2011
Saga og arfleifð Líknarfélagsins
janúar 2011


Boðskapur heimsóknarkennara, janúar 2011

Saga og arfleifð Líknarfélagsins

Lærið efnið og ræðið það við systurnar sem þið heimsækið, eins og við á. Nýtið spurningarnar ykkur til hjálpar við að styrkja systurnar og gera Líknarfélagið að virkum þætti í lífi ykkar.

Relief Society seal

Trú • Fjölskylda • Liðveisla

Eliza R. Snow minntist þessarar kennslu spámannsins Joseph Smith: „Þótt nafnið [Líknarfélagið] sé af nýjum toga, er það af fornum toga sem stofnun.“1

Himneskur faðir og sonur hans, Jesús Kristur, vitjuðu Josephs Smith og endurreistu fyllingu fagnaðarerindisins á jörðu fyrir hans atbeina. Líknarfélagið var hluti þeirrar endurreisnar. Skipulag kirkjunnar var ekki fullkomnað fyrr en skipan hafði verið komið á systurnar.2

Á komandi mánuðum munuð þið geta lært í Boðskap heimsóknarkennara meira um sögu Líknarfélagsins og hlutverk þess í hinu endurreista fagnaðarerindi. Af mörgum ástæðum er þekking á sögu okkar ekki aðeins mikilvæg, heldur nauðsynleg.

Í fyrsta lagi veitir þekking á sögunni okkur innblástur til að vera þær konur Guðs sem við þurfum að vera. Við getum lært af fortíðinni hvernig á að takast á við framtíðina, með því að fylgja fordæmi göfugra Síðari daga heilagra kvenna.3

Í öðru lagi sýnir sagan okkur að sömu reglurnar og giltu í frumkirkjunni eru grundvallarreglur okkar nú. Þekking þessi og tilgangur okkar — að auka trú og persónulegt réttlæti, efla fjölskyldur og heimili og hjálpa nauðstöddum — tengir fortíð okkar og nútíð.

Í þriðja lagi getum við betur miðlað arfleifð okkar ef við metum gildi sögu okkar. Henry B. Eyring, fyrsti ráðgjafi í Æðsta forsætisráðinu, sagði: „Þið miðlið arfleifð ykkar áfram þegar þið gerið öðrum kleift að hljóta gjöf kærleika. … Saga Líknarfélagsins er skráð í orðum og tölum, en arfleifðinni er miðlað frá hjarta til hjarta.“4

Að lokum gerir þekkingin á sögunni okkur kleift að hafa mikil áhrif á framtíð Líknarfélagsins. Spencer W. Kimball forseti (1895–1985) sagði: „Okkur er ljóst að konum sem hafa djúpan skilning á fortíðinni, er umhugað um að móta réttláta framtíð.“5

Julie B. Beck, aðalforseti Líknarfélagsins.

Úr ritningunum

Ester 9:28–29; Róm 16:1–2; Alma 37:8; Moró 7:45–47

Úr sögu okkar

„Líknarfélagið er stofnun Drottins fyrir konur.“6 Joseph Smith stofnaði Líknarfélagið 17. mars 1842, í spámannstíð sinni. Hinn fámenni og fjölbreytti hópur á þessum fyrsta fundi var skipaður dyggum konum, líkt og Líknarfélagssystur eru nú. „Þær yngstu voru þrjár unglingsstúlkur og sú elsta var kona á fimmtugs aldri. Ellefu kvennanna voru giftar, tvær þeirra voru ekkjur, sex ógiftar og hjúskaparstaða einnar þeirra er ekki kunn. Menntun þeirra og bakgrunnur var afar misjafn og svo átti einnig við um fjárhagsaðstæður þeirra. Fjölbreytni þeirra átti eftir að verða þess meiri eftir því sem félagið óx að meðlimaaðild, en konurnar voru og héldu áfram að vera einhuga.“7

Heimildir

  1. Eliza R. Snow, „Female Relief Society,“ Deseret News, 22. apríl 1868, 81.

  2. Sjá Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith (2007), 451.

  3. Sjá L. Tom Perry, „Hin liðna leið til framtíðar,“ aðalráðstefna, okt. 2009, 78–79.

  4. Henry B. Eyring, „Hin varanlega arfleifð Líknarfélagsins“ aðalráðstefna, okt. 2009, 136–137.

  5. Spencer W. Kimball, „Privileges and Responsibilities of Sisters,“ Ensign, nóv. 1978, 104.

  6. Spencer W. Kimball, „Relief Society — Its Promise and Potential,“ Ensign, mars 1976, 4.

  7. Jill Mulvay Derr, Janath Russell Cannon og Maureen Ursenbach Beecher, Women of Covenant (1992), 28.