einhvers sem þið hafið ekki séð í mörg ár, en hvers þarfir knýja skyndilega á huga og hjarta, sem væru þær ykkar eigin. Slíkt hefur hent mig. Gamlir vinir hafa náð til mín þótt í órafjarlægð séu og við höfðum ekkert samband haft í mörg ár. Þeir hafa veitt hvatningu þegar einungis Guð hefði getað sagt þeim frá byrðum mínum.

Lifandi spámenn Guðs hafa beðið okkur að vera trúfastir vinir þeim sem koma í kirkjuna, hvort sem það eru trúskiptingar eða þeir sem villst hafa af leið en eru að snúa til baka. Ef við minnumst frelsarans ætíð þá getum við gert slík og við munum gera það. Þegar við leitumst við að hjálpa öðrum og bera byrðar, mun hann hjálpa okkur. Hann mun leiða okkur til hinna nauðstöddu. Hann mun blessa okkur svo við fáum skynjað hvernig þeim líður. Er við leggjum okkur fram við að þjóna fólki, munum við smám saman hljóta þá gjöf að skynja elsku hans til þeirra. Það mun veita okkur hugrekki og styrk til að halda áfram að þjóna staðfastlega.

Og um tíma og eilífð munum við njóta gleði þess að vera velkomin í samfélag trúfastra vina hans. Um þá blessun bið ég okkur öllum til handa og þeim sem við þjónum.

Hvernig kenna á boðskapinn

Líklegra er að fjölskylda taki meiri þátt, ef hún er beðin að leita að einhverju þegar orð ritninganna eða spámannanna eru lesin (sjá Teaching, No Greater Call [1999], 55). Er þið lesið boðskapinn biðjið þá fjölskylduna að greina frá reglunum sem hjálpa okkur að vera verðug þess að geta kallast vinir Drottins.

Í Teaching, No Greater Call segir: „Ykkur gengur betur að kenna fagnaðarerindið, ef þið búið yfir kristilegum kærleika. Þið munuð fá innblástur um að hjálpa öðrum að kynnast frelsaranum og fylgja honum“ (12). Bendið á reglur í boðskapnum sem gætu hjálpað ykkur að verða betri heimiliskennarar. Ræðið þetta við félaga ykkar og íhugið í bænarhug hvernig þið getið verið „trúfastir vinir“ þeim sem þið þjónið.