2010
Hin guðlega gjöf þakklætisins
nóvember 2010


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, nóvember 2010

Hin guðlega gjöf þakklætisins

Þakklátt hjarta … öðlumst við með því að færa föður okkar á himnum þakkir fyrir blessanir hans og samferðafólk okkar og allt sem það færir okkur í lífinu.

Þetta hefur verið dásamleg ráðstefnusamkoma. Þegar ég var tilnefndur sem forseti kirkjunnar, sagði ég: „Eitt verkefni tek ég sjálfur að mér. Ég verð leiðbeinandi fyrir Laufskálakórinn.“ Ég er afar stoltur af kórnum mínum!

Móðir mín sagði eitt sinn við mig: „Tommy, ég er afar stolt af öllu sem þú hefur áorkað. En ég gef þér eina ábendingu. Þú hefðir átt að halda þig við píanóið.“

Ég gekk því að píanóinu og lék lag fyrir hana: „Nú höldum við, [höldum við], í afmælisveislu.“1 Síðan kyssti ég hana á ennið og hún faðmaði mig að sér.

Mér er hugsað til hennar. Mér er hugsað til föður míns. Mér er hugsað til allra þeirra aðalráðstefna sem hafa haft áhrif á mig, og aðra, þar á meðal ekkjurnar sem ég heimsótti—85 að tölu—með kjúkling fyrir ofninn og stundum nokkra aura fyrir vasann.

Eina heimsótti ég síðla kvölds. Það var miðnætti og ég fór á hjúkrunarheimilið og móttökustjórinn sagði: „Ég er viss um að hún sefur, en hún bauð mér að vekja sig, því hún sagði: ‚Ég veit að hann kemur.‘“

Ég tók um hönd hennar; hún nefndi mig með nafni. Hún var glaðvakandi. Hún þrýsti hönd minni að vörum sínum og sagði: „Ég vissi að þú kæmir.“ Hvað annað kom til greina?

Fögur tónlist snertir þannig við mér.

Kæru bræður og systur, við höfum hlýtt á innblásinn boðskap sannleika, vonar og kærleika. Hugsanir okkar hafa beinst til hans sem friðþægði fyrir syndir okkar, sem sýndi okkur hvernig við eigum að lifa og hvernig að biðja, og sýndi með eigin verkum blessanir þjónustunnar—já, til Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists.

Í Lúkasarguðsjalli, 17. kapítula, lesum við um hann:

„Svo bar við á ferð hans til Jerúsalem, að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu.

Og er hann kom inn í þorp nokkurt, mættu honum tíu menn líkþráir. Þeir stóðu álengdar,

hófu upp raust sína og kölluðu: ‚Jesús, meistari, miskunna þú oss!‘

Er hann leit þá, sagði hann við þá: ‚Farið og sýnið yður prestunum.‘ Þeir héldu af stað og nú brá svo við, að þeir urðu hreinir.

En einn þeirra sneri aftur, er hann sá, að hann var heill orðinn, og lofaði Guð hárri raustu.

Hann féll fram á ásjónu sína að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji.

Jesús sagði: ‚Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu?

Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?‘

Síðan mælti Jesús við hann: ‚Statt upp, og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.‘“2

Með guðlegri íhlutun var hinum líkþráu hlíft við grimmilegum og hægfara dauða og gefið tækifæri til nýs og betra lífs. Þakklæti hins eina verðskuldaði blessun meistarans, vanþakklæti hinna níu vakti vonbrigði hans.

Bræður og systur, munum við eftir að þakka þær blessanir sem við hljótum? Einlægar þakkir gera okkur ekki aðeins ljósar blessanirnar sem við hljótum, heldur ljúka þær einnig upp dyrum himnaríkis, þannig að við finnum ást Guðs.

Minn kæri vinur, Gordon B. Hinckley forseti, sagði: „Þegar þið gangið í þakklæti, gangið þið ekki í hroka, oflæti og eigingirni; þið gangið í anda þakkargjörðar sem fer ykkur vel og mun blessa líf ykkar.“3

Í Matteusarguðspjalli í Biblíunni er önnur frásögn um þakklæti, í það skiptið sem tjáning frelsarans. Þegar hann hafði ferðast um óbyggðirnar í þrjá daga fylgdu honum rúmlega 4.000 manns og ferðuðust með honum. Hann kenndi í brjósti um fólkið, því vera má að það hafi einskis matar neytt alla þrjá dagana. Lærisveinarnir spurðu þó: „Hvar fáum vér nóg brauð til að metta allt þetta fólk hér í óbyggðum?” Líkt og mörg okkar sáu lærisveinarnir aðeins það sem skorti.

„Jesús spyr: ‚Hve mörg brauð hafið þér?‘ [Lærisveinarnir] svara: ‚Sjö, og fáeina smáfiska.‘

Þá bauð [Jesús] fólkinu að setjast á jörðina,

tók brauðin sjö og fiskana, gjörði þakkir og braut þau og gaf lærisveinunum, en lærisveinarnir fólkinu.“

Takið eftir að frelsarinn þakkaði fyrir það sem þeir höfðu—og kraftaverk fylgdi. „Allir neyttu og urðu mettir. Síðan tóku þeir saman leifarnar, sjö körfur fullar.“4

Við höfum öll átt þær stundir, þegar við einblínum á það sem skortir, frekar en á blessanir okkar. Gríski heimspekingurinn Epiktetos sagði: „Sá er vitur maður, sem syrgir ekki það sem hann á ekki, heldur gleðst yfir því sem hann á.“5

Þakklæti er guðleg regla. Drottinn sagði í opinberun til spámannsins Josephs Smith:

„Þú skalt færa Drottni Guði þínum þakkir í öllu. …

Og í engu misbýður maðurinn Guði, eða gegn engum tendrast heilög reiði hans, nema þeim, sem ekki játa hönd hans í öllu.“6

Í Mormónsbók er okkur sagt, að „[lifa] í daglegri þakkargjörð fyrir hina miklu miskunn og þær mörgu blessanir, sem hann veitir [okkur].“7

Hverjar sem aðstæður okkar eru eigum við öll mikið sem við getum verið þakklát fyrir, ef við aðeins stöldrum við og hugleiðum blessanir okkar.

Þetta er dásamlegur tími til að vera á jörðu. Þótt margt sé rangt í heimi nútímans, er þar margt sem er rétt og gott. Það eru hjónabönd sem standast, foreldrar sem elska börn sín og fórna fyrir þau, vinir sem láta sér annt um okkur og hjálpa okkur, kennarar sem kenna. Við njótum blessunar í lífi okkar á óteljandi vegu.

Við getum risið hærra og jafnframt lyft öðrum, þegar við höfnum neikvæðum hugsunum og leggjum rækt við þakklætið í hjörtum okkar. Ef vanþakklæti telst meðal hinna alvarlegustu synda, þá telst þakklæti meðal hinna göfugustu dyggða. Sumir hafa sagt að þakklætið sé ekki aðeins mesta dyggðin heldur séu allar aðrar dyggðir af því sprottnar.“8

Hvernig getum við ræktað þakklætisviðhorf í hjörtum okkar? Joseph F. Smith, sjötti forseti kirkjunnar, veitti okkur svarið. Hann sagði: „Hinn þakkláti maður sér svo margt í heiminum sem þakka má, og hjá honum vegur hið góða þyngra en hið illa. Elskan sigrar öfundina, og ljósið hrekur myrkrið út úr lífi hans.“ Hann hélt áfram: „Drambið eyðir þakklætinu og eigingirnin kemur þess í stað. Hve miklu hamingjusamari við erum í návist þakklátrar og elskandi sálar, og hve vandlega við ættum, með bænheitu lífi okkar, að temja okkur þakklátt viðhorf til Guðs og manna!“9

Smith forseti segir okkur að bænheitt líf sé lykillinn að því að eiga þakklátt hjarta.

Gera efnislegar eigur okkur hamingjusöm og þakklát? Kannski um stundarsakir. En það sem veitir okkur djúpa og varanlega hamingju og þakklæti er engu að síður það sem ekki verður keypt fyrir peninga. Fjölskylda okkar, fagnaðarerindið, góðir vinir, heilsa okkar og geta, elskan sem okkur er sýnd af þeim sem með okkur eru. Því miður leyfum við okkur að taka sumt af þessu sem sjálfsagðan hlut.

Enski rithöfundurinn Aldous Huxley skrifaði: „Flestar mannverur taka nær yfirleitt öllu sem sjálfsögðum hlut.“10

Við tökum oft sem gefna einmitt þá, sem mest eiga skilið þakklæti okkar. Bíðum ekki þar til það er orðið of seint að láta þakklætið í ljós. Maður einn talaði um ástvini sem hann hafði misst og lét í ljós eftirsjá sína: „Ég minnist þessara hamingjudaga og oft óska ég þess að geta í eyru hinna dánu látið í ljós það þakklæti sem þau áttu skilið í lífi sínu en fengu ekki.”11

Ástvinamissi fylgir óhjákvæmilega einhver eftirsjá í hjarta. Drögum eins mikið úr slíkum tilfinningum og mannlega er unnt með því að láta oft í ljós ást okkar og þakklæti til þeirra. Við vitum aldrei hve fljótt það getur orðið of seint.

Þakklátt hjarta öðlumst við með því að láta í ljós þakklæti til föðurins á himnum fyrir blessanir hans og þakkir til þeirra sem með okkur eru fyrir allt sem þeir færa okkur í lífinu. Þetta krefst samviskusamlegrar áreynslu—að minnsta kosti þar til við höfum sannlega lært og öðlast þakklátt viðhorf. Oft erum við þakklát og ætlum að láta í ljós þakklæti okkar, en gleymum því eða látum aldrei verða af því. Einhver sagði að þakklætistilfinning sem ekki er látin í ljós sé líkt og að pakka inn gjöf en gefa hana ekki.12

Þegar við mætum vanda og erfiðleikum í lífinu, reynist okkur oft erfitt að horfa á blessanir okkar. Ef við köfum þó nógu djúpt og skoðum nógu vel, munum við geta fundið og séð hve mikið okkur hefur verið gefið.

Ég deili með ykkur frásögn einnar fjölskyldu sem gat séð blessanir mitt í alvarlegum vanda. Þetta er frásögn sem ég las fyrir mörgum árum og hef geymt vegna þess boðskapar sem hún geymir. Hana skrifaði Gordon Green og birtist hún í amerísku tímariti fyrir rúmum 50 árum.

Gordon segir frá uppeldi sínu á bóndabæ í Kanada, þar sem hann og systkini hans urðu að flýta sér heim úr skólanum, þegar önnur börn fóru í boltaleik eða í sund. Faðir þeirra gat þó gert þeim skiljanlegt að vinna þeirra var einhvers virði. Þetta átti sérstaklega við eftir uppskerutímann, þegar fjölskyldan hélt þakkargjörðardag hátíðlegan, því að þann dag gaf faðir þeirra þeim mikla gjöf. Hann gerði skrá yfir allt sem þau áttu.

Að morgni þakkargjörðardagsins fór hann með þau niður í kjallarann, þar sem eplin stóðu í tunnum, rófur í kössum, gulrætur pakkaðar í sand og staflar af kartöflum í sekkjum; einnig baunir, maís, belgaldin, hlaup, jarðarber og aðrar niðursuðuvörur sem fylltu hillurnar. Hann lét börnin telja allt vandlega. Síðan héldu þau út í hlöðuna og áætluðu hve mörg tonn af heyi væru þar og hve margar skeppur af korni í kornhlöðunni. Þau töldu kýrnar, svínin, hænsnin, kalkúnana og gæsirnar. Faðir þeirra sagðist vilja sjá hvernig málin stæðu, en þau vissu að hann vildi í raun gera þeim ljóst á þessum hátíðardegi, hve ríkulega Guð hafði blessað þau og brosað til þeirra allar þeirra vinnustundir. Þegar þau að lokum settist við borðið til þeirrar hátíðar sem móðirin hafði undirbúið, fundu þau þær blessanir.

Gordon gat þess þó, að sá þakkargjörðardagur sem hann væri þakklátastur fyrir væri árið sem þau virtust ekki hafa neitt til að vera þakklát fyrir.

Árið hafði byrjað vel. Þau áttu afgangshey, mikið af fræjum, fullt af grísum; og faðir þeirra átti nokkurt sparifé, svo að hann gæti einhvern tíma keypt sér heyvinnutæki—dásamleg tæki sem flesta bændur dreymdi um að eignast. Þetta var líka árið sem rafmagnið kom í bæinn þeirra—þótt það kæmi ekki til þeirra, því þau höfðu ekki efni á því.

Eitt kvöldið þegar móðir Gordons stóð við enn einn stórþvottinn, kom faðir hans, sagðist skyldi taka við þvottinum, og sagði konu sinni að hvíla sig við prjónana sína. Hann sagði: „Þú eyðir meiri tíma í þvottana en svefninn. Heldurðu að við ættum ekki að slá til og fá okkur rafmagn?“ Þótt hún hrifist af hugmyndinni, féllu eitt tár eða tvö þegar hún hugsaði um heyvinnutækið sem ekki yrði keypt.

Og því kom rafmagnslína upp heimreiðina það árið. Þau fengu þvottavél og þótt hún væri ekki tilkomumikil þvoði hún sjálf allan þvottinn, og skínandi ljósaperur héngu niður úr hverju lofti. Ekki þurfti að fylla fleiri lampa af olíu, ekki klippa fleiri kveiki, enga fleiri sótuga skorsteina að hreinsa. Lamparnir fóru hljóðlega upp á háaloft.

Koma rafmagnsins í bæinn þeirra var nærri það eina góða sem gerðist hjá þeim það árið. Rétt þegar plönturnar voru að koma upp úr jörðinni, hófust rigningarnar. Loksins þegar vatninu slotaði var ekki ein einasta planta eftir. Þau sáðu aftur, en aftur hafði regnið yfirhöndina. Kartöflurnar rotnuðu í bleytunni. Þau seldu tvær kýr og öll svínin og önnur dýr sem þau höfðu ætlað sér að halda, og fengu fyrir þau mjög lágt verð, því allir aðrir urðu að gera það sama. Það eina sem þau uppskáru það ár var poki af næpum sem einhvern veginn höfðu staðist storminn.

Þá var komið að þakkargjörðardegi. Móðir þeirra sagði: „Kannski ættum við að gleyma honum þetta árið. Við eigum enga gæs eftir.“

Að morgni þakkargjörðardags kom faðir Gordons þó með stórvaxinn héra og bað konu sína að elda hann. Með tregðu hóf hún eldunina, en sagði að það tæki langan tíma að elda þetta seiga og eldgamla dýr. Þegar hérinn var loksins kominn á borðið ásamt nokkrum næpum sem bjargast höfðu, neituðu börnin að borða. Móðir Gordons grét, og þá gerði faðir hans nokkuð skrýtið. Hann fór upp á háaloft, sótti olíulampa, fór með hann að borðinu og kveikti á honum. Hann sagði börnunum að slökkva á rafmagnsljósunum. Þegar aðeins logaði á lampanum gátu þau varla trúað því að svo dimmt hefði verið áður. Þau hugleiddu hvernig þau hefðu geta séð nokkuð án þessara björtu ljósa sem rafmagnið veitti þeim.

Maturinn var blessaður og allir borðuðu hann. Að honum loknum sátu þau öll þögul. Gordon skrifaði:

„Í daufri skímunni frá gamla lampanum tókum við öll að sjá greinilega aftur. …

Þetta var yndisleg máltíð. Hérinn bragðaðist eins og kalkúnn, og næpurnar voru þær ljúffengustu sem ég man eftir. …

… Þrátt fyrir skortinn, fannst … [okkur] heimilið ríkmannlegt.“13

Bræður mínir og systur, að láta í ljós þakklæti er náðarsamlegt og virðingarvert; að temja sér að sýna þakklæti er veglundað og göfugt; en að lifa með stöðugt þakklæti í hjarta er himneskur vottur.

Þegar ég lýk þennan morgun, er það bæn mín, að auk alls þess sem við erum þakklát fyrir, sýnum við ætíð þakklæti fyrir Drottin okkar og frelsara, Jesú Krist. Hans dýrðlega fagnaðarerindi veitir svör við stærstu spurningum lífsins: Hvaðan komum við? Hvers vegna erum við hér? Hvert fara andar okkar þegar við deyjum? Þetta fagnaðarerindi færir þeim sem í myrkri lifa ljós guðlegs sannleika.

Hann kenndi okkur hvernig á að biðja. Hann kenndi okkur hvernig á að lifa. Hann kenndi okkur hvernig á að deyja. Líf hans er kærleiksarfur. Hinn sjúka læknaði hann; hinum niðurnídda lyfti hann; hinn synduga frelsaði hann.

Að lokum stóð hann einn. Sumir postularnir efuðust; einn sveik hann. Rómversku hermennirnir stungu síðu hans. Reiður múgurinn tók líf hans. Enn hljóma frá Golgata hæðinni samúðarfull orð hans: „Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki hvað þeir gjöra.“14

Hver var þessi „harmþrungni maður, … kunnugur sorginni“?15 „Hver er þessi konungur dýrðarinnar,“16 Drottinn drottnanna? Hann er meistari okkar. Hann er frelsari okkar. Hann er sonur Guðs. Hann er höfundur sáluhjálpar okkar. Hann biður: „Fylgið mér.“17 Hann leiðbeinir: „Far þú og gjör hið sama.“18 Hann þrábiður: „Haldið boðorð mín.“19

Fylgjum honum. Förum að dæmi hans. Hlýðum orðum hans. Með því að gjöra svo færum við honum hina guðlegu gjöf þakklætis.

Einlæg hjartans bæn mín er sú, að við megum, hvert og eitt, sýna í lífi okkar hina undursamlegu dyggð þakklætisins. Megi hún fylla sjálfa sál okkar, nú og ævinlega. Í hinu helga nafni Jesú Krists, frelsara okkar, amen.

HEIMILDIR

  1. John Thompson, „Birthday Party,“ Teaching Little Fingers to Play (1936), 8.

  2. Lúk 17:11–19.

  3. Teachings of Gordon B. Hinckley (1997), 250.

  4. Sjá Matt 15:32–38; leturbreyting hér.

  5. The Discourses of Epictetus; with the Encheiridion and Fragments, trans. George Long (1888), 429.

  6. K&S 59:7, 21.

  7. Alma 34:38.

  8. Cicero, í A New Dictionary of Quotations on Historical Principles, valið af H. L. Mencken (1942), 491.

  9. Joseph F. Smith, Gospel Doctrine, 5. útg. (1939), 263.

  10. Aldous Huxley, Themes and Variations (1954), 66.

  11. William H. Davies, The Autobiography of a Super-Tramp (1908), 4.

  12. William Arthur Ward, í samant. Allens Klein, Change Your Life! (2010), 15.

  13. Tekið úr H. Gordon Green, „The Thanksgiving I Don’t Forget,“ Reader’s Digest, nóv. 1956, 69–71.

  14. Lúk 23:34.

  15. Jes 53:3.

  16. Sálm 24:8.

  17. Matt 4:19.

  18. Lúk 10:37.

  19. Jóh 14:15.

Prenta