Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, september 2010
Mormónsbók sem eigin leiðarvísir
Á okkar bestu stundum finnum við öll til þeirrar þrár að geta snúið heim til dvalar hjá Guði. Hann gaf okkur gjöf síns elskaða sonar sem frelsara okkar, til að leggja veginn og kenna okkur að fylgja honum. Hann gaf okkur spámenn til að vísa okkur veginn. Spámaðurinn Joseph Smith var innblásinn til að þýða heimildir spámanna sem Mormónsbók geymir. Hún er okkur öruggur leiðarvísir á veginum heim til Guðs.
Joseph Smith sagði um þessa dýrmætu bók: „Ég sagði bræðrunum að Mormónsbók væri réttasta bók á allri jörðu og burðarsteinn trúar okkar og að maðurinn kæmist nær Guði með því að hlíta kenningum hennar, fremur en nokkurrar annarrar bókar.“1
Meginefni Mormónsbókar eru þau boðorð Guðs sem í henni eru. Sum þessara boðorða koma beint frá frelsaranum fyrir munn spámanna hans, um hvað við eigum að gera og verða. Mormónsbók sýnir okkur fordæmi frelsarans svo við fáum aukið trú okkar og staðfestu um að hlíta því boði að fylgja honum. Bókin er auðug af kenningum Krists okkur til leiðsagnar. Hér er dæmi úr 2. Nefí:
„[Jesús] sagði við mannanna börn: Fylgið mér. En ástkæru bræður, getum við fylgt Kristi, nema við séum fúsir til að halda boðorð föðurins?
Og faðirinn sagði: Iðrist, iðrist þér og látið skírast í nafni míns elskaða sonar“ (2 Ne 31:10–11).
Í bókinni er skýrt kveðið á um að við verðum að taka á móti heilögum anda sem eldskírn, okkur til hjálpar við að halda okkur á hinum beina og þrönga vegi. Okkur er kennt að við verðum að biðja ávallt í nafni Krists, án þess að örmagnast, og ef við gerum svo, munum við eiga þetta loforð: „Þess vegna verðið þér að sækja fram, staðfastir í Kristi, í fullkomnu vonarljósi og ást til Guðs og allra manna. Ef þér þess vegna sækið fram, endurnærðir af orði Krists og standið stöðugir allt til enda, sjá, þannig fórust föðurnum orð: Þér munuð öðlast eilíft líf“ (2 Ne 31:20).
Í Mormónsbók er skýrt kveðið á um það í ræðu Benjamíns konungs hvað í því felst að bera elsku til Guðs og allra manna. Þegar eðli okkar breytist fyrir kraft friðþægingarinnar og trúfasta hlýðni okkar við boðorðin, munum við fyllast elsku Guðs (sjá Mósía 4:1–12).
Mormónsbók fullvissar okkur einnig um að við getum hreinsast svo í þessu lífi að við höfum enga þrá til að gera illt (sjá Mósía 5:2). Sú von veitir okkur hugrekki og hughreystingu er Satan reynir að draga úr okkur kjarkinn og freista okkar.
Í hvert sinn er ég les þó ekki sé nema fáeinar línur í Mormónsbók finn ég vitnisburð minn styrkjast um að bókin sé sönn, um að Jesús sé Kristur, að við getum fylgt honum heim og tekið ástvini okkar með okkur. Hún hefur verið mér bók bókanna. Hún er orð Guðs.
Ég bið þess að við og allir sem við elskum lesi hana vandlega dag hvern. Í nafni Jesú Krists ber ég vitni um að hún er sannur leiðarvísir.
© 2010 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/09. Þýðing samþykkt: 6/09. Þýðing á First Presidency Message, September 2010. Icelandic. 09369 190